Hoppa yfir valmynd
17. október 2003 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 33/2003. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 17. október 2003

í máli nr. 33/2003:

Grundarfjarðarbær

gegn

Byggðastofnun og

Ríkiskaupum

Með bréfi, dags. 3. október 2003 óskar Grundarfjarðarbær eftir því, að kærunefnd útboðsmála úrskurði um lögmæti samkeppni sem Byggðastofnun hélt um rafrænt samfélag.

Kærandi krefst þess aðallega:

1. að kærunefndin kveði á um, með heimild í 1. mgr. 80. gr. laga nr. 94/2001, að framkvæmd keppninnar og samningagerð verði stöðvuð þegar í stað uns endanlega hefur verið skorið úr ágreiningsatriðum samkvæmt kæru þessari.

2. að kærunefndin kveði á um, með heimild í 1. mgr. 81. gr. laga nr. 94/2001, að ákvörðun kaupanda um að ganga til samninga um verkefnið Rafrænt samfélag við annars vegar sveitarfélögin Árborg, Hveragerði og Ölfus undir verkefnaheitinu Sunnan 3 og hins vegar sveitarfélögin Aðaldælahrepp, Húsavíkurbæ og Þingeyjarsveit undir verkefnaheitinu Virkjum alla verði ógilt. Jafnframt að lagt verði fyrir kaupanda að auglýsa nýjan frest fyrir fjóra þátttakendur, er valdir voru í forvali, til að skila inn umsóknum er metnar verði á grundvelli valmælikvarða frá 6. maí 2003.

3. að kærunefndin kveði á um, með heimild í 2. mgr. 81. gr. laga nr. 94/2001, að kærandi eigi rétt til skaðabóta fyrir að undirbúa umsókn vegna keppninnar.

4. að kærunefndin úrskurði, með heimild í 3. mgr. 81. gr. laga nr. 94/2001 að Ríkiskaup og/eða fjármálaráðherra verði gert að greiða honum kostnað við að hafa uppi kæru þessa.

Til vara gerir kærandi eftirfarandi kröfur:

1. að kærunefndin kveði á um, með heimild í 1. mgr. 80. gr. laga nr. 94/2001, að framkvæmd keppninnar og samningagerð verði stöðvuð þegar í stað uns endanlega hefur verið skorið úr ágreiningsatriðum samkvæmt kæru þessari.

2. kærunefndin kveði á um, með heimild í 1. mgr. 81. gr. laga nr. 94/2001, að ákvörðun kaupanda um að ganga til samninga um verkefnið Rafrænt samfélag við annars vegar sveitarfélögin Árborg, Hveragerði og Ölfus undir verkefnaheitinu Sunnan 3 og hins vegar sveitarfélögin Aðaldælahrepp, Húsavíkurbæ og Þingeyjarsveit undir verkefnaheitinu Virkjum alla verði ógilt.

3. Að kærunefndin úrskurði, með heimild í 3. mgr. 81. gr. laga nr. 94/2001, að kaupanda verði gert að greiða honum kostnað við að hafa uppi kæru þessa.

Ríkiskaupum var gefinn kostur á að gefa sínum sjónarmiðum á framfæri. Með bréfi dagsettu 17. október 2003 sendi kærði bréf til kærunefndar útboðsmála og krafðist þess að hafna bæri kröfu kæranda.

Kærandi krefst þess m.a. í máli þessu, að framkvæmd hinnar kærðu samkeppni og samningagerð verði stöðvuð uns endanlega hefur verið skorið úr ágreiningsatriðum samkvæmt kæru hans. Verður hér fjallað um kröfu þessa en fjallað um aðra þætti málsins á síðari stigum.

Samkvæmt 1. mgr. 80. gr. laga nr. 94/2001 um opinber innkaup getur kærunefnd útboðsmála, að kröfu kæranda, stöðvað útboð eða gerð samnings þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru. Skilyrði beitingar þessa úrræðis er samkvæmt ákvæðinu, að verulegar líkur séu á því að brotið hafi verið gegn lögum um opinber innkaup eða reglum settum samkvæmt þeim. Af fyrirliggjandi gögnum telur kærunefnd útboðsmála framangreindu skilyrði 1. mgr. 80. gr. laga um opinber innkaup ekki fullnægt svo að unnt sé að taka til greina kröfu kæranda um að stöðva framkvæmd hinnar kærðu keppni og samningagerð vegna hennar. Af þessum ástæðum verður að hafna kröfunni.

Ákvörðunarorð:

Kröfu Grundarfjarðarbæjar, um að framkvæmd samkeppni Byggðastofnunar um rafræna samkeppni verði stöðvuð, er hafnað.

Páll Sigurðsson

Sigfús Jónsson

Stanley Pálsson

Rétt endurrit staðfestir,

17. október 2003

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum