Hoppa yfir valmynd
26. mars 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 7/2009

Fimmtudaginn 26. mars 2009

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 27. febrúar 2009 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 25. febrúar 2009.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 11. febrúar 2009 um útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í kæru segir meðal annars:

„Vísað er til umsóknar A (hér eftir umsækjandi), um greiðslur úr fæðingarorlofssjóði. Óskaði umsækjandi eftir því að við útreikning á greiðslum yrði tekið tillit til þess að umsækjandi lauk námi á tímabili útreiknings.

Með bréfi dags. 11. febrúar sl., tilkynnti Vinnumálastofnun undirrituðum um að samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum og innsendum gögnum uppfyllti umsækjandi skilyrði fyrir greiðslum úr fæðingarorlofssjóði að upphæð X krónur á mánuði, miðað við 100% orlof. Samkvæmt því var ekki tekið tillit til umrædds tímabils er umsækjandi var í námi.

Telur umsækjandi að sú niðurstaða sé ekki í samræmi við þau sjónarmið að við mat á viðmiðunartímabili sé heimilt að draga frá þá mánuði sem umsækjandi er ekki við vinnu t.d. vegna þess að viðkomandi leggur stund á fullt nám.

Umsækjandi gerir því kröfu um að forsendur útreiknings fæðingarorlofs verði tekinn til endurskoðunar, og upphæð fæðingarorlofs verði endurmetið út frá tekjum eftir að námi var lokið.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof, öðlast foreldrar rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði, eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Óumdeilt er að umsækjandi hefur starfað á innlendum vinnumarkaði á því tímabili. Við útreikning greiðslna skal miða við 80% af meðaltali heildarlauna, á tólf mánaða samfelldu tímabili sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingardag barns, sbr. 2. mgr. 13. gr. laganna. Dóttir umsækjanda fæddist Z. febrúar 2009. Viðmiðunartímabil útreiknings samkvæmt því ætti að vera Z. ágúst 2007 til Z. ágúst 2008. í 2. mgr. 13. gr. laganna kemur þó jafnframt fram að einungis skuli miða meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði er foreldri hefur verið á innlendum vinnumarkaði. Af því leiðir sú meginregla að hafi foreldri stundað nám á tímabili útreiknings, eru þeir mánuðir að jafnaði ekki teknir með inn í meðaltalsútreikning.

Umsækjandi lauk námi sínu 27. júní 2008 er hann kláraði sveinspróf sitt í E-iðn. Hafði hann fram að því lagt stund á verknám samkvæmt námssamningi. Telur umsækjandi því að ekki beri að taka inn í meðaltalsútreikning þann tíma er hann var í verknámi, heldur meðaltal launa eftir útskrift, þar sem þá fyrst fékk hann greidd full laun í samræmi við menntun sína.

Telur umsækjandi það mismunun að ekki gildi sömu sjónarmið um verknám og almennt nám.

Þá má jafnframt geta þess að sérstakar ástæður liggja að baki þeirri staðreynd að umsækjandi gat ekki lokið námi sínu fyrr en raun bar vitni. Þær ástæður eiga rætur að rekja til þess að iðngreinin sem umsækjandi leggur stund á, E-iðn, er nú orðið sjaldgæft fag. Það þýðir að umsækjandi hefur þurft að berjast fyrir því að fá kennslu í iðngreininni, og með aðstoð F-skóla, Iðunnar fræðsluseturs og Menntamálaráðuneytis hefur umsækjandi getað lokið námi, en á mun lengri tíma en almennt gengur og gerist, m.a. sökum þess hve erfitt hefur reynst að fá kennara og prófdómara í faginu.

Umsækjandi hóf sitt fagnám í E-iðn árið 2002, og byrjaði í verknámi iðninni 1. nóvember 2002. Hann starfaði á opnum nemasamningi í ljósi þess að ekki höfðu verið útskrifaðir nemar í iðngreininni undanfarin fjögur ár. Alls hafa þrír nemar verið útskrifaðir úr iðngreininni á undanförnum ellefu árum. Árið 2006 hafði umsækjandi lokið öllum grunneiningum í skóla nema þeim tilskildu áföngum sem sérstaklega tengjast iðngreininni og vonaðist umsækjandi til að geta lokið námi sínu árið 2006. Aftur á móti fékk hann ekki að ljúka námi sínu fyrr en í júní 2008, en fyrst þá fékk hann að taka sveinsprófið. Ástæða þessa var skortur á kennurum og vegna þess að námskráin hafði ekki verið uppfærð í ljósi breyttra aðstæðna innan greinarinnar. Leitaði umsækjandi þá á náðir Menntamálaráðuneytis. Fulltrúi Menntamálaráðuneytis, A hafði þá samband við F-skóla. Vegna seinkunnar hjá skólanum í að finna hæfa kennara var þó ekki haft samband við umsækjanda aftur fyrr en í september 2007, en þá var haft samband við hann af Iðunni, F-skóla og Menntamálaráðuneytinu og honum tjáð að hann fengi kennslu í þessum sérfögum á vorönn 2008, í dagskóla. Undirritaður stóðst próf í þessum fögum og var útskrifaður frá F-skóla í maí 2008. Að því loknu tók hann sveinspróf í greininni þann 27. júní 2008. Því hefur námið dregist um mun lengri tíma en eðlilegt getur talist. Af ofangreindum sökum var umsækjandi á iðnnemalaunum frá 2002 til og með júlí 2008.

Réttur til menntunar er tryggður í 2. mgr. 76. gr. Stjórnarskrár Íslands sbr. lög nr. 33/1944 og hefur umsækjandi nú fengið að útskrifast. Þrátt fyrir það verður að telja afar ósanngjarnt að umsækjandi hafi þurft að líða fyrir þann misbrest í íslenska menntakerfinu að hann gat ekki lokið því námi sem hann byrjaði á, á tilskildum tíma, og jafnframt vegna þessa hljóta skert fæðingarorlof.

Ef útreikningur fæðingarorlofs myndi miðast við laun eftir útskrift væri 80% meðaltal launa a.m.k. X krónur. Samkvæmt útreikningi Vinnumálastofnunar fær umsækjandi aftur á móti X krónur á mánuði. Munar umsækjanda verulega um þessa fjárhæð til að geta séð fyrir fjölskyldu sinni, konu og tveimur dætrum, á þeim tíma er hann hyggst taka fæðingarorlof, sérstaklega ef tekið er mið af verulega íþyngjandi núverandi greiðslubyrði af lánum vegna íbúðakaupa.

Þá ber jafnframt að geta þess að umsækjandi lenti í umferðarslysi þann 5. júlí 2008 og var því frá vinnu til 20. ágúst 2008. Á því tímabili fékk hann lágmarkslaun samkvæmt kjarasamningum VR og þeim veikindadögum sem hann átti inni.

Í ljósi alls ofangreinds óskar umsækjandi því eftir að greiðslur úr fæðingarorlofssjóði verði endurmetnar, með hliðsjón af núverandi launum, eða þeim launum sem hann hefði haft á tímabili útreiknings, ef hann hefði fengið að útskrifast á réttum tíma, en sé ekki reiknuð út frá meðaltali af verknámslaunum er hann fékk á þeim tíma er hann var í námi.“

 

Með bréfi, dagsettu 3. mars 2009, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 4. mars 2009. Í greinargerðinni segir:

„Með umsókn, dags. 9. janúar 2009, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 3 mánuði vegna væntanlegrar barnsfæðingar 4. mars 2009.

Auk umsóknar kæranda barst vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 25. nóvember 2008, tilkynning um tilhögun fæðingarorlofs, dags. 9. janúar 2009, launaseðlar frá B fyrir nóvember og desember 2008, námsferilsáætlun frá D-skóla, dags. 10. febrúar 2009, staðfesting varðandi námssamning, dags. 10. febrúar 2009, staðfesting á skólavist, dags. 30. janúar 2009 og sveinsprófsbók, dags. 11. júlí 2008. Enn fremur lágu fyrir upplýsingar úr skrám ríkisskattstjóra og þjóðskrá Hagstofu Íslands.

Með bréfi Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 11. febrúar 2009, var honum tilkynnt að umsókn hans um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hefði verið samþykkt og að mánaðarleg greiðsla yrði X krónur á mánuði miðað við 100% orlof. Þann 25. febrúar 2009 var kæranda send greiðsluáætlun þess efnis og leiðrétt greiðsluáætlun, dags. 4. mars 2009. Á greiðsluáætlun, dags. 25. febrúar 2009, höfðu mánuðirnir janúar – maí 2008 fallið út við útreikning á meðaltali heildarlauna. Var það leiðrétt með greiðsluáætlun, dags. 4. mars 2009, og við það lækkar mánaðarleg greiðsla til kæranda í X krónur á mánuði miðað við 100% orlof.

Í 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 8. gr. laga nr. 74/2008, er kveðið á um að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og að miða skuli við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingardag barns eða þann dag sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald sem og greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkra- og slysadagpeningar, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna, sbr. a – e liði 2. mgr. 13. gr. a. Þegar um er að ræða greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkrasjóði stéttarfélags, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna á viðmiðunartímabili skal taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem þær greiðslur miðuðust við og skal aldrei taka mið af hærri fjárhæð en nemur þeim viðmiðunartekjum enda þótt foreldri hafi fengið mismuninn milli þessara greiðslna og viðmiðunartekna bættan samhliða greiðslunum. Í 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof segir enn fremur að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hafi verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr. a. Í athugasemdum við 8. gr. frumvarpsins er varð að lögum nr. 74/2008 kemur fram að átt sé við almanaksmánuði.

Í 1. mgr. 13. gr. a. ffl. segir að þátttaka á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV. kafla feli í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi. Í 2. mgr. er síðan talið upp í fimm stafliðum hvað teljist enn fremur til þátttöku á vinnumarkaði:

Til þátttöku á vinnumarkaði telst enn fremur:

a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar.

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt gildandi lögum um almannatryggingar, eða fær greiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélags enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa,

e. sá tími er foreldri fær tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum hefði foreldri sótt um þær til Tryggingastofnunar ríkisins.

Í 3. mgr. 15. gr. ffl. er kveðið á um að útreikningar á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skuli byggjast á upplýsingum sem Vinnumálastofnun aflar um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Þar segir jafnframt að Vinnumálastofnun skuli leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda vegna viðmiðunartímabila skv. 2. og 5. mgr. 13. gr. laganna.

Fæðingardagur barns kæranda er Z. febrúar 2009 og skal því, samkvæmt framangreindum lagaákvæðum, mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til kæranda reiknast sem 80% af meðaltali heildarlauna hans mánuðina ágúst 2007 – júlí 2008 enda taldist kærandi samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum hafa verið á innlendum vinnumarkaði þann tíma, sbr. 2. mgr. 13. gr., 1. og 2. mgr. 13. gr. a. ffl. og úrskurður úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála í máli nr. 2/2008.

Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hefur kærandi talið tekjur sínar fram í samræmi við það sem fram kemur í staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra um tekjur hans á framangreindu viðmiðunartímabili og telur Fæðingarorlofssjóður að þar með liggi fyrir staðfesting á að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda. Kærandi var starfandi hjá B alla mánuði viðmiðunartímabilsins og þar af var hann í launuðu verknámi mánuðina janúar – maí 2008 og fékk greidd laun sem tryggingagjald var greitt af. Verður því að líta svo á að hann hafi einnig verið á vinnumarkaði þá mánuði og beri því að hafa þá með við útreikning á meðaltali heildarlauna hans.

Í lögum um fæðingar- og foreldraorlof og í reglugerð um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er ekki að finna neina heimild til þess að víkja frá 2. mgr. 13. gr. ffl. við útreikning á meðaltali heildarlauna kæranda og er því ekki hægt að verða við þeirri beiðni.

Með vísan til framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að greiðsluáætlun til kæranda, dags. 4. mars 2009, beri með sér réttan útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 10. mars 2009, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um útreikning greiðslna til kæranda úr Fæðingarorlofssjóði sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 11. febrúar 2009. Kæranda var send greiðsluáætlun dagsett 25. febrúar 2009. Kæranda barst síðan ný greiðsluáætlun dagsett 4. mars 2009 þar sem fyrri útreikningur var leiðréttur og greiðslur til kæranda lítillega lækkaðar, en ekki hafði verið tekið tillit til mánaðanna janúar-maí 2008 í fyrri greiðsluáætluninni.

Í ákvæði 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.), sbr. 8. gr. laga nr. 74/2008, segir:

„Mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns, sbr. 2. mgr. 7. gr., í fæðingarorlofi skal nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingardag barns eða þann dag sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald sem og greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkra- og slysadagpeningar, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, sbr. a-e-liði 2. mgr. 13. gr. a. Þegar um er að ræða greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkrasjóði stéttarfélags, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna á viðmiðunartímabili skal taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem þær greiðslur miðuðust við og skal aldrei taka mið af hærri fjárhæð en nemur þeim viðmiðunartekjum enda þótt foreldri hafi fengið mismuninn milli þessara greiðslna og viðmiðunartekna bættan samhliða greiðslunum. Einungis skal miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hefur verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr. a. Aldrei skal þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.

Í athugasemdum með frumvarpi er varð að lögum nr. 74/2008 segir um 8. gr.:

„Gert er ráð fyrir að viðmiðunartímabilið fyrir foreldra sem eru starfsmenn verði tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingardag barns eða þann dag sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Hér er átt við almanaksmánuði.“

Barn kæranda fæddist Z. febrúar 2009. Samkvæmt framangreindu lagaákvæði 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 8. gr. laga nr. 74/2008 og athugasemdir með frumvarpi er varð að lögum nr. 74/2008, er viðmiðunartímabil útreiknings meðaltals heildarlauna kæranda almanaksmánuðirnir ágúst 2007 til júlí 2008.

Kærandi krefst þess að sá tími sem hann var í verknámi skuli ekki teljast með í útreikningi meðaltals heildarlauna því þá hafi hann ekki verið á innlendum vinnumarkaði í skilningi 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 8. gr. laga nr. 74/2008. Þá krefst kærandi þess að miða eigi við meðaltal launa hans eftir útskrift þar sem þá hafi hann fengið fyrst greidd full laun í samræmi við menntun sína eða miða laun hans við þau laun sem hann hefði haft á tímabili útreiknings ef hann hefði fengið að útskrifast á réttum tíma.

Í 13. gr. a ffl. er skilgreint hvað felist í því að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi fæðingar- og foreldraorlofslaga. Þar segir í 1. mgr. að þátttaka á innlendum vinnumarkaði feli í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.

Í 2. mgr. 13. gr. a ffl. segir að til þátttöku á vinnumarkaði teljist enn fremur:

a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar,

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt gildandi lögum um almannatryggingar, eða fær greiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélags enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa,

e. sá tími er foreldri fær tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum hefði foreldri sótt um þær til Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Kærandi fékk mánuðina ágúst 2007 til júní 2008, greidd laun sem tryggingagjald var greitt af þegar hann vann sem iðnnemi hjá B samkvæmt opnum námssamningi. Á tímabilinu 5. júlí 2008 til 20. ágúst 2008 var kærandi frá vinnu vegna umferðarslyss en á þeim tíma fékk hann greidd lágmarkslaun samkvæmt kjarasamningum VR og þá veikindadaga sem hann átti inni. Með hliðsjón af því og skilgreiningu 1. og 2. mgr. 13. gr. a ffl. á því hvað felst að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi ffl. telst kærandi hafa verið á innlendum vinnumarkaði á öllu viðmiðunartímabilinu frá ágúst 2007 til júlí 2008.

Kröfur kæranda eru eins og fram er komið að greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði verði endurmetnar með hliðsjón af núverandi launum hans eða þeim launum sem hann hefði haft á tímabili útreiknings ef hann hefði fengið að útskrifast á réttum tíma, en séu ekki reiknaðar út frá meðaltali af verknámslaunum er hann fékk á þeim tíma er hann var í námi. Ekki er heimilt samkvæmt ffl. að miða við annað tímabil en kveðið er á um í 2. mgr. 13. gr. ffl. við útreikning meðaltals heildarlauna og greiðslna til foreldris úr Fæðingarorlofssjóði eða miða við önnur laun en foreldri raunverulega hafði á viðmiðunartímabilinu. Samkvæmt því verður að hafna kröfum kæranda og staðfesta hina kærðu ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um útreikning greiðslna til A úr Fæðingarorlofssjóði, í fæðingarorlofi er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum