Hoppa yfir valmynd
18. febrúar 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 55/2013

Þriðjudaginn 18. febrúar 2014


A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Haukur Guðmundsson hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 13. desember 2013 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A dags. 10. desember 2013. Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir Fæðingarorlofssjóður) sem tilkynnt var með bréfi, dags. 15. október 2013, þar sem henni var synjað um yfirfærslu réttinda vegna andláts hins foreldrisins.   

Með bréfi, dags. 20. desember 2013, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem barst með bréfi, dags. 6. janúar 2014.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 10. janúar 2013, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með ódagsettu bréfi þann 23. janúar 2014.

 

I. Málsatvik

Kærandi eignaðist barn þann Y. september 2013. Faðir barnsins lést af slysförum þann Z. september 2013. Kærandi og faðir barnsins voru hvorki í sambúð né hjúskap þegar faðir barnsins lést. Kærandi sótti um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í sex mánuði vegna fæðingar barnsins með umsókn, dags. 29. júlí 2013. Með bréfi, dags. 10. október 2013, samþykkti Fæðingarorlofssjóður umsókn kæranda. Kærandi sótti einnig um yfirfærslu réttinda vegna andláts hins foreldrisins með bréfi, dags. 14. október 2013. Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 15. október 2013, var kæranda synjað um greiðslur vegna andláts hins foreldrisins þar sem faðirinn fór ekki með forsjá barnsins við andlát hans.  

 

II. Sjónarmið kæranda.

Kærandi greinir frá því að hún kæri ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 15. október 2013, þar sem henni var synjað um yfirfærslu réttinda vegna andláts föður barnsins. Kærandi geri einnig athugasemdir við málsmeðferð sjóðsins, en kærandi telji hana ekki standast kröfur stjórnsýslulaga. Sérstaklega telji kærandi að skort hafi á að sjóðurinn hafi leiðbeint kæranda um réttindi hennar og haft meðalhóf og jafnræði til hliðsjónar við afgreiðslu erindis hennar.

Kærandi hafi óskað eftir því með bréfi til sjóðsins þann 10. október 2013 að staðfest yrði að réttur barnsföður hennar, sem hafi látist af slysförum þann Z. september 2013, til töku fæðingarorlofs vegna fæðingar barns þann Y. september 2013 gæti færst yfir til kæranda samkvæmt ákvæði 8. mgr. 8. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000 (ffl.). Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 15. október 2013, hafi umsókn kæranda um yfirfærslu réttinda verið hafnað á þeim forsendum að ekki séu fyrir hendi réttindi til að færa yfir þar sem skilyrði fyrir flutningi réttinda eftir andlát foreldris sé að hið látna foreldri hafi haft rétt til töku fæðingarorlofs, enda hafi það farið með forsjá barnsins.

Kærandi og barnsfaðir hennar hafi verið í sambandi um tíma en slitið samvistum áður en barn þeirra hafi fæðst. Barn kæranda hafi fæðst með keisaraskurði þann Y. september 2013. Strax í kjölfarið og kærandi hafi jafnað sig eftir aðgerðina og eftirköst fæðingarinnar hafi kærandi sent sýslumanni ósk um faðernisviðurkenningu, þann 25. september 2013. Sýslumaður hafi ekki náð að kalla barnsföður kæranda til sín til að staðfesta faðernisviðurkenninguna áður en hann lést af slysförum þann Z. september 2013. Enginn ágreiningur hafi verið um faðerni barnsins.

Í 8. gr. ffl. sé fjallað um rétt foreldra á vinnumarkaði til fæðingarorlofs. Í 6. mgr. þeirrar greinar segi að réttur foreldris til fæðingarorlofs sé bundinn því að það fari sjálft með forsjá barnsins eða hafi sameiginlega forsjá ásamt hinu foreldri þess þegar taka fæðingarorlofs hefst, sbr. þó 7. mgr. Í 7. mgr. segi svo að forsjárlaust foreldri eigi rétt til fæðingarorlofs liggi fyrir samþykki þess foreldris sem fari með forsjána um að forsjárlausa foreldrið hafi umgengni við barnið þann tíma sem fæðingarorlof standi yfir. Loks segi í 8. mgr. að ef annað foreldri andast áður en barn nái 24 mánaða aldri færist sá réttur til fæðingarorlofs sem hinn látni hafi ekki þegar nýtt sér yfir til eftirlifandi foreldris.

Einn megintilgangur ffl. sé að tryggja börnum samvistir við foreldra sína fyrstu mánuði lífsins enda viðurkennt að það sé börnum almennt fyrir bestu. Annar tilgangur laganna sé að tryggja jafna stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði með því að eyrnamerkja hvoru foreldri fyrir sig tiltekinn hluta fæðingarorlofsins. Almennt sé ekki gert ráð fyrir að sá réttur sé flytjanlegur frá öðru foreldrinu til hins. Á þessu hafi löggjafinn þó gert skýra undantekningu í þeim tilfellum þar sem annað foreldri andist innan 24 mánaða frá fæðingu barns. Í slíkum tilvikum sé gert ráð fyrir því að réttur hins látna foreldris geti flust yfir til eftirlifandi foreldris. Með því hafi löggjafinn væntanlega viljað koma í veg fyrir að börn sem verði fyrir því að missa annað foreldri sitt verði mismunað frekar með því að meina þeim samvistum við foreldri á fyrstu ævimánuðum í jafn langan tíma og börn sem eigi báða foreldra á lífi. Sá skýri réttur sem börnum í þessum aðstæðum sé tryggður í 8. mgr. 8. gr. ffl. verði ekki af þeim tekinn eða þrengdur með ummælum í athugasemum með lögum, enda geti athugasemdir með frumvarpi ekki gengið framar lagatextanum sjálfum. Þá mæli öll rök með því, að sé einhver vafi talinn vera um túlkun, þá sé sá vafi túlkaður í samræmi við tilgang laganna börnum í hag. Slíkt sé einnig í samræmi við barnalög, nr. 76/2003, og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem lögfestur hafi verið hér á landi með lögum nr. 19/2003.

Það sé því krafa kæranda að barn hennar verði ekki látið líða fyrir að faðir hennar hafi látist 22 dögum eftir fæðingu þess þegar ekki hafi unnist tími til að ganga frá málum vegna faðernisviðurkenningar og fæðingarorlofs föður barnsins.

 

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs.

Af hálfu Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að með umsókn, dags. 29. júlí 2013, hafi kærandi sótt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í sex mánuði vegna fæðingar barns þann Y. september 2013 og henni verið tilkynnt að umsókn hennar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hefði verið samþykkt, sbr. greiðsluáætlun dags. 10. október 2013.

Kærandi hafi jafnframt sótt um yfirfærslu réttinda vegna andlát hins foreldrisins, sbr. tölvupósta frá 8. og 14. október og bréf, dags. 14. október 2013. Enn fremur hafi legið fyrir við afgreiðslu umsóknarinnar upplýsingar frá Þjóðskrá Íslands.

Þann 15. október 2013 hafi kæranda verið synjað um greiðslur vegna andláts hins foreldris þar sem faðirinn hafi ekki farið með forsjá barnsins eða haft sameiginlega forsjá með kæranda við andlát sitt.

Fyrir liggi í gögnum málsins að andlátið hafi orðið þann Z. september 2013 en barn kæranda fæddist þann Y. september 2013.

Í 6. mgr. 8. gr. ffl. komi fram sú meginregla að réttur foreldris til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði sé bundinn því að það fari með forsjá barns eða hafi sameiginlega forsjá ásamt hinu foreldri þess þegar taka fæðingarorlofs hefst, sbr. þó 7. mgr.

Í athugasemdum með 6. mgr. 8. gr. ffl. segi að meginregla frumvarpsins sé að réttur foreldris sé bundinn við að það fari sjálft með forsjá barnsins eða hafi sameiginlega forsjá ásamt hinu foreldri þess þegar taka fæðingarorlofs hefjist, sbr. þó 6. mgr. (nú 7. mgr.). Í þessu sambandi sé litið til þess að mikilvægt sé að gott samkomulag ríki milli foreldra og að skilningur sé á gildi sameiginlegra ákvarðana er varði barnið, einkum í ljósi þess hvað barnið sé ungt á þessum tíma og því verulega háð foreldrum sínum. Þessar forsendur séu meðal annars hafðar til hliðsjónar þegar samningur um sameiginlegt forræði sé staðfestur hjá yfirvöldum auk þess sem litið sé til hags og þarfa barnsins. Vakin sé athygli á því að maki eða sambúðarmaki kynforeldris eigi ekki rétt á fæðingarorlofi samkvæmt frumvarpi þessu heldur sé eingöngu átt við kynforeldra þegar um fæðingu sé að ræða, ættleiðanda eða fósturforeldri.

Í 7. mgr. 8. gr. ffl. komi fram að forsjárlaust foreldri eigi rétt til fæðingarorlofs liggi fyrir samþykki þess foreldris sem fari með forsjána um að forsjárlausa foreldrið hafi umgengni við barnið þann tíma sem fæðingarorlof standi yfir.

Í athugasemdum með 7. mgr. 8. gr. ffl. segi: „Að vel athuguðu máli þótti ekki ástæða til að útiloka forsjárlausa foreldra frá rétti til fæðingarorlofs, enda liggi fyrir samþykki þess foreldris sem fer með forsjána um að forsjárlausa foreldrið hafi umgengni við barnið þann tíma sem fæðingarorlof stendur yfir. Slíkt samþykki leiðir af inntaki forsjár en skv. 29. gr. barnalaga, nr. 20/1992, með síðari breytingum, felur forsjá barns í sér rétt og skyldu forsjáraðila til að ráða persónulegum högum barnsins. Þó ber að vekja athygli á að samkvæmt sama ákvæði ber foreldri, sem fer eitt með forsjá barns síns, að stuðla að því að barn njóti umgengni við hitt foreldri sitt nema umgengni sé andstæð hag og þörfum barns að mati lögmælts stjórnvalds.“

Í 8. mgr. 8. gr. ffl. komi síðan meðal annars fram að ef foreldrið andast áður en barn nái 24 mánaða aldri færist sá réttur til fæðingarorlofs sem hinn látni hafi ekki þegar nýtt sér yfir til hins eftirlifandi foreldris.

Í athugasemdum með 8. mgr. 8. gr. ffl. segi: „Sérstök undanþága á banni við framsali á fæðingarorlofi er gerð í 7. mgr. [nú 8. mgr.]. Á það við þær aðstæður þegar annað foreldrið andast áður en barn nær 18 mánaða aldri og það hefur ekki tekið út fæðingarorlof sitt. Færist þá sá réttur sem hinn látni hefur ekki þegar nýtt sér yfir til eftirlifandi foreldris. Það er skilyrði að hið látna foreldri hafi haft rétt til töku fæðingarorlofs, enda hafi það farið með forsjá barnsins. Hafi hið látna foreldri átt rétt til greiðslna í fæðingarorlofi skal miða við heildartekjur eftirlifandi foreldris skv. 13. gr.“

Í máli þessu reyni á hvort það skilyrði 8. mgr. 8. gr. ffl. sé uppfyllt eða ekki, að hinn látni hafi haft rétt til töku fæðingarorlofs, enda hafi hann farið með forsjá barnsins. Í því samhengi sé nauðsynlegt að líta til ákvæða barnalaga, nr. 76/2003, um forsjá.

Í 1. mgr. 29. gr. barnalaga, nr. 76/2003, komi fram að barn eigi rétt á forsjá beggja foreldra sinna sem séu í hjúskap, sbr. þó 3. mgr. 31. gr., eða hafi skráð sambúð sína í þjóðskrá. Í 2. mgr. komi fram að ef foreldrar barns séu hvorki í hjúskap né skráðri sambúð við fæðingu barns þá fari móðir ein með forsjá þess, sbr. þó 1. mgr. 32. gr. Í 1. mgr. 32. gr. laganna sé fjallað um að foreldrar geti samið um að forsjá barns verði sameiginleg en samningur um forsjá barns öðlast gildi við staðfestingu sýslumanns, sbr. 5. mgr. 32. gr.

Fyrir liggi í gögnum málsins að hjúskaparstaða/sambúðarstaða hins látna og móðurinnar hafi verið með þeim hætti við fæðingu barnsins að móðirin hafi ein farið með forsjá þess, sbr. 2. mgr. 29. gr. barnalaga, nr. 76/2003. Ekki hafi verið gerður samningur um sameiginlega forsjá, sbr. 1. mgr. 32. gr. barnalaga, þegar faðirinn hafi látist þann Z. september 2013. Sé því ljóst að skilyrði 8. mgr. 8. gr. ffl. um að hinn látni hafi haft rétt til töku fæðingarorlofs, enda hafi hann farið með forsjá barnsins, sé ekki uppfyllt.

Með vísan til alls framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að kæranda hafi réttilega verið synjað um yfirfærslu réttinda skv. 8. mgr. 8. gr. ffl. með bréfi, dags. 15. október 2013.

 

IV. Athugasemdir kæranda.

Í athugasemdum kæranda kemur fram að Fæðingarorlofssjóður hafi bent á í greinargerð sinni að lögin geri ráð fyrir því að réttur foreldris til greiðslu fæðingarorlofs miðist við að foreldrið fari með forsjá barnsins eða ef um forsjárlaust foreldri sé að ræða þá heimili forsjárforeldri umgengni við barnið þann tíma sem fæðingarorlof standi yfir. Eins og fram hafi komið hafi barnsfaðir kæranda látist X dögum eftir að barn þeirra hafi fæðst. Því hafi ekki unnist tími til að ganga frá málum er hafi varðað faðernisviðurkenningu, forsjá og umgengni. Það geti ekki staðist að lögin skuli túlkuð þannig að vegna þess að faðir barnsins hafi látist svo stuttu eftir fæðinguna sé af henni tekinn sá réttur til samvista við eftirlifandi foreldri sem löggjafinn hafi séð sérstaka ástæðu til að tryggja börnum sem verði fyrir því óláni að missa annað foreldri sitt. Slík túlkun samrýmist ekki markmiði ffl., barnalögum eða barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem lögfestur hafi verið hér á landi.

Kærandi bendi á að í 8. mgr. 8. gr. ffl. sé kveðið á um að ef annað foreldri andast áður en barn nái 24 mánaða aldri færist sá réttur til fæðingarorlofs sem hinn látni hafi ekki þegar nýtt sér yfir til eftirlifandi foreldris. Ákvæðið þetta kveði á skýran hátt um rétt til handa eftirlifandi foreldri og barni og leiði af viðurkenndum sjónarmiðum um vægi réttarheimilda að sá réttur verði ekki af tekinn eða takmarkaður með ummælum í greinargerð með lagafrumvarpi.

 

V. Niðurstaða.

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna andláts hins foreldris.  

Andast annað foreldrið áður en barn nær 24 mánaða aldri færist sá réttur til fæðingarorlofs sem hinn látni hefur ekki þegar nýtt sér yfir til eftirlifandi foreldris, sbr. 8. mgr. 8. gr. ffl. 

Samkvæmt skýru lagaákvæði er hér um að ræða yfirfærslu réttinda en ekki sjálfstæðan rétt eftirlifandi foreldris til greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði ólíkt því þegar annað foreldra andast á meðgöngu barns en barnið fæðst lifandi, sbr. 4. mgr. 8. gr. ffl.

Vegna þessa þarf að líta til þess hvort hið látna foreldri hefði uppfyllt skilyrði laganna um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði eða greiðslu fæðingarstyrks. Samkvæmt 6. mgr. 8. gr. ffl. er réttur foreldris til fæðingarorlofs bundinn því að það fari sjálft með forsjá barnsins eða hafi sameiginlega forsjá ásamt hinu foreldri þess þegar taka fæðingarorlofs hefst, sbr. þó 7. mgr. En þar segir að forsjárlaust foreldri eigi rétt til fæðingarorlofs liggi fyrir samþykki þess foreldris sem fari með forsjána um að forsjárlausa foreldrið hafi umgengni við barnið þann tíma sem fæðingarorlof standi yfir. Sambærileg skilyrði eru fyrir greiðslu fæðingarstyrks til foreldra utan vinnumarkaðar og greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi, sbr. 7. og 8. mgr. 18. gr. og 19. gr. ffl.

Óumdeilt er í málinu að hjúskapar- og sambúðarstaða kæranda og hins látna var með þeim hætti við andlát barnsföður kæranda að kærandi fór ein með forsjá þess, sbr. 2. mgr. 29. gr. barnalaga. Þá er einnig ljóst að ekki hafði verið gerður samningur um sameiginlega forsjá eða að fyrir lægi samþykki kæranda um umgengni. Það liggur því fyrir að barnsfaðir kæranda hefði ekki átt rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði, fæðingarstyrk til foreldra utan vinnumarkaðar eða fæðingarstyrk til foreldra í fullu námi er hann lést og því ekki um nein þeirra réttinda að ræða sem unnt væri að færa yfir til kæranda. Er hér ekki um að ræða þrengingu á lögmæltum rétti á grundvelli athugasemda í greinargerð, heldur skýra afmörkun réttinda samkvæmt lögunum sjálfum.

Hin kærða ákvörðun verður því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda, A um yfirfærslu réttinda vegna andláts hins foreldris er staðfest.

 

Haukur Guðmundsson

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum