Hoppa yfir valmynd
17. febrúar 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 47/2010

Fimmtudaginn 17. febrúar 2011

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Jóna Björk Helgadóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 24. desember 2010 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 21. desember 2010. Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir nefndur Fæðingarorlofssjóður) sem tilkynnt var með bréfi, dags. 10. desember 2010, um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni í fullu námi.

Með bréfi, dags. 27. desember 2010, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem barst með bréfi, dags. 6. janúar 2011.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 12. janúar 2011, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

 

I.

Sjónarmið kæranda.

Kærandi greinir frá því að umsókn hennar hafi verið synjað á þeim forsendum að hún hafi ekki talist uppfylla kröfur l. mgr. 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.), um fullt samfellt nám yfir sex mánaða tímabil.

Kærandi kveðst hafa stundað fullt nám undanfarin þrjú misseri en þar sem hún glími við sértæka lestrarerfiðleika hafi hún ekki náð 100% námsárangri. Mæting hennar hafi hins vegar verið með besta móti þessi þrjú misseri og árangur í verkefnavinnu á námstímabili hafi verið ágætur. Á hinn bóginn hafi henni reynst erfitt að taka próf og niðurstöður prófa ekki verið í samræmi við ágætt gengi að öðru leyti, með tilliti til verkefna og ástundunar.

Kærandi greinir frá því að henni sé ljóst að skilyrði um fullt nám séu ekki uppfyllt. Kærandi greinir jafnframt frá því að henni virðist eins og kerfið geri ekki ráð fyrir því að einstaklingar undir 18 ára geti fætt börn eða glímt við sértæka námserfiðleika. Aðstæður hennar virðast falla alls staðar milli þilja og skilaboðin séu þau að hún þurfi að lifa á 49.702 kr. fyrir skatt og leita á náðir félagslega kerfisins til að geta framfleytt sér og barni sínu.

 

II.

Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs.

Af hálfu Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærandi hafi með ódagsettri umsókn, sem barst þann 28. október 2010, sótt um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri í fullu námi vegna væntanlegrar barnsfæðingar 12. janúar 2011. Með umsókn kæranda hafi fylgt tvær námsferilsáætlanir frá B-framhaldsskólanum, dags. 27. ágúst og 14. september 2010, bréf frá B-framhaldskólanum, dags. 6. september 2010, ódagsett bréf frá kæranda, mat á lestrar- og skriftarörðugleikum, dags. 26. maí 2003, vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 4. nóvember 2010, meðgönguskrá og búsetuvottorð. Enn fremur hafi legið fyrir upplýsingar úr Þjóðskrá Íslands.

Fæðingarorlofssjóður greinir frá því að með bréfi, dags. 10. desember 2010, hafi kæranda verið synjað um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri í fullu námi. Í bréfinu hafi verið tiltekið að kærandi teldist ekki hafa uppfyllt almenna skilyrðið um að hafa stundað fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir áætlaðan fæðingardag barnsins.

Fæðingarorlofssjóður vísar til þess að skv. 1. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, eigi foreldrar sem verið hafa í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og sýnt viðunandi námsárangur rétt á fæðingarstyrk. Foreldri skuli leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og sýnt viðunandi námsárangur. Heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Fæðingarorlofssjóður vísar jafnframt til þess að skilgreiningu á fullu námi sé að finna í 4. mgr. 7. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008. Þar komi fram að fullt nám í skilningi ffl. teljist vera 75–100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms.

Fæðingarorlofssjóður bendir á að barn kæranda hafi fæðst Y. janúar 2011 og því verði, við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám samfellt í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins, að horfa til tímabilsins frá Y,. janúar 2010 fram að fæðingardegi barnsins.

Fæðingarorlofssjóður greinir frá því að eftir að kæra var komin fram hafi sjóðurinn ákveðið að kalla eftir nýrri námsferilsáætlun frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja, dags. 6. janúar 2011, vegna misræmis milli fyrri námsferilsáætlana og upplýsinga af fylgibréfi með kæru. Í námsferilsáætlun, dags. 6. janúar 2011, komi fram að á tólf mánaða tímabilinu fyrir fæðingu barnsins hafi kærandi stundað nám við skólann á vor- og haustönn 2010. Á vorönn 2010 hafi kærandi verið skráð í 15 einingar og þar af staðist 7 en fallið í 8 einingum. Á haustönn 2010 hafi kærandi verið skráð í 15 einingar og þar af staðist 11 en fallið í 4 einingum.

Fæðingarorlofssjóður greinir einnig frá því að eftir að kæra var komin fram hafi sjóðurinn einnig ákveðið að afla frekari upplýsinga frá áfangastjóra B-framhaldsskóla um fyrirkomulag náms kæranda, dags. 6. janúar 2011, og að afla upplýsinga af heimasíðu skólans um fyrirkomulag námsins. Í gögnum málsins komi fram að kærandi hafi verið skráð á C-braut í 15 einingar á hverri önn, þ.e. haustönn 2009, vorönn 2010 og haustönn 2010. Á heimasíðu skólans komi fram að C-braut sé 75 eininga nám og meðalnámstími séu fjórar annir en einnig sé gert ráð fyrir að hægt sé að taka námið á fimm önnum. Ef miðað sé við að námið sé tekið á fjórum önnum eru teknar að meðaltali 18,75 einingar á önn en 15 einingar á önn ef námið er tekið á fimm önnum.

Fæðingarorlofssjóður bendir á að þegar um sé að ræða nám við framhaldsskóla sé meginreglan sú að 18 einingar á önn teljist vera 100% nám og því teljast 13–18 einingar vera fullt nám samkvæmt ffl. Með hliðsjón af þeim gögnum sem fyrir liggja um fyrirkomulag náms kæranda og námsframvindu líti Fæðingarorlofssjóður svo á að kærandi uppfylli ekki almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi samfellt í a.m.k. sex mánuði síðustu tólf mánuðina fyrir fæðingardag barns.

Í gögnum málsins sé að finna mat á lestrar- og skriftarörðugleikum kæranda. Í matinu komi fram að kærandi sé greind með sértæka námserfiðleika. Í bréfi frá B-framhaldskólanum, dags. 6. september 2010, komi fram að kærandi hafi verið í fullu námi á báðum önnum síðastliðinn vetur og stundað námið vel eins og mætingar gefi til kynna. Þrátt fyrir góðar mætingar þá hafi námið gengið fremur illa. Síðan komi fram í bréfinu að kærandi hafi greiningu um sértæka lestrarörðugleika og það megi vera að þeir erfiðleikar hafi áhrif á gengi hennar í námi.

Fæðingarorlofssjóður bendir á að í ffl. og reglugerð nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, sé að finna nokkrar undanþágur frá framangreindu skilyrði um fullt nám. Þar sé hins vegar ekki að finna undanþágu sem heimilar að vikið sé frá skilyrðinu um fullt nám vegna framangreindra aðstæðna kæranda.

Með vísan til alls framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi hafi réttilega verið synjað með bréfi, dags. 10. desember 2010.

 

III.

Niðurstaða.

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni með bréfi, dags. 10. desember 2010.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, eiga foreldrar sem verið hafa í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og sýnt viðunandi námsárangur rétt til fæðingarstyrks. Foreldri skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og sýnt viðunandi námsárangur. Heimilt er að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Í 4. mgr. 7. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008, segir að fullt nám samkvæmt lögunum sé 75–100% nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms.

Barn kæranda fæddist Y. janúar 2011. Tólf mánaða viðmiðunartímabil skv. 1. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, er því frá Y. janúar 2010 fram að fæðingu barnsins.

Kærandi stundaði nám í B-framhaldskólanum. Samkvæmt yfirliti frá skólanum, dags. 6. janúar 2011, var kærandi skráð í alls 15 einingar á bæði vor- og haustönn 2010. Þar af lauk kærandi 7 einingum á vorönninni og 11 einingum á haustönninni.

Fullt nám í framhaldsskóla telst vera 18 einingar á önn. Fullt nám í skilningi ffl. er því 13–18 einingar á hvorri önn, sbr. 4. mgr. 7. gr. ffl. Þar sem kærandi lauk einungis 7 einingum á vorönn og 11 á haustönn er óhjákvæmilegt að líta svo á að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 19. gr. ffl. um fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns.

Hvorki í ffl. né reglugerð nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, er að finna heimild til undanþágu vegna þeirra aðstæðna sem uppi eru í máli kæranda, það er sökum sértækra lestrarerfiðleika. Af þeim ástæðum og með hliðsjón af öllu framangreindu verður ekki hjá því komist að staðfesta ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er staðfest.

 

 

Jóna Björk Helgadóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum