Hoppa yfir valmynd
25. maí 2005 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 11/2005. Úrskurður kærunefndar útboðsmála:

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 25. maí 2005

í máli nr. 11/2005:

Jónas Helgason

gegn

Vegagerðinni

Með bréfi, dags. 25. mars 2005, sem barst kærunefnd útboðsmála sama dag kærir Jónas Helgason útboð Vegagerðarinnar auðkennt sem „ Vigur-Æðey 2005-2010".

Kærandi gerir eftirfarandi kröfur í málinu:

Að ákvörðun kærða um að hafna tilboði kæranda verði felld úr gildi og samið verði við kæranda á grundvelli tilboðs hans.

Að kærunefnd útboðsmála láti í ljós nákvæmt álit á skaðabótaskyldu kærða.

Kærði krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað.

I.

Miðað við fyrirliggjandi gögn eru helstu málavextir þeir að kærði óskaði eftir tilboðum í flutninga til og frá eyjunum Vigur og Æðey. Í útsboðslýsingu kom fram að verktaki skyldi útvega skip sem hentaði til þeirrar þjónustu sem óskað var eftir tilboði í. Skipið skyldi vera öruggt, stöðugt og sjógott og falla vel að ætlaðri þjónustu verktaka. Skipið skyldi ávallt uppfylla reglur Siglingastofnunar og flokkunarfélags skipsins. Verktaki skyldi tryggja að öll skírteini til flutninganna væru ávallt í gildi og öryggisreglum fylgt í hvívetna. Skipið yrði að geta borið a.m.k. 2 tonn af varningi og auk þess a.m.k. 10 farþega í sæti innan skips.

Tilboð voru opnuð 15. febrúar 2005. Lægstbjóðandi í útboðinu var Henry Bæringsson. Með bréfi 2. mars 2005 tilkynnti kærði að tilboði hans hefði verið hafnað.

Með bréfi 17. febrúar 2005 óskaði kærði eftir upplýsingum um kæranda. Kom fram að til þess að unnt væri að meta verktaka, gera sér betur grein fyrir stöðu hans og möguleika á að framkvæma umrætt verk væri óskað eftir staðfestum upplýsingum um fjárhag og veltu fyrirtækisins undanfarin tvö ár, skrá yfir helstu verk og lýsingu á reynslu fyrirtækisins í sambærilegum verkum.

Kærandi svaraði bréfi kærða með bréfi, dags. 25. febrúar 2005. Kom þar fram að umbeðin gögn væru send og upplýsingarnar reifaðar í bréfinu.

Kærði tilkynnti kæranda með bréfi, dags. 2. mars. 2005, að við nánari skoðun á þeim skipakosti, sem kærandi tiltók í tilboði sínu, hafi komið í ljós að hann stæðist ekki þær kröfur sem settar hafi verið fram í útboðslýsingu. Tilboðinu væri því hafnað.

Kærði tilkynnti svo að Sjóferðir Hafsteins og Kiddýjar ehf. ættu að veita umbeðna þjónustu á grundvelli útboðsins. Kærandi kærði þá ákvörðun til kærunefndar útboðsmála með bréfi 25. mars 2005. Kærði útskýrði sjónarmið sín með bréfi, dags. 13. apríl 2005 og kærandi gerði athugasemdir við sjónarmið kærða með bréfi, dags. 28. apríl 2005.

II.

Kærði byggir kröfur sínar á því að hann hafi verið lægstbjóðandi eftir að tilboði þess aðila sem upphaflega hafi verið lægstbjóðandi hafði verið hafnað af hálfu kærða. Bent sé á að þegar útboð hafi verið haldið á vegum kærða árið 2000 með sömu kröfum um skipakost þá hafi sá aðili fengið verkið sem boðið hafi bátinn Sæfugl sem kærandi hafi boðið fram nú.

Þá sé ómögulegt að ráða af bréfi Einars Hermannssonar um menntun hans og þar af leiðandi sé ekki unnt að taka mark á bréfi hans til kæranda.

III.

Kærði byggir kröfur sínar á bréfi Siglingastofnunar, dags. 28. febrúar 2005 og álitsgerð Einars Hermannssonar skipaverkfræðings, dags. 1. mars 2005 um framboðinn skipakost kæranda. Kærandi hafi boðið skipið Sæfugl. Í bréfi Siglingastofnunar segi að miðað við upphaflega gerð Sæfulgls sé gert ráð fyrir 1,7 tonna hleðslu og að bátsverjar séu ekki fleiri en sex. Síðan hafi skipið verið lengt um 1,2 metra en gögn um burðargetu liggi ekki fyrir. Í álitsgerð Einars komi fram að Sæfugl uppfylli ekki kröfur til að mega sigla með farþega til Bolungarvíkur en reyndar uppfylli ekkert framboðinna skipa í útboðinu það skilyrði. Þá komi fram í álitsgerð Einars að þrátt fyrir að tekið yrði tillit til lengingar Sæfugls þá uppfylli skipið ekki kröfur útboðslýsingar um flutningsgetu. Eftir breytingar á skipinu hafi ekki farið fram hleðslupróf og engin stöðugleikagögn liggi fyrir vegna skipsins.

Í áliti Einars Hermannssonar komi fram að Sæfugl sé opið skip en ekki þilfarsskip. Þilfarsskip sé mun öruggari skipakostur. Ennfremur hafi opið skip þann ókost að flytja verður farm á dekki en ekki í lest.

Þó Sæfugl hafi eitt sinn verið samþykktur í sams konar útboði frá árinu 2000 þá hafi það ekki þýðingu. Þá hafi skipið verið eini framboðni kosturinn og því hafi kærði ekki átt annarra kosta völ en að fallast á að notkun skipsins. Ekki hafi þó verið gert að skilyrði að notað yrði þilfarsskip þar sem vitað hafi verið að ekki væri um margra kosta völ að ræða..

Tilboð kæranda hafi því ekki uppfyllt skilyrði útboðslýsingar hvað snerti framboðið skip og því hafi tilboð kæranda verið ógilt. Kærða hafi því verið rétt að hafna tilboði kæranda með vísan til 49. gr., sbr. 31. gr. laga um opinber innkaup nr. 94/2001.

Verði ekki fallist á að hafna hafi mátt tilboði kæranda er þess krafist að hafnað verði kröfu um viðurkenningu á bótaskyldu. Kærandi hafi ekki átt lægst tilboð í útboðinu heldur Henry Bæringsson með skipið Önnu.

IV.

Kærandi gerir í málinu kröfu um að ákvörðun kærða um að hafna tilboði hans verði ógilt. Kærði hafnaði tilboði kæranda með bréfi, dags. 2. mars 2005, þar sem skipakostur kæranda hafi ekki staðist þær kröfur sem fram hafi komið í útboðslýsingu. Kærði valdi skipið Blika IV til að annast þá þjónustu sem um ræðir. Óumdeilt er að kærandi var með næstlægsta tilboð í útboðinu og lægsta tilboð eftir að tilboði Henrys Bæringssonar hafði verið vísað frá.

Í útboðslýsingu kom m.a. fram í 8. gr. að skip og áhöfn skyldu ávallt uppfylla reglur Siglingastofnunar. Þá kom fram í sama ákvæði að skip yrði að geta borið a.m.k. 2 tonn af varningi og auk þess a.m.k. 10 farþega í sæti innan skips. Í bréfi Siglingastofnunar, dags. 28. febrúar 2005, kom m.a. fram að skipið Sæfugl, sem kærandi hugðist nota, hafi verið smíðað 1986. Það hafi haft leyfi til farþegaflutninga á stuttum leiðum og verið notað sem slíkt yfir sumarið að undaförnu. Gert væri ráð fyrir 1,7 tonna hleðslu skipsins og að bátsverjar séu ekki fleiri en sex. Síðan hafi skipið verið lengt um 1,2 metra, en til að hægt sé að meta burðargetu þess nú þurfi að hleðsluprófa skipið. Gögn um stöðugleika liggi ekki fyrir.

Af fyrirliggjandi gögnum verður ekki ráðið að kærandi hafi getað sýnt fram á að hann uppfyllti skilyrði útboðsgagna um að útvega skip sem gæti borið 2 tonn af varningi og auk þess a.m.k. 10 farþega í sæti. Þá hefur kærandi ekki getað sýnt fram á það með óyggjandi hætti að hann uppfyllti reglur Siglingastofnunar svo sem áskilið var í útboðsgögnum. Þá fær kærunefnd útboðsmála ekki annað séð en að það skip sem varð fyrir valinu, henti í flesta staði mun betur til að veita þá þjónustu sem um ræðir. Játa verður kærða nokkuð svigrúm við mat á því hvaða skip teljist hentug hverju sinni en hann verður að tilgreina forsendur fyrir vali sínu í útboðsgögnum, sbr. 50. gr., sbr. einnig 26. gr. laga um opinber innkaup. Kærði hefur uppfyllt þær skyldur sínar nægilega að mati kærunefndarinnar. Við val á bjóðanda skal einungis litið til gildra tilboða samkvæmt 49. gr. laga um opinber innkaup.

Þar eð tilboð kæranda fór í nokkrum þýðingarmiklum atriðum gegn útboðsgögnum er það niðurstaða kærunefndarinnar að lagaskilyrði hafi verið til að vísa tilboði kæranda frá. Verður því að hafna kröfum hans í málinu.

Úrskurðarorð:

Kröfum kæranda, Jónasar Helgasonar, vegna útboðs kærða, Vegagerðarinnar, auðkennt sem „ Vigur-Æðey 2005-2010", er hafnað.

Reykjavík, 25. maí 2005.

Páll Sigurðsson

Stanley Pálsson

Sigfús Jónsson

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík, 25. maí 2005.

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum