Hoppa yfir valmynd
4. maí 2015 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 2/2015.  Úrskurður kærunefndar útboðsmála:

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 29. apríl 2015

í máli nr. 2/2015:

Inter ehf.

gegn

Ríkiskaupum,

Landspítala og

Icepharma ehf.

Með kæru 20. febrúar 2015 kærir Inter ehf. rammasamningsútboð nr. 15686 „Framework agreement for delivery of Surgical Lights for Landspitali – University Hospital, Reykjavik Iceland“. Kröfur kæranda eru að kærunefnd útboðsmála ógildi ákvörðun frá 11. febrúar 2015  um val á tilboði og leggi fyrir varnaraðila, Ríkiskaup og Landspítalann, að taka nýja ákvörðun um val á tilboði. Þá er þess krafist að varnaraðilum verði gert að greiða málskostnað. Greinargerðir allra þriggja varnaraðila bárust 26. febrúar 2015. Varnaraðilar gera kröfu um að öllum kröfum kæranda verði hafnað auk þess sem varnaraðili Landspítali krefst þess að kæranda verði einnig gert að greiða málskostnað í ríkissjóð. Kærandi gerði athugasemdir við greinargerðir varnaraðila 1. apríl 2015. Með ákvörðun 6. mars 2015 aflétti kærunefndin sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar varnaraðila Landspítala og Ríkiskaupa við Icepharma ehf. á grundvelli rammasamningsútboðsins.  

Í júlí 2015 auglýsti varnaraðili Ríkiskaup útboð nr. 15686 þar sem leitað var tilboða í skurðstofulampa fyrir varnaraðila Landspítala. Í útboðsskilmálum var kröfum til lampanna lýst. Í grein 3.24a í fylgiskjali 14 með útboðsgögnum var m.a. gert svohljóðandi skilyrði til staðsetningar myndavéla á lömpunum: „It SHALL be possible to mount the camera at the center of the light head“. Samkvæmt grein 2.4.1 í útboðsgögnum skyldu tilboð valin samkvæmt matslíkani þar sem „Tæknilegar og klínískar kröfur“ vógu 40%, „Skoðunarferð“ vóg 15% og „Verð“ vóg 45%.

            Kærandi var meðal bjóðenda í útboðinu. Tilkynnt var um val á tilboði Icepharma ehf. 11. febrúar 2015. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi og með bréfi varnaraðila Ríkiskaupa 13. febrúar 2015 kom fram að tilboð Icepharma ehf. hefði verið metið hagstæðast samkvæmt matslíkani útboðslýsingar. Munurinn á tilboði kæranda og tilboði Icepharma ehf. hafi aðallega verið sá að hið síðarnefnda fékk hærri einkunn fyrir tilboðsverð eða 45% en tilboð kæranda 36,25%.

Kærandi telur að tilboð Icepharma ehf. hafi ekki uppfyllt framangreint skilyrði útboðsgagna til staðsetningar myndavéla á lömpunum. Kærandi byggir á því að með umræddu skilyrði sé sú óundanþæga krafa gerð til lampanna að mögulegt sé að koma myndavél fyrir nákvæmlega í miðri ljósakrónu þeirra. Kærandi telur að texti skilyrðisins geti einungis haft eina þýðingu en varnaraðilar geti ekki túlkað orðalagið eftir opnun tilboða. Þar sem boðnir lampar í tilboði Icepharma ehf. geti ekki staðsett myndavél í miðju ljósakrónunnar hafi tilboðið verið ógilt.

Kærandi hefur lagt fram álit löggilts skjalaþýðanda þar sem fram kemur að framangreint orðalag beri að túlka svo að mögulegt skuli vera að festa myndavél í miðju lampahaussins. Kærandi nefnir að öðru tilboði hans í sama útboði hafi verið vísað frá sem ógildu 11. desember 2014. Ástæðan hafi verið sú að sá lampi hafi ekki uppfyllt óundanþægt skilyrði um að tiltekin lengd skyldi vera minnst 65 cm enda hafi sú lengd í tilboðinu verið 40 cm. Með sömu rökum og varnaraðilar beri nú fyrir sig megi rökstyðja að 40 cm hafi verið nægjanlegir þrátt fyrir framangreint skilyrði. Þá segir kærandi að ástæða skilyrðisins um að myndavél sé í miðju lampans sé ekki tilviljun heldur sé slíkt í samræmi við tæknikröfur nútímans. Verði að túlka orðalagið með hliðsjón af því að lamparnir uppfylli bestu tæknikröfur sem mögulegar eru.

Varnaraðili Landspítali mótmælir því að skilja beri áðurlýst ákvæði útboðsskilmála þannig að myndavél þurfi að vera nákvæmlega í miðpunkti ljóssins. Nægjanlegt sé að myndavél sé staðsett nálægt miðju. Með orðalaginu sé fyrst og fremst átt við að myndavélin eigi ekki að vera á brún ljóssins eða á armi lampans. Mögulegt sé að staðsetja myndavél nálægt miðju ljóssins í lampanum sem Icepharma ehf. hafi boðið og því hafi tilboð félagsins verið gilt. Varnaraðili Icepharma ehf. telur að varan sem fyrirtækið bauð uppfylli allar kröfur útboðslýsingar og sé auk þess þekkt gæðavara sem notuð sé á heilbrigðisstofnunum um allan heim. Af hálfu varnaraðila Ríkiskaupa er vísað til þess að stofnunin hafi ekki komið að úrvinnslu tilboða og mati á þeim.

 

Niðurstaða

Ágreiningur aðila lýtur að túlkun á orðalagi áðurlýsts skilmála útboðsgagna. Það er mat kærunefndar að orðalagið „at the center“ í framangreindum skilmála verði að skilja þannig að mögulegt sé að staðsetja myndavél við miðju án þess þó að hún sé nákvæmlega í miðjunni. Telur nefndin að bjóðendur hafi þannig verið í góðri trú um að tæki með slíkan möguleika uppfylltu skilyrði útboðsins, svo sem gert var ráð fyrir í tilboði Icepharma ehf. Getur þýðing löggilts skjalaþýðanda á umræddum texta ekki haggað því enda miðast túlkun útboðsskilmála við það hvað bjóðendur máttu líta á að fælist í skilmálunum. Það er því álit nefndarinnar að varnaraðili Landspítali hafi ekki brotið gegn lögum um opinber innkaup með vali á tilboði Icepharma ehf. Verður kröfum kæranda því hafnað.

            Rétt þykir að hver aðila beri sinn kostnað af málinu.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda, Inter ehf., um að ógilt verði ákvörðun varnaraðila Ríkiskaupa og Landspítala um val á tilboði Icepharma ehf. á grundvelli rammasamningsútboðs nr. 15686 „Framework agreement for delivery of Surgical Lights for Landspitali – University Hospital, Reykjavik Iceland“.

                                                                                      Reykjavík, 29. apríl 2015.

                                                                                      Skúli Magnússon

                                                                                      Ásgerður Ragnarsdóttir

                                                                                      Stanley Pálsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum