Hoppa yfir valmynd
15. október 2015 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Úrskurður nr. 590/2015

ÚRSKURÐUR ÚRSKURÐARNEFNDAR UM LEIÐRÉTTINGU VERÐTRYGGÐRA FASTEIGNAVEÐLÁNA

NR. 590/2015


Ár 2015, fimmtudaginn 15. október, er tekið fyrir mál nr. 568/2015; kæra A, dags. 6. júlí 2015. Í málinu úrskurða Eva Dís Pálmadóttir, Ingi Tryggvason og Kristján Jónasson. Upp er kveðinn svofelldur

 

ú r s k u r ð u r :

 

I.

 

Málavextir eru þeir að kærandi, ásamt fyrrverandi konu sinni, sótti um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána þann 25. maí 2014. Þann 6. mars 2015 var kæranda tilkynnt um að umsókn hans hefði verið skipt vegna breyttrar hjúskaparstöðu. Kæranda var birt ákvörðun um útreiknaða leiðréttingarfjárhæð og ráðstöfun hennar sitt í hvoru lagi. Útreiknuð leiðrétting kæranda var 1.301.030 kr. og var sú fjárhæð birt honum 8. mars 2015. Kæranda var tilkynnt þann 9. mars 2015 um fyrirhugaða ráðstöfun leiðréttingar inn á lán kæranda í X banka nr. 1.

Með tilkynningu, dags. 3. júní 2015, lét ríkisskattstjóri kæranda vita að frestur hans til að samþykkja leiðréttingarfjárhæð og ráðstöfun hennar rynni út 9. júní 2015 og ekki væri unnt að fá þann frest framlengdan.

Með kæru, dags. 6. júlí 2015, óskar kærandi eftir því að frestur hans til að samþykkja leiðréttinguna verði lengdur þar sem hann hafi ekki fengið neina tilkynningu í pósti eða tölvupósti. Í kærunni kemur m.a. fram að kærandi hafi ætlað að samþykkja leiðréttinguna en þá hafi hann séð að frestur til þess hafi verið til 9. júní 2015. Kveðst kærandi ekki hafa fengið neina tilkynningu um það. Honum virðist sem ríkisskattstjóri sendi tilkynningar á tölvupóstfang fyrrverandi eiginkonu sinnar þar sem umsókn um leiðréttingu hafi upphaflega verið send þaðan. Þau séu skilin og hafi hún því ekki fengið neinar upplýsingar um kæranda. Í kærunni eru síðan rakin samskipti kæranda við ríkisskattstjóra. Kveðst kærandi hafa gert athugasemd þann 23. mars síðast liðinn og í framhaldi af því hafi honum verið bent á að hann þyrfti að sækja um sérstakan aðgang á leidretting.is fyrir sig. Þann 13. apríl 2015 hafi hann stofnað þennan aðgang og þá séð að leiðréttingin hafi verið komin inn. Ekki hafi verið hægt að samþykkja leiðréttinguna þar sem rafræn skilríki hafi ekki legið fyrir hjá kæranda. Kærandi sé komin með þau núna en hafi þá séð að fresturinn til að samþykkja leiðréttinguna hafi bara verið til 9. júní.

 

II.

 

Ágreiningsefni máls þessa snýr að samþykkt leiðréttingarfjárhæðar. Í 3. mgr. 10. gr. laga nr. 35/2014 kemur fram skilyrði um að umsækjandi samþykki leiðréttingarfjárhæð og ráðstöfun hennar. Í lagagreininni kemur fram að hafi umsækjandi ekki athugasemdir við ákvörðun um útreikning leiðréttingarfjárhæðar skuli hann samþykkja útreikning og framkvæmd leiðréttingar samkvæmt 11. gr. innan þriggja mánaða frá birtingardegi. Að þeim tíma liðnum falli réttur til leiðréttingar niður.

Um kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar vísast til 1. mgr. 14. gr. laga nr. 35/2014. Þar kemur fram að unnt sé að kæra til nefndarinnar ákvörðun um fjárhæð leiðréttingar skv. 9. gr. laganna, framkvæmd leiðréttingar skv. 11. gr. og endurupptöku skv. 13. gr. Eins og valdsvið nefndarinnar er afmarkað í tilvitnaðri lagagrein fellur það utan við úrskurðarvald nefndarinnar að fjalla um samþykkt leiðréttingarfjárhæðar, sbr. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 35/2014 og verður þegar af þeirri ástæðu að vísa kærunni frá úrskurðarnefndinni. Til viðbótar skal tekið fram að þann 26. september 2015 ákvað embætti ríkisskattstjóra að eigin frumkvæði að endurbirta niðurstöðu um útreikning og framkvæmd leiðréttingar í máli kæranda og gefa kæranda kost á að samþykkja að nýju innan þriggja mánaða frá birtingardegi. Vegna þess var kæranda þann 29. sama mánaðar gefinn kostur á að afturkalla kæru sína til úrskurðarnefndarinnar. Kærandi brást ekki við erindinu en tilefni kærunnar er ekki lengur til staðar.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð :

 

Kærunni er vísað frá úrskurðarnefnd um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum