Hoppa yfir valmynd
6. janúar 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 32/2010

Fimmtudaginn 6. janúar 2011

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Jóna Björk Helgadóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 30. ágúst 2010 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 25. ágúst 2010. Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir nefndur Fæðingarorlofssjóður) sem tilkynnt var með bréfi, dags. 18. ágúst 2010, um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks til foreldris í fullu námi.

Með bréfi, dags. 30. ágúst 2010, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem barst með bréfi, dags. 8. september 2010.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 13. september 2010, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

 

I.

Sjónarmið kæranda.

Kærandi greinir frá því að hann hafi stundað fullt nám í Y við B-framhaldsskólann frá haustinu 2008 og verið í verklegu námi yfir sumartímann hjá C þannig að hann hafi í raun stundað námið allt árið um kring.

Jafnframt greinir kærandi frá því að ástæða synjunar um fæðingarstyrk námsmanna hafi verið sú að hann hafi fallið í tveimur fögum á haustönn 2009 og því hafi verið talið að hann hefði ekki sýnt viðunandi námsárangur. Kærandi greinir frá því að hann sé með lesblindu og af þeim sökum hafi hann í mörgum tilvikum þurft að hafa meira fyrir námi sínu en margir. Þá tekur kærandi fram að námsárangur hans árið 2009 hafi ekkert með þá staðreynd að gera að hann eigi von á sínu fyrsta barni og ósanngjarnt sé að tengja rétt til fæðingarstyrks við námsárangur áður en getnaður barnsins átti sér stað. Enn fremur telur kærandi að það hafi vart verið tilgangur löggjafans við setningu laganna að refsa námsmönnum eftir námsárangri enda sé hvergi minnst á viðmið um það hvað sé viðunandi í lögunum, einungis hlutfall ástundunar náms. Kærandi bendir á að viðmiðið „viðunandi“ sé nokkuð teygjanlegt og hljóti að taka mið af aðstæðum hverju sinni það sem einum kann að þykja létt geti öðrum reynst ofviða, til dæmis sökum fötlunar.

Þá telur kærandi að veruleg mismunun felist í því að synja einstaklingum um fæðingarstyrk vegna námsárangurs og bendir í því samhengi á að slakur starfsmaður fyrirtækis eigi rétt á fæðingarorlofi óháð vinnuframlagi sínu.

 

II.

Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs.

Af hálfu Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærandi hafi með umsókn, dags. 6. ágúst 2010, sótt um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri í fullu námi í sex mánuði vegna væntanlegrar barnsfæðingar 8. september 2010. Með umsókn kæranda hafi fylgt staðfesting á skólavist frá B-framhaldsskóla, dags. 6. ágúst 2010, námsframvinda frá sama skóla, dags. 6. ágúst 2010, og vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 10. ágúst 2010.

Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 18. ágúst 2010, hafi kæranda verið synjað um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri í fullu námi. Í bréfinu hafi verið tiltekið að kærandi teldist ekki hafa uppfyllt skilyrðið um að hafa stundað fullt nám á haustönn 2009.

Fæðingarorlofssjóður vísar í 1. mgr. 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlofs, nr. 95/2000, (ffl.) sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, þar sem fram komi að foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og sýnt viðunandi námsárangur eigi rétt á fæðingarstyrk. Foreldri skuli leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og sýnt viðunandi námsárangur. Heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Fæðingarorlofssjóður bendir á að skilgreiningu á fullu námi sé að finna í 4. mgr. 7. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008. Þar komi fram að fullt nám í skilningi ffl. teljist vera 75–100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem standi yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms.

Fæðingarorlofssjóður bendir enn fremur á að þar sem barn kæranda sé ekki fætt verði að miða við væntanlegan fæðingardag barns kæranda sem sé 8. september 2010 og því verði, við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám samfellt í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins, að horfa til tímabilsins frá 8. september 2009 til 8. september 2010.

Fæðingarorlofssjóður greinir frá því að samkvæmt námsframvindu frá B-framhaldsskóla, dags. 6. ágúst 2010, hafi kærandi á framangreindu tímabili stundað nám við skólann á haustönn 2009, vorönn 2010 og sé skráður í 19 einingar á haustönn 2010. Á haustönn 2009 (21. ágúst–22. desember 2009) hafi kærandi verið skráður í 17 einingar og lokið 12 einingum en fallið í 5 einingum. Á vorönn 2010 (6. janúar–22. maí 2010) hafi kærandi verið skráður í 15 einingar, lokið 13 einingum og sagt sig úr 2 einingum. Kærandi sé skráður í 19 einingar á haustönn 2010. Samkvæmt símtali við B-framhaldsskóla, dags. 8. september 2010, hafi kennsla á haustönn 2010 byrjað 23. ágúst 2010.

Fæðingarorlofssjóður greinir enn fremur frá því að þegar um sé að ræða nám við framhaldsskóla teljist 18 einingar á önn vera 100% nám og því teljist 13–18 einingar vera fullt nám samkvæmt ffl. Með hliðsjón af þeim gögnum sem fyrir liggja um námsframvindu kæranda líti Fæðingarorlofssjóður svo á að kærandi uppfylli ekki almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi samfellt í a.m.k. sex mánuði síðustu tólf mánuðina fyrir fæðingardag barns.

Loks bendir Fæðingarorlofssjóður á að hvorki í ffl. né reglugerð nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, sé að finna undanþágu til að taka tillit til námsframvindu kæranda vegna lestrarvandamála hans.

Með vísan til alls framangreinds telur Fæðingarorlofssjóður að umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks til foreldris í fullu námi hafi réttilega verið synjað með bréfi, dags. 18. ágúst 2010.

 

III.

Niðurstaða.

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmaður hinn 18. ágúst 2010.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, eiga foreldrar sem verið hafa í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og sýnt viðunandi námsárangur rétt til fæðingarstyrks. Foreldri skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og sýnt viðunandi námsárangur. Heimilt er að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Í 4. mgr. 7. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008, segir að fullt nám samkvæmt lögunum sé 75–100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms.

Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands er barn kæranda fætt hinn Y. september 2010. Tólf mánaða viðmiðunartímabil skv. 1. mgr. 19. gr. ffl. er því tímabilið frá Y. september 2009 fram að fæðingu barnsins. Samkvæmt vottorði frá B-framhaldsskóla, dags. 6. ágúst 2010, var kærandi skráður stúdent við skólann á haustönn 2009, þ.e. tímabilið frá 21. ágúst til 22. desember 2009, og lauk 12 einingum þá önn. Í vottorðinu kemur einnig fram að kærandi var skráður stúdent við skólann á vorönn 2010, þ.e. tímabilið frá 6. janúar til 22. maí 2010, og lauk 13 einingum þá önn. Þá kemur fram að kærandi var skráður í 19 einingar á haustönn 2010 en samkvæmt gögnum málsins hófst sú önn 23. ágúst 2010.

Í upphafsmálslið 1. mgr. 19. gr. ffl. segir að foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns og sýnt viðunandi námsárangur eigi sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks. Hvorki er að finna nánari skilgreiningu á hugtakinu viðunandi námsárangur í ffl. né lögskýringargögnum. Hins vegar liggur fyrir að fullt nám við framhaldsskóla telst vera 18 einingar á önn og fullt nám í skilningi ffl. er samkvæmt því 13–18 einingar á önn, sbr. 4. mgr. 7. gr. ffl. Með vísan til upphafsmálsliðar 1. mgr. 19. gr. ffl. lítur nefndin svo á að við túlkun á hugtakinu viðunandi námsárangur þurfi að líta til skilgreiningar laganna á fullu námi.

Með vísan til framangreinds telst kærandi því ekki hafa sýnt viðunandi námsárangur í skilningi ffl., ef einungis er litið til þess náms sem hann stundaði innan B-framhaldsskóla, þar sem hann lauk einungis 12 einingum á haustönn 2009 og skortir því eina einingu upp á að teljast hafa sýnt viðunandi námsárangur í skilningi ffl. í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Enga heimild er að finna hvorki í ffl. né reglugerð nr. 1218/2008 til þess að víkja frá skilyrði um fullt nám og viðunandi námsárangur við þær aðstæður sem kærandi vísar til, þ.e. að hann hafi ekki getað stundað fullt nám vegna lestrarerfiðleika. Er því óhjákvæmilegt að líta svo á að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 19. gr. ffl. um fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns ef einungis er litið til þess náms sem hann stundaði innan B-framhaldsskóla.

Fyrir liggur að kærandi lauk 13 einingum á vorönn 2009. Því er ljóst að kærandi telst hafa verið í fullu námi þá önn. Spannaði vorönnin tímabilið frá 6. janúar til 22. maí 2010, eða fjóra og hálfan mánuð. Samkvæmt gögnum málsins liggur fyrir að kærandi var í starfsþjálfun hjá C síðari hluta maí, auk júní, júlí og ágúst 2010, auk þess að hafa verið í hlutastarfi þar með námi mánuðina þar á undan, án þess að þau störf sköpuðu honum rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Í bréfi, dags. 29. desember 2010, frá X, er staðfest að kærandi hefur lokið 16 vikna starfsþjálfun frá 15. maí að telja.

Í 4. mgr. 7. gr. ffl. er tekið fram að með fullu námi samkvæmt lögunum sé átt við samfellt nám, hvort heldur sem er verklegt eða bóklegt. Með vísan til þessa og þess sem að framan greinir lítur úrskurðarnefndin svo á að kærandi teljist hafa verið í fullu námi og sýnt viðunandi námsárangur í skilningi ffl. í sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Verður því hin kærða ákvörðun felld úr gildi.

Afgreiðslu málsins hefur seinkað nokkuð vegna dráttar á upplýsingaöflun kæranda.

 

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er felld úr gildi.

 

 

Jóna Björk Helgadóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum