Hoppa yfir valmynd
31. október 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 45/2008

Föstudaginn, 31. október 2008

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 21. ágúst 2008 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 20. ágúst 2008.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði og um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

A er 16 ára gömul stúlka sem fæddi dreng X. apríl sl. Hún stundaði fullt nám í 10. bekk B-grunnskóla vorönn 2007, var í rúmlega fullu námi í D-framhaldsskóla haustið 2007 og tók próf í öllum áföngum. A var að vinna í E sumarið 2007, vann þar í hlutastarfi með skóla haustið 2007 og jók svo aftur við sig vinnu þar á þessu ári fram að fæðingu barns. Í bréfi Fæðingarorlofssjóðs dags. 10. apríl sl. kemur fram að hún eigi ekki rétt úr sjóðnum sem launamaður þar sem hún hafi ekki náð 25% starfshlutfalli í október og nóvember 2007. Með bréfi fæðingarorlofssjóðs dags. 22. maí sl. var henni synjað um fæðingarstyrk námsmanna. Samkvæmt bréfinu á hún eingöngu rétt á fæðingarstyrk fyrir foreldri utan vinnumarkaðar, að upphæð kr. 45.324. Óskað er eftir að kæra þessa niðurstöðu þar sem A var sannanlega í fullu námi og vann þar að auki með skóla, síðustu 12 mánuði fyrir fæðingu barns.

Samkvæmt 1 mgr. 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr 95/2000, með síðari breytingum, eiga foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, rétt á fæðingarstyrk sem er nú að upphæð 103.869. Fullt nám er skilgreint í l. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Þar kemur fram að fullt nám í skilningi laganna teljist vera "75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur. Sama á við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Leggja skal fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur".

Samkvæmt meðfylgjandi bréfi dags. 15. maí 2008 frá skólameistara D-framhaldsskóla kemur fram að A stundaði fullt nám á haustönn 2007 og tók öll próf. Hún náði samtals 12 einingum eða rúmlega 68% þeirra kennslustunda sem hún stundaði nám í og fékk þokkalegar einkunnir. Það hlýtur að teljast "viðunandi árangur" hjá rétt 16 ára ófrískri stúlku af erlendum uppruna (A er fædd í F-landi og fluttist hingað til lands 11 ára gömul) sem stundar fullt nám og vinnur hörðum höndum með námi. A stundaði vinnu í E meðfram náminu og vann um 25-35 stundir í hverjum mánuði yfir önnina. Hún var í töluvert meira en 25% vinnu að meðaltali frá maí 2007-mars 2008 þótt hún hafi aðeins unnið tæplega 20% vinnu í október og nóvember þar sem hún var að sinna náminu. Hún vann einnig í E sumarið 2007. A var því sannanlega að leggja sig alla fram á meðgöngunni, bæði í skóla og vinnu og taldi sig að sjálfsögðu vera að vinna sig inn rétt til fæðingarorlofs. Auk þess er það athugunarefni hvernig starfshlutfallið er reiknað þar sem vinnustundir hennar voru flestar unnar eftir skóla og um helgar, það er að segja á yfirvinnutíma.

Markmið laga um fæðingarorlofssjóð er meðal annars að gera fólki kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Því markmiði er ekki náð með því að synja ungri stúlku af erlendum uppruna, sem var bæði í vinnu og skóla á meðgöngunni, um greiðslur úr sjóðnum.“

 

Með bréfi, dagsettu 1. september 2008, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 7. september 2008. Í greinargerðinni segir:

„Þann 10. apríl 2008 var kæranda synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði þar sem hún hafði ekki náð 25% starfshlutfalli í október og nóvember 2007. Í bréfinu var jafnframt óskað eftir staðfestingu á skólavist og námsframvindu síðustu 12 mánuði fyrir fæðingardag barnsins. Bréf barst frá skólameistara D-framhaldsskóla, dags. 15. maí 2008 og staðfesting um skólavist við B-grunnskóla, dags. 28. apríl 2008.

Í 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, er kveðið á um rétt foreldra til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Þar segir í 1. mgr. að foreldri á innlendum vinnumarkaði öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi foreldris skal miðað við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi fyrir sama tímabil. Í 4. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 kemur fram að með samfelldu starfi sé átt við að foreldri hafi verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði yfir tiltekið tímabil. Enn fremur telst til samfellds starfs þau tilvik sem talin eru upp í a-d lið 2. mgr. 3. gr.

Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 1056/2004 kemur fram að það að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV., V. og VIII. kafla laga um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, felur í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði.

Í 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 er síðan talið upp í eftirfarandi fjórum stafliðum hvað teljist jafnframt til þátttöku á vinnumarkaði,

a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt lögum nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar. Hið sama gildir eigi foreldri rétt á greiðslum úr Tryggingasjóði sjálfstætt starfandi einstaklinga samkvæmt lögum nr. 46/1997, um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga,

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa.

Barn kæranda er fætt þann X. apríl 2008. Sex mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu ákvæði 1. mgr. 13. gr. fæðingar- og foreldraorlofslaganna er því frá X. október 2007 fram að fæðingardegi barnsins. Til að öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði þurfti kærandi, samkvæmt framangreindu, að hafa verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði tímabilið X. október 2007 til X. apríl 2008. Samkvæmt skrám ríkisskattstjóra og tilkynningu um tilhögun fæðingarorlofs, dags. 5. mars 2008, nær kærandi ekki 25% starfshlutfalli mánuðina október – nóvember 2007. Kærandi hefur ekki sýnt fram á að mál hennar falli undir einn af stafliðum 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Því var talið að kærandi hefði ekki verið þátttakandi á innlendum vinnumarkaði samfellt í sex mánuði fyrir fæðingardag barns.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 9. gr. laga nr. 90/2004, um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), eiga foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, rétt á fæðingarstyrk. Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Þar kemur fram að fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Enn fremur kemur fram að heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 16. gr. eða undanþáguákvæði 17. gr. reglugerðarinnar. Einstök námskeið teljast ekki til fulls náms. Í 2. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að leggja skuli fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Enn fremur að heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.

Barn kæranda fæddist þann X. apríl 2008 og verður því, við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám samfellt í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins, að horfa til tímabilsins frá  X. apríl 2007 fram að fæðingardegi barnsins.

Samkvæmt gögnum málsins og vottorði frá B-grunnskóla stundaði kærandi nám við skólann skólaárið 2006 – 2007. Er því hægt að líta til tímabilsins frá X. apríl 2007 og til loka skólaársins í maí það ár eða um 1,5 mánuðir í námi. Samkvæmt bréfum frá D-framhaldsskóla, dags. 7. mars, 18. apríl og 15. maí 2008, var kærandi skráð í um 17 einingar á haustönn 2007 og stóðst um 68,42% þeirra. Ekki var uppgefinn fjöldi eininga sem hún stóðst. Kærandi var ekki skráð í nám við skólann á vorönn 2008.

Þegar um er að ræða nám við framhaldsskóla teljast 18 einingar á önn vera 100% nám og því teljast 13-18 einingar vera fullt nám samkvæmt lögum nr. 95/2000. Með hliðsjón af þeim gögnum sem fyrir liggja um námsframvindu kæranda lítur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður svo á að kærandi uppfylli ekki almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi samfellt í a.m.k. 6 mánuði síðustu 12 mánuðina fyrir fæðingardag barns.

Í lögum um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, með síðari breytingum, og reglugerð nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er að finna nokkrar undanþágur frá framangreindu skilyrði um fullt nám í a.m.k. 6 mánuði á síðustu tólf mánuðum fram að fæðingu barns. Í 8. mgr. 19. gr. ffl. er að finna undanþágu frá skilyrðinu um samfellt nám. Í ákvæðinu kemur fram að heimilt sé að greiða foreldri fæðingarstyrk skv. 1. mgr. þrátt fyrir að skilyrði um samfellt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, ættleiðingu eða varanlegt fóstur sé ekki uppfyllt hafi foreldri verið í samfelldu starfi í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að námið hófst. Undanþágan á ekki við í tilviki kæranda.

Í 9. mgr. 19. gr. ffl. segir að heimilt sé að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þegar foreldri hefur lokið a.m.k. einnar annar námi skv. 1. mgr. og hefur síðan verið samfellt á vinnumarkaði. Skilyrði er að nám og starf hafi verið samfellt í a.m.k. sex mánuði. Undanþágan á ekki við í tilviki kæranda.

Með vísan til framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að umsóknum kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og/eða greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi hafi réttilega verið synjað með bréfum, dags. 10. apríl og 22. maí 2008. Kærandi á þess í stað rétt á greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfshlutfalli.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 10. september 2008, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði og um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns, sbr. og 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 er skilgreint hvað felist í því að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi fæðingar- og foreldraorlofslaga, þ.e. að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda sé gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi. Til atvinnuþátttöku skv. 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar telst jafnframt:

a orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt lögum nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar. Hið sama gildir eigi foreldri rétt á greiðslum úr Tryggingasjóði sjálfstætt starfandi einstaklinga samkvæmt lögum nr. 46/1997, um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga,

c sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa.

Fæðingardagur barns kæranda er X. apríl 2008. Sex mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt 1. mgr. 13. gr. ffl. er því frá X. október 2007 fram að fæðingardegi barns. Samkvæmt gögnum málsins var kærandi í október og nóvember 2007 í innan við 25% starfshlutfalli og ekki verður séð að einhver stafliða 2. mgr. 3.gr. geti átt við um aðstæður kæranda. Hún uppfyllir því ekki skilyrði 1. mgr. 13. gr. um sex mánaða samfellt starf á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingu barns, sbr. 1. og 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Ber því að staðfesta þá ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 9. gr. laga nr. 90/2004, eiga foreldrar sem verið hafa í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns rétt til fæðingarstyrks.

Fullt nám er skilgreint í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Þar segir að fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof og reglugerðarinnar teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 16. gr. eða undanþáguákvæði 17. gr. reglugerðarinnar. Einstök námskeið teljist ekki til fulls náms.  

Barn kæranda er fætt 12. apríl 2008. Tólf mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt 1. mgr. 19. gr. ffl. er því tímabilið frá X. apríl 2007 til fæðingardags barns. Staðfest er að kærandi stundaði fullt nám við B-grunnskóla veturinn 2006-2007. Samkvæmt staðfestingu D-framhaldskóla dagsettri 15. maí 2008 var hún í fullu námi við skólann á haustönn 2007, stundaði nám í 38 kennslustundum og gekk til prófs í öllum áföngum. Samkvæmt staðfestingunni er fullt nám við skólann skilgreint af menntamálaráðuneytis 17,5 einingar eða 35 kennslustundir. Ekki kemur skýrt fram hversu mörgum einingum kærandi lauk en talað er um lágmarkseinkunn í 68,42% þeirra kennslustunda er hún stundaði nám í. Í kæru eru nefndar 12 einingar sem virðast samrýmast því sem tekið er fram í staðfestingunni. Miðað við að fullt nám í framhaldsskóla sé 17,5 einingar telst fullt nám í skilningi ffl. 13 – 17,5 einingar. Af gögnum málsins má ráða að kærandi hafi ekki verið skráð í nám á vorönn 2008.

Með vísan til framanritaðs telur úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 19. gr. ffl. um að hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Þá heimila ákvæði ffl. eða reglugerðar nr. 1056/2004 ekki að vikið sé frá skilyrði um sex mánaða fullt nám í tilviki kæranda. Samkvæmt því ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um synja A um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði og um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum