Hoppa yfir valmynd
19. febrúar 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 67/2008

Fimmtudaginn 19. febrúar 2009

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 13. nóvember 2008 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 12. nóvember 2008.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um að nýta þriggja mánaða sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs.

 

Í rökstuðningi með kæru segir:

„Mistök voru við vinnslu umsóknar en skrifað yfir rangan aðila með 90 daga sameiginlegan rétt foreldra en það kemur skýrt fram í 5. lið umsóknar um fæðingarstyrk að faðir ætli að taka 180 daga í samtals 5. lið en hjá móður er þetta 90 dagar en það er túlkun Fæðingarorlofssjóðs að móðir fær þessa sameiginlegu 3 mánuði en við óskum eftir því að faðir fái þá.“

 

Með bréfi, dagsettu 24. nóvember 2008, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 8. desember 2008. Í greinargerðinni segir:

„Með umsókn, dags. 3. júlí 2008 (áður skráð 25. janúar 2008) sem barst Fæðingarorlofssjóði 18. júlí 2008, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna væntanlegrar barnsfæðingar 24. febrúar 2008.

Auk umsóknar kæranda barst vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 6. desember 2007, tvær tilkynningar um fæðingarorlof, dags. 3. júlí 2008 og ódagsett en móttekin 12. nóvember 2008, samningur um starfslok, dags. 23. október 2008 og launaseðlar frá B fyrir apríl – maí 2008. Enn fremur lágu fyrir upplýsingar um umsókn maka kæranda og upplýsingar úr skrám ríkisskattstjóra og þjóðskrá Hagstofu Íslands.

Ágreiningur í þessu máli snýr að því að kærandi telur að hann eigi rétt á að fá sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs greiddan sem maki hans hefur þegar fengið greiddan. Telur kærandi að umsókn hans um fæðingarorlof beri þess merki að hann hafi ætlað að nýta sameiginlega rétt foreldra til fæðingarorlofs en ekki maki hans.

Í 1. mgr. 8. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), kemur fram að hvort foreldri um sig eigi sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í allt að þrjá mánuði. Auk þess eiga foreldrar sameiginlegan rétt á þremur mánuðum til viðbótar sem annað foreldrið getur tekið í heild eða foreldrar skipt með sér.

Á umsókn kæranda um fæðingarorlof, dags. 3. júlí 2008, kemur fram að kærandi sæki um sjálfstæðan rétt sinn alls 3 mánuði (prentað). Búið er að krassa yfir reit fyrir sameiginlegan rétt en greina má að 3 mánuðir hafi verið skráðir þar (upphaflega prentað en handskrifað yfir). Í samtölureit eru 6 mánuðir skráðir (prentað). Á tilkynningu um fæðingarorlof, dags. 3. júlí 2008, kemur fram að kærandi ætli að taka fæðingarorlof 1. – 31. ágúst og 1. – 30. nóvember 2008 og 1. – 28. febrúar 2009. Ekki var búið að afgreiða rétt kæranda þar sem gögn vantaði og senda honum greiðsluáætlun þegar hann ákvað að breyta tilhögun fæðingarorlofs síns, sbr. tilkynning um tilhögun fæðingarorlofs, sem móttekin var 12. nóvember 2008.

Á umsókn maka kæranda um fæðingarstyrk, dags. 3. júlí 2008, eru 3 mánuðir skráðir í sjálfstæðan rétt (prentað), búið er að bæta við 3 mánuðum í sjálfstæðan rétt (handskrifað) en í samtölureit eru 3 mánuðir skráðir (prentað). Var maki kæranda afgreiddur í samræmi við umsóknina og henni send greiðsluáætlun, dags. 12. ágúst 2008, þar sem fram kemur að hún fái 6 mánuði greidda í ágúst 2008. Engar athugasemdir voru gerðar við greiðsluáætlunina né heldur greiðsluna, í ágúst 2008, fyrr en kærandi óskaði eftir því á skrifstofu Fæðingarorlofssjóðs, þann 12. nóvember 2008, að endurgreiða þann sameiginlega rétt sem maki hans hafði fengið greiddan og að sameiginlegi rétturinn yrði færður yfir til hans.

Með vísan til alls framangreinds og í samræmi við umsóknir foreldranna beggja telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að kæranda hafi réttilega verið synjað um að nýta sameiginlega rétt foreldra til fæðingarorlofs þar sem maki hans sé nú þegar búinn að nýta þann rétt.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 12. janúar 2009, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dagsettu 25. janúar 2009, þar sem segir:

 

Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) eiga foreldrar, sbr. 1. mgr. 1. gr., sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í allt að þrjá mánuði hvort um sig vegna fæðingar, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur. Auk þessa eiga foreldrar sameiginlegan rétt á þremur mánuðum til viðbótar sem annað foreldrið getur tekið í heild eða foreldrar skipt með sér. Með umsókn, dags. 3. júlí 2008 sóttum við hjónin um fæðingarorlof annars vegar og fæðingarstyrk hins vegar. Ávallt var ætlunin að við sem foreldrar myndum nýta okkur allan okkar sjálfstæða rétt til fæðingarorlofs skv. 1. mgr. 8. gr. ffl. og að ég myndi nýta allan okkar sameiginlega rétt skv. 1. mgr. 8. gr. ffl. Eins og lýst er í greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs, dags. 8. desember 2008, voru umsóknirnar hins vegar þannig úr garði gerðar að kona mín sótti um allan hinn sameiginlega rétt okkar. Ég dreg ekki úr ábyrgð minni á þessum mistökum. Hins vegar má ljóst vera, eins og lýst er í greinargerð Vinnumálastofnunar -Fæðingarorlofssjóðs, að ekki var alveg ljóst hvernig fara átti með umsóknirnar þar sem búið var að krota í þær og ósamræmi í heildarfjölda daga og samtölum. í raun var því óljóst hvort foreldrið var að sækja um hinn sameiginlega rétt. Á þessum tíma var ég og kona mín að byggja okkur hús, af þeim sökum fór allur okkar póstur í svokallaðan biðpóst. Þegar mér er svo sagt upp í vinnu minni þann 23. október 2008 fer ég að athuga með þessi mál þar sem löppunum hafði skyndilega verið kippt undan fjárhagslegu öryggi mínu og minnar fjölskyldu. Kemur þá í ljós að kona mín hafði fengið greiddan fæðingarstyrk fyrir 6 mánuði í samræmi við umsókn hennar. Strax að þessu séðu geri ég athugasemd við þessa framkvæmd hjá Fæðingarorlofssjóði og býðst til að greiða þá 3 mánuði sem hún hafði notað af okkar sameiginlega rétti til baka til Fæðingarorlofssjóðs þar sem ætlunin var ávallt að ég myndi nota okkar sameiginlega rétt. Hins vegar var ekki orðið við þeirri ósk minni og er þessi kæra til komin vegna þess.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Eins og vikið er að í greinargerð Vinnumálastofnunar -Fæðingarorlofssjóðs var óljóst hvort foreldri var að sækja um hinn sameiginlega rétt. Búið var að krota í umsóknirnar og að samtölum mánaða að dæma lá ekki ljóst fyrir hvort foreldri var að sækja um hinn sameiginlega rétt. Hefði Vinnumálastofnun sem stjórnvald því átt að ganga úr skugga um það, með því til dæmis að hafa samband við umsækjendur, hvort foreldrið ætlaði sér að nýta sér hinn sameiginlega rétt. Hefði það verið gert hefði mátt komast að hinu sanna í máli þessu. Þar sem það var ekki gert af hálfu Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs má halda því fram með rökum að rannsóknarregla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið brotin.

Þrátt fyrir að Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður hafi verið búin að greiða konu minni fæðingarstyrk skv. umsókn hennar er ekkert því til fyrirstöðu að Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður breyti ákvörðun sinni enda hef ég m.a. boðist til þess að endurgreiða þá þrjá mánuði sem kona mín hefur fengið greidda. Að minnsta kosti er ekki að sjá nein lagafyrirmæli sem standa því í vegi. Rétt er að minna á í þessu sambandi heimildir stjórnvalds sem og aðila máls skv. 23. - 25. gr. stjórnsýslulaga.

Mikið gjörningaveður hefur riðið yfir íslenskt efnahagslíf á undanförnum mánuðum. Margir hafa misst vinnu sína og er ég einn af þeim. Markvisst hefur verið unnið að því af stjórnvöldum að slá skjaldborg um heimili og fjölskyldur landsins. Hefur í því skyni verið beint til stjórnvalda að neyta eins minnst íþyngjandi aðgerða sem kostur er við innheimtu skulda hjá skuldurum svo dæmi sé tekið. Þykir því furðu sæta að Vinnumálastofnun - Fæðingarorlofssjóður skulu bregðast við ósk minni með þessum hætti og neita mér um breytingu á umsókn minni sem misfórst vegna mannlegra mistaka. Um mjög svo íþyngjandi ákvörðun er að ræða. Yrði aftur á móti fallist á þennan löghelgaða rétt minn myndi það létta undir með mér og fjölskyldu minni á þessum erfiðu tímum. Það eru einfaldlega ekki málefnaleg rök til þess að neita umsókn þessari.

Að öllu ofangreindu virtu tel ég rétt að taka umsókn mína til greina. Sérstaklega þar sem ég hef boðist til þess að endurgreiða Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði þá fjárhæð sem greidd var konu minni skv. umsókn hennar gegn því að samþykkt verði að ég eigi rétt á okkar sameiginlega rétti skv. 1. mgr. 8. gr. ffl. Rétt er að taka fram að kona mín er að öllu leyti samþykk þessari framkvæmd.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kærð er synjun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að neita kæranda um að nýta sér þriggja mánaða sameiginlegan rétt foreldra til foreldraorlofs. Hin kærða ákvörðun er rökstudd með því að hinn sameiginlegi réttur hafi þegar verið nýttur af maka kæranda.

Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) er það hlutverk úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála að kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna.

Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. ffl. eiga foreldrar sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í allt að þrjá mánuði hvort um sig vegna fæðingar, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur. Þessi réttur er ekki framseljanlegur. Auk þessa eiga foreldrar sameiginlegan rétt á þremur mánuðum til viðbótar sem annað foreldrið getur tekið í heild eða foreldrar skipt með sér.

Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. ffl. skal foreldri sækja um greiðslu í fæðingarorlofi til Vinnumálastofnunar sex vikum fyrir áætlaðan fæðingardag barns. Í 2. mgr. sömu lagagreinar segir að umsókn skuli vera skrifleg og skuli þar tilgreina fyrirhugaðan upphafsdag orlofsins, lengd og tilhögun. Jafnframt skuli tilgreina fyrirhugaða skiptingu sameiginlegs fæðingarorlofs milli foreldra. Í 9. gr. eru reglur um tilkynningu um fæðingarorlof til vinnuveitanda. Í 2. mgr. 9. gr. segir að tilkynning um töku fæðingarorlofs skuli vera skrifleg og skuli þar tilgreina fyrirhugaðan upphafsdag orlofsins, lengd og tilhögun. Skuli jafnframt tilgreina fyrirhuguð skipti sameiginlegs fæðingarorlofs milli foreldra barns. Þá skuli vinnuveitandi árita tilkynninguna um móttökudagsetningu og afhenda starfsmanninum afrit hennar. Í 5. mgr. 15. gr. eru fyrirmæli um að foreldri beri að tilkynna Vinnumálastofnun skriflega um breytingu ef það getur ekki tekið fæðingarorlof vegna ófyrirsjáanlegra aðstæðna.

Umsóknir kæranda og maka hans eru dagsettar 3. júlí 2008. Samkvæmt umsókn kæranda er sótt um sjálfstæðan rétt 90 daga (prentuð útfylling). Hvað varðar sameiginlegan rétt föður er strikað yfir með penna þar sem prentað hafði verið 90 dagar. Samtals réttur sem faðir sækir um er á umsókninni tilgreindur 180 dagar (prentað). Samkvæmt umsókn maka er sótt um sjálfstæðan rétt 90 daga (prentað). Hvað varðar sameiginlegan rétt er ritað 90 dagar með penna. Samtals réttur móður samkvæmt umsókn er 90 dagar (prentað). Óskað var eftir að hefja töku fæðingarorlofs í mars 2008. Þá liggja fyrir tvær tilkynningar kæranda um fæðingarorlof, sbr. 9. gr. ffl. Sú fyrri er dagsett 3. júlí 2008 og árituð af vinnuveitanda. Þar kemur fram að kærandi ætli að taka fæðingarorlof 1.–31. ágúst og 1.–30. nóvember 2008 og 1.–28. febrúar 2009. Í seinni tilkynningunni um fæðingarorlof sem er ódagsett er tímabil fæðingarorlofs tilgreint 1. febrúar 2009–1. maí 2009. Samkvæmt greinargerð Vinnumálastofnunar var tilkynningin móttekin 12. nóvember 2008.

Þann 12. ágúst 2008 var maka kæranda send áætlun um greiðslu fæðingarstyrks frá 1. mars 2008 að fjárhæð X kr. sem greidd var í einu lagi. Greiðsluáætlun vegna fæðingarorlofs kæranda er dagsett 13. nóvember 2008. Samkvæmt áætluninni er greiðslutímabilið mánuðirnir febrúar, mars og apríl 2009 sem er í samræmi við seinni tilkynningu kæranda um fæðingarorlof.

Áætlaður fæðingardagur barns var 24. febrúar 2008. Tímasetningar umsókna og tilkynninga um fæðingarorlof voru því ekki í samræmi við ákvæði ffl. þar að lútandi. Þegar maka kæranda var í ágúst 2008 greiddur fæðingarstyrkur í sex mánuði var það í samræmi við umsókn hennar 3. júlí 2008 þar sem fyllt hafði verið út að hún ætlaði að taka sameiginlegan rétt foreldra í 90 daga. Þá lá fyrir umsókn kæranda sem einnig er dagsett 3. júlí 2008. Á umsókn hans hafði verið strikað yfir með penna þar sem áður hafði staðið 90 dagar vegna sameiginlegs réttar. Í tilkynningu til vinnuveitanda sem fylgdi umsókn er tilkynnt um töku fæðingarorlofs tímabilin 1.–31. ágúst og 1.–30. nóvember 2008 og 1.–28. febrúar 2009 eða samtals þrjá mánuði sem er í samræmi við umsóknina eftir útstrikun. Úrskurðarnefndin telur því að greiðsluáætlun maka dagsett 12. ágúst 2008, sem byggist á því að maki nýti sér sameiginlegan rétt foreldra, hafi verið í samræmi við gögn um tilhögun fæðingarorlofs og skiptingu sameiginlegs réttar sem þá lágu fyrir.

Eins og fram er komið telur úrskurðarnefndin að ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um greiðslur til maka kæranda hafi verið í samræmi við fyrirliggjandi gögn um tilhögun fæðingarorlofs. Samkvæmt því telur nefndin ekki grundvöll fyrir því að fella þá ákvörðun úr gildi. Af því leiðir að sameiginlegur réttur foreldra til fæðingarorlofs hefur þegar verið nýttur. Réttur foreldris til breytinga þegar þannig háttar verður ekki byggður á ákvæðum ffl. eða reglugerðar nr. 1056/2004, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Í 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, er kveðið á um rétt aðila máls til að fá endurupptekið mál. Þar segir í 1. mgr. að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt eigi aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:

1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða

2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Ekki verður talið að réttur sé til endurupptöku máls kæranda og maka hans á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga þar sem aðstæður kæranda sem vitnað er til í kæru komu til eftir að ákvörðun var tekin um greiðslu á grundvelli sameiginlegs réttar og greiðsla innt af hendi. Þá verður réttur til endurupptöku ekki heldur byggður á 2. tölul. 1. mgr. sem eingöngu tekur til íþyngjandi boða og banna.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið og með vísan til hlutverks úrskurðarnefndarinnar að kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna er kröfum kæranda hafnað.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Kröfu A um viðurkenningu á rétti hans til greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði á grundvelli sameiginlegs réttar foreldra, sbr. 1. mgr. 8. gr. laganna er hafnað.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum