Hoppa yfir valmynd
16. janúar 2010 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 26/2009. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 29. júlí 2009

í máli nr. 26/2009:

Vátryggingafélag Íslands hf.

gegn

Ríkiskaupum

Með bréfi, dags. 15. júlí 2009, kærir Vátryggingafélag Íslands hf. þá ákvörðun Ríkiskaupa og Fjallabyggðar, dags. 9. júlí 2009, að velja tilboð frá Sjóvá-Almennum tryggingum hf. í útboði nr. 14660 – Tryggingar fyrir Fjallabyggð og ákvörðun um að heimila breytingu á fyrrgreindu tilboði eftir opnun tilboða. Kærandi gerir eftirfarandi kröfur í málinu:

1. Að kærunefnd útboðsmála stöðvi innkaupaferli kærða með vísan til 1. mgr. 96. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru þessari.

2.  Þess er krafist að kærunefnd útboðsmála felli úr gildi ákvörðun kærða að leyfa Sjóvá-Almennum tryggingum hf. að breyta tilboðsfjárhæð sinni.

3. Þess er krafist að kærunefnd útboðsmála láti í ljós álit sitt á skaðabótaskyldu kærða gagnvart kæranda.

4.  Þá er gerð krafa um að kærða verði gert að greiða kostnað kærnada við að hafa kæruna uppi samkvæmt mati kærunefndar útboðsmála.

Kærði, Ríkiskaup, skilaði athugasemdum vegna kröfu kæranda, dags. 24. júlí 2009, þar sem hann krefst þess að öllum kröfum kæranda verði hafnað. Þá krefst hann að kæranda verði gert að greiða málskostnað með tilvísun til 3. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup.

Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd til skoðunar hvort rétt þyki að stöðva samningsgerð í tengslum við útboðið. Endanlega verður leyst úr efnisatriðum kærunnar síðar.

 

I.

Kærði, fyrir hönd Fjallabyggðar, óskaði eftir tilboðum í tryggingar fyrir Fjallabyggð og stofnanir á vegum sveitarfélagsins. Um var að ræða ábyrgðartryggingar vegna atvinnurekstrar, ökutækjatryggingar, tryggingar vegna fasteigna og fleira. Stefnt var að því að semja við einn aðila um þessi viðskipti.

Tilboð voru opnuð 22. júní 2009 og bárust tilboð frá fjórum aðilum. Við opnun voru lesin upp nöfn bjóðenda og heildarársiðgjald. Reyndust Sjóvá-Almennar tryggingar hf. (hér eftir nefnt Sjóvá) eiga lægsta tilboðið. Á opnunarfundinum lét fulltrúi Tryggingamiðstöðvarinnar hf. bóka að í tilboðinu fælust öll opinber gjöld og fulltrúi kæranda að upphæð sem lesin hafði verið upp væri nettó iðgjald og opinber gjöld sem tilgreind væru á tilboðsblaði bættust við. Engin bókun eða athugasemd var gerð af hálfu Sjóvár.

Sama dag og tilboð voru opnuð sendi kærandi bréf til Fjármálaeftirlitsins, þar sem vakin var athygli á því að tilboð Sjóvár hefði verið óeðlilega lágt. Jafnframt sendi kærandi kærða bréf, þar sem vakin var athygli á sömu atriðum. Var meðal annars bent á að tilboð Sjóvár væri óeðlilega lágt með vísan til upplýsinga um tjónakostnað sem lágu fyrir við útboðið. Þá var einnig bent á að kærandi teldi Sjóvá ekki uppfylla kröfur um fjárhagslegt hæfi. Var þess krafist að tilboð Sjóvár yrði ógilt. Ekkert svar hefur borist frá kærða við þessu erindi.

Þann 24. júní 2009 barst leiðrétt fundargerð vegna opnunarfundar útboðs nr. 14660 – Tryggingar fyrir Fjallabyggð. Þar hafði tilboði Sjóvár verið breytt og bætt við það 2.783.444 krónum. Kærði tilkynnti með tölvubréfi 9. júlí 2009 að ákveðið hefði verið að velja tilboð frá Sjóvá.

         

II.

Kærandi krefst þess að kærunefnd útboðsmála stöðvi innkaupaferli útboðs nr. 14660 – Tryggingar fyrir Fjallabyggð, þar til endanlega hefur verið skorið úr kæruefni.     

Kærandi bendir á að samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga nr. 84/2007 geti kærunefndin, telji hún að verulegar líkur séu á því að brotið hafi verið gegn lögunum, stöðvað innkaupaferli eða gerð samnings þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru. Kærandi telur þessum áskilnaði ótvírætt fullnægt og telur augljóst að verulegar líkur séu á að brotið hafi verið gegn lögum um opinber innkaup.

Kærandi byggir á því að heildartilboðsupphæð Sjóvár hafi verið 4.732.914 krónur en ekki 7.513.692 krónur eins og kom fram í leiðréttri fundargerð, enda hafi það verið sú tala sem lesin hafi verið upp á fundinum og engar athugasemdir verið gerðar við af hálfu Sjóvár. Kærandi byggir á því að samkvæmt almennum útboðsreglum séu bjóðendur bundnir af tilboðum sínum og megi ekki breyta tilboðum sínum eftir að tilboð hafi verið opnuð. Kærandi byggir á því að kærði hafi brotið almennar reglur útboðsréttar með því að heimila Sjóvá að hækka tilboð sitt tveimur dögum eftir að tilboð voru opnuð en slíkt sé meðal annars brot á 14. gr. laga nr. 84/2007.

Þá byggir kærandi ennfremur á því að tilboð Sjóvár sé ógilt þar sem félagið fullnægi ekki kröfum um fjárhagslega stöðu, sbr. ákvæði 1.2.1.2 í útboðslýsingu um fjárhagsstöðu bjóðanda. Fjárhagsstaða félagsins sé ekki nægilega trygg í skilningi laga nr. 84/2007.

 

III.

Kærði telur að kæra þessi sé á misskilningi byggð og því eigi ekki að taka hana til greina heldur vísa frá. Telur hann að af kröfu kæranda megi ráða að hann telji að tilboðsverðum hafi verið breytt eftir á. Bendir hann á að kærandi og Sjóvá setji tilboð sín fram á nákvæmlega sama hátt, tilboðsupphæðir án opinberra gjalda séu settar inn í viðkomandi línu á tilboðsblaði. Kærandi breyti síðan tilboðsblaði, skrifað sé inn á tilboðsblað undir tilboðsupphæð opinber gjöld til viðbótar án frekari skýringa. Í fylgiskjölum með tilboði Sjóvár komi hins vegar fram sundurliðun á þeim gjöldum sem séu til viðbótar iðgjaldi af vátryggingafjárhæð. Telur kærði að sami skilningur hafi verið hjá báðum aðilum, kæranda og Sjóvá, um hvernig ætti að fylla út tilboðsblöðin. Sú staðreynd að fulltrúi kæranda hafi gert athugasemd á opnunarfundi tilboða um að þessi gjöld bætist við en fulltrúi Sjóvár ekki breyti engu um tilboð Sjóvár. Kærði lítur ekki svo á að Sjóvá hafi verið leyft að breyta tilboðsupphæð sinni heldur sé hér aðeins um skýringu að ræða vegna athugasemda sem komu fram eftir að tilboð höfðu verið opnuð.

Kærði leggur áherslu á að mat tilboða hafi eingöngu byggst á verði. Sjóvá hafi boðið hagstæðasta tilboðið og því hefði það ekki talist samrýmast lögum um opinber innkaup að velja tilboð kæranda. Þá mótmælir kærði fullyrðingum kæranda um að tilboð Sjóvár uppfylli ekki kröfur um fjárhagsstöðu bjóðenda. Það sé fráleitt. Kærandi vísi eingöngu til fréttaflutnings um félagið en sé ekki kunnugt um hvaða gögn hafi verið lögð fram. Sjóvá hafi lagt fram endurskoðaða áritaða ársreikninga fyrir árin 2006-2008.

Kærði bendir ennfremur á að á opnunarfundinum hafi viðkomandi verkstjóri tilkynnt viðstöddum aðilum að hann myndi fara yfir öll tilboðin til að kanna hvort umrædd innheimtugjöld fyrir ríkissjóð væru innifalin í tilboðum og myndi þá gera leiðréttingu sem yrði send til allra. Sú leiðrétting hafi síðan verið send öllum bjóðendum eins og fram hafi komið.

 

IV.

Samkvæmt 96. gr. laga nr. 84/2007 getur kærunefnd útboðsmála stöðvað innkaupaferli eða gerð samnings þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru telji nefndin verulegar líkur á því að brotið hafi verið gegn lögunum, þar á meðal þeim ákvæðum tilskipunarinnar sem vísað er til í lögunum eða reglum settum samkvæmt þeim. Að mati kærunefndar bera gögn málsins ekki með sér að verulegar líkur séu á því að brotið hafi verið gegn ákvæðum laganna. Verður af þessum sökum að hafna kröfu kæranda um stöðvun á innkaupaferli í kjölfar útboðs nr. 14660 – Tryggingar fyrir Fjallabyggð þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru.

 

 

Ákvörðunarorð:

Hafnað er kröfu kæranda, Vátryggingafélags Íslands hf., um stöðvun innkaupaferlis í kjölfar útboðs Ríkiskaupa nr. 14660 – Tryggingar fyrir Fjallabyggð.

 

                      Reykjavík, 29. júlí 2009.

 

         Páll Sigurðsson,

        Sigfús Jónsson,

         Stanley Pálsson

 

 

 

 

Rétt endurrit staðfestir,

 

Reykjavík, 29. júlí 2009.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum