Hoppa yfir valmynd
14. september 2015 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Úrskurður nr. 521/2015

ÚRSKURÐUR ÚRSKURÐARNEFNDAR UM LEIÐRÉTTINGU VERÐTRYGGÐRA FASTEIGNAVEÐLÁNA

NR. 521/2015


Ár 2015, mánudaginn 14. september, er tekið fyrir mál nr. 469/2015; kæra A, dags. 18. apríl 2015. Í málinu úrskurða Eva Dís Pálmadóttir, Ingi Tryggvason og Kristján Jónasson. Upp er kveðinn svofelldur

 

ú r s k u r ð u r :

 I.

Málavextir eru þeir að kærandi sótti um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána þann 27. ágúst 2014. Kæranda var birt ákvörðun um útreikning leiðréttingarfjárhæðar og ráðstöfun hennar sitt í hvoru lagi. Útreiknuð leiðréttingarfjárhæð kæranda var 840.209 kr. og var sú fjárhæð birt honum 11. nóvember 2014. Kæranda var tilkynnt 23. desember 2014 að þeirri fjárhæð skyldi ráðstafað inn á lán A banka nr. 1.

Kærandi gerði þann 16. og 20. mars 2015 athugasemdir til ríkisskattstjóra, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 35/2014 um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Þeim var svarað þann 14. apríl 2015.

Með kæru, dags. 18. apríl 2015, er kærð fjárhæð leiðréttingar, sbr. 9. gr. laga nr. 35/2014. Í kæru kemur fram að kærandi telji sig aðeins vera að fá helming leiðréttingarinnar vegna húseignar sem hafi alltaf verið 100% í hans eigu og hann hafi einn verið í ábyrgð fyrir lánum sem á henni hafi hvílt. Kærandi krefst þess að fá leiðréttinguna að fullu í samræmi við eignarhluta sinn og skuldir. Kærandi segir að hann og B, hafi verið skráð í hjúskap frá janúar 2008 til apríl 2014. Áður en þau hafi gengið í hjónaband hafi þau gert með sér kaupmála þar sem fram kom að kærandi væri einn eigandi fasteignar F. Þegar kærandi hafi skilið hafi hann haldið húseigninni sem og öllum skuldum á henni, sbr. skilnaðarsáttmála. Kærandi kveðst geta framvísað bæði kaupmála og skilnaðarkjarasamningi, auk þess sem hvort tveggja liggi fyrir hjá sýslumanni. Kærandi segir að það hljóti að vera tilgangur þessarar leiðréttingar að húseigandi og skuldari fái leiðréttinguna en ekki manneskja sem hafi komið og farið á tímabilinu án þess að taka við nokkrum af þeim skuldbindingum á húseigninni sem nú eigi að leiðrétta. Við skilnað hafi þessi leiðrétting ekki legið fyrir eða hvernig hún yrði útfærð og því hafi ekki verið hægt að gera ráð fyrir henni eða taka tillit til hennar við skilnaðinn. Um klára eignaupptöku sé að ræða. B hafi örugglega ekki gert ráð fyrir að eiga heimtingu á leiðréttingu og ekki gert kröfu til hennar. Fáist þetta ekki leiðrétt sé ríkið því að hafa af kæranda það sem öðrum sé veitt og því sé um mismunun að ræða.

 

II.

Ágreiningsefni máls þessa snýr að fjárhæð leiðréttingar. Samkvæmt forsendum ríkisskattstjóra var kærandi á tímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2009, þ.e. öllu leiðréttingartímabili 1. gr. og 1. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014, í hjúskap með B. Samkvæmt upplýsingum kæranda var stofnað til hjúskapar í janúar 2008 en skilnaður gengið í gegn í apríl 2014. Fjárhæð leiðréttingar fyrrverandi eiginkonu kæranda er ekki til umfjöllunar í máli þessu.

Ljóst er að leiðrétting kæranda miðast við að tilkall hans til leiðréttingar lána hafi verið 50% vegna sambúðar eða 964.181 kr. Frá þeirri fjárhæð dragast frádráttarliðir, sbr. 8. gr. laga nr. 35/2014, samtals að fjárhæð 123.972 kr. Nánar tiltekið er um að ræða sérstaka vaxtaniðurgreiðslu, sem ekki hefur sætt sérstökum andmælum af hálfu kæranda. Ákvörðuð leiðréttingarfjárhæð kæranda er því 840.209 kr.

Í 3. gr. laga nr. 35/2014 er fjallað um afmörkun leiðréttingar samkvæmt lögunum. Þar segir í 2. mgr. að leiðrétting samkvæmt lögunum taki til heimila, þ.e. einstaklinga, hjóna og sambýlisfólks sem uppfyllti skilyrði til samsköttunar innan leiðréttingartímabils skv. 1. mgr. Taki leiðrétting til áhvílandi lána á sameiginlegu heimili hjóna eða sambýlisfólks, óháð því hvor aðilinn var skráður fyrir lánunum á tímabilinu. Í 5. mgr. 7. gr. laga nr. 35/2014 segir að leiðrétting einstaklings og hámark hennar ráðist af hjúskapar- eða heimilisstöðu eins og hún var á hverjum tíma innan leiðréttingartímabilsins.

Í athugasemdum við 3. gr. frumvarps, er varð að lögum nr. 35/2014, kemur fram að afmörkun og þar með tilkall til leiðréttingar byggist á nokkrum þáttum. Síðan segir: „Í fyrsta lagi afmarkast leiðrétting við ákveðið tímabil, í öðru lagi þarf að hafa verið áhvílandi verðtryggt lán á heimili á sama tímabili, í þriðja lagi er það skilyrði að vaxtagjöld af lánunum hafi verið viðurkennd sem grundvöllur útreiknings vaxtabóta. Síðastgreinda atriðið felur nánar í sér kröfu um að til lána hafi verið stofnað vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota, þ.e. til heimilishalds viðkomandi, en hvorki til útleigu, né annarra nota eða sem fjárfesting einvörðungu. Réttur til vaxtabóta hefur þannig víðtæka skírskotun í þessu sambandi því annars vegar er um að ræða staðfestingu á nýtingu láns og hins vegar afmörkun á rétti til annars vegar vaxtabóta við einstaklinga og hins vegar hjóna og sambúðarfólks óháð því hver skráður er fyrir láni á þeim tíma sem um sameiginlegt heimilishald var að ræða. Á þessum forsendum er litið svo á að tilkall til leiðréttingar vegna lána til öflunar húsnæðis til sameiginlegs heimilishalds eigi jafnt við um hjón og einstaklinga sem höfðu sambærilega fjárhagslega samstöðu vegna sambúðar óháð því hvort viðkomandi var formlega skráður fyrir lánum á því tímabili sem leiðréttingu er ætlað að taka til. Réttur eða tilkall til leiðréttingar kann þannig að ráðast af hjúskaparstöðu á tímabilinu eða innan áranna 2008–2009. Skilnaður hjóna eða samvistarslit hefur þannig ekki í för með sér brottfall réttar til leiðréttingar, enda ræðst útreikningur leiðréttingar skv. 7. gr. af stöðu lána sem hvíldu á hverjum tíma á sameiginlegu heimili á tímabilinu.“

Nánar er fjallað um útreikning leiðréttingar og ráðstöfun í 4. gr. reglugerðar nr. 698/2014, um samræmt verklag og viðmið við leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Þar segir í 3. mgr. að fjárhæð leiðréttingar einstaklings og hámark hennar ráðist skv. 5. mgr. 7. gr. laga nr. 35/2014 af hjúskapar- eða heimilisstöðu eins og hún var á hverjum tíma innan leiðréttingartímabilsins, 1. janúar 2008 til 31. desember 2009. Ef breytingar hafi orðið á högum umsækjanda, einu sinni eða oftar, sbr. 1. málsl., á leiðréttingartímabilinu skuli útreikningur leiðréttingar miða við að breytingin taki gildi í sama mánuði. Í 4. mgr. segir að heildarsamtala fjárhæðar útreiknaðrar leiðréttingar hvers heimilis geti að hámarki orðið 4 milljónir kr. Við útreikning á hámarki leiðréttingar hvers heimilis skuli, eftir atvikum, skipta fjárhæð leiðréttingar í samræmi við breytingar á hjúskapar- eða heimilisstöðu hvers einstaklings á hverjum tíma innan leiðréttingartímabilsins.

Í tilviki kæranda hefur ekki verið byggt á því að hann hafi ekki verið í hjúskap á leiðréttingartímabili 1. gr., sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014, þ.e. frá 1. janúar 2008 til 31. desember 2009. Við ákvörðun leiðréttingarfjárhæðar byggði ríkisskattstjóri á því að sambúð og hjónaband kæranda hefði varað allt leiðréttingartímabilið og er það í samræmi við upplýsingar Þjóðskrár Íslands. Leiðrétting einstaklings ræðst af hjúskapar- eða heimilisstöðu eins og hún var á hverjum tíma innan leiðréttingartímabilsins, sbr. 5. mgr. 7. gr. laga nr. 35/2014. Fjárhæð leiðréttingar og hámark hennar tekur mið af hjúskapar- og heimilisstöðu leiðréttingartímabilsins, óháð því hvor aðili var skráður fyrir leiðréttum lánum á tímabilinu og óháð því hvor er nú ábyrgur fyrir skuldum ef sambýlisfólk uppfyllir skilyrði samsköttunar. Kaupmáli breytir engu í þessu sambandi. Af þessu leiðir að fyrrverandi eiginkona kæranda átti sjálfstæðan rétt á hluta leiðréttingar lána sem um ræðir í þessu máli meðan hún og kærandi uppfylltu skilyrði samsköttunar, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014 og 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Tilkall kæranda til leiðréttingarfjárhæðar er því réttilega ákvarðað 50% og er útreiknuð fjárhæð leiðréttingar kæranda því í samræmi við þau lagafyrirmæli sem um hana gilda.

Með vísan til framangreinds er ljóst að leiðréttingarfjárhæð kæranda er í samræmi við framangreind laga- og reglugerðarfyrirmæli sem um hana gilda. Ákvörðun ríkisskattstjóra verður ekki hnekkt. Kröfu kæranda er því hafnað.  

 

Ú r s k u r ð a r o r ð :

 Kröfu kæranda er hafnað

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum