Hoppa yfir valmynd
11. ágúst 2016 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 8/2016.  Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 8. ágúst 2016

í máli nr. 8/2016:

Verkfræðistofan Vista ehf.

gegn

Ríkiskaupum

Vegagerðinni

og

Samrás ehf.

Með kæru 13. júlí 2016 kærði Verkfræðistofan Vista ehf. útboð Ríkiskaupa, fyrir hönd Vegagerðarinnar, nr. 20258 „Endurnýjun frostdýptarmælibúnaðar fyrir Vegagerðina“. Kærandi krefst þess að innkaupaferlið verði stöðvað þar til endanlega hefur verið leyst úr kærunni. Þá krefst kærandi þess að felld verði úr gildi ákvörðun varnaraðila um val á tilboði en til vara að nefndin beini því til varnaraðila að auglýsa útboðið á nýjan leik. Kærandi krefst þess jafnframt að kærunefndin láti uppi álit á skaðabótaskyldu varnaraðila og að þeim verði gert að greiða kæranda málskostnað. Af hálfu varnaraðila Ríkiskaupa og Vegagerðarinnar er þess krafist að sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar vegna kæru verði aflétt. Þá er þess aðallega krafist að kærunni verði vísað frá en til vara að öllum kröfum kæranda verði hafnað. Í þessum þætti málsins tekur nefndin afstöðu til kröfu varnaraðila um afléttingu sjálfkrafa banns við samningsgerð samkvæmt 2. mgr. 94. gr. a. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup, sbr. 12. gr. laga nr. 58/2013, en úrlausn málsins bíður að öðru leyti endanlegs úrskurðar.

Í maí 2016 auglýsti varnaraðili Ríkiskaup útboð nr. 20258 „Endurnýjun frostdýptarmælibúnaðar fyrir Vegagerðina“. Með útboðinu var óskað eftir tilboðum í búnað sem gæti safnað hitamælingum, fasamælingum á vökva og hálkunemum. Tekið var fram að mikilvægt væri að búnaðurinn gæti tengst og safnað gögnum frá þeim búnaði sem fyrir væri hjá Vegagerðinni, þ.e. frostmælistöfum, frostnema, lofthitanemum, hálkunemum og veghitanemum. Gert var ráð fyrir hönnun og smíði á 50 rásaveljurum og 75 gagnaskráningartækjum á þriggja ára tímabili. Hinn 14. júní 2016 voru tilboð opnuð og bárust tilboð frá kæranda og Samrás ehf. Tilboð Samrásar ehf. var lægst að fjárhæð og 4. júlí tilkynnti varnaraðili að tilboð fyrirtækisins ehf. hefði verið valið. Kærandi gerði athugasemdir 6. júlí 2016 við að Samrás ehf. væri meðal bjóðenda.

Kærandi telur að Samrás ehf. sé óheimilt að taka þátt í útboðinu enda hafi fyrirtækið haft slíka aðkomu að verkefninu og upplýsingar um forsendur útboðsins að það geti ekki talist hæfur bjóðandi. Vísar kærandi til þess að Samrás ehf. hafi á árum áður þróað og smíðað mikilvæga kerfishluta þess verks sem nú eigi að endurnýja. Telur kærandi líklegt að Samrás ehf. hafi komið að því að skrifa tæknilýsingu útboðsins. Þá telur kærandi auk þess vera ágalla á tæknilýsingu útboðsins. Ekki hafi verið tekið fram í útboðslýsingu að svonefndur samskiptaprotocol sé „1-wire“ og það hafi ekki komið í ljós fyrr en í svari varnaraðila við fyrirspurn á útboðstímanum. Þá telur kærandi að ágalli sé á tæknilýsingu að því er varðar rekstrarspennu mælikerfisins. Að mati kæranda væri skynsamlegra að breyta tæknilýsingu þannig að rekstrarspenna væri skilgreind sem 12-15V og að stýranlegir spennuútgangar hafi vinnusviðið 0-10V.

Varnaraðilar Ríkiskaup og Vegagerðin telja að kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæra var borin undir nefndina. Á opnunarfundi 14. júní 2016 hafi komið í ljós að Samrás ehf. hafi verið meðal bjóðenda en kærandi hafi fyrst gert athugasemdir við það 6. júlí 2016 og svo lagt kæru fyrir nefndina 20. júlí sama ár. Varnaraðilar hafna því að Samrás ehf. hafi komið að undirbúningi útboðsins með nokkrum hætti. Tæknilýsing hafi verið í samræmi við þarfir varnaraðila og því er hafnað að kröfur um samskiptaprotocol og spennu séu óeðlilegar. Þá benda varnaraðilar á að kærandi hafi sjálfur sent inn tilboð sem hafi verið í samræmi við tæknilýsingu útboðsins. Varnaraðilinn Samrás ehf. vísar meðal annars til þess að fyrirtækið hafi ekki önnur tengsl við það verk, sem útboðið nær til, en að hafa komið að hönnun frostdýptarmælikerfisins fyrir fjórtán árum síðan, sem og hönnun frumgerðar hálkumælinema fyrir tuttugu árum og aftur fyrir um átta árum síðan.

Niðurstaða

Það er meginregla opinberra innkaupa að kaupandi skilgreinir sjálfur þarfir sínar og hefur þar með forræði á þeim kröfum sem gerðar eru til tæknilegra eiginleika boðinna vara. Beina verður kæru sem varðar efni útboðslýsingar til kærunefndar innan tuttugu daga frá því að kærandi vissi eða mátti vita um skilmálana samkvæmt 1. mgr. 94. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup, sbr. 11. gr. laga nr. 58/2013. Þau atriði í tæknilýsingu sem kærandi gerir athugasemdir við lágu öll fyrir í síðasta lagi 9. júní 2016 þegar svör varnaraðila við fyrirspurnum bárust. Kæra vegna skilmálanna var ekki lögð fyrir nefndina fyrr en 13. júlí 2016 þegar kærufrestur var liðinn.

Að mati nefndarinnar var ekki tilefni til þess að kæra þátttöku Samrásar ehf. í útboðinu þegar hún lá fyrir enda var þá ekki ljóst hvernig varnaraðilar myndu fara með tilboð fyrirtækisins. Þegar val varnaraðila á tilboði Samrásar ehf. lá fyrir þann 4. júlí 2016 var kæranda aftur á móti ljós sú ákvörðun sem hann telur brjóta gegn réttindum sínum og er rétt að miða upphaf kærufrests við þann dag. Í 94. gr. a. laga um opinber innkaup, sbr. 12. gr. laga nr. 58/2013, segir að þegar val tilboðs er kært innan lögboðins biðtíma samkvæmt 76. gr. laganna þá sé gerð samnings óheimil þar til kærunefnd útboðsmála hafi endanlega leyst úr kærunni. Kæra barst nefndinni 13. júlí 2016 og leiddi þannig til sjálfkrafa stöðvunar samningsgerðar.

Í málinu er ekki deilt um hvort tilboð Samrásar ehf. hafi verið í samræmi við útboðsgögn og þannig gilt. Röksemdir kæranda að því er varðar val tilboðsins lúta einungis að því að Samrás ehf. hafi verið óheimilt að taka þátt í útboðinu þar sem fyrirtækið hafi ekki verið hæft vegna aðkomu að verkefninu á fyrri stigum. Kærunefnd útboðsmála hefur litið svo á að það geti verið til þess fallið að raska jafnræði bjóðenda ef einn þeirra hefur með einum eða öðrum hætti komið að undirbúningi verkefnisins og þannig haft möguleika á því að afla sér ólögmæts forskots. Eins og mál þetta liggur fyrir hafa allir varnaraðilar hafnað því að Samrás ehf. hafi haft aðkomu að undirbúningi útboðsins eða verksins. Fyrir liggur að fyrirtækið hefur komið að sambærilegum verkefnum og kom meðal annars fyrir allnokkrum árum síðan að hönnun þess frostdýptarmælikerfis fyrir Vegagerðina sem til stendur að endurnýja. Hins vegar verður ekki séð að sú vinna hafi með ólögmætum hætti skapað félaginu forskot vegna þess útboðs sem kæra varðar eða raskað jafnræði bjóðenda, sbr. jafnræðisreglu 14. gr. laga um opinber innkaup. Með vísan til alls framangreinds telur kærunefndin að ekki séu komnar fram verulegar líkur fyrir því að varnaraðilar hafi brotið gegn ákvæðum laga um opinber innkaup við val á tilboði í hinu kærða útboði. Er þannig ekki fullnægt skilyrðum 1. mgr. 96. gr. laga um opinber innkaup, sbr. 15. gr. laga nr. 58/2013, og verður sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar því aflétt.

Ákvörðunarorð:

Aflétt er stöðvun samningsgerðar varnaraðila Ríkiskaupa, fyrir hönd Vegagerðarinnar, og Samrásar ehf. í kjölfar útboðs nr. 20258 „Endurnýjun frostdýptarmælibúnaðar fyrir Vegagerðina“.

               Reykjavík, 8. ágúst 2016.

                                                                                    Ásgerður Ragnarsdóttir

                                                                                    Stanley Pálsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum