Hoppa yfir valmynd
23. nóvember 2007 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 12/2007. Úrskurður kærunefndar útboðsmála:

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 23. nóvember 2007

í máli nr. 12/2007:

Kodiak hugbúnaðariðja ehf.

gegn

Landspítala Háskólasjúkrahúsi

Með bréfi, dagsettu 3. júlí 2007, kærir Kodiak Hugbúnaðariðja ehf. ákvörðun Landspítala Háskólasjúkrahúss um töku tilboðs INNN hf. í útboði LSH nr. 14233 um gerð innri og ytri vefjar LSH. Kærandi gerir eftirfarandi kröfur í málinu:

1.                        Að kærunefnd útboðsmála láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu Landspítala Háskólasjúkrahúss vegna þeirrar ákvörðunar spítalans að semja við INNN hf. í útboði LSH nr. 14233 um gerð innri og ytri vefjar LSH.

2.                        Að kærunefnd ákveði að láta greiða kæranda kostnað við að hafa kæruna uppi.

Kærði krefst þess að kröfu kæranda verði vísað frá. Til vara er þess krafist að henni verði hafnað.

 

I.

Í mars 2007 óskaði Landspítali Háskólasjúkrahús (hér eftir „LSH“) eftir tilboðum í gerð innri og ytri vefjar LSH, meðal annars vinnu við greiningu, uppsetningu, prófanir, innleiðingu og kennslu á vefumsýslukerfi, eins og nánar var mælt fyrir um í útboðsgögnum. Tilboð voru opnuð þann 24. apríl 2007. Alls bárust 11 tilboð frá 10 fyrirtækjum.

Sérstakur faghópur var skipaður og var honum falið að yfirfara tilboðin og skila tillögu að vali samningsaðila. Lægsta tilboðið sem barst var frá kæranda, Kodiak hugbúnaðariðju ehf. Við mat á tilboði kæranda tók framangreindur faghópur það til skoðunar að Proxima, sá hugbúnaður sem kærandi bauð, væri nýkominn úr þróun og hefði ekki verið í notkun áður hjá neinu fyrirtæki. Þá var tekið fram að kærandi væri nýtt fyrirtæki sem ekki hefði unnið nein sambærileg verkefni í sínu nafni. Fékk kærandi af þessum sökum 1 stig í valforsendunni „reynsla og þekking fyrirtækis af sambærilegum verkefnum“. Leiddi þetta til þess að tilboðið var að mati faghópsins ógilt. Faghópurinn lagði fram þá tillögu að gengið yrði til samninga við INNN hf., á þeirri forsendu að fyrirtækið hefði skorað hæst, eða 91 stig. Það félag var talið bjóða lægsta verð fyrir grunnkerfi og einnig lægsta heildarverð af þeim tilboðum sem væru gild.

            Kærandi felldi sig ekki við þessa niðurstöðu og óskaði í kjölfarið eftir frekari rökstuðningi á höfnun tilboðs. Í kjölfarið fylgdu nokkur bréfaskipti milli kæranda og kærða, þar sem kærandi færði rök fyrir sjónarmiðum sínum og fékk svör frá kærða um niðurstöður útboðsins. Verður greint frá þessum bréfaskiptum eftir því sem við á í umfjöllun um málsástæður aðila.

Kærandi sættir sig ekki við framangreinda höfnun kærða á tilboði sínu. Varðar mál þetta ágreining aðila um réttmæti höfnunar tilboðs kæranda í framangreindu útboði og álit á þeim skaðabótum sem kærandi á rétt til af þessum sökum.

 

II.

            Kærandi byggir á því að ákvörðun kærða og málsmeðferð, þ.m.t. um rökstuðning, brjóti gegn 11. og 50. gr. laga nr. 94/2001. Byggir kærandi þannig á því að kærði hafi ekki tekið hagstæðasta tilboði, hvorki með tilliti til verðs eða tæknilegra atriða. Allur birtur rökstuðningur feli það í sér að eingöngu kærandi sjálfur sé metinn og vöruheitið Proxima CMS, en ekki tekið tillit til reynslu starfsmanna sem eru innan félagsins. Kærandi bendir á að það hafi komið fram á fundi með aðilum, þ.m.t. starfsmönnum Ríkiskaupa, að algengt væri að stofna fyrirtæki í tengslum við útboð í því skyni að sameina starfsfólk, reynslu og hæfni.

Byggir kærandi þannig á því að hann sitji ekki við sama borð og aðrir bjóðendur, þar sem fyrirtæki kæranda hafi gagngert verið stofnað til þess að bjóða í verkefnið og raða innanborðs hæfum mönnum til að vinna það. Þannig séu meðal tilboðsgagna ítarlegar ferilskrár tilvonandi starfsmanna félagsins, þar sem tíunduð er menntun, reynsla og hæfni viðkomandi. Þá hafi samningar þegar verið gerðir við viðkomandi starfsmenn og staðfesta þeir hæfi bjóðanda til þess að takast á við verkefnið. Jafnframt megi í tilboðsgögnum finna kafla, þar sem útlistuð eru verkefni sem þessir starfsmenn hafa áður unnið. Kærandi byggir á því að það sé rangt að halda því fram að engir viðskiptavinir hafi verið tilgreindir í tilboðsgögnum. Fram kom í ferilskrá starfsmanna fyrri verk þeirra og öðrum hentugum verkum lýst nánar. Það er mat kæranda að ekki fari á milli mála að hér séu á ferðinni viðskiptavinir sem starfsmenn kæranda hafa unnið fyrir á síðastliðnum árum. Þessir starfsmenn séu reiðubúnir að leggja á sig umtalsverða vinnu til þess að klára verkefnið, allt að 12 tíma á dag, sex daga vikunnar.

Kærandi byggir jafnframt á því að Proxima CMS hafi uppfyllt 80% af þörfum LSH, í samanburði við útboðsgögn. Kærandi byggir á því að ekki hafi verið hægt að vísa tilboði frá á þeim forsendum að það þyrfti að endurskrifa hugbúnaðinn í .NET 2.0 umhverfinu. Orðalag í útboðsgögnum gefur tilefni til þess að ætla að ekki sé skylda að nota .NET 2.0 nema ef Microsoft lausn yrði notuð við lausn á verkefninu.

Kærandi byggir á því að Opin Kerfi og Kögun hafi ekki boðið tilbúna lausn í þeim skilningi, sem LSH leggur á málið við mat á tilboði kæranda. Þeim tilboðum var þó ekki vísað frá, sem gerir það augljóst að LSH hafi brotið gegn kæranda við mat á tilboði hans. Þá byggir kærandi á því að Eskill og INNN hf. hafi sameinast, sem getur valdið því að upplýsingar sem getið er um í útboðinu verði villandi eða beinlínis rangar.

Kærandi byggir á því að ef tekið hefði verið tillit til reynslu starfsmanna, en ekki fyrirtækisins eingöngu, þá fengi Kodiak hugbúnaðarsmiðja ehf. ekki 1 stig af 15 mögulegum í matsflokki 2 samkvæmt útboðsgögnum.

 

III.

Kærði byggir á því að tilboð kæranda hafi ekki haft að geyma upplýsingar um starfsmannafjölda fyrirtækisins, heldur eingöngu sýndar ferilskrár fjögurra starfsmanna í tilboðsgögnum sem áttu að vinna verkefnið. Við skoðun á tilboði kæranda hafi ekki verið búið að ganga frá samningum við þessa starfsmenn. Kærði byggir á því að þetta skapi óvissu um getu kæranda til þess að takast á við verkefnið.

            Kærði byggir á því að nauðsynlegt hefði verið, samkvæmt upplýsingum í tilboðsgögnum, að endursmíða vefumsýslukerfið til að uppfylla kröfur kaupanda. Það að endurskrifa kerfi úr einu forritunarmáli í annað áður en það er afhent getur valdið óvissu í afhendingu og áreiðanleika kerfisins, þar sem það þyrfti að villuprófa og sannreyna kerfið áður en það færi í notkun. Jafnframt byggir kærði á því að þróunarvinnu hugbúnaðarins sé nýlokið og því erfitt að segja til um gæði og aðra eiginleika kerfisins. Þau vefumsýslukerfi, sem hafa verið á markaðnum í einhvern tíma, hafa verið endurbætt m.t.t. þarfa notenda og villur lagfærðar. Kærði byggir á því að hann hafi valið til samstarfs aðila, sem bjóði upp á sannreynda vöru er hafi verið á markaðnum í nokkur ár, það tryggi áreiðanlega vöru með tilsettum gæðum.

            Kærði byggir á því að verkefnaáætlun kæranda hafi verið fremur ónákvæm. Kærði telur að verkþættir hafi ekki verið brotnir niður eins og þörf er á í verkefni af þessari stærðargráðu til að tryggja verkkaupa m.a. nauðsynlega yfirsýn um framgang verkefnisins og möguleika á eftirfylgni við einstaka verkþætti.

            Kærði byggir á því að ekki hafi verið veittur listi yfir helstu viðskiptavini og sambærileg verkefni sem unnin höfðu verið á síðastliðnum 2 árum. Ekki hafi verið unnt að leita umsagnar um kerfið hjá neinum notanda. Í tilboðsgögnum hafi verið sýndar skjámyndir af vefjum sem höfðu verið unnir upp á síðkastið en óljóst var hverjir hefðu komið að gerð þeirra þar sem tengiliða var ekki getið. Þá var þessara vefja ekki getið á ferilskrá þeirra aðila sem fylgdu tilboðinu. Kærði tekur fram að ekki hafi verið fjallað um þjónustugetu kæranda í tilboðsgögnum, þótt slíkt hafi verið áskilið í gögnunum.

            Kærði byggir á því að samkvæmt útboðsgögnum teljist tilboð sem fá minna en 45 stig af 60 stigum mögulegum samkvæmt matsviðmiði á forsendum 1-4 ófullnægjandi og  séu því ekki skoðuð frekar. Jafnframt gildir að fái tilboð minna en 50% stig fyrir einstaka liði í matsviðmiðum 1-4 séu þau ófullnægjandi og því ekki skoðuð frekar. Byggir kærði á því að þar sem kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði um reynslu og þekkingu fyrirtækisins af sambærilegum verkefnum þá hafi verið heimilt samkvæmt útboðsgögnum að hafna tilboðinu.

 

IV.

Ágreiningur aðila snýr einkum um það hvort kærða hafi verið heimilt að byggja mat á reynslu og þekkingu kæranda á því að kærandi sé nýstofnað félag, sem ekki hafi unnið nein sambærileg verkefni í sínu nafni. Fallist er á það með kæranda að við mat á hæfni og reynslu tilboðsgjafa í útboði þá skuli ekki einvörðungu litið til félagsins, sem stendur að baki tilboðinu, heldur skuli jafnframt horfa til starfsmanna félagsins og reynslu þeirra af sambærilegum verkefnum. Þannig gildir að taki sig saman aðilar, sem hafa reynslu af sambærilegum verkefnum, og geri með sér félag þá beri að leggja slíka reynslu til grundvallar við mat á reynslu og þekkingu viðkomandi bjóðanda. Hér verður þó ávallt að fara fram heildarmat á atvikum, eins og þau liggja fyrir hverju sinni, meðal annars með hliðsjón af reynslu aðila til þess að starfa á sameiginlegum vettvangi, reynslu af verkstjórn og gæðum verkefna sem viðkomandi aðilar hafa áður unnið. Svo virðist sem kærði hafi einvörðungu litið til fyrirtækisins sjálfs, en ekki þeirra starfsmanna sem þar standa að baki. Eins og hér stendur sérstaklega á verður þetta þó ekki talinn ágalli á meðferð málsins, þar sem kærandi sýndi ekki fram á með sannanlegum hætti að hann hafi tryggt sér viðkomandi starfsmenn til verksins.

            Samkvæmt 84. gr. laga um opinber innkaup nr. 94/2001 er kaupandi skaðabótaskyldur vegna þess tjóns sem brot á lögunum hefur í för með sér fyrir fyrirtæki. Fyrirtæki þarf einungis að sanna að það hafi átt raunhæfa möguleika á að verða valið af kaupanda og möguleikar þess hafi skerst við brotið. Bótafjárhæð skal miðast við kostnað við að undirbúa tilboð og taka þátt í útboði. Það er mat kærunefndar að tilboð kæranda hafi verið ógilt og kærandi hafi af þessum sökum ekki átt raunhæfa möguleika á því að verða valinn í útboðinu.

Er það þannig álit kærunefndar að kærði sé ekki skaðabótaskyldur gagnvart kæranda í tengslum við útboð nr. 14233.

 

Úrskurðarorð:

Það er álit kærunefndar útboðsmála að kærði, Landspítali Háskólasjúkrahús, sé ekki skaðabótaskyldur gagnvart kæranda, Kodiak hugbúnaðariðju ehf., í tengslum við útboð nr. 14233.

 

Reykjavík, 23. nóvember 2007

                                                               Páll Sigurðsson

                                                               Stanley Pálsson

                                                               Sigfús Jónsson

 

Rétt endurrit staðfestir

Reykjavík, 23. nóvember 2007



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum