Hoppa yfir valmynd
21. maí 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 58/2001

Þriðjudaginn, 21. maí 2002

 

A 

gegn 

Tryggingastofnun ríkisins

  

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir, hdl., Jóhanna Jónasdóttir, læknir, og Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri.

 

Þann 6. nóvember 2001 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A.

 

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði í fæðingarorlofi.

 

Með bréfi frá Tryggingastofnun ríkisins, dags. 8. september 2001, var kæranda tilkynnt um greiðslu fæðingarstyrks í fæðingarorlofi.

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

"...Ég kom á vinnumarkað í byrjun júní 1998 og vann samfleytt fulla vinnu á sama vinnustað til ársloka 2000. Þá ákvað ég að skipta um starfsvettvang og var atvinnulaus í þrjá mánuði á meðan ég beið eftir rétta starfinu. Ég ákvað að þiggja ekki atvinnuleysisbætur á þeim tíma, stoltsins vegna, þar sem ég ákvað sjálfur að hætta í gamla starfinu og ég vissi að ég fengi vinnu aftur innan skamms. Ég hóf störf á nýjum vettvangi í byrjun apríl 2001.

 

Konan mín var skrifuð inn á fæðingardeildina 23. ágúst, og sótti ég um fæðingarorlof og greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í tvær vikur, frá 20. ágúst, enda komst ég ekki lengur frá vinnu á þessum tíma. Umsókn þarf að skila sex vikum fyrir áætlaðan fæðingardag og gerðum við það. Eftir samráð við starfsmann Tryggingastofnunar hér á B gerði ég greinargóða athugasemd á umsókn mína þar sem ég útskýrði fjarveru mína af vinnumarkaði fyrstu þrjá mánuði ársins og töldum við, eins og starfsmaðurinn, að engin vandræði hlytust af því.

 

Konan mín gekk átta daga fram yfir svo að ég átti aðeins þrjá daga eftir þegar sonur minn fæddist þann 31. ágúst. Yfirmaður minn var svo tillitssamur að lengja orlofið mitt um nokkra daga ...

 

Skömmu fyrir lok september fengum við konan mín bréf frá Tryggingastofnun þar sem okkur var tilkynnt um að ekki væri hægt að greiða mér bætur þar sem umgengnisréttur minn við son minn væri ekki staðfestur hjá Sýslumanni. Konan mín staðfesti það strax, en þykir mér skrýtið að umgengnisréttur föður við barn sitt sé ekki sjálfsagður.

 

Annan október komu til okkar tvö bréf. Bréf til konunnar staðfesti greiðslur úr sjóðnum til hennar, en í bréfi til mín var greiðslum til mín hafnað þar sem ég hafði ekki uppfyllt öll skilyrði um greiðslur úr sjóðnum. Ástæðan var sem sagt sú að ég var ekki á vinnumarkaði í þrjá mánuði...

 

Ég á nú engan rétt á greiðslum úr sjóðnum ef ég skyldi nýta hinar tvær vikurnar sem ég á rétt á, því réttinn til greiðslna má aðeins reikna út einu sinni fyrir hvern umsækjanda...

 

Mér finnst sú þjónusta sem við fengum hjá Tryggingastofnun til háborinnar skammar... Hjálpin var lítil og okkar minningar eru frekar slæmar, endalaus símtöl, útskýringar, bréfaskriftir og hafnanir. Eftir allt þetta hafði ég skitnar 21.457 krónur upp úr krafsinu...

 

Á meðan lögin eru svona er líklega ekkert hægt að gera en mér þætti vænt um að fá einhvers konar svar, eða ykkar álit á þessu máli."

 

Úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála taldi ekki þörf á öflun frekari gagna í málinu, þar sem málið taldist nægilega upplýst á grundvelli þeirra gagna sem fyrir lágu, sbr. 5. mgr. 6. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.)

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

 

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um synjun á greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði í fæðingarorlofi.

 

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð þar sem beðið var eftir gögnum sem úrskurðarnefndin hafði óskað eftir frá kæranda málsins.

 

Krafa um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði verður eigi byggð á því að foreldri hafi fengið rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um rétt sinn. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. ffl. er það hlutverk úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála að kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna. Það fellur hins vegar utan valdsviðs nefndarinnar að úrskurða um hugsanlegan bótarétt þeirra sem telja sig hafa fengið ófullnægjandi upplýsingar.

 

Foreldri öðlast rétt samkvæmt 1. mgr. 13. gr. ffl. til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. og 1. mgr. 2. gr. reglugerðar, nr. 909/2000, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

 

Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar er með samfelldu starfi átt við að foreldri hafi verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Í b-lið 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar segir að til samfellds starfs teljist enn fremur:

"b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur eða er á biðtíma eftir atvinnuleysisbótum samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar..."

 

Barn kæranda fæddist 31. ágúst 2001, með hliðsjón af því uppfyllir kærandi ekki það skilyrði að hafa verið samfellt á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, þar sem hann starfaði ekki á vinnumarkaði í mars 2001 né ávann sér rétt á annan hátt, sbr. 4. gr. reglugerðar, nr. 909/2000, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

 

Með hliðsjón af framangreindu hefur kærandi ekki áunnið sér rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og er því ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins varðandi greiðslu í fæðingarorlofi staðfest.

  

ÚRSKURÐARORÐ:

 Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu í fæðingarorlofi til A er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir, hdl. 

Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri

Jóhanna Jónasdóttir, læknir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum