Hoppa yfir valmynd
15. október 2015 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Úrskurður nr. 622/2015

ÚRSKURÐUR ÚRSKURÐARNEFNDAR UM LEIÐRÉTTINGU VERÐTRYGGÐRA FASTEIGNAVEÐLÁNA

NR. 622/2015


Ár 2015, fimmtudaginn 15. október, er tekið fyrir mál nr. 606/2015; kæra A, dags. 31. ágúst 2015. Í málinu úrskurða Eva Dís Pálmadóttir, Ingi Tryggvason og Kristján Jónasson. Upp er kveðinn svofelldur

 

ú r s k u r ð u r :

 

I.

 

Með kæru, dags. 31. ágúst 2015, hefur kærandi upplýst um að hún og fyrrverandi eiginmaður hennar, B, hafi talið sig hafa sótt um skuldaleiðréttingu. Kærandi og B hafi talið að nóg væri fyrir annað þeirra að sækja um þar sem engin lán hafi komið fram sem valkostur fyrir leiðréttingu hjá kæranda. Kærandi kveðst hafa haft samband við ríkisskattstjóra og fengið þær upplýsingar að fullnægjandi væri fyrir B að sækja um leiðréttingu á lánunum. Í kæru kemur fram að kærandi og B hafi verið í hjúskap á leiðréttingartímabilinu og samsköttuð til 8. júlí 2013. B hafi verið skráður fyrir lánunum þrátt fyrir að þau hafi verið tekin í hjúskapartíð þeirra. Kærandi telur að ríkisskattstjóri hafi ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni. Ekki hafi komið nægilega skýrt fram að kærandi og B þyrftu að sækja um sitt í hvoru lagi. Kærandi óskar eftir því að fá að sækja um leiðréttingu vegna viðkomandi fasteignaveðlána.

 

II.

 

Ágreiningsefni máls þessa snýr að umsókn kæranda. Af kæru má ráða að óumdeilt er að kærandi sótti ekki um leiðréttingu og var henni ekki ákvörðuð leiðréttingarfjárhæð, sbr. 9. gr. laga nr. 35/2014, af þeim sökum. Ekki er hægt að skilja kæru á annan veg en að kærandi krefjist þess að umsókn fyrrverandi eiginmanns hennar, B, gildi fyrir hana en ella að henni verði ákvörðuð leiðréttingarfjárhæð þrátt fyrir skort á umsókn.

Í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 35/2014 kemur fram að umsóknartímabilið hófst 15. maí 2014 og því lauk 1. september 2014. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 35/2014 átti umsókn um leiðréttingu að vera beint til ríkisskattstjóra á því formi sem hann ákvað og málsmeðferðin átti að vera rafræn. Í athugasemdum við 4. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 35/2014 kom fram að gert væri ráð fyrir því að ósk um leiðréttingu væri gerð að frumkvæði þeirra einstaklinga sem áttu íbúðarhúsnæði sem nýtt hefði verið til eigin nota á því tímabili sem leiðréttingunni var ætlað að taka til. Með hliðsjón af fjölda umsækjenda var á því byggt að umsóknar- og úrvinnsluferli yrði rafrænt og var ríkisskattstjóra veitt heimild til að ákveða hvernig og á hvaða formi umsækjanda yrði gert að gera grein fyrir umsókn sinni. Fyrir liggur að ríkisskattstjóri ákvað að umsókn og málsmeðferð yrði í gegnum vefinn leidretting.is.

Kærandi og B voru í hjúskap allt leiðréttingartímabil 1. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014 en skildu að borði og sæng á árinu 2013, sbr. heimilisskráningu ríkisskattstjóra, sem er í samræmi við skráningu Þjóðskrár Íslands. Kærandi heldur því fram að umsókn B hafi einnig gilt fyrir sig, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 35/2014.

Samkvæmt 2. málsl. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 35/2014 er hjónum og sambýlisfólki sem uppfyllti skilyrði 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, til samsköttunar í árslok 2013 heimilt að sækja sameiginlega um leiðréttingu vegna lána sem veittu rétt til vaxtabóta á árunum 2008–2009 og annað eða bæði voru ábyrg fyrir.

Óumdeilt er að kærandi skildi við B að borði og sæng á árinu 2013 og að þau hafi ekki uppfyllt skilyrði samkvæmt 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003 til samsköttunar í lok árs 2013. Umsókn fyrrverandi eiginmanns kæranda gat því aldrei tekið til hans og kæranda sameiginlega.  

Krafa kæranda er hins vegar byggð á því að misbrestur hafi orðið á því að umsóknarferli samkvæmt lögum nr. 35/2014 hafi verið kynnt kæranda og fyrrverandi eiginmanni hennar af hálfu ríkisskattstjóra. Hvað sem þessum sjónarmiðum kæranda líður er ljóst að meintur misbrestur á kynningu laga nr. 35/2014 af hálfu ríkisskattstjóra eða annarra aðila getur ekki haft í för með sér að víkja megi frá skýrum lagafyrirmælum um leiðréttingarfjárhæð kæranda.

Samkvæmt gögnum málsins liggur fyrir og er óumdeilt að kærandi sótti ekki um leiðréttingu og var því ekki ákvörðuð leiðréttingarfjárhæð samkvæmt 9. gr. laga nr. 35/2014. Því liggur ekki fyrir nein kæranleg ákvörðun um fjárhæð eða framkvæmd leiðréttingar sem úrskurðarnefndin getur endurskoðað á grundvelli 1. mgr. 14. gr. laga nr. 35/2014. Þegar af þeirri ástæðu og með hliðsjón af þeim lagarökum sem búa að baki 26. gr. laga nr. 37/1993 er kærunni vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð :

 

Kærunni er vísað frá úrskurðarnefndinni.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum