Hoppa yfir valmynd
31. maí 2001 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 6/2001

Fimmtudaginn, 31. maí 2001

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir, hdl., Jóhanna Jónasdóttir, læknir, og Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri.

Þann 30. mars 2001 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A.

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins á mánaðarlegum greiðslum til kæranda í fæðingarorlofi.

Málavextir eru þeir að A sendi inn kæru, dags. 27. mars 2001, til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Hinn 27. desember 2000 sækir kærandi um greiðslur úr fæðingarorlofssjóði samkvæmt lögum nr. 95/2000 (ffl.). Hún óskar eftir því að fá samfelldar greiðslur frá 2. febrúar 2001 til 2. október 2001. A ól tvíbura 2. febrúar 2001.

Með bréfi, frá Tryggingastofnun ríkisins, dags. 1. mars, var kæranda tilkynnt um greiðslur fæðingarstyrks í fæðingarorlofi. Kærandi telur sig eiga rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Í rökstuðningi með kæru segir:

"Í upplýsingabæklingi um fæðingarorlof útgefnum af Tryggingastofnun ríkisins í feb. 2001 segir.: "Lágmarksgreiðsla til foreldris sem verið hefur í 25% - 49% starfi er 57.057,-". Undirrituð telur sig hafa verið í starfi sem [því] nemur. Undirrituð telur að hún hafi á tímabilinu desember 1999 til nóvember 2000 (12. mánuðir) verið í 28,4% starfi, þ.e. 13,1% starfi v/eigin atvinnurekstrar og 15,3% starfi v/vinnu hjá B ehf."

Með bréfi, dags. 5. apríl 2001, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins barst 7. maí 2001. Í greinargerðinni segir:

"Með umsókn A um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði dags. 27. desember 2000 fylgdu tvær tilkynningar um fæðingarorlof þar sem hún annars vegar tilgreindi starfshlutfall sitt sem sjálfstæðs atvinnurekanda 38% og hins vegar til B hársnyrtistofu þar sem starfshlutfall hennar var tilgreint 62%. Á tilkynningu til hársnyrtistofunnar kemur fram sú athugasemd að hún hafi unnið þar frá október 1999 október 2000 (og hafi því hætt að vinna þar þremur mánuðum fyrir áætlaðan fæðingardag).

Í 2. mgr. [7.] gr. laganna segir m.a.: Starfsmaður er í lögum þessum hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði."

Í 13. gr. laganna segir m.a. í 1., 2. og 4. mgr..: "Foreldri... öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.... Mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skal nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við 12 mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum [um] tryggingagjald. Greiðsla í fæðingarorlofi til foreldris í 25-49% starfi í hverjum mánuði skal þó aldrei vera lægri en sem nemur [57.057] kr. á mánuði og greiðsla til foreldris í 50%-100% starfi í hverjum mánuði skal aldrei vera lægri en sem nemur [79.077] kr. á mánuði."...

Í 3. mgr. 15. gr. laganna segir:

"Útreikningur á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skulu byggjast á upplýsingum sem Tryggingastofnun ríkisins aflar um tekjur starfsmanns eða sjálfstætt starfandi foreldris úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Telji foreldri upplýsingar úr viðkomandi skrá ekki réttar skal það leggja fram gögn því til staðfestingar."

Í 1. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar segir: "Með samfelldu starfi er átt við að foreldri hafi verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs."

Í 5. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar segir: "Þegar meta á starfshlutfall sjálfstætt starfandi foreldris skal fara eftir viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald í staðgreiðslu á því ári sem um er að ræða."

A sótti um að greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hæfust frá 2. febrúar 2001 og var það því skilyrði fyrir að hún ætti rétt á þeim greiðslum að hún hefði verið í a.m.k. 25% starfshlutfalli síðustu sex mánuði á undan, þ.e. tímabilið ágúst 2000-janúar 2001.

Samkvæmt athugasemd á tilkynningu um fæðingarorlof til B hársnyrtistofu vann hún þar frá október 1999-október 2000 og var því ekki í starfi þar síðustu þrjá mánuðina. Í staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra fékk hún greidd laun þar fyrir tímabilið janúar júní og einnig fyrir ágúst sem þýðir að hún hafi ekki verið að vinna þar síðustu fimm mánuðina fyrir fæðingarorlof.

Samkvæmt yfirliti ríkisskattstjóra fyrir árið 2000 var áætlað reiknað endurgjald hennar kr. 20.000 á mánuði sem samkvæmt viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald í staðgreiðslu á árinu 2000 fyrir flokk D (2 og 3 um hvað iðnaðarmenn, sem starfa einir eða með einum ófaglærðum aðstoðarmanni í iðngrein sinni skuli reikna sér kr. 150.000 á mánuði sem laun fyrir fullt starf) var hún í 13,3% starfi.

Lífeyristryggingasvið telur að A hafi ekki uppfyllt það skilyrði að vera samfellt í starfi í a.m.k. 25% starfshlutfalli síðustu sex mánuðina fyrir fæðingarorlof. Hún eigi því ekki rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði."

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 9. maí 2001, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins á mánaðarlegum greiðslum til A vegna töku fæðingarorlofs tímabilið 2. febrúar 2001 til 2. október 2001.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. ffl. öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

Með samfelldu starfi er átt við a.m.k. 25% starf í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Samkvæmt gögnum málsins uppfyllir kærandi ekki framangreint skilyrði, þ.e. að hafa verið í 25% samfelldu starfi í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Þar af leiðandi hefur kærandi ekki áunnið sér rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu fæðingarstyrks staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu fæðingarstyrks til A, er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir, hdl.

Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri

Jóhanna Jónasdóttir, læknir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum