Hoppa yfir valmynd
7. október 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 34/2010

Fimmtudaginn 7. október 2010

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Jóna Björk Helgadóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 28. janúar 2010 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 27. janúar 2010. Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir nefndur Fæðingarorlofssjóður) sem tilkynnt var með bréfi, dags. 25. nóvember 2010, um að synja kæranda um lengingu á fæðingarorlofi vegna veikinda á meðgöngu.

Þann 25. mars 2010 kvað úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála upp úrskurð í málinu þar sem ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs var staðfest. Í forsendum úrskurðar nefndarinnar kom meðal annars fram að ljóst þætti að veikindi kæranda á meðgöngu féllu undir ákvæði a-liðar 2. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Þar sem kærandi hafi verið á atvinnuleysisbótum þangað til hún fór á sjúkradagpeninga vegna veikinda sinna væri ekki talið að hún hafi lagt niður launuð störf í skilningi 4. mgr. 17. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000 (ffl.). Þá var einnig vísað til ákvæðis 9. gr. reglugerðar nr. 1218/2008 um kröfu til staðfestingar vinnuveitanda á niðurfellingu launagreiðslna.

 

Hinn 2. september 2010 kvað úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála upp úrskurð í máli nr. 23/2010 þar sem hugtakið að láta af launuðum störfum í skilningi 4. mgr. 17. gr. ffl. var látið ná yfir það að fara af greiðslum atvinnuleysisbóta yfir á greiðslur sjúkra- og slysadagpeninga. Af þeirri ástæðu afturkallar úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála fyrri úrskurð í máli kæranda, nr. 5/2010, sbr. 1. tl. 25. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, þar sem fram kemur að stjórnvald geti afturkallað ákvörðun sína að eigin frumkvæði sem tilkynnt hefur verið til málsaðila þegar það er ekki til tjóns fyrir aðila.

Í 4. mgr. 17. gr. ffl. segir að sé þungaðri konu nauðsynlegt af heilsufarsástæðum að leggja niður launuð störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns skuli hún eiga rétt á greiðslum í fæðingarorlofi þann tíma en þó aldrei lengur en tvo mánuði. Beri fæðingu að fyrir áætlaðan fæðingardag barns falli heimild til lengingar samkvæmt ákvæðinu niður frá þeim tíma. Samkvæmt 5. mgr. 17. gr., sbr. a-lið 14. gr. laga nr. 74/2008, skal rökstyðja þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi með vottorði sérfræðilæknis. Vinnumálastofnun sé heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni um hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg. Synjun Vinnumálastofnunar um lengingu fæðingarorlofs er heimilt að kæra til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála. Samkvæmt 6. mgr. 17. gr. ffl. skal staðfesting vinnuveitanda fylgja umsókn um lengingu. Í þeirri staðfestingu skal koma fram hvenær launagreiðslur féllu niður.

Samkvæmt lokamálslið 4. mgr. 17. gr. ffl. skal ráðherra setja í reglugerð nánari skilyrði um framkvæmd ákvæðisins. Í 2. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 1218/2008 segir að með heilsufarsástæðum sé átt við:

a. sjúkdóma sem upp koma vegna meðgöngu og valda óvinnufærni,

b. sjúkdóma, tímabundna eða langvarandi, sem versna á meðgöngu og valda óvinnufærni,

c. fyrirbyggjandi meðferð til að koma í veg fyrir fyrirburafæðingu eða til að vernda heilsu fósturs, enda valdi meðferðin óvinnufærni.

Þá er ítrekað í 3. mgr. 9. gr. reglugerðarinnar að rökstyðja skuli þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi samkvæmt ákvæðinu með vottorði sérfræðilæknis, að Vinnumálastofnun skuli meta hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg og að stofnuninni sé heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni um hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg. Jafnframt þurfi að fylgja staðfesting vinnuveitanda þar sem fram komi hvenær launagreiðslur féllu niður.

Fyrir liggur læknisvottorð B, dags. 12. nóvember 2009. Samkvæmt því er ljóst að veikindi kæranda á meðgöngu falla undir ákvæði a-liðar 2. mgr. 9. gr. reglugerðarinnar. Á hinn bóginn snýr álitaefni í þessu máli að því hvort kærandi hafi lagt niður launuð störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns í skilningi 4. mgr. 17. gr. ffl.

Samkvæmt b-lið 2. mgr. 13. gr. a. ffl. telst sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim til þátttöku á vinnumarkaði, á sama hátt og sá tími sem foreldri stundar launuð störf. Þá telst sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim jafnframt til þátttöku á vinnumarkaði skv. c-lið sama ákvæðis. Af tilvitnuðu ákvæði, sbr. einnig ræðu félags- og tryggingamálaráðherra þegar mælt var fyrir frumvarpinu á sínum tíma, er ljóst að umræddar tímabundnar aðstæður foreldra hafa þótt jafnast á við þátttöku á vinnumarkaði.

Þannig er foreldri sem þiggur atvinnuleysisbætur, eða sjúkra- eða slysadagpeninga með lögunum tryggður sami réttur til fæðingarorlofs og foreldri sem er í launuðu starfi. Samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra og greiðsluyfirliti frá Vinnumálastofnun-Greiðslustofu, dags. 23. nóvember 2009, fékk kærandi greiddar atvinnuleysisbætur frá 10. júlí til 30. september 2009. Jafnframt kemur fram á greiðslusögu sjúkradagpeninga frá Sjúkratryggingum Íslands, dags. 23. nóvember 2009, að hún hafi fengið greidda fulla sjúkradagpeninga 15. október fram að fæðingardegi barns hennar. Hér skal tekið fram að skv. c-lið 2. mgr. 13. gr. a. ffl. er það skilyrði fyrir því, að sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga teljist til þátttöku á vinnumarkaði, að foreldri hafi látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum. Þannig þarf foreldri, sem hefur þegið sjúkra- eða slysadagpeninga fyrir fæðingu barns, að uppfylla þetta sama skilyrði um að hafa lagt niður launuð störf hvort heldur sem réttur þess til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði er til skoðunar eða réttur til lengingar fæðingarorlofs. Með vísan til fyrrnefndra a- og b-liða 2. mgr. 13. gr. a. ffl. og þess sem að framan er reifað um heilsufar kæranda samkvæmt læknisvottorðum verður ekki litið öðruvísi á en svo að kærandi hafi lagt niður launuð störf af heilsufarsástæðum í skilningi 4. mgr. 17. gr. ffl. er hún hætti að þiggja atvinnuleysisbætur af heilsufarsástæðum þann 30. september 2009. Öðrum kosti myndi túlkun Fæðingarorlofssjóðs í máli þessu á hugtakinu að láta af launuðum störfum, yfirfærð á ákvæði c. liðar 2. mgr. 13. gr. a. ffl. i.f., leiða til þess að foreldri, sem færi af atvinnuleysisbótum vegna óvinnufærni og yfir á slysa- eða sjúkradagpeninga, ætti ekki rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði þar sem það teldist ekki hafa látið af launuðum störfum. Væri sú túlkun að mati nefndarinnar í ósamræmi við tilgang ákvæðis 13. gr. a. ffl.

Í samræmi við þetta verður krafa 6. mgr. 17. gr. ffl. og 3. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 1218/2008, um staðfestingu vinnuveitanda á því hvenær launagreiðslur féllu niður, skilin á þann veg að í tilviki kæranda þurfi að liggja fyrir staðfesting Vinnumálastofnunar-Greiðslustofu um það hvenær kærandi hætti á atvinnuleysisbótum. Slík staðfesting liggur fyrir í málinu. Með vísan til þessa og alls framangreinds verður talið að skilyrði til afturköllunar á fyrri úrskurði nefndarinnar í máli nr. 5/2010 frá 25. mars 2010, sbr. fyrrgreint ákvæði 2. tl. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, séu fyrir hendi og hin kærða ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs er felld úr gildi.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs, sbr. úrskurð nefndarinnar í máli nr. 5/2010, um að synja umsókn A um framlengingu fæðingarorlofs er felld úr gildi.

 

 

Jóna Björk Helgadóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum