Hoppa yfir valmynd
13. nóvember 2015 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Úrskurður nr. 640/2015

ÚRSKURÐUR ÚRSKURÐARNEFNDAR UM LEIÐRÉTTINGU VERÐTRYGGÐRA FASTEIGNAVEÐLÁNA

NR. 640/2015


Ár 2015, föstudaginn 13. nóvember, er tekið fyrir mál nr. 637/2015; kæra A, dags. 2. nóvember 2015. Í málinu úrskurða Eva Dís Pálmadóttir, Ingi Tryggvason og Kristján Jónasson. Upp er kveðinn svofelldur

 

ú r s k u r ð u r :

 

I.

 

Málavextir eru þeir að kærandi sótti um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána þann 18. maí 2014. Ríkisskattstjóri sendi kæranda fyrirspurn 3. nóvember 2014 sem kærandi svaraði 3. febrúar 2015. Kæranda var síðan birtur útreikningur á leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána þann 17. mars 2015. Kærandi gerði þann 20. mars 2015 athugasemd til ríkisskattstjóra, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 35/2014 um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, sem var svarað og fallist á að hluta þann 15. september 2015. Leiðréttingarfjárhæð kæranda var endurbirt henni þann 18. september 2015. Útreikningur á leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána kæranda var 730.270 kr. og frá þeirri fjárhæð voru dregnar 559.340 kr. vegna sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu. Leiðréttingarfjárhæð kæranda var því ákvörðuð 170.930 kr. Var lán kærenda hjá Sparisjóði X nr. 1 (síðar lán nr. 2 hjá banka Y), sem tilgreint var í lið 5.2 í skattframtölum kæranda árin 2009 og 2010 vegna tekjuáranna 2008 og 2009, aðeins lagt til grundvallar útreikningi frá 2. apríl 2009. Kærandi gerði aðra athugasemd til ríkisskattstjóra þann 7. október 2015 og var henni svarað 23. sama mánaðar.

Með kæru til úrskurðarnefndar, dags. 2. nóvember 2015, er kærð endurupptaka leiðréttingar, sbr. 13. gr. laga nr. 35/2014 en í raun snýr kæran að fjárhæð leiðréttingar, sbr. 9. gr. sömu laga. Í kæru kemur fram að kærandi hafi keypt fasteignina að M-götu þann 31. desember 2007 og tekið samhliða yfir áhvílandi lán banka Y nr. 2 (þá lán Sparisjóðs X með lánsnúmer 1). Lánið hafi síðan verið á skattskýrslum hjá kæranda frá framtali 2008 og sé enn, enda hafi kærandi greitt af láninu og verið orðinn skuldari þess og eigandi húsnæðisins í lok árs 2007. Kærandi viðurkennir að hafa þó ekki gengið í það af fullum þunga að fá lánið á sitt nafn fyrr en við skilnað og sölu fasteignarinnar að M-götu og kaupa á fasteign að N-götu árið 2009. Þá hafi kærandi klárað málið og verið sett sem skuldari B með sömu ábyrgð og skuldari A. Kærandi byggir á að lánið hafi engu að síður verið hennar frá 31. desember 2007, sbr. skattskýrslur og þinglýst afsal sem fylgdi kærunni.

 

 II.

 

Í 1. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014 kemur fram það skilyrði fyrir því að lán sé leiðrétt samkvæmt ákvæðum þeirra laga að umrætt lán hafi verið veitt einstaklingum af lögaðilum sem uppfylla, eða uppfylltu á tímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2009, sömu skilyrði og lögaðilar skv. 2. mgr. 2. gr. laganna. Gögn málsins bera með sér að skuldari að láni 1 (síðar láni nr. 2 hjá banka Y) hafi verið Z ehf. fram til þess að kærandi yfirtók lánið í apríl 2009. Framangreint lagaskilyrði 1. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014 um að lán hafi verið veitt einstaklingi er því ekki uppfyllt fyrr en frá og með þeim degi. Ákvörðun ríkisskattstjóra á leiðréttingafjárhæð kæranda hefur að öðru leyti ekki sætt andmælum og verður því ekki hnekkt. Kröfu kæranda er hafnað.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð :

 

Kröfu kæranda er hafnað.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum