Kærunefnd útboðsmála

Vision-Box – Soluçoês de Visão Por Computador S.A. gegnRíkiskaupum, Isavia ohf. og Secunet Security Network AG

23.2.2017

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 15. febrúar 2017

í máli nr. 3/2017:

Vision-Box – Soluçoês de Visão Por Computador S.A.

gegn

Ríkiskaupum,

Isavia ohf. og

Secunet Security Network AG

Með kæru mótekinni 30. janúar 2017 kærir Vision- Box – Soluçoês de Visão Por Computador S.A. útboð Ríkiskaupa og Isavia ohf. (hér eftir vísað til sameiginlega sem „varnaraðila“) nr. 20293 auðkennt „ABC Automatic Border Control“. Skilja verður kæru sem svo að kærandi krefjist þess að ákvörðun varnaraðila frá 20. janúar 2017 um að ganga til samninga við Secunet Security Network AG verði felld úr gildi. Í þessum þætti málsins tekur nefndin afstöðu til kröfu varnaraðila um afléttingu sjálfkrafa banns við samningsgerð samkvæmt 1. mgr. 107. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup, en úrlausn málsins bíður að öðru leyti endanlegs úrskurðar.

            Mál þetta lýtur að fyrrgreindu útboði sem varðar innkaup á 12 sjálfvirkum landamærahliðum með tveimur eftirlitsstöðvum og þriggja ára þjónustusamningi með framlengingarmöguleikum. Var útboðið auglýst á EES-svæðinu í nóvember 2016. Útboðsgögn gerðu ráð fyrir því að lægsta verð skyldi ráða vali á tilboðum. Fimm tilboð bárust í útboðinu og var tilboð Secunet Security Network AG lægst að fjárhæð, en það nam um 42% af kostnaðaráætlun varnaraðila. Tilboð kæranda var næstlægst, en fjárhæð þess nam um 65% af kostnaðaráætlun. Af gögnum málsins verður ráðið að varnaraðilar hafi haldið skýringarfundi með kæranda og Secunet Security Network AG og í kjölfar þeirra funda eða 20. janúar 2017 ákveðið að ganga til samninga við síðarnefnda félagið. 

Kröfur kæranda byggja á því að tilboð Secunet Security Network AG sé óeðlilega lágt þar sem það sé lægra en nemur raunkostnaði lægstbjóðanda og því hafi varnaraðilum borið að hafna því og ganga til samninga við kæranda.

 Niðurstaða

Í 1. mgr. 81. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup, sem miða verður við að gildi um innkaupin, kemur fram að ef tilboð virðist óeðlilega lágt miðað við verk, vöru eða þjónustu skuli kaupandi óska eftir því að bjóðandi skýri verð eða kostnað sem fram kemur í tilboði. Geti skýringarnar lotið að þeim atriðum sem nánar eru tilgreind í a- til f-lið 1. mgr. greinarinnar. Í 2. mgr. greinarinnar kemur fram að kaupandi skuli meta upplýsingarnar sem lagðar séu fram með viðræðum við bjóðanda og aðeins megi hafna tilboði á þessum grunni ef sönnunargögnin sem lögð eru fram skýra ekki með viðunandi hætti hið lága verð eða kostnað sem lagður er til, að teknu tilliti til þeirra atriða sem um geti í 1. mgr.

Samkvæmt greinargerð varnaraðila var ákveðið að kanna tilboð kæranda svo og lægstbjóðanda sérstaklega með vísan til 81. gr. laga um opinber innkaup. Á fundi 17. janúar 2017 með lægstbjóðanda var óskað skýringa á fjárhæð tilboðs hans og færði hann þá meðal annars fram skýringar sem lutu að hugbúnaði vegna þeirra kerfa sem hér um ræðir auk þjónustu við þau. Með hliðsjón af þessari könnun varnaraðila á verðum lægstbjóðenda verður ekki talið, eins og mál þetta liggur fyrir nú, að fram sé komið að varnaraðilum hafi verið hafi verið óheimilt að ganga til samninga við lægstbjóðanda í hinu kærða útboði, svo sem þeir gerðu með tilkynningu 20. janúar sl. Hefur kærandi því ekki leitt verulegar líkur að því að varnaraðilar hafi brotið lög um opinber innkaup með þeirri ákvörðun sinni. Verður því fallist á kröfu varnaraðila um að aflétta þeirri stöðvun samningsgerðar sem komst á með kæru í máli þessu, sbr. 2. mgr. 107. gr. laga um opinber innkaup.

Ákvörðunarorð:

Stöðvun samningsgerðar vegna útboðs varnaraðila, Ríkiskaupa og Isavia ohf., nr. 20293 auðkennt „ABC Automatic Border Control“, er aflétt.

                                                                                    Reykjavík, 15. febrúar 2016

                                                                                    Skúli Magnússon

                                                                                    Stanley Pálsson