Hoppa yfir valmynd
11. október 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr.19/2007

Föstudaginn, 11. október 2007

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 23. maí 2007 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 20. maí 2007.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 26. mars 2007 um útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Ekki voru laun mín frá B tekin með í reikning á meðaltali launa. Vinna mín sem málari skilar ekki inn 100% starfi, þess vegna setti ég laun frá B með þar sem ég fæ laun og greiði skatt af.“

 

Með bréfi, dagsettu 29. júní 2007, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 17. júlí 2007. Í greinargerðinni segir:

„Kærður er útreikningur Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Með umsókn, dags. 8. mars 2007, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 3 mánuði, vegna væntanlegrar barnsfæðingar 20. apríl 2007.

Auk umsóknar kæranda barst vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, ódagsett, tilkynning um fæðingarorlof, dags. 8. mars 2007, launaseðlar fyrir janúar og febrúar 2007 frá D. og launamiði 2006 frá RSK. Enn fremur lágu fyrir upplýsingar úr skrám ríkisskattstjóra.

Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 26. mars 2007, var honum tilkynnt að umsókn hans um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hefði verið samþykkt og að mánaðarleg greiðsla hans yrði X krónur á mánuði miðað við 100% fæðingarorlof. Þar sem kærandi óskaði eftir að greiðslur til hans hæfust við fæðingu barns var ekki unnt að senda greiðsluáætlun á hann fyrr en barnið var fætt. Þann 9. maí 2007 var kæranda send greiðsluáætlun.

Í 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, er kveðið á um að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og að miða skuli við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns eða þess árs er barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur. Til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Jafnframt segir að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hafi starfað á innlendum vinnumarkaði.

Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 segir að það að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV., V. og VIII. kafla laga um fæðingar- og foreldraorlof feli í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda sé gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.

Í 3. mgr. 15. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, sbr. 5. gr. laga nr. 90/2004, er kveðið á um að útreikningar á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skuli byggjast á upplýsingum sem Vinnumálastofnun aflar um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Þar segir jafnframt að Vinnumálastofnun skuli leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda vegna tekjuára skv. 2. og 5. mgr. 13. gr. laganna.

Í 6. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, er skilgreint hvað skuli teljast til gjaldstofns tryggingagjalds. Í 1. mgr. 6. gr. kemur fram að stofn til tryggingagjalds séu allar tegundir launa eða þóknana fyrir starf, hverju nafni sem nefnist, sem skattskyld eru skv. 1. tl. A–liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Styrkir falla undir 2. tl. A–liðar 7. gr. laganna en ekki 1. tl. og eru því ekki tryggingagjaldsskyldir. Í 7. og 8. gr. laga um tryggingagjald er frekari upptalning hvað teljist til gjaldstofns tryggingagjalds skv. 6. gr. laganna og í 9. gr. er upptalning á hvaða greiðslur séu undanþegnar tryggingagjaldi.

Barn kæranda fæddist 25. apríl 2007 og skal því, samkvæmt framangreindum laga- og reglugerðarákvæðum, mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til kæranda reiknast sem 80% af meðaltali heildarlauna hans fyrir þá mánuði á árunum 2005 og 2006 sem kærandi var starfandi í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði, sbr. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004.

Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hefur kærandi talið tekjur sínar fram í samræmi við það sem fram kemur í staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra um tekjur hans á árunum 2005 og 2006. Í janúar-júní 2005 var kærandi utan vinnumarkaðar og ber því að undanskilja þá mánuði við útreikning á meðaltali heildarlauna svo og desember 2005, janúar 2006 og júlí 2006 en þá mánuði var kærandi einnig utan vinnumarkaðar. Á skattframtali 2006 kemur fram að kærandi var með X krónur í dagpeninga á árinu 2005 og á skattframtali 2007 kemur fram að kærandi var með X krónur á árinu 2006. Á launamiða frá kæranda kemur fram að dagpeningagreiðslunum sé haldið utan staðgreiðslu. Í 3. tl. 7. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, kemur fram að ekki skuli telja til gjaldstofns greiðslur dagpeninga sem heimilt er að halda utan staðgreiðslu samkvæmt lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum. Dagpeningagreiðslur, sem haldið er utan staðgreiðslu, ber því að undanskilja við útreikning á meðaltali heildarlauna, sbr. 2. mgr. 13. gr. ffl og 3. tl. 7. gr. laga um tryggingagjald.

Á skattframtali 2006 kemur fram að kærandi var með X krónur sem aðrar tekjur á árinu 2005 og á skattframtali 2007 er kærandi með X krónur sem aðrar tekjur á árinu 2006. Umræddar greiðslur eru E, sbr launamiði frá RSK. Ekki er greitt tryggingagjald af slíkum greiðslum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um tryggingagjald, sbr. 2. tl. A–liðar 7. gr. laga um tekjuskatt. Því ber einnig að undanskilja þær við útreikning á meðaltali heildarlauna kæranda, sbr. 2. mgr. 13. gr. ffl.

Við upphaflegan útreikning á meðaltali heildarlauna kæranda höfðu X krónur frá F verið hafðar með sem laun í febrúar 2006. Þar sem greiðslur atvinnuleysisbóta eru undanþegnar tryggingagjaldi, skv. 4. tl. 9. gr. laga um tryggingagjald ber að undanskilja þær við útreikning á meðaltali heildarlauna, sbr. og 2. mgr. 13. gr. ffl. Meðaltal heildarlauna kæranda fyrir árin 2005 – 2006 lækkar því í X krónur úr X krónum.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 23. ágúst 2007, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns eða þess árs er barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald sbr. og 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Samkvæmt 3. málslið 2. mgr. 13. gr. skal einungis miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hefur starfað á innlendum vinnumarkaði.

Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að það að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV., V. og VIII. kafla laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, feli í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.

Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 113/1990 um tryggingagjald er stofn til tryggingagjalds allar tegundir launa eða þóknana fyrir starf, hverju nafni sem nefnist, sem skattskyld eru skv. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Samkvæmt 3. tölul. 7. gr. laganna teljast meðal annars til gjaldstofns ökutækjastyrkir og dagpeningar. Þó skal ekki telja til gjaldstofns greiðslur dagpeninga sem heimilt er að halda utan staðgreiðslu samkvæmt lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum, og reglugerðum og starfsreglum sem settar eru með stoð í þeim lögum.

Barn kæranda er fætt 25. apríl 2007. Viðmiðunartímabil útreiknings meðaltals heildarlauna eru samkvæmt því árin 2005 og 2006, sbr. 2. mgr. 13. gr. ffl.

Kærandi var á innlendum vinnumarkaði í skilningi ffl. og reglugerðar nr. 1056/2004 á árinu 2005 mánuðina júlí til og með nóvember og árinu 2006 mánuðina febrúar til og með júní og síðan ágúst til og með desember eða alls 15 mánuði viðmiðunartímabilsins, sbr. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Óumdeilt er að vinnulaun kæranda þessa mánuði koma til útreiknings á meðaltali heildarlauna hans og greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði skv. 2. mgr. 13. gr. ffl. Ágreiningur er hins vegar um þá ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs að ekki skuli reikna með dagpeningum og öðrum tekjum kæranda á viðmiðunartímabilinu við útreikning meðaltals heildarlauna hans.

Tilgreindar aðrar tekjur kæranda X krónur árið 2005 og X krónur árið 2006 voru samkvæmt launaseðlum E. Styrkir falla ekki undir 1. tölul. A-liðar 7. gr. tekjuskattslaga og mynda því ekki stofn til tryggingagjalds, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 113/1990 um tryggingagjald. Samkvæmt því teljast þær tekjur kæranda ekki til launa við útreikning meðaltals heildarlauna kæranda og greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, sbr. 2. mgr. 13. gr. ffl., og er ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs staðfest hvað það varðar.

Samkvæmt 3. tölul. 7. gr. laga um tryggingagjald teljast greiðslur dagpeninga sem heimilt er að halda utan staðgreiðslu ekki til gjaldstofns tryggingagjalds og telst sá hluti þeirra því ekki til launa við útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði skv. 2. mgr. 13. gr. ffl. Samkvæmt 6. gr. reglugerðar nr. 591/1987 um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu er heimilt að halda utan staðgreiðslu dagpeningum og hliðstæðum endurgreiðslum á ferða- og dvalarkostnaði vegna launagreiðanda, enda sé fjárhæðin innan þeirra marka sem leyfist til frádráttar samkvæmt reglum ríkisskattstjóra. Árið 2005 fékk kærandi greidda dagpeninga X krónur Samkvæmt upplýsingum frá skattayfirvöldum nam leyfilegur frádráttur kæranda frá dagpeningagreiðslum það ár X krónur Árið 2006 fékk kærandi greidda dagpeninga X krónur en leyfilegur frádráttur það ár nam þeirri sömu fjárhæð. Mismunur dagpeningagreiðslna og leyfilegs frádráttar árin 2005 og 2006 nam því X krónum og skal sá hluti dagpeninganna talinn til launa við útreikning meðaltals heildarlauna kæranda og greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði skv. 2. mgr. 13. gr. ffl.

Samkvæmt því sem að framan segir ber að fella úr gildi ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að reikna ekki með dagpeningagreiðslum að fjárhæð X krónur við útreikning meðaltals heildarlauna kæranda.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að reikna ekki með dagpeningagreiðslum við útreikning meðaltals heildarlauna og greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði til A er felld úr gildi. Dagpeningagreiðslur X krónur skulu taldar til launa við útreikning meðaltals heildarlauna og greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum