Kærunefnd útboðsmála

Penninn ehf. gegn Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu og Á. Guðmundssyni ehf.

5.4.2017

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 9. mars 2017

í máli nr. 18/2016:

Penninn ehf.

gegn

Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu

og

Á. Guðmundssyni ehf.

Með kæru 28. september 2016 kærði Penninn ehf. örútboð sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu „Skrifstofuhúsgögn fyrir sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu“. Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun um val á tilboði Á. Guðmundssonar ehf. og lagt verði fyrir varnaraðila að auglýsa útboðið á nýjan leik. Þá er þess krafist að kærunefndin láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda og varnaraðila verði gert að greiða kæranda málskostnað. Varnaraðilum var gefinn kostur á að koma að athugasemdum og bárust þær með bréfi fyrir hönd sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu (hér eftir nefndur „varnaraðili“ nema annað sé tekið fram) 21. október 2016. Af hálfu beggja varnaraðila er þess krafist að öllum kröfum kæranda verði vísað frá kærunefndinni eða hafnað. Kærandi gerði athugasemdir við greinargerð varnaraðila 9. nóvember 2016.

Með ákvörðun 7. október 2016 hafnaði kærunefnd útboðsmála kröfu kæranda um að stöðva samningsgerðar milli varnaraðila og Á. Guðmundssonar ehf. á grundvelli hins kærða örútboðs.

I

Hinn 18. ágúst 2016 auglýsti varnaraðili örútboðið „Skrifstofuhúsgögn fyrir sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu“ innan rammasamnings „RK 04.01 Húsgögn 15400“. Með örútboðinu var óskað eftir tilboðum í húsgögn fyrir embætti sýslumannsins í nýju skrifstofuhúsnæði embættisins í Hlíðasmára í Kópavogi. Í örútboðsgögnum sagði undir kaflaheitinu „Umfang verkefnis“ að mikilvægt væri fyrir bjóðendur að hafa í huga að verið væri að leita eftir vönduðum, fallegum og stílhreinum húsgögnum sem gætu gefið nýjum vinnustað sterka sjálfsmynd með hlýlegu og heimilislegu yfirbragði. Í þeim kafla örútboðsgagna sem nefndist „Val á tilboði / Matsþættir“ kom meðal annars fram að tilboð yrði metin á grundvelli innsendra gagna. Samið yrði við þann bjóðanda sem setti fram hagkvæmasta tilboðið sem jafnframt uppfyllti kröfur rammasamnings um gæði vöru, þjónustugetu, umhverfisskilyrði og gæðavottun sem sett væru fram á heimasíðu Ríkiskaupa. Hagkvæmasta tilboðið væri það tilboð sem fengi hæstu einkunn samkvæmt matsþáttum þar sem verð gaf 70 stig og gæði vöru 30 stig. Þá kom fram að við mat á stigafjölda fyrir gæði myndi skoðunarhópur meta eftirfarandi: „Falleg hönnun, húsgögnin falla að innviðum hússins, húsgögnin falla inn í þau rými sem til ráðstöfunar eru, samræmi í efnis og litavali, fjölbreytt vörulína, heildarútlit og eru í samræmi við lýsingu umfangs verks“. Í skjali sem fylgdi örútboðsgögnum og nefndist „Hlíðasmári 1 – Húsbúnaður – Kröfulýsing“ sagði meðal annars undir liðnum „Almennt“: „Vörur verða að standast staðla um vinnuvistfræði, öryggi, styrk og yfirborðsþol í löndum Evrópu. Samræmi skal vera í efnisvali t.d. varðandi viðartegund, liti o.þ.h. í öllum samliggjandi skrifstofuhúsgögnum. Bólstrunarefni ásamt stöðluðu efni verða að standast kröfur um brunaþol samkvæmt ss-en1021-1(vindling) og/eða ss-en-1021-2(eldspýtur).“ Undir liðnum „hirslur“ sagði svo meðal annars: „hirslur skulu vera úr sömu línu (hirsla c getur verið önnur lína), spónn, gæðaharðplast og kantlímingar frá viðurkenndum framleiðendum.“

Hinn 22. ágúst 2016 sendi varnaraðili tölvupóst til væntanlegra bjóðenda í örútboðinu þar sem eftirfarandi kom fram: „Til áréttingar á gögnum í ofangreindu örútboði er hér birt nánari lýsing á því hvernig staðið verður að mati tilboða. […] Við mat á stigafjölda fyrir gæði mun matsnefnd meta út frá innsendum gögnum bjóðenda: 1. Falleg hönnun, 2. Húsgögnin falla að innviðum hússins, 3. Húsgögnin falla inn í þau rými sem til ráðstöfunar eru, 4. Samræmi í efnis og litavali, 5. Fjölbreytt vörulína, 6. Heildarútlit er í samræmi við lýsingu umfangs verks. Gefnar verða einkunnir fyrir ofangreinda sex liði í gæðamati (5 stig að hámarki fyrir hvern lið). Matsviðmið matsnefndar á innsendum gögnum er skv. neðangreindum fullyrðingum í Likert skala. 1. Mjög ósammála (1 stig), 2. Ósammála (2 stig), 3. Hlutlaus (3 stig), 4. Sammála (4 stig), 5. Mjög sammála (5 stig). Einkunn er á skalanum 1 – 5, lakast – best.“

Kærandi var meðal bjóðenda í hinu kærða örútboði og skilaði fjórum tilboðum. Hinn 8. september 2016 tilkynnti varnaraðili að tilboð Á. Guðmundssonar ehf. hefði verið samþykkt enda hefði það verið metið „hentugast“ fyrir varnaraðila samkvæmt valforsendum útboðslýsingar. Tilboðið hefði fengið 52,17 stig af 70 mögulegum fyrir verð og 29 af 30 mögulegum fyrir gæði. Samtals hefði tilboðið fengið 81,17 stig sem hefði verið hæsta einkunn allra tilboða. Kærandi óskaði sama dag eftir upplýsingum um stig sem tilboð hans hefðu hlotið og voru þær upplýsingar veittar daginn eftir. Kom þar meðal annars fram að tilboðin fjögur höfðu öll hlotið 14 stig fyrir gæði en mismunandi stig fyrir verð, frá 66,74 stigum til 57,33 stiga. Í greinargerð varnaraðila til kærunefndar útboðsmála 21. október 2016 kom fram að lægsta verðtilboð kæranda hafi verið ógilt enda hafi hluti hirslna í tilboðinu verið úr harðplasti en óskað hafi verið eftir spónlagðri eik.

II

Kærandi kveðst vera einn stærsti söluaðili skrifstofuhúsgagna á landinu og hafi til sölu margar vörulínur og tegundir, bæði frá innlendum og erlendum aðilum. Kærandi hafi lagt fram fjögur tilboð með mismunandi vörulínum. Í raun hafi verið um þrjá gæðaflokka skrifstofuhúsgagna að ræða en allir hafi þeir átt það sammerkt að vera gæðahúsgögn með mikla fjölbreytni í vörulínu. Kærandi telur því ekki standast að öll tilboð hans hafi fengið sömu einkunn fyrir gæði. Þá telur kærandi að húsgögnin sem hann hafi boðið séu í engu lakari en þau sem varnaraðili valdi frá Á. Guðmundssyni ehf. en engu að síður hafi þau fengið rúmlega tvöfalt lakari gæðaeinkunn. Einnig telur kærandi ekki standast að einkunn tilboða hans hafi í öllum tilvikum verið undir meðallagi í einkunnagjöf varnaraðila fyrir gæði enda hafi kærandi boðið skrifstofuhúsgögn frá virtustu framleiðendum Evrópu.

            Kærandi lýsir tilboðum sínum með þeim hætti að í fyrsta tilboðinu hafi verið boðin svonefnd Fansa-vörulína. Hún sé íslensk hönnun og framleiðsla að hluta, ýmsir íhlutir séu framleiddir erlendis en varan sett saman á Íslandi. Tilboð 2 og 3 hafi verið húsgögn frá framleiðandanum Kinnarps sem sé stærsti framleiðandi skrifstofuhúsgagna í Evrópu. Þau séu rómuð fyrir gæði auk þess sem fjölbreytileiki vörulínunnar sé gríðarlega mikill og margir möguleikar séu við notkun þeirra. Annars vegar hafi verið boðin svokölluð T-lína en hins vegar svokölluð Oberon-lína. Dálítill munur sé á línunum en bæði tilboðin hafi þó fengið sömu gæðaeinkunn og raunar eining Fansa-línan, sem sé ekki eins vönduð og áðurnefnd húsgögn frá Kinnarps. Þá hafi fjórða tilboð kæranda, frá danska framleiðandanum Dencon, einnig fengið sömu einkunn fyrir gæði en það fyrirtæki framleiði afar vönduð og vinsæl skrifstofuhúsgögn. Kærandi bendir á að hann sé aðili að rammasamningi Ríkiskaupa um skrifstofuhúsgögn og húsgögn hans hafi þannig þegar verið metin að gæðum og fjölbreytileika.

Kærandi telur að þær forsendur sem skoðunarhópi hafi verið ætlað að notast við hafi verið verulega óljósar og gefið varnaraðila allt of mikið svigrúm til að túlka tilboðin eftir eigin höfði. Ógerlegt hafi verið að átta sig á því hvernig varnaraðili hygðist meta tilboðin. Nefnir kærandi sérstaklega að húsgögn eigi að falla að innviðum hússins Hlíðarsmára 1 og falla inn í það rými sem sé til ráðstöfunar. Af grunnteikningu hússins verði ekki annað ráðið en að öll skrifstofuhúsgögnin gætu fallið vel að innviðum hússins og inn í það rými sem var til ráðstöfunar. Kærandi bendir sérstaklega á að öll verðtilboð hans hafi verið lægri en það tilboð sem valið var. Tilboð hans sem byggði á Fansa-húsgagnalínunni hefði nægt eitt stig til viðbótar, þ.e. 15 stig fyrir gæði, til þess að fá betri heildareinkunn en tilboð Á. Guðmundssonar ehf. sem var valið.

Í kjölfar greinargerðar varnaraðila til kærunefndarinnar gerði kærandi athugasemdir við þær fullyrðingar sem þar komu fram. Kærandi tekur fram að tilboð sín hafi öll verið metin gild, honum hafi ekki verið tilkynnt um að eitt tilboðið hafi verið metið ógilt enda hafi það ekki verið niðurstaða útboðsins. Þá geti tilboðið ekki verið ógilt sökum þess að það hafi að geyma vörur úr harðplasti en ekki spónlagðri eik enda hafi komi fram í kröfulýsingu að hirslur mættu vera úr harðplasti. Kærandi telur að greinargerð varnaraðila bendi til þess að varnaraðili hafi einfaldlega ekki skoðað tilboðin og ekki metið þau í samræmi við lýsingu örútboðsgagna. Greinargerð varnaraðila verði ekki skilin öðruvísi en að allir þeir sex þættir sem varnaraðili hafi kynnt með tölvupósti 22. ágúst 2016 falli undir valforsenduna „tiltekin útfærsla vöru eða þjónustu“. Þá hafi raunveruleg gæði vörunnar engu máli skipt heldur aðeins hvernig húsgögn í tilboðum sem bárust féllu að hugmyndum varnaraðila og hönnun hússins. Gæðakröfur hafi að öllu leyti verið huglægar en ekki hlutlægar þrátt fyrir að í örútboðslýsingu hafi verið vísað til þess að vörur ættu að standast staðla um vinnuvistfræði, öryggi, styrk og yfirborðsþol í löndum Evrópu. Kærandi telur ljóst að ekkert mat hafi farið fram um þessi gæðaatriði enda hafi vörur evrópsku framleiðendanna Kinnarps og Dencon undirgengist slík próf og staðist. Kærandi telur að gæðamatið hafi í raun einungis snúist um það hvernig húsgögn féllu að þeirri hönnun sem fyrir væri. Það sé forsenda sem hefði átt að upplýsa um fyrir fram með skýrum hætti. Þá hafi kærandi talið að a.m.k. sumar valforsendur fælu í sér hlutlæga mælikvarða, t.d. „fjölbreytt vörulína“ sem vísi til þess að tilboð þyrftu að innihalda breiða vörulínu. Kærandi telur að mat á þessu geti ekki verið huglægt og þá fái það ekki staðist að vörulína frá einum stærsta húsgagnaframleiðanda Evrópu fái 2 stig í þeim flokki á meðan innlendur framleiðandi fái 5 stig í sama flokki.  

III

Varnaraðili telur að kærandi hafi vitað 22. ágúst 2016 hvernig mat á gæðum yrði framkvæmt og því hafi kæra verið of seint fram komin enda hafi hún borist rúmum mánuði síðar. Þá sé búið að ganga til samninga við Á. Guðmundsson ehf., sá samningur sé gildur og verði ekki felldur úr gildi.

Varnaraðili nefnir að í rammasamningsskilmálum hafi eftirfarandi komið fram um forsendur í örútboðum: „Nánar tiltekið getur kaupandi í örútboði lagt áherslu á alla vöruflokka samnings og gert kröfu um tiltekna þjónustu- og gæðaþætti ásamt verði. Við örútboð við kaup á vöru getur bjóðandi lagt fram eftirfarandi matslíkan til grundvallar: Gæði vöru 0-50%, Þjónustugeta 0-50%, aukin umhverfisskilyrði 0-50%, gæðavottanir framleiðslu 0-50%, tiltekin útfærsla vöru eða þjónustu 0-50%, verð 0-100%“. Þau atriði sem meta átti til stiga í örútboðinu hafi falið í sér ákveðin gæði fyrir varnaraðila en jafnframt fallið undir valforsenduna „tiltekin útfærsla vöru“ sem tilgreint hafi verið í rammasamningi að mætti gilda allt að 50%. Eins og skilgreining gæðaþáttarins hafi verið útlistuð í örútboðinu hafi einkum verði vísað til útlits og hönnunar og hvernig húsgögn féllu að því húsnæði sem til stæði að innrétta. Ekki hafi verið metið hvort vörur væru lélegar að gæðum í hefðbundnum skilningi þess hugtaks. Við mat á gæðum hafi verið litið til þeirra þátta sem tilgreindir hafi verið og hvernig húsgögn féllu inn í hönnun og útlit húsnæðisins og þess stíls sem verið var að skapa með innréttingu þess.

Varnaraðili tekur fram að tilboð kæranda hafi verið fjögur, eitt ógilt en þrjú mjög svipuð. Ógilda tilboðið hafi falið í sér hirslur úr harðplasti þar sem óskað hafi verið eftir spónlagðri eik. Tilboð 2 og 3 hafi verið eins að öðru leyti en því að skrifborð hafi verið mismunandi en það hafi ekki skipt máli enda hafi gæðamat eingöngu farið eftir útliti og huglægu mati á því hvernig húsgögn féllu að hönnun húsnæðisins. Tilboð 4 hafi verið frábrugðið tilboðum 2 og 3 að því leyti að skrifborð, hringborð og hirslur væru öðruvísi. Á sama hátt og áður hefðu þeir þættir sem réðu mati á gæðum valdið því að tilboð 4 fékk sömu einkunn og hin tilboð kæranda. Öll tilboð kæranda hafi innihaldið eins gestastóla og sófasæti. Það hafi verið mat varnaraðila að sú vara sem kærandi bauð í þessum flokkum hafi ekki fallið vel að því útliti sem verið var að leita eftir. Gestastólar og sófar séu húsgögn sem staðsett séu í biðrýmum og á stöðum sem viðskiptavinir komi í og því skipti verulegu máli hvernig þau falli að innviðum hússins. Borð og hirslur hafi minna að segja varðandi þessa þætti.

IV

Hinn 21. október 2016 tóku gildi lög um opinber innkaup nr. 120/2016 og féllu þá úr gildi samnefnd lög nr. 84/2007. Samkvæmt 6. mgr. 123. gr. fyrrnefndu laganna fer þó áfram um innkaup, sem hafa verið auglýst fyrir gildistöku laganna, samkvæmt eldri lögum um opinber innkaup. Þá gilda lög nr. 120/2016 einungis um meðferð kærunefndar útboðsmála vegna kæra sem borist hafa nefndinni eftir gildistöku laganna. Samkvæmt þessu fer um úrlausn málsins og meðferð þess fyrir kærunefnd samkvæmt lögum nr. 84/2007.

Samkvæmt 1. mgr. 94. gr. laga nr. 84/2007 skal kæra borin skriflega undir kærunefnd útboðsmála innan 20 daga frá því að kærandi vissi um eða mátti vita um þá ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem hann telur brjóta gegn réttindum sínum. Hinn 8. september 2016 tilkynnti varnaraðili að tilboði Á. Guðmundssonar ehf. hefði verið tekið í hinu kærða örútboði. Af kæru er ljóst að túlkun varnaraðila á valforsendum örútboðsins er sú ákvörðun sem kærandi telur að brjóti gegn réttindum sínum. Kæra var borin undir nefndina 28. sama mánaðar og barst þannig innan lögbundins kærufrests.

            Í málinu liggur fyrir að kominn er á endanlegur samningur milli varnaraðila og Á. Guðmundssonar ehf. í kjölfar örútboðsins. Samkvæmt 1. mgr. 100. gr. laga nr. 84/2007, sbr. 17. gr. laga nr. 58/2013, verður bindandi samningur ekki felldur úr gildi eða honum breytt eftir að hann hefur komist á og gildir þá einu þótt ákvörðun kaupanda um framkvæmd útboðs eða gerð samnings hafi verið ólögmæt. Verður þegar af þeirri ástæðu að hafna kröfu kæranda um að ákvörðun varnaraðila um val á tilboði Á. Guðmundssonar ehf. verði felld úr gildi og lagt verði fyrir varnaraðila að auglýsa örútboðið að nýju. Hins vegar koma málsástæður kæranda til skoðunar við úrlausn á því hvort rétt sé að láta uppi álit á skaðabótaskyldu samkvæmt 101. gr. laganna.

Kaupendum í opinberum innkaupum er falið að ákveða hverju sinni hvernig þarfir þeirra verða best uppfylltar og hvaða forsendum skal byggja á við val á tilboðum. Hins vegar er sú skylda lögð á kaupendur að þeir tilgreini með eins nákvæmum hætti og unnt er hvaða forsendur verða lagðar til grundvallar mati á tilboðum, sbr. 45. gr. laga nr. 84/2007. Forsendurnar eiga almennt að vera hlutlægar og tengjast efnahagslegri hagkvæmni með einhverjum hætti en mega aldrei vera svo matskenndar að kaupendum séu í raun og veru engar skorður settar við mat tilboða. Eiga bjóðendur þannig að geta áttað sig á því fyrirfram hvernig staðið verður að mati á hagkvæmasta tilboði þannig að gegnsæi og jafnræði bjóðenda sé tryggt, sbr. 1. og 14. gr. laga nr. 84/2007.

Við ákveðnar aðstæður hefur kærunefnd útboðsmála fallist á að eðli og notkunarsvið umbeðinna vara heimili að eiginleikar þeirra séu metnir með hliðsjón af huglægri afstöðu þeirra sem vöruna eiga að nýta við störf sín. Ber kaupanda þá að sýna fram á að eðli innkaupa réttlæti að huglægri afstöðu sé gefið vægi við val tilboða. Í slíkum tilvikum ber kaupanda engu að síður að leitast við að hafa sem flestar valforsendur hlutlægar og ekki styðjast við huglægt mat nema ómögulegt sé að meta viðkomandi atriði á grundvelli hlutlægra mælikvarða. Að auki verður að koma fram í útboðsgögnum um hvaða eiginleika er að ræða sem meta á með þessum hætti og lýsing á þeirri aðferð sem leggja á til grundvallar við mat. Hefur kærunefnd útboðsmála gert ríkar kröfur til þess að huglæg afstaða sé könnuð með hlutlægri aðferð sem tryggi að aðilum sé ekki mismunað og málefnleg sjónarmið ráði ferðinni við matið.

Í örútboðsgögnum kom fram að sérstakur skoðunarhópur myndi yfirfara tilboð bjóðenda og gefa þeim stig fyrir gæði.  Þau atriði sem hópurinn skyldi líta til við mat sitt voru hins vegar almenn og óljós í veigamiklum atriðum. Hvorki örútboðsgögn né aðrar upplýsingar varnaraðila gerðu frekari grein fyrir nánara inntaki þessara atriða en mörg þeirra hefði mátt skýra nánar. Bjóðendum voru til dæmis hvorki veittar upplýsingar um þá hönnun né annað útlit sem síðar kom í ljós að var allsráðandi við mat varnaraðila. Þannig var bjóðendum í hinu kærða örútboði í reynd gert illmögulegt að átta sig á því hvernig varnaraðili myndi meta tiltekna þætti í tilboðum þeirra á huglægum grunni. Þá fór matið þannig fram að hópurinn hafði lítt takmarkað svigrúm við einkunnagjöf á þeim þáttum sem sögð voru lúta að gæðum. Í greinargerð varnaraðila hefur einungis verið vísað til huglægs mats þeirra sem voru í umræddum skoðunarhóp en að engu leyti verið útskýrt hvernig matið var nánar framkvæmt, þ.á m. hvort leitast var við að gæta nafnleyndar eftir því sem kostur var á. Þá hefur varnaraðili útskýrt hvernig boðin húsgögn voru talin samræmast því útliti sem haft var að leiðarljósi eða hvernig valforsendur á borð við „fjölbreytt vörulína“ voru metnar í reynd. Auk þess telur kærunefnd útboðsmála að bjóðendur hafi almennt mátt ætla að „gæði“ húsgagna yrðu a.m.k. að einhverju leyti metin með hlutlægum hætti, svo sem með vísan til gæðastaðla. Athugast að í þeim rammasamningi, sem örútboðið grundvallaðist á, er ekki vikið að því að val húsgagna muni fara fram á grundvelli fagurfræðilegra eða annarra huglægra sjónarmiða.

Samkvæmt öllu framangreindu getur nefndin ekki fallist á að komnar séu fram viðhlítandi skýringar varnaraðila á því hvers vegna nauðsynlegt var að meta öll þau atriði sem töldust til „gæða“ einungis á huglægum grunni. Þá telur nefndin að lýsing í örútboðsgögnum og síðari skýringum varnaraðila á nánara inntaki og framkvæmd matsins hafi verið ófullnægjandi. Var þar af leiðandi ekki fullnægt kröfum 72. gr. og 45. gr. laga nr. 84/2007 viðvíkjandi framsetningu valforsendna og mat á tilboðum.

Samkvæmt 1. mgr. 101. gr. laga nr. 84/2007 er kaupandi skaðabótaskyldur ef brot hans á lögunum og reglum um opinber innkaup hefur skert möguleika bjóðanda á að verða valinn af kaupanda til samningsgerðar. Tilboð Á. Guðmundssonar ehf., sem var valið, var hæst allra tilboða og hlaut þar með lægstu einkunn fyrir verð, rúmlega 52 stig af 70 mögulegum. Tilboðið hlaut aftur á móti langhæstu einkunn fyrir gæði eða 29 stig af 30 mögulegum á grundvelli áðurlýstrar aðferðar varnaraðila. Öll önnur tilboð, þar með talið hitt tilboð Á. Guðmundssonar ehf., fengu mun lægri einkunn fyrir gæði eða á bilinu 11-14 stig. Lægsta verðtilboð kæranda var mun lægra en tilboðið sem var valið og vantaði einungis eitt stig úr gæðamati til þess að teljast hagkvæmast. Ekki verður séð að tilboðið hafi ekki fullnægt útboðsskilmálum eins og fyrst var hreyft í greinargerð varnaraðila undir meðferð málsins.

Samkvæmt framangreindu liggur fyrir að kærandi átti raunhæfa möguleika á að verða valinn til samningsgerðar í hinu kærða örútboði og skerti brot varnaraðila því möguleika hans á því að verða valinn til samningsgerðar. Það er því álit kærunefndar útboðsmála að varnaraðili sé skaðabótaskyldur gagnvart kæranda vegna þátttöku hans í örútboðinu. Eftir úrslitum málsins þykir rétt að varnaraðili greiði kæranda 600.000 krónur í málskostnað og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Úrskurðarorð:

Varnaraðilinn, sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu, er skaðabótaskyldur gagnvart kæranda, Pennanum ehf., vegna örútboðsins „Skrifstofuhúsgögn fyrir sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu“.

            Varnaraðilinn, sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu, greiði kæranda, Pennanum ehf., 600.000 krónur í málskostnað.

                                                                                    Reykjavík, 9. mars 2017.

                                                                                    Skúli Magnússon

                                                                                    Ásgerður Ragnarsdóttir

                                                                                    Stanley Pálsson