Hoppa yfir valmynd
22. nóvember 2002 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 21/2002. Úrskurður kærunefndar:

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 22. nóvember 2002


í máli nr. 21/2002:


Thorarensen-Lyf hf.


gegn


Ríkiskaupum.


Með bréfi 28. ágúst 2002, sem barst kærunefnd útboðsmála 29. sama mánaðar, kærir Thorarensen-Lyf hf. útboð Ríkiskaupa nr. 12965 auðkennt Automated Haematology Analysers" (blóðkornateljarar) sem fram fór fyrir hönd Landsspítala Háskólasjúkrahúss.


Kærandi krefst þess að viðurkennt verði að ákvörðun kærða um að taka tilboði Pharmaco hf. hafi verið ólögmæt og jafnframt verði látið uppi álit á skaðabótaskyldu kærða.


Kærði krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað.


I.


Með hinu kærða útboði óskaði kærði eftir kaupum á fjórum blóðkornateljurum auk hvarfaefna og rekstrarvörum, eins og nánar greinir í útboðsgögnum. Tvennskonar tilboða var óskað og skyldi annað (tender type 2) m.a. taka mið af hvarfefnum og öðrum rekstrarvörum í fimm ár. Samkvæmt lið 1.13 í útboðsgögnum skyldi val tilboðs grundvallast að 60% leyti á læknisfræðilegum og tæknilegum eiginleikum, þ. á m. þjónustu og kennslu seljanda (clinical and technical merit including vendor service and support), og að 40% leyti á verði (total price for tender type 1).


Samkvæmt því sem greinir í kæru átti kærandi lægstu gildu tilboð í útboðinu, þ.e. 38.500.390 krónur (tilboð A með hvarfefnum) og 33.451.752 krónur (tilboð B með hvarfefnum). Kærði ákvað hins vegar að taka tilboði frá Pharmaco hf. að fjárhæð 53.500.968 krónur (með hvarfefnum). Kæranda var tilkynnt þessi niðurstaða með símbréfi 19. júlí 2002. Hann fór fram á rökstuðning fyrir ákvörðun kærða 22. sama mánaðar og ítrekaði þá kröfu 29. sama mánaðar. Rökstuðningur kærða barst 31. sama mánaðar auk þess sem vibótargögn bárust frá kærða eftir beiðni kæranda 8. ágúst 2002.


Kærandi gerir ítarlegar athugasemdir við einkunnagjöf kærða. Sérstaklega vekur hann athygli á því að einkunnagjöf hafi verið hagað þannig að um 60% verðmunur hafi skipt nánast engu máli. Að því er varðar formhlið málsins bendir kærandi á að dregist hafi að kærði rökstyddi ákvörðun sína um val tilboðs. Kærandi hafi ekki haft neinar forsendur til þess að meta lögmæti ákvörðunar kærða fyrr en að fengnum þessum rökstuðningi. Því beri að miða frest til kæru við það þegar rökstuðningur fyrir umræddri ákvörðun barst, en ekki við tilkynninguna 19. júlí 2002.


II.


Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga nr. 94/2001 um opinber innkaup skal kæra borin skriflega undir kærunefnd útboðsmála innan fjögurra vikna frá því kærandi vissi eða mátti vita um ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem hann telur brjóta gegn réttindum sínum. Í 3. gr. starfsreglna kærunefndar útboðsmála nr. 982/2001 kemur fram að umræddur frestur miðist við móttökudag hjá skrifstofu nefndarinnar eða póstlagningardag kæru.


Í máli þessu liggur fyrir að kæranda var tilkynnt ákvörðun um val tilboðs með símbréfi 19. júlí 2002. Samkvæmt ótvíræðum orðum 1. mgr. 78. gr. laga nr. 94/2001 bar honum að bera kæru undir nefndina inna fjögurra vikna frá þeim degi. Getur það ekki haggað þessari niðurstöðu að rökstuðningur kaupanda er almennt mikilvægur við mat á því hvort efni séu til að bera mál undir nefndina, en rökstuðningur kærða vegna framangreinds útboðs barst ekki fyrr en 31. júlí 2002 og 8. ágúst sama árs. Eins og áður greinir er kæra dagsett 28. ágúst 2002. Samkvæmt þessu verður ekki hjá því komist að hafna kröfum kæranda án þess að tekin sé efnisleg afstaða til málsins.


Úrskurðarorð :


Kröfum kæranda, Thorarensen-Lyfja hf. vegna útboðs Ríkiskaupa nr. 12965 auðkennt Automated Haematology Analysers" (blóðkornateljarar) er hafnað.



Reykjavík, 22. nóvember 2002.


Páll Sigurðsson


Sigfús Jónsson


Stanley Pálsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum