Hoppa yfir valmynd
14. desember 2005 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Máli nr. 21/2005. Úrskurður kærunefndar útboðsmála:

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 14. desember 2005

í máli nr. 21/2005:

Sjáland ehf.

gegn

Kópavogsbæ

Með bréfi 21. júní 2005 kærir Sjáland ehf. niðurstöðu í útboði Kópavogsbæjar vegna útboðs auðkennt sem: ,,Rekstur leikskólans Hvarf í Vatnsenda í Kópavogi ".

Kærandi krefst þess að niðurstaða í útboðinu verði dæmd ógild og það framkvæmt upp á nýtt. Til vara er þess krafist að kærunefnd útboðsmála fjalla um skaðabótaskyldu kærða gagnvart kæranda, sbr. 2. mgr. 81. gr. laga nr. 94/2001.

Kærði krefst þess að öllum kröfum kæranda verði hafnað.

I.

Í febrúar 2005 óskaði kærði eftir tilboðum í rekstur leikskólans Hvarfs í Vatnsenda í Kópavogi. Opnunartími tilboða var 12. apríl 2005 og bárust fimm tilboð í verkið. Ágreiningur er á milli aðila um hvort tilboð kæranda sem hljóðaði upp á kr. 612.000 í hvert dvalargildi nemenda á leikskólanum eða kr. 51.000 í hvert dvalargildi hafi verið lesið upp á opnunarfundi. Tilboð ÓB ráðgjafar var lægst af þeim tilboðum sem lesin voru upp á opnunarfundi, en það nam kr. 7.368 í hvert dvalargildi nemenda á leikskólanum. Þegar tilboðsfjárhæðir höfðu verið skráðar var fulltrúi kæranda inntur eftir skýringum á tilboði hans og kvað hann tilboðsfjárhæðina vera miðaða við dvalargildi í einn mánuð og eiga að vera kr. 6.375 í hvert dvalargildi. Með bréfi til kærða, dags. 14. apríl 2005, óskaði kærandi eftir því að leiðrétta framsetningu í tilboði sínu. Kemur þar fram að vegna mistaka í útfyllingu tilboðsblaðs hafi kostnaðarframsetning á mánaðargrundvelli verið miðuð við tólf mánuði í stað dvalargildis. Sé tilboð kæranda miðað við kostnað við barngildi í leikskólanum, þ.e. kr. 612.000 á ári. Hafi þau mistök átt sér stað að deilt hafi verið með tólf mánuðum í stað ellefu og út komið talan kr. 51.000 á mánuði eða kr. 6.375 á dvalargildi. Í ljósi þessara mistaka óski kærandi eftir að skýra tilboð sitt frekar og sé það kr. 6.954 í hvert dvalargildi á ári miðað við ellefu mánaða starfsemi sem svari heildarkostnaði upp á kr. 612.000 á ári. Með bréfi, dags. 23. maí 2005, var kæranda tilkynnt um að bæjarráð kærða hefði ákveðið að ganga til samninga við ÓB ráðgjöf um rekstur leikskólans Hvarfs.

II.

Kærandi byggir á því að tilboð sitt hafi verið lægst miðað við dvalargildi barns á leikskóla. Þar sem ekki hafi verið taldar fram neinar valkröfur í útboðsgögnum hafi kærða verið skylt að taka tilboði lægstbjóðanda í verkið. Kærandi telur kærða hafa brotið gegn 26. og 50. gr. laga nr. 94/2001.

Kærandi vísar til þess að samkvæmt upphaflegu tilboðsblaði hans sem lagt hafi verið fram á opnunarfundi hafi verið boðnar kr. 51.000 á mánuði í dvalargildi og tekur fram að engar athugasemdir hafi verið gerðar á opnunarfundi. Megi líta á þetta tilboð kæranda sem frávikstilboð. Eftir opnunarfund hafi kærði haft samband við kæranda til að óska frekari útskýringar á tilboði kæranda og hafi kærði þar með staðfest gildi tilboðsins sem frávikstilboðs. Hafi frá upphafi verið ljóst að tilboð kæranda hafi verið lægst reiknað á dvalargildi nemenda í leikskólanum. Hafi kærandi sett tilboðsfjárhæðina fram sem kostnað á hvern nemanda á mánuði og samkvæmt reiknireglu í samningi, sem sé hluti af útboðsgögnum, sé dvalargildi reiknað út frá átta klukkustundum. Hafi komið fram í skýringum kæranda að miðað hafi verið við tólf mánuði og gefi það því kr. 612.000 á ári á hvert dvalargildi eða kr. 6.945 á dvalargildi á hverja klukkustund. Komi það skýrt fram í tilboði kæranda og hafi því verið sent nýtt tilboðsblað með skýringum til kærða. Mótmælt er rangri fullyrðingu kærða um að svo hafi ekki verið í tilboði kæranda.

Ekki komi fram hvers vegna kærði fylgi ekki landslögum og hagi útboði sínu samkvæmt lögum um opinber innkaup þar sem útboðið hafi fallið undir þjónustukaup og farið yfir kr. 20.649.757. Hafi verið óskað eftir margvíslegum upplýsingum frá bjóðendum og virðist ekki hafa verið lagt neitt mat á þær eins og hafi átt að gera.

III.

Kærði byggir á því að tilboð kæranda hafi ekki verið lægsta tilboðið í dvalargildi í leikskólann Hvarf. Samkvæmt tilboðsblaði kæranda hafi tilboð í hvert dvalargildi nemenda í leikskólanum numið kr. 612.000. Í 4. gr. samningsdraga um rekstur leikskólans sem hafi verið fylgiskjal útboðsgagna komi fram skilgreining á dvalargildi og jafnframt á barngildi. Sé dvalargildi útreikningseining viðkomandi mánaðar sem notuð sé við uppgjör, sbr. samningsdrög. Verði því ekki haldið fram að kærandi hafi verið með lægsta tilboðið. Þegar tilboð hafi verið opnuð að loknum tilboðsfresti hafi komið í ljós sá formgalli á tilboði kæranda að tilboðsupphæðin hafi greinilega ekki verið miðuð við dvalargildi eins og áskilið hafi verið í útboðsgögnum, enda fjárhæðin í engu samræmi við önnur tilboð sem borist hafi. Eftir opnun og skráningu tilboðsfjárhæða hafi fulltrúi kæranda verið inntur eftir skýringum á tilboði hans og hann kveðið upphæðina hafa verið hugsaða sem tilboðsupphæð á barn á mánuði, en það hafi ekki komið fram í tilboðinu. Þá hafi hann sagt tilboðsfjárhæðina hafa átt að vera kr. 6.375 á dvalargildi. Í vikunni á eftir hafi síðan borist bréf frá kæranda þar sem fram hafi komið þær skýringar á mistökum við útfyllingu tilboðsblaðs að miðað hefði verið við kostnað á mánaðargrundvelli miðað við tólf mánuði í stað dvalargildis. Hafi síðan komið fram að kostnaðar við barngildi væri kr. 612.000 á ári, en þau mistök átt sér stað að deilt hafi verið með tólf mánuðum í stað ellefu. Miðað við þetta væri tilboðið kr. 6.954 á hvert dvalargildi eða kr. 612.000 á ári.

Með hliðsjón af þessu telur kærði að það hefði verið óverjandi að taka tilboði kæranda sem gildu, þar sem tilboðsblað hafi ekki verið rétt fyllt út og ekki hægt að taka til greina skýringar sem gefnar séu eftir opnun tilboða.

IV.

Í lið 4.1 í útboðsgögnum segir að tilboð skuli gera í allt verkið og að tilboðsfjárhæð skuli miðuð við heildarrekstrarkostnað á dvalargildi. Tekið er fram að bjóðendur skuli fylla út tilboðsblað sem sé hluti af útboðsgögnum. Í 4. grein samningsdraga um rekstur leikskólans Hvarfs sem fylgdu útboðsgögnum er að finna skilgreiningu á hugtakinu dvalargildi. Segir þar að dvalargildi sé útreikningseining viðkomandi mánaðar sem notuð sé við uppgjör og að dvalargildi mæli meðaldvalarstundir á dag margfaldaðar með barngildisstuðli. Einnig er gefið sérstakt dæmi um útreikning sem skýrir frekar við hvað er átt. Útskýringar á því hvernig fylla bar út tilboðsblöð eru að mati kærunefndar útboðsmála fullnægjandi.

Það er meginregla í opinberum innkaupum að bjóðendur geta ekki breytt tilboðum sínum eftir að þau hafa verið opnuð. Stefnir þessi regla að því að tryggja jafnræði bjóðenda, sbr. 1. og 11. gr. laga um opinber innkaup. Í ljósi þessa er verkkaupa almennt óheimilt að taka tillit til leiðréttinga á tilboðsfjárhæð eftir að tilboð hafa verið opnuð ef þær geta haft áhrif á mat á tilboðum og val á bjóðanda. Var kærða samkvæmt þessu óheimilt að taka tillit til þeirra leiðréttinga á tilboðsfjárhæð sem kærandi kom á framfæri eftir opnun tilboða hinn 12. apríl 2005. Hafði kærði val um að láta tilboð kæranda standa óbreytt eða heimila honum að falla frá því. Samkvæmt þessu og miðað við þau tilboð sem lesin voru upp á opnunarfundi var tilboð kæranda ekki lægst að fjárhæð. Sú ákvörðun kærða að semja við ÓB ráðgjöf á grundvelli tilboðs þess fól því ekki í sér brot á 26. og 50. gr. laga um opinber innkaup.

Verður samkvæmt framangreindu að hafna öllum kröfum kæranda.

Úrskurðarorð:

Kröfum kæranda, Sjálands ehf., vegna útboðs Kópavogsbæjar auðkennt sem: ,,Rekstur leikskólans Hvarf í Vatnsenda í Kópavogi" er hafnað.

Reykjavík, 14. desember 2005.

Páll Sigurðsson

Augur Finnbogadóttir

Stanley Pálsson

 

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík, 14. desember 2005.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum