Hoppa yfir valmynd
3. mars 2005 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 14/2004. Úrskurður kærunefndar útboðsmála:

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 3. mars 2005

í máli nr. 14/2004:

MT Bílar ehf.

gegn

Brunavörnum Árnessýslu

Með bréfi 26. mars 2004, sem barst kærunefnd útboðsmála sama dag, kæra MT Bílar ehf. samþykkt stjórnar Brunavarna Árnessýslu (BÁ) frá mánudeginum 15. mars 2004 svohljóðandi: „Samþykkt er að ganga til samninga við Eldvarnarmiðstöðina um kaup á slökkvibílum fyrir útstöðvar BÁ".

Kærandi krefst þess með vísan til 81. gr. laga nr. 94/2001 að kærunefnd útboðsmála leggi fyrir BÁ að bjóða út kaup á slökkvibifreiðum sem ákvörðun hefur verið tekin um að kaupa til BÁ í samræmi við ákvæði laga nr. 94/2001 og annarra reglna.

Til vara krefst kærandi að kærunefnd útboðsmála leggi fyrir kærða að ganga til samninga við kæranda um kaup á slökkvibifreiðum í samræmi við verðupplýsingar kæranda á slökkvibifreiðum.

Ennfremur krefst kærandi að kærunefnd útboðsmála ákveði að kærði greiði kæranda kostnað við að hafa kæruna uppi, sbr. 3. mgr. 81. gr. laga nr. 94/2001.

Kærandi krafðist í máli þessu stöðvunar samningsgerðar, sbr. heimildir kærunefndar útboðsmála samkvæmt 80. gr. laga um opinber innkaup nr. 94/2001. Kærunefnd útboðsmála tók afstöðu til þeirrar kröfu með ákvörðun 16. apríl 2004. Í ákvörðun nefndarinar var fallist á kröfu um stöðvun samningsgerðar um stundarsakir m.a. með svofelldum rökstuðningi:

Samkvæmt 3. mgr. 1. gr. reglugerðar um viðmiðunarfjárhæðir vegna opinberra kaupa á Evrópska efnhagssvæðinu o.s.frv. nr. 1012/2003 er viðmiðunarfjárhæð vörukaupa sveitarfélaga, stofnana þeirra og annarra opinberra aðila á þeirra vegum kr. 20.649.757,-. Af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að fyrirhuguð innkaup miði við kaup á tveimur slökkvibifreiðum. Ennfremur verður ráðið að fjárhæð innkaupanna séu yfir framangreindri viðmiðunarfjárhæð. Verður því að telja verulegar líkur á því að innkaupin séu útboðsskyld. Með vísan til framangreinds þykja nægileg efni til að verða við kröfu kæranda um að stöðva samningsgerð Brunavarna Árnessýslu í framhaldi af verðkönnun á slökkvibílum.

I.

Í nóvember 2003 óskaði kærði eftir verðhugmyndum frá nokkrum aðilum, m.a. kæranda, að tveimur slökkvibílum.

Með bréfi, dags. 15. mars 2004, tilkynnti kærði kæranda að stjórn kærða hefði samþykkt að ganga til samninga við Eldvarnarmiðstöðina um kaup á slökkvibílum. Kærandi kærði í kjölfarið málsmeðferðina til kærunefndar útboðsmála, sbr. bréf, dags. 26. mars 2004. Var þar m.a. krafist stöðvunar samningsgerðar við Eldvarnarmiðstöðina. Með ákvörðun 16. apríl 2004 féllst kærunefndin á þá kröfu svo sem fyrr er getið.

Með bréfi lögmanns kærða, dags. 7. maí 2004, var kærunefnd útboðsmála tilkynnt að á fundi kærða 5. maí það ár hafi verið samþykkt að falla frá stjórnarsamþykkt 15. mars um að ganga til samninga um kaup á slökkvibílum. Af kaupum á slökkvibílum fyrir kærða yrði því ekki að þessu sinni.

II.

Kærandi byggir aðalkröfu sína á því að miðað við fyrirliggjandi upplýsingar á slökkvibílum sé ljóst að ákvörðun kærða um kaup á tveimur slökkvibílum sé yfir viðmiðunarfjárhæðum, sem ráðherra birti í reglugerð nr. 1012/2003. Raunar eigi að líta til reglugerðar nr. 513/2001, en þar séu viðmiðunarfjárhæðir enn lægri en í yngri reglugerð.

Verðkönnun kærða geti ekki hafa talist fullnægja skyldu um útboð, enda hafi skort þar nokkuð á að skilyrðum þar að lútandi hafi verið fullnægt. Ekki sé hægt að standa að opinberum innkaupum með duldum útboðum. Kærandi leggi áherslu á að hann telji kærða ekki heimilt að hætta við kaup á tveimur slökkvibílum til að skipta kaupunum upp í áfanga sem yrðu ódýrari en svo að hvor bíll um sig yrði undir viðmiðunarmörkum. Slíkt sé í andstöðu við opinber útboð á Íslandi sem og innan alls Evrópska efnhagssvæðisins.

Varakröfu sína segist kærandi setja fram ef kærunefndin kæmist að þeirri niðurstöðu að verðkönnun kærða hafi verið svo ítarleg að öldungis mætti jafna henni við útboð og hún skyldi standa sem slík. Bifreið af Iveco gerð sem kærandi hafi bent á í gögnum sínum sé á hagstæðara verði en bifreið sem Eldvarnarmiðstöðin hafi bent á í sínum gögnum. Þá fullnægi Iveco bifreiðin kröfum kærða.

Krafa um kærumálskostnað kveður kærandi styðjast við 3. mgr. 81. gr. laga um opinber innkaup. Málatilbúnaður kærða sé allur með þeim hætti að óhjákvæmilegt hafi verið að kæra samþykkt stjórnarinnar. Rík nauðsyn hafi verið að fela lögmanni hagsmunagæslu fyrir kæranda.

III.

Kærði byggir á því að þær hafi um nokkurt skeið haft hug á að kaupa slökkvibíla fyrir útstöðvar sínar. Ræddir hafi verið ýmsir möguleikar um hvernig væri hægt að útvega búnað sem hentaði og hafi meðal annars verið skoðað að kaupa notaða bílgrind og bjóða út yfirbyggingu á hana eða kaupa notaðan eða nýjan bíl, einn eða fleiri. Vegna þessarar óvissu hafi verið ákveðið að afla verðupplýsinga hjá nokkrum aðilum, þ.á m. kæranda. Tilgangur verðkönnunarinnar hafi verið að auðvelda stjórn kærða að taka ákvörðun um hvaða tegund af bifreið þær nákvæmlega væru að leita að en verð bifreiðarinnar hafi skipt verulegu máli. Þegar svör hafi borist hafi komið í ljós að einungis einn aðila hafi svarað fyrirspurninni með fullnægjandi hætti. Sá aðili hafi verið Eldvarnarmiðstöðin og hafi verið farið í nánari viðræður við þann aðila.

Samkvæmt samantekt Verkfræðistofu Suðurlands á verðkönnuninni, sem gerð hafi verið að beiðni kærða, hafi verið ýmsir fyrirvarar í tilboði kæranda sem hafi gert það að verkjum að ekki hafi verið hægt að greina hvert endanlegt verð bílanna yrði.

Ályktun kæranda um að verðkönnunin kunni að hafa verið svo ítarlegt að jafna megi við útboð, eins og varakrafa kæranda byggi á, sé á engum rökum reist, enda hafi forsvarsmenn kærða ekki einu sinni sjálfir verið búnir að gera upp hug sinn hvort og þá hvers konar bíll kæmi til greina. Tilgangur verðkönnunarinnar hafi verið að kanna hvaða tegund bifreiða hægt væri að fá hérlendis, hver kostnaður væri við grindina og hvað slökkvibúnaður myndi kosta. Ekkert útboð hafi átt sér stað, einungis verðkönnun sem ekki sé bindandi fyrir neinn aðila.

Þegar niðurstöður hafi legið fyrir þá hafi það verið álit Verkfræðistofu Suðurlands að Eldvarnarmiðstöðin gæti boðið upp á bestu kjör varðandi kaup á nýjum slökkvibílum. Samt sem áður hafi ekki verið tekin nein ákvörðun um kaup á bílunum. Mótmælt sé að líta eigi til reglugerðar nr. 513/2001 um viðmiðunarfjárhæðir. Miða eigi við reglugerð nr. 1012/2003 til að ákveða hvort útboðs sé þörf. Eftir verðkönnunina hafi kærði loks haft forsendur til að ákveða hvaða búnað þær vilji fá.

Eftir að kærði tilkynnti að fallið væri frá þeirri ákvörðun að kaupa tvo slökkviliðsbíla byggði hann á því að kærandi hefði ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn krafna sinna.

IV.

Ágreiningur máls þessa er um lögmæti verðkönnunar sem kærði framkvæmdi í lok árs 2003 og byrjun árs 2004. Með bókun á stjórnarfundi kærða 15. mars 2004 var samþykkt að ganga til samninga við Eldvarnarmiðstöðina um kaup á slökkvibílum fyrir útstöðvar kærðu. Er því hafið yfir allan vafa að af hálfu kærða stóð til að ganga til samninga á grundvelli verðkönnunarinnar. Kærunefnd útboðsmála telur það hafa þýðingu fyrir úrlausn málsins, hvort sú ákvörðun að ætla að ganga til samninga við Eldvarnarmiðstöðina hafi verið ólögmæt eður ei. Um útboðsskyld verk fer eftir 3. þætti, sbr. einkum IX. kafla, laga um opinber innkaup nr. 94/2001. Kemur fram í 1. mgr. 56. gr. laganna að ákvæði 3. þáttar laganna gildi um opinber innkaup yfir viðmiðunarfjárhæðum sem ráðherra birti í reglugerð í samræmi við tilskipun ráðherraráðsins nr. 92/50/EBE frá 18. júní 1992 um samræmingu reglna um útboð og gerð samninga um kaup á þjónustu, tilskipun ráðherraráðsins nr. 93/36/EBE frá 14. júní 1993 um samræmingu reglna um útboð og gerð opinberra samninga um vörukaup og tilskipun ráðherraráðsins nr. 93/37/EBE frá 14. júní 1993 um samræmingu reglna um útboð og gerð opinberra verksamninga, eins og þessum tilskipunum kann síðar að hafa verið breytt og þær teknar upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Þá kemur fram í ákvæðinu að í reglugerð skuli birta aðrar viðmiðunarfjárhæðir sem máli skipta fyrir framkvæmd opinberra innkaupa á Evrópska efnahagssvæðinu, svo sem viðmiðunarfjárhæðir heildarinnkaupa. Um viðmiðunarfjárhæðir hefur verið sett reglugerð nr. 1012/2003. Áður gilti reglugerð nr. 513/2001. Er ágreiningur milli aðila hvor reglugerðin gilti við framangreinda ákvörðun kærðu. Kærunefndin telur að það hafi ekki þýðingu fyrir úrlausn málsins hvor reglugerðin hafi verið í gildi. Þau kaup sem fyrirhugað var að gera, voru yfir viðmiðunarfjárhæðum beggja reglugerða. Þar eð kaupin voru yfir viðmiðunarfjárhæðunum telur nefndin að kærða hafi borið að bjóða þau út á grundvelli 3. þáttar laga um opinber innkaup. Það er því mat nefndarinnar, að fyrirhuguð ákvörðun um að ganga til samninga við einn tiltekinn aðila á grundvelli verðkönnunarinnar hafi verið ólögmæt og í andstöðu við lög um opinber innkaup.

Kærandi gerir þá aðalkröfu í málinu með vísan til 81. gr. laga nr. 94/2001 að kærunefnd útboðsmála leggi fyrir BÁ að bjóða út kaup á slökkvibifreiðum sem ákvörðun hefur verið tekin um að kaupa til BÁ í samræmi við ákvæði laga nr. 94/2001 og annarra reglna. Varakrafa kæranda er að kærunefnd útboðsmála leggi fyrir kærða að ganga til samninga við kæranda um kaup á slökkvibifreiðum í samræmi við verðupplýsingar kæranda á slökkvibifreiðum. Fyrir liggur að kærði hætti við kaup á slökkvibílum í kjölfar umdeildrar verðkönnunar. Telja verður að honum hafi verið í sjálfsvald sett að draga fyrirhuguð kaup sín til baka. Var sú ákvörðun kærða á hans ábyrgð og getur hún leitt til ábyrgðar hans að lögum gagnvart þeim þátttakendum sem telja að á sig hafi verið hallað, þ.á m. kæranda sem hefur borið málið undir kærunefnd útboðsmála. Það breytir því ekki að kærunefndin gat ekki og getur ekki að lögum þvingað kærða til að halda ferlinu áfram. Í ljósi framgangs kærða eftir verðkönnunina verður því að hafna þessum kröfum kæranda.

Kærandi hefur ekki krafist þess að kærunefnd útboðsmála láti í ljós álit sitt á skaðabótaskyldu kærða gagnvart sér. Hins vegar hefur kærandi gert þá kröfu að kærunefnd útboðsmála ákveði að kærði greiði kæranda kostnað við að hafa kæruna uppi, sbr. 3. mgr. 81. gr. laga nr. 94/2001. Að framangreindu virtu um að ólögmætt hafi verið að ætla að ganga til samninga við Eldvarnarmiðstöðina og að teknu tillliti til allra gagna málsins er það mat kærunefndar útboðsmála að kærða beri að greiða kæranda kostnað við að hafa kæruna uppi. Kærandi hefur lagt fram gögn um kostnað sinn vegna málsins á tilteknum tímapunkti. Er um að ræða tímaskýrslu lögmanns kæranda. Eftir það tímamark má gera ráð fyrir að nokkur vinna hafi bæst við. Að virtu umfangi málsins ákveðst að kærði greiði kæranda kr. 250.000,- í kostnað við að hafa kæruna uppi. Hefur þá ekki verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Beðist er velvirðingar á því hve dregist hefur að kveða upp úrskurð í máli þessu.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda, MT-bíla ehf. um að kærunefnd útboðsmála leggi fyrir kærða, Brunavarnir Árnessýslu, að bjóða út kaup á slökkvibifreiðum er hafnað.

Kröfu kæranda um að kærunefnd útboðsmála leggi fyrir kærða að ganga til samninga við kæranda um kaup á slökkvibifreiðum í samræmi við verðupplýsingar kæranda á slökkvibifreiðum er hafnað.

Kærði greiði kæranda kr. 250.000,- í kostnað við að hafa kæruna uppi. Hefur þá ekki verið tekið tilliti til virðisaukaskatts.

Reykjavík, 3. mars 2005.

Páll Sigurðsson

Stanley Pálsson

Sigfús Jónsson

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík, 3. mars 2005



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum