Hoppa yfir valmynd
4. nóvember 2004 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 41/2004. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 4. nóvember 2004

í máli nr. 41/2004:

Securitas hf.

gegn

Innkaupastofnun Reykjavíkurborgar

Með bréfi dagsettu 22. október 2004, sem barst kærunefnd útboðsmála sama dag, kærir Securitas hf., útboð nr. 10365, auðkennt sem „Öryggisgæsla."

Kærandi gerir eftirfarandi kröfur í málinu:

  1. Að samningsgerð verði stöðvuð um stundarsakir.
  2. Að lagt verði fyrir kærða að auglýsa útboðið á nýjan leik.
  3. Að kærunefnd útboðsmála láti í ljós álit sitt á skaðabótaskyldu og fjalli um grundvöll skaðabóta.
  4. Í öllum tilvikum er gerð krafa um kostnað við að hafa kæruna uppi.

Kærði krefst þess að hafnað verði kröfum kæranda.

I.

Í júlí 2004 óskaði Innkaupastofnun Innkaupastofnun Reykjavíkurborgar f.h. Reykjavíkurborgar eftir tilboðum í öryggisgæslu fyrir stofnanir Reykjavíkurborgar. Útboðsformið var opið (almennt) útboð og tilboðsfrestur var til 30. ágúst 2004. Kærandi skilaði inn tilboði og var með hærra tilboð af tveimur bjóðendum.

Vegna meintra annmarka á útboðsgögnum skilaði kærandi inn kæru til nefndarinnar með bréfi, dags. 22. október sl.

II.

Kærandi byggir stöðvunarkröfu sína á því að verulegir annmarkar hafi verið á formlegri framkvæmd útboðsins. Þannig telji kærandi að brotið hafi verið gegn innkaupalögum og almennum reglum útboðsréttarins um að setja fram eðlileg tilboð. Kærandi byggir á því að samkvæmt grein 4.4 útboðslýsingar hafi heildartími farandgæslu átt að vera mældur í klukkustundum. Í tilboðsskrá hafi heildartími farangæslu hins vegar verið reiknaður í mínútum. Heildarfjöldi áætlaðra mínúta hafi verið ranlega reiknaður í tilboðsskrá. Gleymst hafi að margfalda uppgefnar mínútur með dagafjölda sem hafi gert það að verkum að uppgefnar magntölur hafi verið 9600 en með réttu átt að vera nærri 300.000.

Kærandi bendir á að nauðsynlegt sé að koma í veg fyrir að gengið verði til samninga við annan bjóðanda á grundvelli ólögmæts útboðs. Á þessum forsendum geri kærandi þá kröfu að samningsgerð verði stöðvuð með vísan til 80. gr. laga um opinber innkaup.

III.

Kærði hafnar kröfum kæranda. Hvað varði stöðvunarkröfuna sérstaklega tekur kærði fram að í ákvæði 80. gr. laga nr. 94/2001 sé kærunefnd veitt heimild til að stöðva útboð þar til endanlega hafi verið skorið úr kæru. Skilyrði fyrir beitingu heimildarinnar sé að verulegar líkur séu á því að brotið hafi verið gegn lögunum eða reglum settum samkvæmt þeim. Þá komi fram í athugasemdum í greinargerð um frumvarpsgreinina að unnt sé að grípa til þess þegar frestun ákvörðunar hefði í för með sér hættu á réttarspjöllum fyrir kæranda, til dæmis vegna þess að kaupandi hefði í hyggju að ganga til samninga innan skamms tíma. Í því máli sem hér um ræðir liggi endanleg ákvörðun kaupanda varðandi val á tilboðum ekki fyrir og fyrirséð að slík ákvörðun verði ekki tekin á næstunni. Sé þannig ekki fyrir hendi sú hætta sem lögin áskilja að þurfa að vera til staðar, þ.e. hætta á réttarspjöllum fyrir kæranda. Þegar af þeirri ástæðu telji kærði að hafna beri kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar.

IV.

Kærunefnd útboðsmála telur rétt að taka afstöðu til fram kominnar stöðvunarkröfu kæranda en leysa endanlega úr efnisatriðum kærunnar síðar. Samkvæmt 1. mgr. 80. gr. laga um opinber innkaup hefur kærunefnd útboðsmála heimild til að stöðva samningsgerð þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru. Hagsmunir kæranda af því að samningsgerð verði stöðvuð eru miklir, enda verður aðeins í fáum undantekningum samningur ógildur þegar hann er kominn á og ekki á vettvangi kærunefndar útboðsmála, sbr. 83. gr. laganna. Kærði byggir á því að ekki sé fyrirséð að ákvörðun um val á kaupanda verði tekin á næstunni. Að mati kærunefndar útboðsmála hefur það ekki þýðingu við úrlausn máls þessa. Kann því að vera að kærandi yrði fyrir réttarspjöllum yrði ákvörðun nefndarinnar dregin frekar.

Fallast verður á þá skýringu kæranda að kærði hafi gert mistök í tilboðsskrá vegna farandgæslu og ekki gert ráð fyrir réttum mínútufjölda, sem heildarverð skyldi taka mið af. Verður að telja mjög líklegt að þessi mistök hafi raskað grundvelli útboðsins í verulegum mæli þar sem forsendur tilboða, m.a. kæranda, hafi verið brostnar þegar mistökin komu í ljós. Skýrleiki útboðsgagna var því ófullnægjandi að mati kærunefndar útbboðsmála, sbr. V. kafli laga um opinber innkaup, einkum 23. gr. laganna. Er samkvæmt framansögðu fallist á kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar þar til endanlega hefur verið leyst úr kæruefnum málsins.

Ákvörðunarorð:

Samningsgerð vegna útboðs Reykjavíkurborgar nr. 10365, auðkennt sem „Öryggisgæsla", er stöðvuð þar til endanlega hefur verið leyst úr kæru Securitas hf.

Reykjavík, 4. nóvember 2004.

Páll Sigurðsson

Sigfús Jónsson

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík, 4. nóvember 2004.

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum