Hoppa yfir valmynd
28. maí 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 20/2010

Föstudaginn 28. maí 2010

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Jóna Björk Helgadóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 12. maí 2010 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 11. maí 2010. Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var kæranda með bréfi, dags. 27. nóvember 2009, um synjun um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni. Þá var kæranda tilkynnt með bréfi, dags. 15. desember 2009, að framlögð viðbótargögn myndu ekki breyta fyrri afgreiðslu.

 

I.

Niðurstaða.

Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), skal kæra berast úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála innan þriggja mánaða frá því aðila máls var tilkynnt um ákvörðun. Samkvæmt gögnum málsins var kæranda tilkynnt um hina kærðu ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs með bréfi, dags. 27. nóvember 2009. Í bréfinu komu fram upplýsingar um að kæra mætti ákvörðun innan þriggja mánaða frá dagsetningu bréfsins til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála. Þá sendi Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður kæranda bréf, dags. 15. desember 2009, þess efnis að framlögð viðbótargögn myndu ekki breyta fyrri afgreiðslu.

Kæran barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála 12. maí 2010 eða eftir að kærufrestur skv. 1. mgr. 6. gr. ffl. var liðinn.

Í 4. mgr. 6. gr. ffl. er um málsmeðferð vísað til stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 1. mgr. 28. gr. þeirra laga segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá, nema:

 

1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

 

2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.“

 

Þar sem hvorki verður séð að sérstakar ástæður leiði til þess að afsakanlegt verði talið að kæra hafi komið of seint fram né að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin fyrir ber að vísa kærunni frá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

 

 

ÚRSKURÐARORÐ:

 

Kæru A er vísað frá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

 

Jóna Björk Helgadóttir

 

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

 

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum