Hoppa yfir valmynd
7. janúar 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 21/2007. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 7. janúar 2008

í máli nr. 21/2007:

Kreditkort hf.

gegn

Ríkiskaupum

           

Með bréfi, dags. 31. desember 2007, kærði Kreditkort hf. þá ákvörðun Ríkiskaupa að taka tilboði Landsbanka Íslands hf. í útboði Ríkiskaupa nr. 14365 – Innkaupakort ríkisins. Í kæru voru kröfur kæranda orðaðar með eftirfarandi hætti:

„1. Að innkaupaferli eða gerð samnings við Landsbanka Íslands hf. verði stöðvað þar til niðurstaða kærunefndar liggur fyrir í máli þessu.

2. Að kærunefnd, aðallega, ógildi ákvörðun kærða um að velja tilboð frá LÍ þar sem umrætt tilboð standist ekki útboðsskilmála og sé þ.a.l. ógilt, en til vara að kærunefndin meti ákvæði útboðsskilmála ógilda sökum ágalla sem á þeim eru; og

aðallega að kærunefnd leggi fyrir kærða að taka nýja ákvörðun um niðurstöðu útboðs í ljósi niðurstöðu kærunefndarinnar um ógildi tilboðs LÍ, en til vara að kærunefnd leggi fyrir kærða að bjóða innkaupin út að nýju í ljósi þeirra annmarka sem eru á útboðsferlinu og/eða útboðsskilmálum.

3. Að nefndin láti í ljós álit sitt á því hvernig skýra beri ákvæði laga nr. 84/2007 varðandi fresti til að bera fram kæru.

4. Hafi kærði allt að einu og þrátt fyrir framlagningu þessarar kæru til nefndarinnar þegar gengið til samninga við LÍ, fer kærandi þess á leit við nefndina að hún láti í ljós álit sitt á því hvort kærandi eigi rétt á skaðabótum frá kærða vegna framkvæmdar útboðsins, sbr. 2. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007. 

5. Að kærunefndin geri kærða að leggja fram, sbr. 5. mgr. 95. gr. laga nr. 84/2007 öll gögn er málið varðar, einkum niðurstöðu tilboðsins og mat á gæðum tilboða kæranda og LÍ.

6. Að kærunefnd úrskurði að kærða verði gert að greiða kæranda kostnað við að hafa kæruna uppi, sbr. 3. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007.”

 

Kærða var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Sérstaklega var óskað eftir athugasemdum kærða vegna kröfu kæranda um stöðvun á gerð samnings. Athugasemdir kærða bárust með bréfi, dags. 4. janúar 2008.

 

Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála til skoðunar hvort rétt þyki að stöðva samningsgerð í tengslum við útboðið.Endanlega verður leyst úr öðrum kröfum kærunnar síðar.

 

I.

Í almennri lýsingu útboðsins kom fram að óskað væri eftir tilboðum í innkaupakort ríkisins, um væri að ræða greiðslukort ásamt rafrænum innkaupaupplýsingum nýtanlegum til færslu í bókhald og tengdri þjónustu. Í kaflanum „kröfu- og þarfalýsing“ kom svo m.a. fram að úttektartímabil skyldi vera hver almanaksmánuður og gjalddagi 20. dagur næsta mánaðar. Í þeim kafla útboðsgagna sem kallast „val á samningsaðila“ segir að faghópur meti tilboð til stiga í samræmi við nánar tilgreint stigaskor. Þannig átti „gæði lausna“ að gefa mest 60 stig og mat á því yrði samkvæmt útboðsgögnum byggt á a.m.k. 6 þáttum: notendaviðmóti, færslusíðu, heimildar­stýringu, framtíðarsýn og nýjungum, upplýsingum og skýrslugerð. Þátturinn „þjónusta og markaðssetning hjá ríkinu“ gaf mest 30 stig og skyldi metin út frá: þjónustutíma, fjölda starfsmanna við verkefnið, afhendingarskilmála og afhendingartíma korta. „Tengd þjónusta“ gaf mest 5 stig og var skýringin með þeirri forsendu: „s.s. ferðatryggingar“. Að lokum gaf skuldfærslugjald mest 5 stig.

            Í útboðsgögnum var ekki gerð nánari grein fyrir inntaki ofangreindra matsþátta kærða að undanskilinni reikniformúlu fyrir mati á verði/gjöldum. Þá fól tilboðsblað ekki í sér frekari útlistun á því hvernig best yrði fullnægt þeim valforsendum sem kaupandi hugðist meta tilboðin eftir. Tilboðsblað stuðlaði þannig ekki að því að tilboð bjóðenda yrðu sett fram á sambærilegan hátt. Samkvæmt athugasemdum kærða voru stig fyrir „gæði lausna“ að lokum metin eftir fimm þáttum, en ekki „a.m.k. 6 þáttum“ eins og fram kom í útboðsgögnum. Í rökstuðningi sem kærði sendi kæranda kemur m.a. fram að kærandi hafi fengið 6 stig af 12 mögulegum vegna þáttarins „framtíðarsýn og nýjungar“. Þar kemur einnig fram að Landsbanki Íslands hafi fengið 12 stig og var það m.a. rökstutt með því að Landsbankinn bjóði upp á fyrirframgreidd kort.

 

 

II.

Kaupendum er almennt játað nokkuð svigrúm við ákvörðun um það hvaða forsendur þeir leggja til grundvallar mati á tilboðum. Hins vegar er sú skylda lögð á kaupendur að þeir tilgreini með eins nákvæmum hætti og unnt er hvaða forsendur verða lagðar til grundvallar. Forsendurnar eiga að vera hlutlægar og tengjast efnahagslegri hag­kvæmni með einhverjum hætti en mega aldrei vera svo matskenndar að kaupanda séu í raun og veru engar skorður settar við mat tilboða. Er það nauðsynlegt til að takmarka vald þeirra til að túlka tilboðin eftir eigin höfði eftir að tilboð hafa verið opnuð og er það jafnframt í samræmi við meginreglur útboðsréttar um gegnsæi og jafnræði bjóðenda, sbr. 1. og 14. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup. Eiga bjóðendur þannig að geta áttað sig á því fyrirfram hvernig staðið verður að mati á hagkvæmasta tilboði og hagað boðum sínum í samræmi við það. Bjóðendum í hinu kærða útboði var ógerlegt að átta sig á því hvernig kaupandi hyggðist meta tiltekna þætti í tilboðum þeirra. Forsendur fyrir vali tilboða gáfu kærða þannig of víðtækt mat við einkunnagjöf í þeim þáttum.

Samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup, getur kærunefnd útboðsmála stöðvað gerð samnings, þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru, telji nefndin að verulegar líkur séu á því að brotið hafi verið gegn lögunum. Miðað við fyrirliggjandi gögn virðast verulegar líkur á því að brotið hafi verið gegn lögum um opinber innkaup og telur nefndin rétt að stöðva samningsgerð í kjölfar hins kærða útboðs.

 

Ákvörðunarorð:

Samningsgerð Ríkiskaupa við Landsbanka Íslands í kjölfar útboðs Ríkiskaupa nr. 14365 – Innkaupakort ríkisins er stöðvuð.

 

Reykjavík, 7. janúar 2008.

                                                              

 

 

 

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík, 7. janúar 2007.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum