Hoppa yfir valmynd
20. maí 2015 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Úrskurður nr. 201/2015

ÚRSKURÐUR ÚRSKURÐARNEFNDAR UM LEIÐRÉTTINGU VERÐTRYGGÐRA FASTEIGNAVEÐLÁNA

nr. 201/2015

 

Ár 2015, miðvikudaginn 20. maí, er tekið fyrir mál nr. 152/2015; kæra A og B, dags. 26. febrúar 2015. Í málinu úrskurða Eva Dís Pálmadóttir, Ingi Tryggvason og Kristján Jónasson. Upp er kveðinn svofelldur

 

ú r s k u r ð u r : 

I.

Málavextir eru þeir að af hálfu kærenda var sótt um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána þann 2. júlí 2014. Útreikningur á leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána kæranda grundvallaðist á einu þeirra lána sem tilgreind voru í lið 5.2 í skattframtölum kærenda árin 2009 og 2010 vegna tekjuáranna 2008 og 2009, nánar tiltekið á láni nr. 1. hjá fjármálafyrirtækinu X.

Með kæru til úrskurðarnefndar, dags. 26. febrúar 2015, var kærð fjárhæð og framkvæmd leiðréttingar, sbr. 9. og 11. gr. laga nr. 35/2014 um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Í kæru kemur fram að kærendur kæri útreikning leiðréttingar og afstöðu ríkisskattstjóra frá 15. febrúar 2015 til athugasemdar þeirra. Segja kærendur að í svari ríkisskattstjóra komi eftirfarandi fram:  „Lög nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, kveða á um að leiðréttingin skuli taka til fasteignaveðlána sem veitt voru einstaklingum af lögaðilum sem uppfylla, eða uppfylltu á tímabilinu 1. janúar 2008- 31. desember 2009, sömu skilyrði og lögaðilar, þ.e. lífeyrissjóðir, Íbúðalánasjóður og fjármálafyrirtæki sem starfa skv. lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Af þessu leiðir að lánveitandi láns nr. 2A, fyrirtækið Y ehf., fellur ekki undir fyrrnefnda skilgreiningu og er því lánið ekki tækt til leiðréttingar af þeirri ástæðu.“

Kærendur segja í kæru að markmið laga nr. 35/2014 sé að kveða á um skipan og fyrirkomulag leiðréttingar á verðtryggingu fasteignaveðlána heimila á tímabilinu 1. janúar 2008 – 31. desember 2009, sbr. það sem fram komi í 1. gr. laganna. Þetta markmið sé ítrekað áréttað í frumvarpinu. Kærendur spyrja síðan hvaða sanngirnisrök standi til þess að undanskilja frá útreikningi leiðréttingarinnar, verðtryggt fasteignalán sem nýtt var að öllu leyti til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota af því að tilgreindur lánveitandi á veðskuldabréfi starfi ekki samkvæmt lögum nr. 161/2000. Um sé að ræða lánveitanda sem hafi engu að síður heimild samkvæmt lögum til að veita viðbótarlán til fasteignakaupa. Lánið komi fyrir í þinglýstum kaupsamningi um eignina F1, sem sé meðal gagna er lögð voru fram hjá ríkisskattstjóra. Lánið uppfylli að mati kærenda öll önnur formskilyrði laganna. Því beri að endurskoða hvort það uppfylli ekki jafnframt framangreint skilyrði að því er varðar lánveitandann. Kærendur segja að tilgreind lánastofnun á umræddu láni sé í dag bankinn Z, sbr. staðfestingu á ráðstöfun á séreignasparnaði inn á umrætt lán. Einnig benda kærendur á að ríkisskattstjóri hafi fallist á að ráðstafa séreignasparnaði kærenda inn á umrætt lán. Ennfremur er bent á að greiðslur inn á lánið hafa alla tíð farið í gegnum bankastofnun sem starfi samkvæmt lögum nr. 161/2000 og að mati kærenda hljóti eiginlegur lánveitandi allt frá upphafi að hafa verið bankastofnun hvernig sem á málið er litið. Kærendur segja að fyrirliggjandi sé afrit af þinglýstum kaupsamningi þar sem fram komi upplýsingar um lánið. Einnig liggi fyrir afrit af veðskuldabréfi með upplýsingum um það. Þá séu fyrirliggjandi, til enn frekari skýringa, greiðsluseðlar vegna lánsins. Kærendur benda á að samkvæmt þeim hafi lánið upphaflega verið skráð hjá bankanum Z, síðan flust yfir til bankans M og svo flust aftur til bankans Z. Númer lánsins hafi breyst með þessum tilfærslum og rétt sé að taka fram að kærendur hafi ekki haft neitt með þessar tilfæringar að gera. Að lokum er bent á að leiðrétting á einstökum lánum samkvæmt 3. mgr. 11. gr. laga nr. 35/2014 geri ráð fyrir að ráðstöfun leiðréttingar muni alfarið fara inn á veðlán á fremsta veðrétti fasteignarinnar og sé þar um að ræða lán hjá fjármálafyrirtækinu X sem tæmi leiðréttingarfjárhæðina. Kærendur krefjast þess að niðurstaða ríkisskattstjóra á útreikningi leiðréttingar verði endurskoðuð og að tekið verði tillit til láns sem upphaflega var númer 2A en hafi í dag númerið 2B og sé skráð hjá bankanum Z. Það væri að öllu leyti í samræmi við tilgang laga nr. 35/2014. Ennfremur sé það mat kærenda að umrætt lán uppfylli öll formskilyrði sem lögin kveða á um varðandi það til hvaða verðtryggðra fasteignaveðlána leiðrétting laganna taki.

 

II.

Í 1. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014 kemur fram það skilyrði fyrir því að lán sé leiðrétt samkvæmt ákvæðum þeirra laga að umrætt lán hafi verið veitt einstaklingum af lögaðilum sem uppfylla, eða uppfylltu á tímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2009, sömu skilyrði og lögaðilar skv. 2. mgr. 2. gr. laganna. Þar er um að ræða þ.e. lífeyrissjóði, Íbúðalánasjóð og fjármálafyrirtæki sem starfa skv. lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Gögn málsins bera með sér að lánveitandi að láni kærenda nr. 2A sé fyrirtækið Y ehf. Engin fyrirliggjandi gögn benda til þess að lánveitandi hafi á einhverjum tímapunkti breyst þótt viðkomandi skuldabréf virðist hafa verið til innheimtu hjá fleiri en einu fjármálafyrirtæki, fyrst bankanum Z, svo bankanum M og síðan aftur bankanum Z, eins og kærendur halda fram. Afrit greiðsluseðla bera eingöngu með sér að um innheimtuskuldabréf hafi verið að ræða, til innheimtu hjá þessum aðilum. Kærendur hafa ekki byggt á því að fyrirtækið Y ehf. sé lífeyrissjóður eða starfi samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og því ekki að sjá að framangreint lagaskilyrði 1. mgr. 3. gr., sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 35/2014 sé uppfyllt. Ákvörðun ríkisskattstjóra á leiðréttingafjárhæð kærenda, sem byggir á því að lán fjármálafyrirtækisins X nr. 1 verði leiðrétt,  hefur að öðru leyti ekki sætt andmælum og verður því ekki hnekkt. Kröfu kærenda er hafnað.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð : 

Kröfu kærenda er hafnað.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum