Hoppa yfir valmynd
5. júlí 2007 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 8/2007. Úrskurður kærunefndar útboðsmála:

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 5. júlí 2007

                                                  í máli nr. 8/2007 :

                                                   Hreyfill svf.

                                                   gegn

Ríkiskaupum, f.h. hönd áskrifenda að ramma­samnings­kerfi Ríkiskaupa á hverjum tíma.

 

Með kæru, dags. 4. júní 2007, kærði Hreyfill svf. rammasamningsútboð Ríkiskaupa nr. 14201 - leigubifreiðaakstur.

Í kæru voru kröfur kæranda orðaðar með eftirfarandi hætti:

„1. að kærunefnd útboðsmála láti í ljós álit sitt á því hvort Ríkiskaup hafi orðið skaðabótaskyld gagnvart Hreyfli svf. vegna ákvörðunar um samningsgerð við [Nýju leigubílastöðina] á grundvelli útboðs nr. 14201.

2. að kærunefnd útboðsmála leggi á Ríkiskaup að greiða Hreyfli svf. málskostnað vegna kostnaðar kæranda af því að bera kæruefnið undir nefndina.”

 

Kærða var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Kærði krafðist þess með bréfi, dags. 15. júní 2007, að „hafnað [yrði] kröfum kæranda Hreyfils svf.”. Þá krafðist kærði þess að „kæranda [yrði] gert að greiða málskostnað samkvæmt 3. mgr. 81. gr. laga nr. 94/2001, um opinber innkaup”.

Kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um umsögn kærða. Með bréfi, dags. 25. júní 2007, gerði kærandi athugasemdir við umsögn kærða. Ekki var tilefni til að gefa kærða frekara færi á að gera athugasemdir.

 

I.

Með ódagsettri útboðslýsingu auglýsti kærði rammasamningsútboð 14201 – Leigubifreiða­akstur. Samkvæmt upprunalegum útboðsgögnum var um að ræða opið EES-útboð um leigubílaakstur á og frá höfuðborgarsvæðinu. Í almennri lýsingu á útboðinu var tekið fram að hugsanlegir bjóðendur þyrftu að fylgjast með heimasíðu kærða enda yrðu breytingar, viðbætur og/eða leiðréttingar á útboðsgögnum eingöngu birtar á heimasíðunni. Nokkrar breytingar voru gerðar á útboðinu, m.a. var útboðinu skipt í tvo flokka, flokk 1 „Á og frá höfuðborgarsvæðinu (að fráskilinni Reykjanesbraut)” og flokk 2 „Keyrsla á Reykjanesbraut”. Óumdeilt er að tæknileg vandræði urðu þegar breytingin sem fólst í skiptingu útboðsins í tvo flokka var sett inn á heimasíðu kærða. Miðað við gögn málsins er rétt að miða við að breytingarnar hafi örugglega verið komnar inn á heimasíðu kærða hinn 21. febrúar 2007.

Í útboðsgögnum sagði að samningsaðili yrði valinn með hliðsjón af stigakerfi þar sem vægi verðs yrði 75% en vægi þjónustu 25%. Stig fyrir verð og þjónustu skyldu reiknuð út með tilteknum hætti sem gerð var grein fyrir í útboðsgögnum.

Í framhaldi af útboðinu bárust tilboð frá þremur bjóðendum. Í samræmi við útboðsgögn reiknaði kærði stig bjóðenda fyrir tilboð þeirra. Heildarstigafjöldi kæranda í flokki 1 var metinn 85 en heildarstigafjöldi Nýju leigubílastöðvarinnar var metinn 98 í sama flokki. Kærandi taldist ekki hafa skilað inn tilboði í flokk 2.

Hinn 27. mars 2007 tilkynnti kærði hvaða tilboðum hefði verið tekið í útboðinu. Í flokki 1 tók kærði tilboðum frá Nýju leigubílastöðinni og kæranda en í flokki 2 tók kærði tilboði Nýju leigubílastöðvarinnar eingöngu. Kærandi óskaði óformlega eftir því við kærða að kæranda yrði veittur rökstuðningur fyrir ákvörðun kærða og gögn um tilboð Nýju leigubílastöðvarinnar. Hinn 24. apríl 2007 fékk kærandi senda verðskrá Nýju leigubílastöðvarinnar frá kærða.

Kærandi óskaði óformlega eftir frekari gögnum frá kærða, einkum samningi kærða við Nýju leigubílastöðina og stigagjöf bjóðenda. Með bréfi kæranda, dags. 2. maí 2007, var gerð krafa um að kærði myndi afhenda öll gögn er vörðuðu tilboð Nýju leigubílastöðvarinnar. Með bréfi kærða, dags. 14. maí 2007, var erindum kæranda svarað. Með bréfinu fylgdi hluti þeirra gagna sem kærandi hafði óskað eftir en kærði taldi önnur gögn undanskilin á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Með bréfinu fylgdu m.a. upplýsingar um stigagjöf tilboða og samningur kærða við Nýju leigubílastöðina átti að fylgja en í stað þess fylgdi samningur kæranda og kærða. Kærandi fékk samning kærða og Nýju leigubílastöðvarinnar sendan með símbréfi hinn 23. maí 2007.

 

II.

Kærandi byggir á því að kærða hafi verið óheimilt að skipta útboðinu upp í tvo flokka samkvæmt 3. mgr. 50. gr. laga nr. 94/2001. Þá telur kærandi að skipting útboðsins í tvo flokka geti ekki staðist þar sem höfuðborgarsvæðið og Reykjanes sé eitt aksturssvæði samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 134/2001, um leigubifreiðar, og 4. gr. reglugerðar nr. 397/2003, um leigubifreiðar. Auk þess telur kærandi ámælisvert af kærða að standa fyrir slíkri skiptingu á atvinnusvæði. Kærandi telur þetta valda ógildi ákvörðunar kærða að því er varðar flokk 2 um akstur á Reykjanesbraut.

Kærandi telur að skipting á útboðinu úr einum flokki í tvo hafi verið veruleg breyting á útboðinu og því hafi kærða borið að tilkynna um slíka grundvallarbreytingu með ríkari hætti. Þá telur kærandi það með öllu óskiljanlegt að ekki hafi verið birt sérstök tilkynning um þessa breytingu á sama stað og á sama hátt og aðrar breytingar og fyrirspurnir. Þar sem breytingarnar hafi ekki verið tilkynntar með fullnægjandi hætti telur kærandi að þær séu ógildar og bindi ekki kæranda eða aðra bjóðendur. Val kærða á samningi hafi þannig átt að fara fram á grundvelli upprunalegra útboðsgagna.

Kærandi segir að kærði hafi ekki átt að ganga til samninga við Nýju leigubílastöðina í flokki 1 þar sem kærandi hafi átt hagstæðara tilboð samkvæmt 1. mgr. 50. gr. laga nr. 94/2001. Kærandi segir það óásættanlegt að kærði hafi metið tilboð kæranda til 85 stiga en tilboð Nýju leigubílastöðvarinnar til 98 stiga.

Kærandi segir sitt tilboð hafa verið fjárhagslega hagstæðara en tilboð Nýju leigubílastöðvarinnar og vísar til þess að kílómetragjald og biðgjald sé lægra hjá kæranda en Nýju leigubílastöðinni. Auk þess hafi kærandi boðist til að veita afslátt en það hafi Nýja leigubílastöðin ekki gert.

Þá segir kærandi þjónustu­stig sitt langtum betra en þjónustustig Nýju leigubílastöðvarinnar. Þar sem kærandi hafi ekki fengið gögn um afgreiðslukerfi Nýju leigubílastöðvarinnar geti kærandi ekki metið stigagjöfina hvað varðar þann þjónustuþátt. Kærandi segir að samkvæmt útboðsgögnum hafi hann réttilega fengið 10 stig fyrir fjölda leigubifreiðastjóra. Kærandi telur hins vegar að Nýja leigubílastöðin hafi ekki átt að fá þau 8 stig sem hún fékk fyrir þann hluta þar sem færri en 19 bifreiðastjórar séu skráðir á Nýju leigubílastöðina. Því telur kærandi að kærði hafi átt að gefa Nýju leigubílastöðinni 0 stig fyrir þennan þátt.

Að lokum bendir kærandi á að Nýja leigubílastöðin hafi ekki hlotið undanþágu Samkeppniseftirlitsins samkvæmt 15. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 til ákvörðunar um verð og önnur viðskiptakjör. Slíka undanþágu segist kærandi hins vegar hafa fengið en hún sé nauðsynleg samkvæmt ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 4/2006 frá 7. febrúar 2007.

Kærandi fer fram á að upphaf kærufrests verði miðað við tímamarkið 23. maí 2007 enda hafi kærandi fyrst þá fengið vitneskju um að brotið hafi verið á réttindum hans. Kærandi segir að kærði hafi tilkynnt með tölvupósti, dags. 27. mars 2007, að kærði ætlaði sér að semja við Nýju leigubílastöðina. Þá hafi kærandi ekki haft frekari upplýsingar um tilboð Nýju leigubílastöðvarinnar og því ekki vitað betur en að niðurstaða útboðsins hafi verið lögmæt. Kærandi segist ítrekað hafa óskað eftir gögnum en ekki fengið endanleg gögn fyrr en 23. maí 2007 og fyrst þá hafi kærandi fengið staðfestingu á því að brotið hafi verið gegn réttindum hans.

 

III.

Kærði telur að hafna beri kröfu kæranda þar sem rétt hafi verið staðið að mati tilboða og gerð útboðsgagna. Af hálfu kærða er því hafnað málsaðstæðum og lagarökum sem kærandi vísar til í kæru.

Kærði segir að kæranda hafi borið að fylgjast með heimasíðu kærða og að breytingar á útboðinu hafi verið komnar á heimasíðuna í síðasta lagi 21. febrúar 2007 en tilboð voru opnuð 15. mars 2007 þannig að kærandi hafi haft nægan tíma til að fylgjast með breytingum og fyrirspurnum varðandi hið kærða útboð. Kærði segir að engar athugasemdir eða fyrirspurnir hafi borist frá kæranda.

Kærði segir niðurstöðu útboðsins hafa verið kynnta öllum bjóðendum 27. mars 2007 og verði að líta svo á að þá hafi kærufrestur byrjað að líða. Eftir þann tíma hafi kærandi fengið samninginn við Nýju leigubílastöðina og mat tilboða. Ekkert í þeim gögnum gefi ástæðu til að breyta upphafi kærufrests.

Varðandi heimild til að semja við fleiri en einn bjóðanda þá vísar kærði til útboðsskilmála þar sem sérstaklega hafi verið áréttað að áskilinn væri réttur til að semja við fleiri en einn í hvorum flokki. Kærði segir að kærunefnd útboðsmála hafi í úrskurði frá 4. apríl 2007 staðfest þetta.

Kærði vísar til þess að í 1. mgr. 78. gr. laga nr. 94/2001 komi fram að kæra skuli borin skriflega undir nefndina innan fjögurra vikna frá því kærandi vissi eða mátti vita um ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem hann telur brjóta gegn réttindum sínum. Hinn 27. mars 2007 hafi kæranda verið kynnt niðurstaða útboðsins og á þeim tíma hafi kærufrestur byrjað að líða og ekkert sem síðar hafi komið fram breyti niðurstöðu útboðsins. Matslíkan hafi komið fram í útboðsgögnum og í breytingum á útboðs­gögnum sem settar voru á heimasíðu kærða.

Kærði segir að lögmaður kæranda hafi óskað eftir öllum gögnum er varði tilboð Nýju leigubílastöðvarinnar og á sama tíma hafði lögmaður Nýju leigubílastöðvarinnar óskað eftir tilboði og öllum gögnum kæranda.  Kærði taldi rétt að leita álits beggja aðila á því hvaða gögn hvor um sig samþykkti að yrðu afhent. Vegna þessa hafi afhending gagna dregist, m.a. af því að erfiðlega hafi gengið að fá svar frá lögmanni Nýju leigubílastöðvarinnar. Kærði segir að kærandi hafi fengið samning kærða við Nýju leigubíla­stöðina og niðurstöðu mats kærða hinn 23. maí 2007.  Kærandi hafði áður, hinn 24. apríl 2007, fengið afhenta verðskrá Nýju leigubílastöðvarinnar.

Um mat tilboða segir kærði að matslíkan hafi komið fram í upphaflegu útboðsgögnunum. Samkvæmt útboðsgögnum hafi verð verið metið þannig:

„Verð – Flokkur 1

Dagtaxti 55 stig:

Startgjald + kílómetragjald innanbæjar – veittur afsláttur

Stigafjöldi => (Lægsta boðið verð/boðið verð)* 55

 

Nætur og helgartaxti 17 stig:

Startgjald + kílómetragjald innanbæjar – veittur afsláttur

Stigafjöldi => (Lægsta boðið verð/boðið verð) * 17

 

Stórhátíðartaxti 3 stig:

Startgjald + kílómetragjald innanbæjar – veittur afsláttur

Stigafjöldi => (Lægsta boðið verð/boðið verð) * 3”

 

Kærði segir að mat vegna tölvukerfa í leigubifreiðum hafi verið metið í samræmi við útboðsskilmála og hafi afgreiðslukerfi mest getað gefið 15 stig. Ef afgreiðslukerfi bjóðanda gat veitt ítarupplýsingar og sent rafræna greiðsluseðla hafi viðkomandi bjóðandi fengið 15 stig. Báðir aðilar hafi uppfyllt þetta ákvæði og hafi því báðir fengið 15 stig fyrir þennan þátt.

Kærði segir að kærandi hafi ekki, þrátt fyrir nægan tíma, gert athugasemdir við stigagjöf fyrir fjölda bifreiðastjóra, hvorki í upphafi né þegar henni hafi verið breytt.

Vegna málsástæðna kæranda um samkeppnissjónarmið tekur kærði fram að hlutverks kæru­nefndar sé sérstaklega getið í 2. mgr. 75. gr. laga nr. 94/2001, um opinber innkaup. Kærði segir samkeppnis­mál heyra undir Samkeppniseftirlitið og beri kæranda að beina athugasemdum um samkeppnismál til þeirrar stofnunar en ekki kærunefndar útboðsmála. Í 1. gr. laga nr. 94/2001 sé fjallað um tilgang laganna en þar segi: „Tilgangur laga þessara er að tryggja jafnræði bjóðenda við opinber innkaup og stuðla að virkri samkeppni og hagkvæmni í opinberum rekstri”. Tilgangi laganna sé náð með því að efna til samkeppni um innkaup á vörum, þjónustu og framkvæmdum eftir settum leikreglum eins og gert hafi verið í útboðinu.

Kærði hafnar skaðabótaskyldu gagnvart kæranda þar sem kærandi hafi ekki sýnt fram á brot á lögum um opinber innkaup. Með sömu rökum hafnar kærði þeirri kröfu kæranda að kærði verði úrskurðaður til að greiða kæranda kostnað við að halda fram kærunni.

 

IV.

Hinn 17. apríl 2007 tóku gildi ný lög um opinber innkaup, lög nr. 84/2007. Samkvæmt 105. gr. nýju laganna, nr. 84/2007, gilda eldri lögin, nr. 94/2001, um þau innkaup sem auglýst hafa verið fyrir gildistöku nýju laganna. Samkvæmt 106. gr. laga nr. 84/2007 gilda nýju lögin hins vegar um meðferð kærunefndar útboðsmála á kærum sem berast nefndinni eftir gildistöku þeirra. Mál þetta barst kærunefnd útboðsmála eftir gildistöku laga nr. 84/2007 og því fer meðferð kærunefndarinnar á málinu eftir ákvæðum þeirra laga. Mat nefndarinnar á því hvort farið hafi verið að lögum við meðferð og ákvörðun útboðs nr. 14201 miðast hins vegar við lög nr. 94/2001.

   Kærandi telur að kærði hafi við útboðið m.a. brotið gegn samkeppnislögum nr. 44/2005, lögum nr. 134/2001, um leigubifreiðar, og reglugerð nr. 397/2003, um leigubifreiðar. Kærunefnd útboðsmála hefur það hlutverk samkvæmt 2. mgr. 91. gr. laga nr. 84/2007 að leysa úr kærum vegna ætlaðra brota á lögum um opinber innkaup og reglum settum samkvæmt þeim. Samkvæmt því ber kærunefndinni ekki að hafa eftirlit með því hvort ákvæði annarra laga séu brotin. 

Aðila málsins greinir á um, við hvaða tímamark eigi að miða upphaf kærufrests. Vill kærandi að miðað sé við 23. maí 2007 enda hafi hann fyrst þá fengið staðfestingu á því að brotið hafi verið gegn réttindum hans. Kærði vill hins vegar miða upphaf kærufrests við það þegar niðurstaða útboðsins var kynnt hinn 27. mars 2007 enda hafi ekkert komið fram síðar sem breytt hafi niðurstöðu útboðsins. Samkvæmt 1. mgr. 94. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup, skal kæra borin undir kærunefnd útboðsmála innan fjögurra vikna frá því að kærandi vissi eða mátti vita um þá ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem hann telur brjóta gegn réttindum sínum. Alltaf er þó heimilt að bera kæru undir kærunefnd útboðsmála innan 15 daga frá því að rökstuðningur samkvæmt 75. gr. laganna er veittur. Við úrlausn á því hvort kæra var borin undir nefndina innan kærufrests verður þannig að líta til 75. gr. laga nr. 84/2007 jafnvel þótt innkaupin sem um ræðir í málinu hafi verið auglýst fyrir gildistöku laganna. 

 Af athugasemdum við 94. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 84/2007 er m.a. tekið fram að í opinberum innkaupum sé oft og tíðum sérlega mikilvægt að ekki sé fyrir hendi óvissa um gildi tiltekinna ákvarðana, jafnvel þótt vera kunni að ákvarðanir séu ólögmætar. Af ummælum í athugasemdunum má ráða að ætlast sé til þess að kærufrestur verði túlkaður þröngt og upphaf hans miðað við fyrsta mögulega tímamark.

Kærandi byggir kröfur sínar á tveimur meginatriðum. Í fyrsta lagi telur kærandi að ólögmætt hafi verið að skipta útboðinu í tvo flokka og í öðru lagi telur kærandi að tilboð hans hafi verið hagstæðara en tilboð Nýju leigubíla­stöðvarinnar. Kærunefnd útboðsmála telur rétt að taka afstöðu til þess, varðandi hvort meginatriði um sig, hvort kæra hafi verið borin undir nefndina innan tilskilins kærufrests.

Kærandi mátti vita af því að útboðinu hafði verið skipt í tvo flokka í allra síðasta lagi hinn 15. mars 2007 þegar tilboð voru opnuð. Er því ljóst að kærufrestur, vegna kröfu sem byggði á þeirri málsástæðu að skipting í tvo flokka hafi verið óheimil, hófst hinn 15. mars 2007 enda vissi kærandi þá um ákvörðun sem hann taldi brjóta gegn réttindum sínum samkvæmt 1. mgr. 94. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup. Ber því að vísa kröfum kæranda frá að því leyti sem þær byggja á þeirri málsástæðu að skipting útboðsins í tvo flokka hafi verið óheimil, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í tilkynningu kærða um töku tilboða, dags. 27. mars 2007, kom eingöngu fram hvaða tilboðum kærði tók í hvorum flokki útboðsins fyrir sig. Kærandi fékk ekki nánari upplýsingar um forsendur fyrir ákvörðun kærða. Eins og áður segir gilda ákvæði laga nr. 84/2007 um meðferð kærunefndar útboðsmála á kæru þessari, sbr. 106. gr. laganna. Í 2. málsl. 1. mgr. 94. gr. laganna segir að alltaf sé heimilt að bera kæru undir kærunefnd útboðsmála innan 15 daga frá því að rökstuðningur samkvæmt 75. gr. laganna er veittur. Í 3. málsl. 1. mgr. 75. gr. segir að þegar val tilboðs hefur grundvallast á öðrum forsendum en verði eingöngu skuli í tilkynningu koma fram nafn þess bjóðanda sem var valinn og upplýsingar um eiginleika og kosti þess tilboðs sem kaupandi valdi með hliðsjón af valforsendum útboðsgagna. Í c-lið 2. mgr. 75. gr. segir svo að eftir beiðni skuli kaupandi, eins fljótt og mögulegt er, veita rökstuðning fyrir ákvörðun sinni með því að upplýsa bjóðanda um eiginleika og kosti þess tilboðs sem kaupandi valdi og nafn bjóðanda sem var valinn eða rammasamningshafa. Kærandi fékk ekki upplýsingar um eiginleika og kosti þess tilboðs sem kaupandi valdi fyrr en með símbréfi, dags. 23. maí 2007, þegar kærði upplýsti um sundurliðun á stigum Nýju leigubílastöðvarinnar. Krafa kæranda, sem byggist á því að tilboð hans hafi verið hagstæðast í útboðinu, var borin upp innan 15 daga frá 23. maí 2007 og uppfyllir þannig kærufrestsskilyrði 1. mgr. 94. gr. laga nr. 84/2007.

Kærandi hefur krafist þess að nefndin láti í ljós álit sitt á skaðabótaskyldu kærða. Í 1. mgr. 101. gr. laga nr. 84/2007 eru sett tvenns konar skilyrði fyrir skaðabótaskyldu. Annars vegar þarf að vera um að ræða brot á lögum eða reglum um opinber innkaup. Hins vegar þarf kærandi að sanna að hann hafi átt raunhæfa möguleika á að verða valinn af kaupanda og að möguleikar hans hafi skerst við brotið.

 Í útboðsgögnum voru tiltekin þau atriði sem bjóðendur skyldu sína fram á að þjónusta þeirra fæli í sér. Bjóðendum voru svo gefin stig eftir því hversu vel þeir uppfylltu þessi atriði, o.þ.m. hversu vel þeir gætu uppfyllt þá þjónustu sem boðin var út. Þannig var stigagjöfin sú forsenda sem ráða átti því hvaða tilboð skyldi velja, samkvæmt 26. gr. laga nr. 94/2001. Kærunefnd útboðsmála hefur kynnt sér stigakerfið sem kærði byggði mat sitt á. Í reikniformúlu fyrir verð er ekki tekið tillit til biðgjalds og eingöngu er miðað við kílómetragjald en ekki mögulegan fjölda ekinna kílómetra. Reikningsformúlan er einföld og breyttist ekki frá opnun útboðs. Kærunefnd útboðsmála getur fallist á það með kæranda að stigakerfi útboðslýsingar hafi ekki verið til þess fallið að gefa rétta mynd af því hvaða tilboð voru hagkvæmust í reynd. Kærandi gerði engar athugasemdir við formúluna fyrr en í kæru og því eru þessi athugasemd kæranda of seint fram komin. Kærunefndin telur verðformúluna engu að síður skýra og gerir ekki athugasemdir við útreikninga kærða samkvæmt henni. Þá er ekki ástæða til að gera athugasemdir við mat kærða á afgreiðslukerfi enda var í þeim þætti nægjanlegt til að hljóta 15 stig að kerfi gæti veitt ítarupplýsingar og sent rafræna greiðsluseðla. Kærunefndin hefur kynnt sér þau gögn sem Nýja leigubílastöðin lagði fram þessu til sönnunar og telur þau fullnægjandi. Að lokum er ekki ástæða til að gera athugasemdir við mat kærða á því hversu margir leigubifreiða­stjórar væru í þjónustu Nýju leigubílastöðvarinnar. Kærunefndin telur að Nýja leigubílastöðin hafi ekki þurft að sýna fram á að hún uppfyllti þjónustuskilyrði útboðsins með frekari hætti en gert var. 

Kærunefndin telur að kærði hafi reiknað stig bjóðenda í samræmi við reikni­­formúlu útboðsgagna, með síðari breytingum. Samkvæmt því er stigagjöf kærða rétt enda var honum óheimilt að meta tilboð á grundvelli annarra forsendna en fram komu í útboðsgögnum, skv. 2. mgr. 50. gr. laga nr. 94/2001. Kærandi fékk 85 stig í flokki 1 en Nýja leigubíla­stöðin 98 stig. Þar sem Nýja leigubílastöðin fékk þannig flest stig í útboðinu fullnægði hún þörfum kaupanda best samkvæmt forsendum útboðslýsingar en kærða var engu að síður heimilt að taka jafnframt tilboði kæranda samkvæmt áskilnaði í útboðslýsingu. Kærunefnd útboðsmála telur þannig að ekki hafi verið brotið gegn lögum nr. 94/2001 og því eru skilyrði skaðabótaskyldu samkvæmt 1. mgr. 101. gr. laga nr. 84/2007 ekki fyrir hendi

Kærandi hefur krafist þess að kærða verði gert að greiða honum kostnað við að hafa kæruna uppi, sbr. fyrri málslið 3. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007. Með hliðsjón af framangreindri niðurstöðu málsins er skilyrðum ákvæðisins ekki fullnægt og verður því að hafna kröfunni.

Kærði hefur krafist þess að kæranda verði gert að greiða málskostnað til ríkissjóðs. Samkvæmt seinni málslið 3. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007 getur kærunefnd útboðsmála úrskurðað kæranda til að greiða málskostnað sem rennur í ríkissjóð ef kæra er bersýnilega tilefnislaus eða höfð uppi í þeim tilgangi að tefja fyrir framgangi opinberra innkaupa. Með hliðsjón af málinu í heild sinni er skilyrðum ákvæðisins ekki fullnægt og verður því að hafna kröfunni.

 

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um að kærunefnd útboðsmála gefi álit sitt á skaðabótaskyldu kærða, vegna útboðs kærða auðkennt „Rammasamningsútboð 14201 leigubifreiða­akstur” er hafnað.

Kröfu kæranda um að kærða verði gert að greiða honum kostnað við að hafa kæruna uppi er hafnað.

Kröfu kærða um að kæranda verði gert að greiða málskostnað til ríkissjóðs er hafnað.

 

 

                                                                  Reykjavík, 5. júlí 2007.

                                                                 

 

 

 

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík 5. júlí 2007

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum