Hoppa yfir valmynd
15. apríl 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 8/2011

Fimmtudaginn 15. apríl 2011

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Jóna Björk Helgadóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 4. maí 2010 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 30. apríl 2010. Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir nefndur Fæðingarorlofssjóður) sem tilkynnt var með bréfi, dags. 14. apríl 2010, um útreikning á greiðslum frá Fæðingarorlofssjóði.

Þann 28. júní 2010 kvað úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála upp úrskurð í málinu þar sem ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs var staðfest.

Í forsendum úrskurðar nefndarinnar kom meðal annars fram að þegar fæðingarorlof með eldra barni hefur verið tekið samhliða minnkuðu starfshlutfalli á viðmiðunartímabili tekjuútreiknings, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.), bæri að mati úrskurðarnefndarinnar að skýra 3. tölul. 2. mgr. 13. gr. ffl. svo að greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði skyldu reiknaðar sem hlutfall af viðmiðunartekjum í fæðingarorlofi, þannig að greiðslurnar væru uppreiknaðar í hlutfallinu 100/80. Greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á viðmiðunartímabilinu þannig uppreiknaðar að viðbættum launum vegna starfa foreldris væru síðan grundvöllur útreiknings viðmiðunartekna vegna yngra barns. Þar sem kærandi hafi dreift orlofinu yfir tólf mánaða tímabil án samhliða vinnu í skertu starfshlutfalli skyldu greiðslur miðast við hlutfall af viðmiðunartekjum í samræmi við töku fæðingarorlofs. Það að greiðslum vegna sex mánaða fæðingarorlofs væri dreift á tólf mánaða tímabil í stað 100% greiðslna í sex mánuði gæti ekki leitt til annarrar niðurstöðu að mati nefndarinnar.

Þann 21. janúar 2011 birti umboðsmaður Alþingis álit nr. 5862/2009. Í áliti umboðsmanns er meðal annars tekið fram að ekki væri fært að fella þann hóp foreldra sem hafa á grundvelli 10. gr. ffl. ákveðið að dreifa fæðingarorlofi sínu vegna eldra barns yfir á fleiri en sex mánuði án þess að þiggja samhliða launatekjur í minnkuðu starfshlutfalli, í sama flokk og foreldra sem hafi í fyrra fæðingarorlofi verið samhliða í hlutastarfi. Þá kemur einnig fram að af texta 3. málsl. 2. mgr. 13. gr. ffl. og tilvitnuðum lögskýringargögnum verði ekki dregin önnur ályktun en sú að við útreikning fæðingarorlofsgreiðslna vegna síðara barns, a.m.k. í þeim tilvikum þegar foreldri hefur á viðmiðunartímabili verið í fæðingarorlofi vegna eldra barns og ekki þegið aðrar tekjur til dæmis vegna hlutastarfs, beri fortakslaust að miða við þær viðmiðunartekjur sem mynduðu grunn fyrir greiðslu fæðingarorlofs vegna fyrra barns. Skipti þá engu máli hvort foreldri hafi í samráði við vinnuveitanda, og með heimild í 10. gr. ffl., skipt fæðingarorlofi sínu upp í fleiri mánuði en þá sex sem það á rétt á, nýti það einnig sjálft þá þrjá mánuði sem það á sameiginlega með hinu foreldrinu.

Þann 28. febrúar 2011 barst nefndinni beiðni kæranda um endurupptöku málsins með vísan til fyrrnefnds álits umboðsmanns Alþingis. Úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála fellst hér með á endurupptökubeiðni kæranda, sbr. meðal annars 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Barn kæranda er fætt Y. maí 2010 og því er viðmiðunartímabil útreiknings meðaltals heildarlauna hennar skv. 2. mgr. 13. gr. ffl. tímabilið nóvember 2008 til október 2009. Óumdeilt er að kærandi var á vinnumarkaði í skilningi ffl. allt viðmiðunartímabilið. Samkvæmt gögnum málsins var kærandi í fæðingarorlofi með barni fæddu Y. febrúar 2009 á viðmiðunartímabilinu, þ.e. frá febrúar til og með október 2009, og fékk greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á því tímabili. Samkvæmt gögnum málsins fékk hún 37% greiðslu í febrúarmánuði 2009, 50% greiðslu mánuðina mars 2009 til janúar 2010 og 13% greiðslu í febrúar 2010.

Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 10. gr. ffl. er starfsmanni heimilt með samkomulagi við vinnuveitanda að haga fæðingarorlofi á þann veg að það skiptist niður á fleiri tímabil og/eða það verði tekið samhliða minnkuðu starfshlutfalli, sbr. þó 3. mgr. Kjósi foreldri þessa tilhögun fæðingarorlofs, og nái um það samkomulagi við vinnuveitanda, fær foreldri hlutfallslegar greiðslur allt fæðingarorlofið, en getur aldrei fengið hærri fjárhæð samtals en sem nemur 80% af meðaltali heildarlauna (viðmiðunartekna) í sex mánuði. Í 1. mgr. 10. gr. ffl. er ekki gert ráð fyrir þeirri tilhögun sem kærandi valdi um fyrirkomulag fæðingarorlofs, þ.e. að skipta greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði á tólf mánaða tímabil án þess að vera samhliða í vinnu í skertu starfshlutfalli. Sú venja mun hins vegar hafa skapast hjá Fæðingarorlofssjóði að fallast á slíkt fyrirkomulag.

Í 3. málsl. 2. mgr. 13. gr. ffl. segir að þegar foreldri hefur fengið greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á viðmiðunartímabili skuli taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem þær greiðslur miðuðust við þegar greiðslur með yngra barni eru ákvarðaðar. Ákvæði 3. málsl. 2. mgr. 13. gr. ffl. er fortakslaust að þessu leyti og veitir ekki heimild til að beita þeirri reiknireglu, sem beitt hefur verið um foreldra sem hafa verið í skertu starfshlutfalli samhliða fæðingarorlofi, um tilvik kæranda.

Með hliðsjón af framanrituðu er hin kærða ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs felld úr gildi. Við útreikning meðaltals heildarlauna kæranda og greiðslu til hennar úr Fæðingarorlofssjóði á þessu tímabili skal taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem greiðsla fyrra fæðingarorlofs hennar miðaðist við.

 

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um útreikning greiðslna til A úr Fæðingarorlofssjóði er felld úr gildi. Við útreikning meðaltals heildarlauna kæranda skal taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem greiðsla fyrra fæðingarorlofs hennar miðaðist við.

 

 

Jóna Björk Helgadóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum