Hoppa yfir valmynd
20. júní 2002 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 12/2002. Ákvörðun kærunefndar

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 20. júní 2002

í máli nr. 12/2002:

Ístak hf. og

Nýsir hf.

gegn

Ríkiskaupum.

Með bréfi 10. júní 2002, sem barst kærunefnd útboðsmála sama dag, kæra Ístak hf. og Nýsir hf. útboð Ríkiskaupa nr. 12733 auðkennt „Rannsókna- og nýsköpunarhús við Háskólann á Akureyri Einkaframkvæmd".

Kærendur krefjast þess að ákvörðun kærða um að hafna tilboði þeirri verði felld úr gildi. Jafnframt krefjast þeir þess að sú ákvörðun kærða að verða ekki við kröfu þeirra um að hafna tilboði Íslenskra aðalverktaka hf. og ISS á Íslandi hf. verði felld úr gildi. Kærendur krefjast þess einnig að fyrirhuguð samningsgerð kærða við Íslenska aðalverktaka hf. og ISS á Íslandi ehf. verði stöðvuð, en til vara að lagt verði fyrir kærða að láta nýtt mat fara fram á tilboðum. Verði ekki fallist á þetta er þess krafist að nefndin láti uppi álit á skaðabótaskyldu kærða. Kærendur krefjast þess einnig að kærði greiði þeim kostnað við að hafa kæruna uppi.

Kærða var gefinn kostur á því að tjá sig sérsaklega um hugsanlega stöðvun samningsgerðar um stundarsakir samkvæmt 80. gr. laga nr. 94/2001 um opinber innkaup með bréfi 12. júní 2002. Í athugasemdum kærða um þessa kröfu kærenda er þess krafist að henni verði alfarið hafnað.

Samkvæmt upplýsingum nefndarinnar hefur enn ekki verið gengið til samninga í framhaldi af hinu kærða útboði. Að virtum atvikum málsins telur nefndin rétt að þegar í stað sé skorið úr um kröfu kærenda um stöðvun samningsgerðar um stundarsakir.

I.

Hið kærða útboð er lokað útboð sem fram fór að undangengnu forvali í febrúar 2002. Í forvalinu tóku þátt sameiginlega annars vegar Íslenskir aðalverktakar hf. og ISS á Íslandi ehf., en hins vegar kærendur. Var báðum aðilum gefinn kostur á því að taka þátt í útboðinu. Með útboðinu óskaði kærði, fyrir hönd nefndar menntamálaráðherra um byggingu rannsóknarhúss á við Háskólann á Akureyri, eftir tilboðum, sem fælust í því að leggja til og reka svonefnt Rannsókna- og nýsköpunarhús við Háskólann á Akureyri með öllu því sem til þarf ásamt hluta stoðstarfsemi fyrir stofnanir innan þess. Nánar tiltekið skyldi bjóðandi byggja og eiga umrætt húsnæði og sjá um almennan rekstur þess, en Fasteignir ríkisins leigja húsið til 25 ára frá og með 1. október 2003. Í útboðsgögnum er tekið fram að útboðið lúti reglum Evrópska efnahagssvæðisins um útboð á þjónustu.

Samkvæmt lið 0.1.1. í útboðsgögnum skyldi við mat á tilboðum taka tillit til eftirfarandi atriða: Lausnir (húsnæði, tæknilegar lausnir o.fl.) 50%; Verð (þ.e. tilboðsfjárhæð 40%; og Þjónusta 10%. Þá segir að tilboð sem ekki uppfylli lágmarkskröfur útboðsgagna komi ekki til álita við mat og verði því hafnað. Í liðnum eru svo framangreind þrjú atriði nánar skýrð og sundurliðuð og einkunnargjöf skilgreind.

Í lið 1.0.2.1. í útboðsgögnum er fjallað um húsnæði, lóð og deiliskipulag. Þar segir m.a. að heildarhæð hússins skuli taka mið af umhverfi þess. Meginbyggingar verði 5-7 hæðir, en einstakir byggingarhlutar svo sem tengibyggingar geti orðið lægri. Þá segir að hæsti hluti húss eigi ekki að fara yfir 78 m.y.s. Kærandi heldur því fram að með þessu sé sú lágmarkskrafa sett að meginbyggingar verði 5-7 hæðir. Í tilboði Íslenskra aðalverktaka hf. og ISS á Íslandi ehf. sé hins vegar einungis gert ráð fyrir fjögurra hæða byggingu. Umrætt tilboð fullnægi því ekki lágmarksskilyrðum útboðsgagna. Þá sé tilboðið ekki gilt frávikstilboð, en frávikstilboð séu óheimil samkvæmt lið 0.0.7 í útboðslýsingu.

Tilboðum skyldi skila í tveimur umslögum, öðru með nafni bjóðanda, verði og skiptingu kostnaðar, en hinu með nafni bjóðanda og lýsingu á byggingum og ýmsum öðrum atriðum sem snertu rekstur byggingana og tæknilega og fjárhagslega getu bjóðanda. Tilboðum skyldi skila fyrir kl. 15 hinn 21. mars 2002. Í útboðsgögnum segir að fyrrgreinda umslagið skuli opna eigi síðar en 16. apríl 2002 en áður en það verði gert verði „niðurstaða úr mati á tilboðsþáttum lausna birt, sbr. kafla 0.1.1 Mat tilboða." Samkvæmt gögnum málsins mun þetta hafa verið gert 23. apríl 2002 og er ekki fram komið hvers vegna útboðsgögnum var ekki fylgt að þessu leyti.

Á áðurnefndum opnunarfundi voru niðurstöður matsnefndar kynntar og bjóðendum afhent skjal sem er auðkennt „Mat nefndar um byggingu Rannsóknarhússins á lausnum og þjónustu í tilboðum bjóðenda". Í skjalinu kemur m.a. fram að Baldur Svavarsson arkitekt hafi samið álit fyrir nefndina. Fram kemur að bjóðendur hafi kynnt tilboð sín á fundi með nefndinni og fulltrúum þeirra stofnana sem húsinu er ætlað að hýsa. Gerður hafi verið listi yfir styrkleika og veikleika hvorrar lausnar um sig. Þá segir að í matinu hafi verið leitast við að þeir þættir, sem auðvelt væri að lagfæra innan ramma útboðsgagnanna, hefðu ekki afgerandi áhrif á einkunnargjöf og hafi þetta átt jafnt við um bæði tilboðin. Gefnar hafi verið einkunnir á skalanum 1 til 10. Ef lausn hafi uppfyllt kröfu útboðskilmála hafi henni að a.m.k. verið gefin einkunnin 5,0. Hverju atriði hafi verið gefið vægi og reiknuð út vegin meðaleinkunn. Siðan hafi hærri vegna meðaleinkunnin verið hækkuð upp í 10 og sú lægri hækkuð um sama hlutfall í samræmi við útboðsgögn. Samkvæmt þessu var niðurstaða nefndarinnar sú að tilboð Íslenskra aðalverktaka hf. og ISS á Íslandi ehf. væri betri hvað varðaði lausnir og þjónustu. Fékk tilboðið þannig í heild 8,3 fyrir lausnir og 7,4 fyrir þjónustu, en tilboð kærenda 6,5 fyrir lausnir og 6,8 fyrir þjónustu. Samkvæmt þessu var niðurstaðan sú að tilboð Íslenskra aðalverktaka hf. og ISS á Íslandi ehf. fékk 10 fyrir lausnir og þjónustu en tilboð kærenda 7,8 og 9,1.

Eins og áður greinir studdist umrædd nefnd m.a. við greinargerð Baldurs Ó. Svavarssonar arkitekts dags. 22. apríl 2002. Í greinargerðinni kemur fram að ekki hafi sérstaklega verið athugað hvort kröfur um stærðir og samhengi einstakra rýma hafi verið uppfylltar. Í greinargerðinni kemur fram jákvæð afstaða til þeirrar tillögu Íslenskra aðalverktaka hf. og ISS á Íslandi ehf. að byggingar verði fjórar hæðir. Þá kemur fram að með sex hæða turnbyggingu, sem sé megineinkenni heildarbyggingarinnar, sé uppfyllt krafa deiliskipulags um hæð, án þess að núverandi eða fyrirhugaðar byggingar séu yfirgnæfðar. Um þessa tillögu segir síðar að það séu mistök að binda hæðir bygginga í deiliskipulagi við 5-7 hæðir. Af hálfu kærenda er því haldið fram að þessi umsögn hafi verið gefin án þess að öll gögn hafi legið fyrir. Þá er fundið að því að umræddur ráðgjafi hafi ekki verið viðstaddur kynningu tilboðsinss 17. apríl 2002. Að lokum er því haldið fram að umræddur ráðgjafi og fyrirtæki hans, Úti og inni sf., hafi verulega viðskiptahagsmuni af störfum sínum fyrir Íslenska aðalverktaka hf., bæði vegna starfa á undanförnum árum og vegna fyrirhugaðra verkefna.

II.

Samkvæmt 1. mgr. 80. gr. laga nr. 94/2001 er það skilyrði þess að útboð verði stöðvað að kröfu kæranda að verulegar líkur séu á því að brotið hafi verið gegn lögum um opinber innkaup eða reglum settum samkvæmt þeim. Í 1. mgr. 81. gr. laganna eru nefndinni veittar heimildir til að fella úr gildi eða breyta ákvörðun kaupanda vegna opinberra innkaupa með endanlegum úrskurði.

Samkvæmt gögnum málsins hefur kærði metið gilt tilboð Íslenskra aðalverktaka hf. og ISS á Íslandi ehf. og metið það til einkunnar fyrir lausnir og þjónustu. Með hliðsjón af þeim upplýsingum sem fyrir liggja um verð bjóðenda verður að telja yfirgnæfandi líkur á því að þetta tilboð verði talið hagkvæmast og það valið, enda verði ekki öllum framkomnum boðum hafnað. Nefndin er ótvírætt til þess bær að leggja mat á lögmæti þessarar ákvörðunar kærða og fella hana úr gildi eða breyta henni samkvæmt samkvæmt 1. mgr. 81. gr. laga nr. 94/2001 sem áður greinir. Er því ekki hægt að fallast á það með kærða að hafna beri kröfum kærenda án þess að efnisleg afstaða sé tekin til þeirra með vísan til þess að endanleg ákvörðun um val tilboðs í tilefni af umræddu útboði hafi enn ekki verið tekin.

Í lið 1.0.2.1. í útboðsgögnum segir orðrétt: „Heildarhæð hússins taki mið af umhverfi þess. Meginbyggingar verði 5-7 hæðir. Einstakir byggingarhlutar s.s. tengibyggingar geti orðið lægri. Hæsti hluti húss fari ekki upp fyrir 78 m.y.s." Í lið 0.1.1.0. í útboðsgögnum er áréttað, í samræmi við 49. gr. laga nr. 94/2001, að tilboð sem ekki uppfylli lágmarkskröfur komi ekki til álita við mat og verði því hafnað. Í lið 0.0.7. í útboðsgögnum er tekið fram að frávikstilboð séu ekki heimil.

Samkvæmt því sem fram er komið í málinu gerir framangreint tilboð Íslenskra aðalverktaka hf. og ISS á Íslandi ehf. ráð fyrir fjögurra hæða meginbyggingu með sex hæða turni. Eins og málið liggur fyrir á þessu stigi er það álit nefndarinnar að verulegar líkur séu á því að þetta tilboð fullnægi ekki þeim áskilnaði útboðsgagna um hæð byggingar sem áður er lýst. Þegar af þessari ástæðu telur nefndin nægilega fram komið að skilyrði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 94/2001 sé fullnægt til að verða við kröfu kæranda um að stöðva útboð kærða og hugsanlega samningsgerð hans, þar til endanlega hefur verið skorið úr um kæruna.

Ákvörðunarorð :

Útboð kærða, Ríkiskaupa, auðkennt „Rannsókna- og nýsköpunarhús við Háskólann á Akureyri Einkaframkvæmd" og hugsanleg samningsgerð í framhaldi af því er stöðvað þar til endanlega hefur verið skorið úr um kæru kærenda, Ístaks hf. og Nýsis hf.

Reykjavík, 20. júní 2002.

Páll Sigurðsson

Sigfús Jónsson

Rétt endurrit staðfestir.

20.06.2002.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum