Hoppa yfir valmynd
13. apríl 2015 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Úrskurður nr. 167/2015

 

ÚRSKURÐUR ÚRSKURÐARNEFNDAR UM LEIÐRÉTTINGU VERÐTRYGGÐRA FASTEIGNAVEÐLÁNA

nr. 167/2015

 

Ár 2015, mánudaginn 13. apríl, er tekið fyrir mál nr. 132/2015; kæra A, dags. 23. febrúar 2015. Í málinu úrskurða Eva Dís Pálmadóttir, Ingi Tryggvason og Kristján Jónasson. Upp er kveðinn svofelldur

 

ú r s k u r ð u r :

I.

Málavextir eru þeir að kærandi sótti um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána þann 5. ágúst 2014. Ákvörðuð leiðréttingarfjárhæð kæranda var 1.234.913 kr. og var sú fjárhæð birt henni 11. nóvember 2014.

Með kæru, dags. 23. febrúar 2015, er kærð fjárhæð leiðréttingar, sbr. 9. gr. laga nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Í kæru er þess krafist að leiðréttingarfjárhæð kæranda verði endurskoðuð. Kærandi telur að fyrrverandi sambýlismaður hennar sé hugsanlega að fá helming leiðréttingar þess láns þrátt fyrir að hann hafi hvorki verið eigandi fasteignar kæranda né skuldari að fasteignaveðláni. Kærandi byggir málatilbúnað sinn á þeim rökum að hún sé ein þinglýstur skuldari að láni sem útreikningur leiðréttingar grundvallast á og að 2. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014 stríði gegn stjórnarskrárvörðum eignarrétti hennar. Lækkun láns þýði aukna eign, sem kærandi sé svipt, ef öðrum einstaklingi er úthlutað fjármunum sem ella hefðu farið í skuldalækkun/eignaaukningu hennar. Kærandi greinir frá því að hún hafi borið þungann af láninu. Þá hafi fyrrverandi sambýlismaður hennar verið fluttur út árið 2012 þó ekki hafi verið gengið frá sambúðarslitum fyrr en síðar vegna umgengnismála við börn. Kærandi telur því að hún eigi rétt á allri leiðréttingunni.

 

II.

Ágreiningsefni máls þessa snýr að fjárhæð leiðréttingar. Samkvæmt forsendum ríkisskattstjóra var kærandi á tímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2009, þ.e. öllu leiðréttingartímabili 1. gr. og 1. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014, í sambúð með B. Samkvæmt upplýsingum Þjóðskrár Íslands hófst sambúðin ekki fyrr en 15. ágúst 2008. Fjárhæð leiðréttingar fyrrverandi sambýlismanns kæranda er ekki til umfjöllunar í máli þessu.

Ljóst er að leiðrétting kæranda miðast við að tilkall hennar til leiðréttingar lána hafi verið 50% vegna sambúðar eða 1.392.486 kr. Frá þeirri fjárhæð dragast frádráttarliðir, sbr. 8. gr. laga nr. 35/2014, samtals að fjárhæð 157.573 kr. Nánar tiltekið er um að ræða sérstaka vaxtaniðurgreiðslu. Ákvörðuð leiðréttingarfjárhæð kæranda er því 1.234.913 kr.

Í 3. gr. laga nr. 35/2014 er fjallað um afmörkun leiðréttingar samkvæmt lögunum. Þar segir í 2. mgr. að leiðrétting samkvæmt lögunum taki til heimila, þ.e. einstaklinga, hjóna og sambýlisfólks sem uppfyllti skilyrði til samsköttunar innan leiðréttingartímabils skv. 1. mgr. Taki leiðrétting til áhvílandi lána á sameiginlegu heimili hjóna eða sambýlisfólks, óháð því hvor aðilinn var skráður fyrir lánunum á tímabilinu. Í 5. mgr. 7. gr. laga nr. 35/2014 segir að leiðrétting einstaklings og hámark hennar ráðist af hjúskapar- eða heimilisstöðu eins og hún var á hverjum tíma innan leiðréttingartímabilsins.

Í athugasemdum við 3. gr. frumvarps, er varð að lögum nr. 35/2014, kemur fram að afmörkun og þar með tilkall til leiðréttingar byggist á nokkrum þáttum. Síðan segir: „Í fyrsta lagi afmarkast leiðrétting við ákveðið tímabil, í öðru lagi þarf að hafa verið áhvílandi verðtryggt lán á heimili á sama tímabili, í þriðja lagi er það skilyrði að vaxtagjöld af lánunum hafi verið viðurkennd sem grundvöllur útreiknings vaxtabóta. Síðastgreinda atriðið felur nánar í sér kröfu um að til lána hafi verið stofnað vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota, þ.e. til heimilishalds viðkomandi, en hvorki til útleigu, né annarra nota eða sem fjárfesting einvörðungu. Réttur til vaxtabóta hefur þannig víðtæka skírskotun í þessu sambandi því annars vegar er um að ræða staðfestingu á nýtingu láns og hins vegar afmörkun á rétti til annars vegar vaxtabóta við einstaklinga og hins vegar hjóna og sambúðarfólks óháð því hver skráður er fyrir láni á þeim tíma sem um sameiginlegt heimilishald var að ræða. Á þessum forsendum er litið svo á að tilkall til leiðréttingar vegna lána til öflunar húsnæðis til sameiginlegs heimilishalds eigi jafnt við um hjón og einstaklinga sem höfðu sambærilega fjárhagslega samstöðu vegna sambúðar óháð því hvort viðkomandi var formlega skráður fyrir lánum á því tímabili sem leiðréttingu er ætlað að taka til. Réttur eða tilkall til leiðréttingar kann þannig að ráðast af hjúskaparstöðu á tímabilinu eða innan áranna 2008–2009. Skilnaður hjóna eða samvistarslit hefur þannig ekki í för með sér brottfall réttar til leiðréttingar, enda ræðst útreikningur leiðréttingar skv. 7. gr. af stöðu lána sem hvíldu á hverjum tíma á sameiginlegu heimili á tímabilinu.“

Nánar er fjallað um útreikning leiðréttingar og ráðstöfun í 4. gr. reglugerðar nr. 698/2014, um samræmt verklag og viðmið við leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Þar segir í 3. mgr. að fjárhæð leiðréttingar einstaklings og hámark hennar ráðist skv. 5. mgr. 7. gr. laga nr. 35/2014 af hjúskapar- eða heimilisstöðu eins og hún var á hverjum tíma innan leiðréttingartímabilsins, 1. janúar 2008 til 31. desember 2009. Ef breytingar hafi orðið á högum umsækjanda, einu sinni eða oftar, sbr. 1. málsl., á leiðréttingartímabilinu skuli útreikningur leiðréttingar miða við að breytingin taki gildi í sama mánuði. Í 4. mgr. segir að heildarsamtala fjárhæðar útreiknaðrar leiðréttingar hvers heimilis geti að hámarki orðið 4 milljónir kr. Við útreikning á hámarki leiðréttingar hvers heimilis skuli, eftir atvikum, skipta fjárhæð leiðréttingar í samræmi við breytingar á hjúskapar- eða heimilisstöðu hvers einstaklings á hverjum tíma innan leiðréttingartímabilsins.

Í tilviki kæranda er óumdeilt að hún var í sambúð hluta leiðréttingartímabils 1. gr., sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014. Við ákvörðun leiðréttingarfjárhæðar byggði ríkisskattstjóri á því að sambúð kæranda hefði varað allt leiðréttingartímabilið. Samkvæmt upplýsingum Þjóðskrár Íslands hóf kærandi sambúð 15. ágúst 2008. Leiðrétting einstaklings ræðst af hjúskapar- eða heimilisstöðu eins og hún var á hverjum tíma innan leiðréttingartímabilsins, sbr. 5. mgr. 7. gr. laga nr. 35/2014. Þar sem kærandi hóf sambúð í ágúst 2008 hefði útreikningur leiðréttingarfjárhæðar átt að miða við að breyting á högum kæranda hafi tekið gildi í sama mánuði, sbr. 3. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 698/2014. Fjárhæð leiðréttingar og hámark hennar tekur mið af hjúskapar- og heimilisstöðu leiðréttingartímabilsins, óháð því hvor aðili var skráður fyrir leiðréttum lánum á tímabilinu og óháð því hvor er nú ábyrgur fyrir skuldum ef sambýlisfólk uppfyllir skilyrði samsköttunar. Af þessu leiðir að fyrrverandi sambýlismaður kæranda átti sjálfstæðan rétt á hluta leiðréttingar lána sem um ræðir í þessu máli meðan hann og kærandi uppfylltu skilyrði samsköttunar, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014 og 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Tilkall kæranda til leiðréttingarfjárhæðar var engu að síður hlutfallslega hærri en 50% innan tímabilsins og er útreiknuð fjárhæð leiðréttingar kæranda því ekki í samræmi við framangreind lagafyrirmæli sem um hana gilda.

Kærandi hefur byggt á því að 2. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014 brjóti gegn  eignarréttarákvæði stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Af því tilefni skal tekið fram að úrskurðarnefndin á ekki úrskurðarvald um það hvort lagareglur kunni að fara í bága við einstök ákvæði stjórnarskrárinnar og er því ekki bær til umfjöllunar um málsástæður sem á slíku eru byggðar. Samkvæmt stjórnskipunarvenju er það regla íslensks réttar að dómstólar eiga úrlausn þess hvort lög verði samþýdd stjórnarskránni. Úrskurðarnefndin er stjórnvald og hefur samkvæmt því ekki hliðstætt hlutverk hvorki samkvæmt réttarframkvæmd né á öðrum grundvelli.

Eins og fram kemur byggir ákvörðun ríkisskattstjóra á leiðréttingarfjárhæð á því að kærandi og fyrrverandi sambýlismaður hennar hafi átt sameiginlegt lögheimili frá ársbyrjun 2008. Svo er ekki, en lögheimili kæranda og sambýlismanns hennar var ekki sameiginlegt fyrr en við skráningu í sambúð. Ekki er unnt að ganga út frá því hvenær kærandi og fyrrverandi sambýlismaður hennar hafi uppfyllt skilyrði samsköttunar á árinu 2008, sbr. skilyrði 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003. Hafi átt að að byggja á því að þau hafi uppfyllt skilyrði samsköttunar allt árið 2008, án þess að vera skráð í óvígða sambúð, við ákvörðun leiðréttingarfjárhæðar, hefði ekki verið hjá því komist að afla frekari upplýsinga um hagi kæranda að þessu leyti, m.a. skýringa kæranda sjálfs, enda bar ríkisskattstjóra að sjá til þess að málið væri nægjanlega upplýst áður en tekin var ákvörðun í því, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Málið var því ekki nægjanlega upplýst við töku ákvörðunar. Þar fyrir utan er ljóst af 5. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 698/2014 að ríkisskattstjóri getur tekið til leiðréttingar athugasemdir vegna rangra upplýsinga um staðreyndir, s.s. um hjúskaparstöðu og það hvort tímabil sambúðartíma verið of eða vanreiknað. Verður því að ómerkja hina kærðu ákvörðun ríkisskattstjóra varðandi leiðréttingarfjárhæð kæranda og senda ríkisskattstjóra til nýrrar efnismeðferðar.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð :

 Kærunni ásamt meðfylgjandi gögnum er vísað til ríkisskattstjóra til ákvörðunar leiðréttingarfjárhæðar.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum