Hoppa yfir valmynd
1. október 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 72/2012.

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 1. október 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 72/2012.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 16. desember 2011, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum stofnunarinnar hefði hún fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 1. febrúar til 19. júní 2009. Um væri að ræða afturvirkar leiðréttingar vegna tekna í hlutastarfi og skuldin yrði innheimt á grundvelli 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem hún væri ekki lengur skráð sem atvinnuleitandi. Kæranda var gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 139.468 kr. með 15% álagi að fjárhæð 20.920 kr., samtals 160.388 kr. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með kæru móttekinni 23. apríl 2012. Vinnumálastofnun telur að vísa beri málinu frá þar sem kæran sé of seint fram komin.

 

Samkvæmt tekjuáætlun kæranda var hún í 80% starfshlutfalli hjá B ehf. með áætlaðar tekjur 320.000 kr. á mánuði samhliða töku atvinnuleysistrygginga. Samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar komu þessar tekjur kæranda til frádráttar atvinnuleysisbótum hennar á tímabilinu. Tekjur kæranda samkvæmt launaseðlum hennar voru iðulega hærri en áætlaðar tekjur samkvæmt tekjuáætlun og safnaði kærandi upp skuld á sama tíma og hún fékk greiddar atvinnuleysistryggingar frá stofnuninni.

 

Kæranda var tilkynnt um hina kærðu ákvörðun með bréfi, dags. 16. desember 2011.

 

Af hálfu kæranda kemur meðal annars fram í kæru að hún hafi staðið í þeirri meiningu að hún væri búin að kæra ákvörðunina þar sem hún hafi tjáð tilgreindum starfsmanni Vinnumálastofnunar það 8. janúar 2012 en hún hafi verið í sambandi við hann. Kærandi kveðst ekki hafa gert sér grein fyrir að hún hafi þurft að kæra formlega til úrskurðarnefndarinnar fyrr en fulltrúi sýslumannsins á Blönduósi hafi greint henni frá því. Kærandi kveðst jafnframt hafa verið í sambandi við Vinnumálastofnun. Kærandi greinir frá því að endurkrafan hafi komið sér mjög á óvart þar sem tvö og hálft ár sé liðið frá því hún hafi fengið síðustu mánaðargreiðsluna. Kærandi bendir á að hún hafi verið í góðri trú þar sem allar upplýsingar um raun-laun hennar hafi alltaf legið strax fyrir eins og komi fram á launaseðlum Vinnumálastofnunar. Kærandi veltir fyrir sér hvort útreikningar Vinnumálastofnunar hafi verið rangir eða hvort forsendunum hafi verið breytt síðar.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 20. júní 2012, kemur fram að þriggja mánaða kærufrestur hafi byrjað 16. desember 2011 og kæran sé dagsett 23. apríl 2012 og því sé fresturinn liðinn og vísa beri málinu frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 16. júlí 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 30. júlí 2012. Athugasemdir kæranda bárust í bréfi, dags. 3. júlí 2012.

 

Í athugasemdum kæranda greinir hún frá því að hún hafi tilkynnt Vinnumálastofnun í tölvupósti 8. janúar 2012 að hún hefði fullan hug á því að kæra ákvörðunina og þá hafi hún haldið að hún hefði með því kært ákvörðunina. Kærandi kveðst ekki hafa vitað að til væri sérstök kærunefnd og henni hafi ekki verið leiðbeint um það þegar hún sendi tölvupóst sinn til Vinnumálstofnunar.

 

Með bréfi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 1. nóvember 2012, er kæranda tilkynnt um að mál hennar muni tefjast hjá nefndinni sökum gríðarlegs málafjölda hjá úrskurðarnefndinni.


2.

Niðurstaða

 

Hin kærða ákvörðun var tilkynnt kæranda með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 16. desember 2011. Kæran barst úrskurðarnefndinni 23. apríl 2012 eða eftir að hinn þriggja mánaða kærufrestur var liðinn, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi heldur því fram að hún hafi greint frá því í tölvupósti 8. janúar 2012 til Vinnumálastofnunar að hún ætlaði að kæra úrskurðinn og talið að með því að hún hafi verið að gera það. Þá greinir hún frá því að hún hafi ekki fengið leiðbeiningar frá stofnuninni. Vinnumálastofnun telur að kærufrestur hafi verið liðinn er kærandi lagði inn kæru til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

 

Af lestri tölvupósts kæranda frá 8. janúar 2012 er ljóst að kærandi telur að hún sé að kæra ákvörðunina til Vinnumálastofnunar og í svari Vinnumálastofnunar, dags. 12. janúar 2012, fær kærandi ónákvæmar leiðbeiningar sem auðvelt var að misskilja. Með vísan til þessa verður litið svo á að afsakanlegt hafi verið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

 

Mál þetta lýtur að því að kærandi fékk ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu frá 1. febrúar til 19. júní 2009.

 

Í gögnum máls þessa liggur fyrir hverjar tekjur kæranda voru í starfi hennar hjá B ehf. á umræddu tímabili.

 

Í 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segir:

 

Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

 

Í greinargerð með ákvæðinu er áréttað að Vinnumálastofnun hafi heimildir samkvæmt því til að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta. Sérstaklega er tekið fram að það eigi við í öllum tilvikum sem kunna að valda því að hinn tryggði hafi fengið hærri greiðslur en honum bar. Það er því tekið fram að ekki skipti máli hver ástæða þess er að hinn tryggði hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Með vísan til þessa eru engin rök til þess að fella niður skyldu kæranda til endurgreiðslu ofgreiddra bóta þrátt fyrir að Vinnumálastofnun hafi móttekið launaseðla kæranda jafnóðum og kærandi kveðst hafa sent þá.

 

Í 17. og 22. gr., sbr. 32. og 34. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, er nákvæm útlistun á því hvernig reikna skuli þær hámarksbætur sem hinn tryggði getur átt rétt á úr sjóðnum. Kærandi fékk ofgreiddar bætur að fjárhæð 139.468 kr. á tímabilinu frá 1. febrúar til 19. júní 2009 og er sá útreikningur Vinnumálastofnunar ekki véfengdur. Í tekjuáætlun, dags. 22. janúar 2009, greinir kærandi frá því að hún muni vera í 80% starfshlutfalli með 320.000 kr. í laun á mánuði. Af hálfu kæranda kemur fram að upplýsingar um raun-laun hennar hafi legið fyrir jafnóðum en ekki er fyrir að finna neitt í gögnum málsins er styður þær fullyrðingar kæranda. Með vísan til þess er kæranda einnig gert með vísan í 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að greiða 15% álag að fjárhæð 20.920 kr. en með álaginu er fjárhæðin alls 160.388 kr.

 

Ekki verður hjá því komist að staðfesta niðurstöðu hinnar kærðu ákvörðunar að öðru leyti enda er hún í samræmi við ákvæði laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. framantalin lagaákvæði.


 

 

Úr­skurðar­orð

 

Ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli B sem tilkynnt var henni í bréfi, dags. 16. desember 2011 um endurkröfu ofgreiddra atvinnuleysisbóta á tímabilinu frá 1. febrúar til 19. júní 2009 er staðfest. Kærandi skal endurgreiða 160.388 kr.

 

Brynhildur Georgsdóttir,

for­maður

 

 

 

Hulda Rós Rúriksdóttir                     Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum