Hoppa yfir valmynd
25. október 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 36/2007

Fimmtudaginn, 25. október 2007

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 8. ágúst 2007 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 4. ágúst 2007.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 31. júlí 2007 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:     

„Efni þessa erindis lýtur að ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að ég eigi ekki rétt á að fá greiddan fæðingarstyrk úr sjóðnum, sökum þess að ég uppfylli ekki kröfu um 75% námsafköst í a.m.k. 6 mánuði, síðustu 12 mánuði fyrir fæðingu. Ég uni ekki þessari ákvörðun, og óska hér með eftir að fá henni breytt á þann veg að mér hlotnist réttur til fæðingarstyrks úr Fæðingarorlofssjóði. Málavextir eru þeir að ég hef síðan 2003 verið í fullu námi við B-háskóla, og á það einnig við um skólaárið 2006 - 2007. Haustið 2006 varð ég barnshafandi, og eignaðist lítinn dreng í lok júní sl.

Meðgangan gekk hinsvegar ekki klakklaust fyrir sig, þar sem ég varð í tvígang að segja mig úr áfanga í skólanum vegna þess að veikindi hömluðu mér frá að stunda nám mitt. Þetta gerðist fyrst í desember 2006, þegar ógleði og máttleysi, sem fylgdu meðgöngunni gerir mér ókleift að ljúka verkefni uppá 15 ECTS stig. Því miður hugkvæmdist mér ekki að verða mér úti um læknisvottorð vegna þessarar veikinda.

Öllu alvarlegri voru veikindi mín í seinna skiptið, þar sem ég var lögð inná sjúkrahús í lok maí, og í framhaldinu gert að vera rúmliggjandi út meðgönguna (sjá meðfylgjandi læknisvottorð). Þar af leiðandi var óhjákvæmilegt að ég missti af síðasta áfanga annarinnar, sem lauk 6. júní, og taldi 15 ECTS stig. Af þessum orsökum skilaði ég einungis 15 ECTS stigum á bæði haust- og vorönn síðasta skólaárs, 30 ECTS stig í allt.

Reglur Fæðingarorlofssjóðs kveða á um að námsmenn í fullu námi erlendis eigi rétt á fæðingarstyrk líkt og námsmenn á Íslandi. Fullt nám er þá skilgreint sem svo að námsmaður verði að ná að lágmarki 22.5 ECTS stigum að önn (75% afköst). Ég var sannarlega í fullu námi allan veturinn, sótti alla þá áfanga sem námslínunni tilheyra, en náði sökum veikinda ekki að ljúka verkefnum í tveim áföngum, og uppfylli því ekki skilgreininguna um fullt nám sem Fæðingarorlofssjóður styðst við.

Í reglum Fæðingarorlofssjóðs segir að taka megi tillit til veikinda sem rýra námsafköst námsmanna. Til þess að slík ívilnun geti fengist þarf námsmaður þó að sýna fram á það að hann hafi átt rétt á greiðslu sjúkradagpeninga frá Tryggingastofnun ríkisins meðan á veikindum stóð. Gildir það jafnt um námsmenn á Íslandi sem og erlendis. Ég sótti um sjúkradagpeninga frá TR vegna veikinda minna í vor, og var synjað á þeim grundvelli að ég væri búsett erlendis, og heyrði þar með ekki undir TR.

Hér vill ég meina að pottur sé brotinn í reglum Fæðingarorlofssjóðs, þar sem það er borin von að einstaklingur með búsetu erlendis eigi rétt á sjúkradagpeningum frá TR (sjá meðfylgjandi bréf frá TR). Það þýðir að námsmaður erlendis, sem öllu jöfnu á rétt á greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði, fyrirgerir þeim rétti ef hann veikist svo það komi niður á námsframvindu, þar sem hann getur ekki með nokkru móti átt rétt á sjúkradagpeningum frá TR meðan hann býr ekki á Íslandi. Krafa Fæðingarorlofssjóðs um að sýna verði fram á rétt til sjúkradagpeninga frá TR til að taka megi tillit til veikinda námsmanna, verður því seint uppfyllt af námsmanni erlendis.

Að mínu mati ber því að endurskoða þessa kröfu á þann hátt að taka megi tillit til veikinda námsmanns erlendis, líkt og tíðkast um námsmenn á Íslandi. Það mætti til dæmis gera með að taka læknisvottorð vegna veikinda sem rýra námsárangur til greina, frekar en að grundvalla réttindi námsmanna erlendis á sjúkradagpeningum Tryggingastofnunar ríkisins, sem þeir heyra jú ekki undir.

Þar sem námsmenn erlendis eiga á annað borð rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði þegar allt er með felldu, á ég bágt með að sjá efnisleg rök fyrir því að ekki megi taka tillit til veikinda þeirra. Veikindi eru jú óviðráðanleg, og manni er ekki í sjálfsvald sett hvort maður veikist eða ekki. Að mínu mati er því óskynsamlegt að veikindi geti svipt mann rétti til efnahagslegrar aðstoðar, líkt og núverandi reglur Fæðingarorlofssjóðs hafa í för með sér.

Þess má geta að mér stendur ekki til boða að fá fjárhagsaðstoð frá E-landi, hvorki fæðingarstyrk né sjúkradagpeninga (sjá meðfylgjandi skjal). D námsmenn framfleyta sér með námsstyrk frá ríkinu,. Þessi styrkur er ekki árangurstengdur, og því halda námsmenn áfram að fá hann þótt nám þeirra raskist vegna veikinda eða barneigna. Þessvegna eiga námsmenn í E-landi hvorki rétt á sjúkradagpeningum né fæðingarstyrk, þeir verða jú ekki af framfærslu sinni. Ég nýt hinsvegar ekki góðs af því þar sem ég er útlendingur, og hef þessvegna ekki rétt á SU. Þar að auki stendur til að flytja aftur heim til Íslands þegar litli karlinn verður ferðafær, og því hæpið að D yfirvöld telji það heyra undir sig að aðstoða mig.

En ég er ósátt við ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs af fleiri ástæðum en þeirri sem ég hef útlistað hér að ofan Þó þessar athugasemdir séu annars eðlis, vil ég nefna þær engu að síður, ef vera kynni að það teldi í mína þágu.

Í fyrsta lagi vegna þess að ég var svo sannarlega í fullu námi síðastliðinn vetur. Eins og áður er sagt sótti ég alla þá áfanga sem námi mínu tilheyrðu, þó svo að veikindi hafi í tvígang aftrað mér frá því að ljúka áfanga með fullgildum hætti. Á 10 mánaða námsári var ég að fullu virk í 8,5 mánuði, en var frá námi í alls 6 vikur. Sökum þess að þessar 6 vikur sköruðust á við áfangalok/verkefnaskil í tveim áföngum varð ég af alls 30 ECTS stigum. Mér finnst því sú aðferð að meta námsástundun útfrá skiluðum einingum einum saman ekki gefa réttláta mynd af námi mínu síðasta vetur. Úr þessu mætti bæta t.d. með að taka til greina vottorð frá skólanum mínum, þar sem fram kemur hvernig ég var skráð í og úr áföngum síðasta vetur. Slíkt vottorð get ég útvegað.

Í öðru lagi finnst mér erfitt að kyngja því að í velferðarríkjum eins og Íslandi og E-landi geti einstaklingur hreinlega lent á milli þilja, og staðið uppi réttindalaus, jafnvel þó að hann verði af öllum tekjum sínum. Þangað til að barn mitt er 6 mánaða gamalt krefst það þess að ég annist það allan sólahringinn, og gefi því að borða. Því hyggst ég halda fæðingarorlof frá námi haustönnina 2007, sem þýðir að ég fæ ekki námslán, sem þýðir að ég verð án framfærslu. Ég taldi að öllum þeim sem missa framfærslu sína vegna barneigna stæði til boða efnahagsleg aðstoð í formi fæðingarstyrks, óháð því hvort um launþega, námsmann eða atvinnulausan einstakling væri að ræða, og að það væri sjálf ástæðan fyrir tilvist Fæðingarorlofssjóðs. Því á ég bágt með að trúa því að ég, sem framfleyti mér með námslánum, og sannarlega verð af þeirri framfærslu vegna barneigna, eigi í engin hús að venda varðandi fjárhagsaðstoð meðan barn mitt er svo ungt að það aftrar mér frá að stunda nám eða vinnu.

Af ofangreindum orsökum tel ég að grundvöllur sé fyrir því að ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja mér um fæðingarstyrk verði tekin til endurskoðunar. Ég vona að Úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála taki athugasemdir mínar til greina, og sjái sér fært að veita mér rétt til fæðingarstyrks frá Fæðingarorlofssjóði.“

 

Með bréfi, dagsettu 30. ágúst 2007, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 2. október 2007. Í greinargerðinni segir:

„Með bréfi Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs, dags. 28. júní 2007, var kæranda synjað um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi. Var í bréfinu tiltekið að kærandi teldist ekki hafa stundað fullt nám í a.m.k. 6 mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir áætlaðan fæðingardag barnsins.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 9. gr. laga nr. 90/2004, um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), eiga foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, rétt á fæðingarstyrk. Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Þar kemur fram að fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Enn fremur kemur fram að heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 16. gr. eða undanþáguákvæði 17. gr. reglugerðarinnar. Einstök námskeið teljast ekki til fulls náms. Í 2. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að leggja skuli fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Enn fremur að heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.

Barn kæranda fæddist þann 26. júní 2007 og verður því, við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám samfellt í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins, að horfa til tímabilsins frá 26. júní 2006 fram að fæðingardegi barnsins.

Samkvæmt námsferilsáætlun frá B-háskóla stundaði kærandi nám við skólann á haustönn 2006 og vorönn 2007. Var kærandi skráður í 7,5 einingar (15 ECTS) á haustönn 2006 og lauk 7,5 einingum eða 50% námsframvindu. Á vorönn var kærandi skráður í 15 einingar (30 ECTS) og lauk 7,5 einingum og var skráður veikur í 7,5 einingum eða 50% námsframvinda.

Þegar um er að ræða nám við háskóla teljast 15 einingar á önn vera 100% nám og því teljast 11-15 einingar vera fullt nám samkvæmt lögum nr. 95/2000. Með hliðsjón af þeim gögnum sem fyrir liggja um námsframvindu kæranda lítur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður svo á að kærandi uppfylli ekki almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi samfellt í a.m.k. 6 mánuði síðustu 12 mánuðina fyrir fæðingardag barns.

Í lögum um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, með síðari breytingum, og reglugerð nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er að finna nokkrar undanþágur frá framangreindu skilyrði um fullt nám í a.m.k. 6 mánuði á síðustu tólf mánuðum fram að fæðingu barns. Er m.a. í 19. gr. reglugerðarinnar að finna undanþáguákvæði fyrir móður frá skilyrðum 2. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar um viðunandi námsárangur og/eða ástundun enda hafi hún ekki getað stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna skv. 2. mgr. 9. gr. Skal hún sannanlega hafa verið skráð í nám skv. 1. mgr. 18. gr. og fengið greidda sjúkradagpeninga, verið á biðtíma eftir dagpeningum á þeim tíma eða hefði átt rétt á þeim fyrir umrætt tímabil samkvæmt lögum um almannatryggingar. Undanþágan á ekki við í tilviki kæranda þar sem hún var ekki skráð í fullt nám skv. 1. mgr. 18. gr. né heldur hefur verið sýnt fram á rétt til greiðslu sjúkradagpeninga.

Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, sbr. 1. mgr. 14. gr. rgl. nr. 1056/2004 eiga foreldrar sem eru utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi rétt á greiðslu fæðingarstyrks að því tilskyldu að foreldrið hafi átt lögheimili á Íslandi við fæðingu barns, ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og síðustu 12 mánuði þar á undan. Kærandi átti lögheimili erlendis við fæðingu barnsins og verður því ekki annað séð en að hún eigi ekki rétt á greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar.

Með vísan til framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi hafi réttilega verið synjað með bréfi, dags. 28. júní 2007.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 4. október 2007, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust með bréfi dagsettu 17. október 2007 frá kæranda. Í bréfinu eru ítrekaðar röksemdir kæranda. Þar segir m.a.: „Ég vil benda á að ég var skráð í 30 ECTS stig við CBS á haustönn 2006. Þetta staðfestir fylgiskjal kærunnar sem nú liggur fyrir úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála. Þar kemur einnig fram að um miðbik desembermánaðar hafi ég skráð mig úr áfanganum sem var í gangi. Það var vegna veikinda, en eins og segir í kærunni hugkvæmdist mér ekki að verða mér úti um læknisvottorð vegna þessara veikinda. Til glöggvunar er rétt að útskýra að í HRM námi í B-háskóla er aðeins einn áfangi í gangi á hverjum tímapunkti. Þannig eru ECTS stigin 15 sem ég náði á haustönn fyrir áfanga sem gekk frá ágúst fram í október, en áfanginn sem ég varð að segja mig úr gekk frá október og fram í desember.“

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 90/2004, eiga foreldrar í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða varanlegt fóstur rétt til fæðingarstyrks. Fullt nám í skilningi laganna er skilgreint í 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, sbr. 11. mgr. 19. gr. ffl.

Í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 segir að fullt nám í skilningi ffl. og reglugerðarinnar teljist 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Heimilt er að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 16. gr. eða undanþáguákvæði 17. gr. reglugerðar þessarar. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Þá er heimilt að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn sem barn fæðist.

Barn kæranda er fætt 26. júní 2007. Tólf mánaða viðmiðunartímabil skv. 1. mgr. 19. ffl. er því frá 26. júní 2006 fram að fæðingu barns. Kærandi var með lögheimili í E-landi við fæðingu barns og hafði verið í kandidatsnámi við B-háskóla skólaárið 2006 til 2007. Samkvæmt staðfestingu skólans dags. 8. júní 2007 er kandidatsnámið 120 ECTS sem skiptast á fjögur námsmisseri. Fullt nám þar á misseri í skilningi ffl. og 1. mgr. 18. reglugerðar nr. 1056/2004 telst því vera 22,5 - 30 ECTS. 1. og 3. misseri er samkvæmt staðfestingu skólans frá 1. september til 31. janúar og 2. og 4. misseri frá 1. febrúar til 31. ágúst. Samkvæmt námsferilsskráningu B-háskóla lauk kærandi á misserinu sem hófst 1. september 2006 námi í 15 ECTS. Á misserinu sem hófst 1. febrúar 2007 og ólokið var við fæðingu barnsins þann 26. júní 2006 lauk hún 15 ECTS en skráð voru veikindi við 15 ECTS áfanga þann 6. júní 2007. Samkvæmt læknisvottorði dagsettu 25. maí 2007 var kærandi sjúkraskráð frá þeim tíma til loka meðgöngu.

Kærandi uppfyllir samkvæmt framansögðu ekki skilyrði 19. gr. ffl., sbr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004, um fullt nám í a.m.k. 6 mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Samkvæmt 19. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 er heimilt að greiða móður fæðingarstyrk sem námsmanni þó að hún fullnægi ekki skilyrðum 2. mgr. 18. gr. um viðunandi námsárangur og/eða ástundun enda hafi hún ekki getað stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna skv. 2. mgr. 9. gr. Skal hún sannanlega hafa verið skráð í nám skv. 1. mgr. 18. gr. og fengið greidda sjúkradagpeninga, verið á biðtíma eftir dagpeningum á þeim tíma eða hefði átt rétt á þeim fyrir umrætt tímabil samkvæmt lögum um almannatryggingar. Samkvæmt gögnum málsins er ekkert staðfest um veikindi kæranda á haustmisseri eða um að hún hafi uppfyllt skilyrði um rétt til sjúkradagpeninga samkvæmt lögum um almannatryggingar.

Þótt fallist yrði á að taka tillit til náms kæranda á vormisseri 2007 nægir það ekki til að uppfyllt séu skilyrði fyrir greiðslu fæðingarstyrks þar sem nám kæranda á haustmisseri var ekki fullt nám í skilningi ffl. og 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 og ekki heldur uppfyllt skilyrði undanþáguákvæðis 19. gr. reglugerðarinnar. Þá verður ekki ráðið af yfirliti B-háskóla um námsferil kæranda að 15 ECTS áfanga hafi verið lokið í október 2006.

Með hliðsjón af framanrituðu er ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum