Hoppa yfir valmynd
7. mars 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 51/2007

Föstudaginn, 7. mars 2008

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 26. október 2007 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 18. september 2007.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 28. júní 2007 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Undirrituð sótti um fæðingarstyrk en var hafnað á forsendum þess að hún hefur lögheimili erlendis og hefur ekki búið á Íslandi síðustu 6 mánuði. Eiginmaður, B, er útsendur starfsmaður undir E101 og E106 og fellur öll fjölskyldan þar undir. Það felur m.a. í sér að B greiðir social sec. á Íslandi, undirrituð hefur ekki rétt til að starfa á D-landi og fjölskyldan fellur ekki undir soc.sec. á D-landi.

Þó orða hljóðan laga og reglugerða um úthlutun fæðingarstyrks sé skýr þá hlýtur það að teljast óeðlilegt að fólk detti út úr félagslegu kerfi eins Evrópulands án þess að falla inn í annað eins og er í mínu tilfelli. Staðreynd er að öll fjölskyldan er skv. E101 og E106 enn í íslenska soc.sec. kerfinu. D-lenska soc.sec. kerfið segir fjölskyldu utan þess. Eina fyrirvinna heimilis greiðir í íslenska kerfið. Fjölskyldan hefur búið á Íslandi síðustu ár og hefur í hyggju að flytjast til Íslands þegar verkefni er lokið á D-landi. Undirrituð veltir fyrir sér hvort lögin séu einfaldlega gölluð eða í ósamræmi við lög um Evrópskt Efnahagssvæði.

Það hlýtur að vera andi laganna að móðir í námi eða frá vinnu fái fæðingarstyrk svo undirrituð biður um að ákvörðun verði tekin til endurskoðunar.“

 

Með bréfi, dagsettu 1. nóvember 2007, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 19. nóvember 2007. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er synjun á fæðingarstyrk til foreldris utan vinnumarkaðar skv. 18. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof, sbr. 8. gr. laga nr. 90/2004.

Með umsókn, dags. 9. maí 2007 sótti kærandi um fæðingarstyrk sem foreldri utan vinnumarkaðar í sex mánuði vegna væntanlegrar fæðingar barns 31. ágúst 2007.

Umsókn kæranda fylgdi vottorð um áætlaðan fæðingardag barns, dags. 28. maí 2007 og bréf stílað á mann kæranda, dag. 6. september 2007, þar sem kemur fram að kærandi eigi ekki rétt til greiðslna á D-landi. Einnig lá fyrir útprentun úr Þjóðskrá.

Með bréfi Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs, dags. 28. júní 2007, var umsókn kæranda um fæðingarstyrk synjað á þeim grundvelli að hún uppfyllti ekki skilyrði um lögheimili á Íslandi.

Í 18. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof, sbr. 8. gr. laga nr. 90/2004, er kveðið á um fæðingarstyrk til foreldris utan vinnumarkaðar. Þar er í 2. málslið 2. mgr. sett það skilyrði fyrir fæðingarstyrk til foreldris utan vinnumarkaðar að foreldri skuli eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir þann tíma.

Í 14. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 1056/2004 er framangreint lögheimilisskilyrði áréttað í 1. mgr. Í 2. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar segir síðan að til þess að heimilt sé að taka til greina búsetu í öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins á þeim tíma sem tilgreindur er í 1. mgr. skuli foreldri afhenda Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði staðfesta yfirlýsingu (E-104) sem sýni tryggingatímabil er foreldri hefur lokið samkvæmt þeirri löggjöf sem það heyrði undir. Þá segir í 3. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar að hafi verið gerður samningur við annað ríki sem nái til greiðslna vegna fæðingar barns skuli meta búsetu foreldris í því ríki samkvæmt ákvæðum samningsins.

Barn kæranda fæddist 18. ágúst 2007 og var kærandi þá með lögheimili á D-landi og hafði haft þar lögheimili frá 1. júlí 2006, sbr. upplýsingar úr þjóðskrá Hagstofu Íslands. Uppfyllti kærandi þar af leiðandi ekki framangreint skilyrði fyrir greiðslu fæðingarstyrks um lögheimili, sem sett er í fæðingar- og foreldraorlofslögunum og reglugerð um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Með vísan til alls framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að rétt hafi verið að synja umsókn kæranda um fæðingarstyrk sem foreldri utan vinnumarkaðar samkvæmt 18. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, sbr. 8. gr. laga nr. 90/2004.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 26. nóvember 2007, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar.

Kærandi ól barn 18. ágúst 2007. Samkvæmt gögnum málsins átti hún lögheimili á D-landi á þeim tíma og hafði verið skráð þar með lögheimili frá 1. júlí 2006 skv. upplýsingum úr þjóðskrá.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) öðlast foreldri utan vinnumarkaðar eða í minna er 25% starfi sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks í allt að þrjá mánuði hvort um sig vegna fæðingar. Auk þess eiga foreldrar sameiginlegan rétt til fæðingarstyrks í þrjá mánuði til viðbótar. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. ffl. skal foreldri eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir þann tíma, sbr. og 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 1056/2004.

Samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 er skilyrði um lögheimili í samræmi við það búsetuskilyrði sem sett er fyrir rétti til að teljast tryggður samkvæmt lögum um almannatryggingar. Í 2. mgr. 14. gr. segir að til þess að heimilt sé að taka til greina búsetu í öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins á þeim tíma sem um ræðir í 1. mgr. skuli foreldri afhenda Tryggingastofnun ríkisins staðfesta yfirlýsingu (E-104) sem sýni tryggingatímabil er foreldri hefur lokið samkvæmt þeirri löggjöf sem það heyrði undir. Hafi verið gerður samningur við annað ríki sem nær til greiðslna vegna fæðingar barns skal meta búsetu foreldris í því ríki samkvæmt ákvæðum samningsins.

Samkvæmt 12. gr. laga um almannatryggingar nr. 117/1993 með síðari breytingum, sem endurútgefin hafa verið sem lög nr. 100/2007, telst sá sem búsettur er hér á landi tryggður, að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna, nema annað leiði af milliríkjasamningum. Með búsetu sé átt við lögheimili í skilningi lögheimilislaga. Samkvæmt 13. gr. almannatryggingalaga, sbr. lög nr. 59/1998, er Tryggingastofnun heimilt að ákveða, sé sótt um það, að einstaklingur sem verið hefur tryggður hér á landi, maki hans og börn undir 18 ára aldri, sem með honum dveljast, séu áfram tryggð hér á landi þótt ekki sé uppfyllt búsetuskilyrði laganna. Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 463/1999 um framkvæmd almannatrygginga og skráningu í tryggingaskrá er heimilt að ákveða að einstaklingur sé tryggður í allt að eitt ár þrátt fyrir starf erlendis, enda sé hann tryggður við upphaf starfsins. Starfið skal vera innt af hendi erlendis fyrir aðila með aðsetur og starfsemi á Íslandi og greiða skal tryggingagjald, sbr. lög um tryggingagjald, hér á landi af launum viðkomandi á starfstímanum. Samkvæmt 3. mgr. gildir sama um maka og börn undir 18 ára aldri sem dveljast með honum. Samkvæmt 4. mgr. 11. gr. er heimilt að framlengja tryggingaskráningu skv. 3. mgr. í allt að fjögur ár til viðbótar, að loknu fyrsta tímabilinu, að undangengnu mati, þar sem m.a. verði kannað hvort skilyrði séu áfram uppfyllt.

Samkvæmt 34. gr. ffl. skal við framkvæmd laganna tekið tillit til milliríkjasamninga á sviði almannatrygginga og félagsmála sem Ísland er aðili að. Í athugasemdum í greinargerð með 34. gr. segir að með ákvæðinu sé einkum verið að vísa til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samnings). Þegar EES-samningurinn hafi tekið gildi á Íslandi hafi þar greindar ESB-gerðir á sviði almannatrygginga og félagsmála borið að taka upp í landsrétt EES-ríkjanna skv. 7. gr. EES-samningsins. Þar á meðal hafi verið reglugerð ráðsins frá 14. júní 1971 um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og aðstandendum þeirra sem flytjast á milli aðildarríkja, nr. 1408/71/EBE, með síðari breytingum, og reglugerð ráðsins frá 21. mars 1972 nr. 574/72/EBE sem kveði á um framkvæmd reglugerðar nr. 1408/71/EBE. Þessar reglugerðir eigi stoð í núgildandi almannatryggingarlögum, nr. 117/1993, með síðari breytingum. Sé með ákvæðinu verið að tryggja að framkvæmd laganna verði í samræmi við ákvæði reglugerðanna, sem og annarra gerða á sviði almannatrygginga og félagsmála sem hafi orðið eða verði hluti af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Áður en ffl. tóku gildi fór um greiðslur í fæðingarorlofi eftir ákvæðum í almannatryggingarlögum.

Með 2. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið var meginmáli EES-samningsins veitt lagagildi. Samkvæmt 119. gr. samningsins skulu viðaukar, svo og gerðir sem vísað er til í þeim og aðlagaðar eru vegna samningsins auk bókana vera óaðskiljanlegur hluti samningsins. Í 7. gr. samningsins er fjallað um lögtöku gerða sem vísað er til eða er að finna í viðaukum við samninginn. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, ber að skýra lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja. Í bókun 35, sem fylgdi EES-samningnum segir m.a. að vegna tilvika þar sem geti komið til árekstra á milli EES-reglna sem komnar eru til framkvæmdar og annarra settra laga, skuldbindi EFTA-ríkin sig til að setja, ef þörf krefur, lagaákvæði þess efnis að EES-reglur gildi í þeim tilvikum. Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 2/1993 segir að í 3. gr. felist meðal annars, að innlend lög, sem eigi stoð í EES-samningnum, verði jafnan túlkuð sem sérreglur laga gagnvart ósamræmanlegum yngri lögum, að því leyti að yngri lög víki þeim ekki, ef þau stangast á, nema löggjafinn taki það sérstaklega fram.

Í 29. gr. EES-samningsins segir að til að veita launþegum og sjálfstætt starfandi einstaklingum frelsi til flutninga skuli samningsaðilar á sviði almannatrygginga, í samræmi við VI. viðauka, einkum tryggja launþegum og sjálfstætt starfandi einstaklingum og þeim sem þeir framfæra að:

a) lögð verði saman öll tímabil sem taka ber til greina samkvæmt lögum hinna ýmsu landa til að öðlast og viðhalda bótarétti, svo og reikna fjárhæð bóta;

b) bætur séu greiddar fólki sem er búsett á yfirráðasvæðum samningsaðila.

Í VI. viðauka samningsins sem varðar félagslegt öryggi er m.a. vísað til reglugerða ráðsins nr. 1408/71/EBE og reglugerðar nr. 574/72/EBE. Báðar þessar reglugerðir voru teknar upp í landsrétt í samræmi við ákvæði 7. gr. EES-samningsins, sbr. auglýsingu nr. 550 frá 29. desember 1993 um gildistöku EES-reglugerða um almannatryggingar og sama gildir um síðari reglugerðir varðandi það efni þar sem um lagaheimild hefur verið vísað til almannatryggingalaga og eftir gildistöku ffl. einnig til þeirra laga.

Reglum EB á sviði almannatrygginga er ætlað að tryggja samræmda og samfellda beitingu löggjafar aðildarríkja á sviði almannatrygginga gagnvart launþegum og sjálfstætt starfandi atvinnurekendum og aðstandendum þeirra sem flytjast milli aðildarríkja. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1408/71/EBE, eins og henni hefur verið breytt með reglugerð ráðsins nr. 307/1999, gildir reglugerðin um launþega eða sjálfstætt starfandi einstaklinga og námsmenn sem heyra undir eða hafa heyrt undir löggjöf eins eða fleiri aðildarríkja og eru ríkisborgarar eins aðildarríkis eða eru ríkisfangslausir eða flóttamenn búsettir í einhverju aðildarríkjanna auk aðstandenda þeirra og eftirlifenda.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 1408/71/EBE nær hún til allrar löggjafar um þá flokka almannatrygginga sem þar eru upptaldir. Flokkur sem tilgreindur er undir staflið a) eru „bætur vegna veikinda og meðgöngu og fæðingar“ og undir staflið h) eru „fjölskyldubætur“. Samkvæmt 5. gr. reglugerðarinnar skulu aðildarríkin í opinberum auglýsingum sem skulu tilkynntar og birtar tilgreina til hvaða tryggingareglna og flokka er vísað til í 4. gr. Af hálfu íslenskra stjórnvalda hefur verið tilkynnt að greiðslur samkvæmt lögum nr. 95/2000 falli undir almannatryggingar í skilningi reglugerðar nr. 1408/71/EBE sbr. auglýsing sem birt er í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins 2. júní 2005.

Í II. bálki reglugerðar 1408/71/EBE eru sérstakar lagaskilareglur. Markmið þeirra er að koma í veg fyrir að einstaklingar sem reglugerðin tekur til geti átt rétt til bóta samkvæmt löggjöf fleiri en eins aðildarríkis og jafnframt að tryggja að þeir glati ekki réttindum vegna flutnings milli aðildarríkja með því að teljast hvergi tryggðir samkvæmt löggjöf viðkomandi ríkja.

Samkvæmt 13. gr. reglugerðar 1408/71/EBE er meginreglan sú að einstaklingur falli undir löggjöf þess lands þar sem hann vinnur. Sérregla gildir samkvæmt 1. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar, staflið a, um útsenda starfsmenn. Þar segir að ef launþegi sem ráðinn er hjá fyrirtæki í aðildarríki sem hann starfar að jafnaði hjá, er sendur til annars aðildarríkis til vinnu fyrir fyrirtækið, skuli hann halda áfram að heyra undir löggjöf fyrra ríkisins. Sama er talið gilda um aðstandendur launþegans sem með honum dveljast enda öðlist þeir ekki sjálfstæðan rétt í búsetulandinu. Í 1. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 574/72/EBE segir að stofnun sem tilnefnd sé af lögbæru yfirvaldi þess aðildarríkis sem launþegi heyrir undir skuli, í þeim tilvikum sem vísað er til í a-lið 1. mgr. og a-lið 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 1408/71/EBE, gefa út honum til handa, að beiðni hans eða vinnuveitanda hans hafi nauðsynlegum skilyrðum verið fullnægt, vottorð því til staðfestingar að hann hafi verið sendur til starfa í öðru aðildarríki en heyri eftir sem áður undir löggjöf þess ríkis þar sem hann var áður fram að ákveðnum tíma. Á þessum grundvelli munu svokölluð E-101 vottorð vera gefin út til launþega sem sendir hafa verið til starfa í öðrum aðildarríkjum.

Staðfest er að eiginmaður kæranda, B, er starfsmaður E og útsendur starfsmaður hans á D-landi með E101 vottorð gefið út af Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt samkomulagi við D-lensk tryggingayfirvöld í samræmi við reglugerð nr. 1408/71/EBE fyrir tímabilið 1. júlí 2006 til 30. júní 2008 og heyrir samkvæmt því undir íslenska almannatryggingalöggjöf. Einnig fengu hann og fjölskylda hans útgefið sjúkratryggingavottorð, E106, fyrir sama tímabil. Þá er staðfest að kærandi fellur ekki undir almannatryggingakerfið á D-landi og á þar ekki rétt á styrk vegna fæðingarinnar.

Samkvæmt framansögðu var eiginmaður kæranda útsendur starfsmaður í skilningi reglugerðar nr. 1408/71/EBE. Hann og kærandi og börn þeirra voru tryggð í íslenska almannatryggingakerfinu en ekki því D-lenska. Verður að telja að ákvæði reglugerðarinnar eigi við um kæranda sem maka útsends starfsmanns. Með hliðsjón af 3. gr. laga nr. 2/1993, 34. gr. ffl. og öðru sem að framan er rakið telur úrskurðarnefndin að í framangreindri lagaskilareglu 14. gr. reglugerðar nr. 1408/71/EBE, sbr. 29. gr. EES-samningsins, felist sérregla sem gangi framar lögheimilisskilyrði 2. mgr. 18. gr. ffl. Telur nefndin að af því leiði að kærandi eigi rétt til greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar. Samkvæmt því er hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs felld úr gildi.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks er felld úr gildi. Greiða skal kæranda fæðingarstyrk sem foreldri utan vinnumarkaðar.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum