Hoppa yfir valmynd
21. janúar 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 36/2013

Þriðjudaginn 21. janúar 2014

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Haukur Guðmundsson hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 30. ágúst 2013 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 26. ágúst 2013. Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi, dags. 21. maí 2013, þar sem henni var tilkynnt að kröfu hennar um dráttarvexti vegna greiðslna samkvæmt lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna hafi verið hafnað.   

Með bréfi, dags. 3. september 2013, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar sem barst með bréfi, dags. 7. október 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 10. október 2013, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar frekari athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik

Kærandi sótti um greiðslur vegna alvarlegra veikinda sonar síns. Tryggingastofnun synjaði kæranda um greiðslur samkvæmt lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna. Kærandi kærði þá ákvörðun Tryggingastofnunar til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála sem með úrskurði sínum í máli nr. 74/2012, dags. 24. janúar 2013, felldi ákvörðun Tryggingastofnunar úr gildi. Þann 15. febrúar 2013 fékk kærandi greiddar X kr. fyrir tímabilið frá 1. febrúar 2012 til 30. apríl 2012. Með bréfi lögmanns kæranda, dags. 25. mars 2013, var þess krafist að Tryggingastofnun greiddi kæranda dráttarvexti frá gjalddaga, þ.e. 9. maí 2012, og til greiðsludags. Með bréfi, dags. 21. maí 2013, hafnaði Tryggingastofnun greiðslu dráttarvaxta og hefur kærandi nú kært þá ákvörðun til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála.

 

II. Sjónarmið kæranda.

Kærandi greinir frá því að þann 15. febrúar 2013 hafi kærandi fengið greiddar X kr. fyrir tímabilið frá 1. febrúar 2012 til 30. apríl 2012. Kærandi byggi dráttarvaxtakröfu sína á III. kafla laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laganna segi að ef gjalddagi sé fyrirfram ákveðinn sé kröfuhafa heimilt að krefja skuldara um dráttarvexti frá gjalddaga að greiðsludegi.

Í 2. mgr. 16. gr. laga nr. 22/2006 komi fram að greiðslan skyldi innt af hendi þegar önninni lyki. Það hafi verið 9. maí 2012, sbr. staðfestingu Háskólans á Akureyri þess efnis, dags. 25. mars 2013. Þar sé um lögákveðinn gjalddaga að ræða. Sú mikla töf sem hafi orðið á því að greiðsla bærist verði ekki rakin til kæranda.

Kærandi hafi átt rétt á fjárhagsaðstoð samkvæmt lögum nr. 22/2006. Ljóst sé að dráttur á fjárhagsaðstoð sé bagalegur og tilgangur dráttarvaxta að bæta tjón sem hljótist af töfum. Í bréfi Tryggingastofnunar, dags. 21. maí 2013, segi að í lögum nr. 22/2006 sé ekki að finna heimild til að greiða vexti eða dráttarvexti á vangreiddar greiðslur samkvæmt lögunum. Í 1. gr. laga nr. 38/2001 segi að lögin gildi um vexti af peningakröfum á sviði fjármunaréttar og á öðrum sviðum réttarins eftir því sem við geti átt. Því sé alfarið hafnað að sérstaka heimild hefði þurft í lögum nr. 22/2006 til að greiða dráttarvexti og byggt á því að vaxtalögin gildi þar sem greiðslurnar hafi ekki verið sérstaklega undanskildar almennum reglum vaxtalaganna.

Varðandi kærufrest sé vísað til þess að bréf Tryggingastofnunar, dags. 21. maí 2013, hafi borist kæranda þann 28. maí 2013. Því verði einnig að nefna að hvorki bréfið né afrit þess hafi verið sent lögmanni kæranda, sem hafi þó sent kröfuna til stofnunarinnar en það hljóti að teljast fremur sérkennilegt að svara ekki þeim sem sendi erindi.

Með vísan til framangreinds sé þess krafist að staðfest verði að greiða beri kæranda dráttarvexti af X kr. frá 9. maí 2012 til 15. febrúar 2013.

 

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar.

Af hálfu Tryggingastofnunar kemur fram að kærð sé ákvörðun Tryggingastofnunar um synjun á greiðslu dráttarvaxta á greiðslur samkvæmt lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, nr. 22/2006, með síðari breytingum.

Með bréfi, dags. 21. maí 2013, hafi Tryggingastofnun synjað beiðni lögmanns kæranda um að greiða dráttarvexti af X kr. sem kæranda hafi verið greiddar í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála í máli nr. 74/2012. Um sé að ræða foreldragreiðslur til foreldra í námi samkvæmt lögum nr. 22/2006.

Greiðslur samkvæmt lögum nr. 22/2006 séu fjárhagsaðstoð til foreldra þegar þeir geti hvorki stundað vinnu né nám vegna sérstakrar umönnunar barna sinna sem hafi greinst með alvarlega og langvinna sjúkdóma eða alvarlega fötlun. Um heimildargreiðslur sé að ræða þar sem Tryggingastofnun sé falið að leggja mat á það hvort skilyrði laganna séu uppfyllt. Réttur foreldra til greiðslna samkvæmt lögunum sé því ekki skilyrðislaus. Í lögunum sé hvergi að finna heimild til að greiða vexti eða dráttarvexti á vangreiddar greiðslur samkvæmt lögunum.

Þar sem hvergi í lögum nr. 22/2006 sé minnst á heimild til greiðslu vaxta eða dráttarvaxta af vangreiddum greiðslum samkvæmt lögunum hafi kæranda verið synjað um greiðslu dráttarvaxta. Með vísan til framangreinds um eðli greiðslna samkvæmt lögum nr. 22/2006 telji Tryggingastofnun að ekki sé heimilt að beita lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, í þessu tilviki.

 

IV. Niðurstaða.

Kærð er sú ákvörðun Tryggingastofnunar að hafna kröfu kæranda um greiðslu dráttarvaxta.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, nr. 22/2006, segir að heimilt sé að kæra ákvarðanir framkvæmdaraðila um réttindi foreldra langveikra barna eða alvarlega fatlaðra barna sem teknar eru á grundvelli laga þessara til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála.  

Hvergi í lögum nr. 22/2006 er fjallað um vexti og/eða dráttarvexti vegna tafa á greiðslu Tryggingastofnunar. Samkvæmt kærunni sjálfri byggir krafan alfarið á lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001. Sú ákvörðun Tryggingastofnunar að synja greiðslu dráttarvaxta getur því ekki talist reist á grundvelli laga nr. 22/2006 og er því ekki kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

Málinu er því vísað frá úrskurðarnefnd.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Kæru kæranda, dags. 26. ágúst 2013, er vísað frá úrskurðarnefnd.

 

Haukur Guðmundsson

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum