Hoppa yfir valmynd
20. mars 2014 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 5/2014.  Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 18. mars 2014

í máli nr. 5/2014:

Yutong Eurobus ehf.

gegn

Strætó bs.

Með kæru 7. mars 2014 kærir Yutong Eurobus ehf. ákvörðun Strætó bs. um val á tilboði á grundvelli rammasamnings sem gerður var á grundvelli samningskaupa nr. 13002 „Endurnýjun strætisvagna“. Í þessum hluta málsins tekur nefndin afstöðu til stöðvunar samningsgerðar um stundarsakir en úrlausn málsins bíður að öðru leyti endanlegs úrskurðar. Varnaraðila auk BL ehf. hefur verið gefinn kostur á að tjá sig um kröfu um stöðvun.

Samkvæmt gögnum málsins auglýsti varnaraðili framangreind samningskaup í nóvember 2013. Grein 1.2.1 í samningskaupalýsingu nefndist „Gerð og frágangur tilboðs“ og þar sagði m.a.: „Inn í heildartilboð skal reikna virðisaukaskatt samkvæmt reglum sem um hann gilda á hverjum tíma“. Samkvæmt grein 1.3.4. gilti „Líftímakostnaður strætisvagns“ 80% við mat á tilboðum bjóðenda. Í greininni kom svo m.a. fram að „líftímakostnaður“ samanstæði af kaupverði og rekstrarkostnaði, kostnaðurinn miðaðist við 10 ár og 1.000.000 kílómetra akstur. Þá sagði einnig í greininni: „Kaupverð strætisvagns með flutningskostnaði og öllum tilheyrandi sköttum og gjöldum miðast við afhendingu strætisvagns til Rekstrarsviðs Strætó bs. að Hesthálsi 14, 110 Reykjavík.“.

            Kærandi var meðal bjóðenda í samningskaupunum og voru tilboð opnuð 23. janúar 2014. Kærandi átti lægsta tilboð við opnun miðað við verð en þrjú tilboð BL ehf. komu þar á eftir. Á opnunarfundinum lét BL ehf. bóka að tilboðsfjárhæðir félagsins miðuðust annars vegar við 25,5% virðisaukaskatt en hins vegar 8,5% virðisaukaskatt. Önnur tilboð sem væru með 8,5% virðisaukaskatt yrði að „reikna upp til að samræma yfirferð tilboða“. Kærandi lét bóka að virðisaukaskatt í tilboðum bæri að miða við gildandi lög og reglur og að verð ættu að miða við kostnað og rekstur varnaraðila í tíu ár en ekki upphæð þess reiknings sem sendur yrði við kaupin sjálf. Varnaraðili tilkynnti 12. febrúar 2014 að gerður yrði rammasamningur við tiltekna bjóðendur, meðal annars kæranda. Varnaraðili tilkynnti 25. febrúar 2014 um val á tilboði í fyrstu innkaupum á grundvelli rammasamningsins. Fram kom að varnaraðili hefði tekið tilboði BL ehf. í strætisvagn af gerðinni 1.b þar sem tilboðið hefði hlotið hæstu einkunn við mat á tilboðum samkvæmt grein 1.3.4 í samningskaupalýsingu. Einkunn BL ehf. var 94,1 stig en einkunn kæranda 93,35 stig. Þá kom fram að þau fimm tilboð sem hefðu miðað við 8,5% virðisaukaskatt hefðu verið leiðrétt þannig að þau fælu í sér „lögskylda virðisaukaskattsprósentu, eða 25,5% virðisaukaskatt.“

Kærandi reisir í grundvallaratriðum málatilbúnað sinn á því að varnaraðila hafi verið óheimilt að endurreikna og leiðrétta tilboðsfjárhæð sína enda hafi kæranda verið rétt að miða við 8,5% virðisaukaskatt í tilboðsfjárhæðum sínum. Endurreikningur varnaraðila hafi leitt til þess að kærandi hafi hlotið færri stig en honum hafi borið en kærandi telur sig hafa átt hagkvæmasta tilboðið. Auk þess byggir kærandi á því að tiltekin skilyrði í samningskaupalýsingu og skilmálum nr. 13002 um reikning líftímakostnaðar séu ólögmæt.

Niðurstaða

Áðurlýst samningskaupalýsing og skilmálar eru frá nóvember 2013 en kæra í máli þessu var móttekin 7. mars 2014. Er því löngu liðinn frestur samkvæmt 1. mgr. 94. gr. laga um opinber innkaup, sbr. 11. gr. laga nr. 58/2013, til þess að bera undir kærunefnd lögmæti einstakra skilmála í téðum innkaupsgögnum. Verða hin kærðu innkaup því ekki stöðvuð um stundarsakir með vísan til þess að ákvæði skilmála um reikning líftímakostnaðar séu andstæð 45. gr. laga um opinber innkaup.

Samkvæmt grein X til bráðabirgða við lög nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, eins og lögunum hefur síðar verið breytt, er heimilt að endurgreiða þeim sem leyfi hafa til fólksflutninga í atvinnuskyni 2/3 hluta þess virðisaukaskatts sem greiddur er vegna kaupa eða leigu hópferðabifreiða og almenningsvagna á tímabilinu frá 1. janúar 2011 til og með 31. desember 2014. Regla ákvæðisins um endurgreiðslu haggar hins vegar ekki almennri reglu 1. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1988 þess efnis að virðisaukaskattur skuli vera 25,5%.

Samkvæmt skilmálum áðurlýstra samningskaupa skyldi kaupverð framboðinna strætisvagna vera með öllum tilheyrandi sköttum og gjöldum. Verður ákvæðið ekki skilið á aðra leið en þá að í tilboðsverði skuli innifaldir lögmæltir skattar án þess að taka eigi tillit til endanlegs kostnaðar kaupanda vegna skattareglna um frádrátt og endurgreiðslu. Samkvæmt þessu verður ekki á það fallist að kaupanda hafi verið óheimilt að endurreikna tilboð þannig að þau miðuðust við lögmæltan virðisaukaskatt svo sem skýrlega var áskilið í skilmálum samningskaupanna.

Samkvæmt framangreindu verður kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar um stundarsakir hafnað. Endanleg úrlausn um kröfur kæranda bíður úrskurðar.

Ákvörðunarorð:

Kröfu kæranda, Yutong Eurobus ehf., um stöðvun samningsgerðar varnaraðila, Strætó bs., við BL ehf. á grundvelli rammasamnings um „Endurnýjun strætisvagna“ er hafnað.

Reykjavík, 18. mars 2014.

                                                                           Skúli Magnússon

                                                                           Ásgerður Ragnarsdóttir

                                                                           Stanley Pálsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum