Hoppa yfir valmynd
30. janúar 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 43/2006

Þriðjudaginn, 30. janúar 2007

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 7. nóvember 2006 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 31. október 2006.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

Kærð er ákvörðun Tryggingarstofnunar ríkisins dags. 4. september 2006 í máli A þar sem synjað er umsókn hennar um greiðslur úr fæðingarorlofssjóði.

Málavextir eru þeir að hinn 23. janúar 2006 sendi kærandi fyrirspurn með tölvupósti til Tryggingastofnunar ríkisins (TR) vegna flutnings til Íslands og fyrirhugaðrar töku fæðingarorlofs á Íslandi í september 2006. Í meðfylgjandi fyrirspurn kæranda kemur m.a fram að hún hyggi á heimflutning til Íslands og til þess að lenda ekki á milli kerfa hvað varði reglur um töku fæðingarorlofs þurfi hún á frekari upplýsingum að halda. Í bréfi sínu til TR lýsir hún nákvæmlega forsendum sínum og óskar síðan eftir staðfestingu TR á því að skilningur hennar um rétt til greiðslna úr fæðingarorlofssjóði sé réttur.

Í svari sem henni barst frá TR hinn 26. janúar 2006 kemur fram að til þess að eiga rétt úr fæðingarorlofssjóðnum þurfti samfellt 6 mánaða starf áður en barnið fæðist eða ígildi þess s.s. sjúkradagpeninga eða atvinnuleysisbætur. Þá segir í svari TR að laun erlendis séu ekki tekin hér til viðmiðunar, einungis þau laun sem greidd eru hér á landi og greitt er tryggingagjald af. Það sé einmitt gjaldið sem myndar sjóðinn. Hún muni því fá greidda lágmarksgreiðslu, segir í svarinu, sem er X krónur væri hún í 100% starfi eða X krónur hefði hún verið í 25-49% starfi.

Til þess að vera fullviss um að hafa skilið svar bréfritara (starfsmanns) TR rétt sendi kærandi á ný fyrirspurn með tölvupósti dags. 26. janúar 2006 varðandi samfelldan vinnutíma og spyr hvort vinnutími hennar erlendis sé tekinn með í útreikning á framangreindum 6 mánuðum ef ekki sé möguleiki á að ná 6 mánaða samfelldum vinnutíma á Íslandi. Taldi hún að ef hún aflaði svonefnds E-104 vottorð frá B-landi hlyti að vera ljóst að því skilyrði væri fullnægt, þ.e. að samanlagður tími hér á landi og í B-landi næði 6 mánaða mörkunum. Vert er að nefna að á eyðublaði E-104 er sýnir lok tryggingartímabils ytra kemur fram að kærandi er tryggður erlendis til 31. mars 2006 og fullnægir því fyrrnefndum skilyrðum um samfelldan 6 mánaða vinnutíma.

Kærandi fékk samdægurs, þ.e. þann 26. janúar 2006, svar frá TR þar sem segir að skilningur hennar sé réttur og að hún skuli einmitt sýna fram á E-104 til þess að sýna lok tryggingatímabils ytra.

Hinn 24. ágúst sl. barst kæranda bréf frá TR þar sem m.a. kemur fram að af upplýsingum úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra verði ekki ráðið að hún uppfylli skilyrði 1. mgr. 13. gr.

laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof með síðari breytingum þar sem að engar tekjur hafi verið skráðar á kæranda hjá skattyfirvöldum tímabilið mars 2006.

 

Í bréfi TR dags. 4. september sl., kemur fram að af framlögðum gögnum og fyrirliggjandi upplýsingum verði ekki ráðið að kærandi hafi verið á vinnumarkaði tímabilið 17. mars -1. apríl 2006 og verði því umsókn hennar um greiðslur úr fæðingarorlofssjóði því synjað.

Samkvæmt stjórnsýslulögum ber stjórnvöldum skylda til þess að leiðbeina borgurunum um réttindi þeirra og skyldur óski þeir eftir þeim. Borgararnir verða að geta treyst því að þær upplýsingar sem þeim eru veittar af hálfu stjórnvalda séu réttar. Það er grundvallarregla í stjórnsýslurétti að þegar einstaklingar byggja rétt sinn á skýrum svörum frá bærum stjórnvöldum og sú ákvörðun hefur haft veruleg áhrif á athafnir einstaklingsins þá verði stjórnvöld að bera ábyrgðina á slíku. Á það einkum við þegar ákvarðanir stjórnvaldsins hafa í för með sér tjón fyrir borgarann.

Kærandi sendi skýra fyrirspurn til TR og fékk skýr svör til baka þ.e. að nægjanlegt væri að hluti tímans væri unninn í B-landi ef lagt væri fram E-104 vottorð þar að lútandi.

Allar ákvarðanir kæranda um starfslok í B-landi og flutning til Íslands voru í framhaldi af bréfi TR frá 26 . janúar 2006 teknar á þeim grundvelli sem greindi í bréfum. Hefði kærandi fengið rétt svör frá TR hefði hún að sjálfsögðu hafið störf 1/2 mánuði fyrr en raunin varð. Það var ekkert því til fyrirstöðu að hefja fyrr störf á Íslandi.

Með vísan til framangreindra sjónarmiða er þess krafist að kæranda verði ákvarðaðar greiðslur úr fæðingarorlofssjóði í samræmi við þau svör sem bárust henni frá TR hinn 26. janúar 2006.

Til viðbótar við framangreind sjónarmið telur kærandi það stríða gegn reglum EES samningsins um frjálst flæði vinnuafls að borgarar annarra EES landa en Íslands njóti lakari stöðu en starfsmenn á íslenskum vinnumarkaði. Vinna í B-landi hlýtur í því sambandi að vera jafngild vinnu á Íslandi.“

 

Með bréfi, dagsettu 16. nóvember 2006, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 29. nóvember 2006. Í greinargerðinni segir:

Með umsókn, dags. 1. júlí 2006, sem móttekin var 3. júlí 2006, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 6 mánuði vegna væntanlegrar barnsfæðingar 13. september 2006.Með umsókn kæranda fylgdi vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 1. júní 2006, tilkynning til vinnuveitanda um fæðingarorlof, dags. 25. júní 2006 og launaseðlar kæranda, dags. 1. maí og 1. júní 2006. Þá lágu ennfremur fyrir við afgreiðslu umsóknar kæranda upplýsingar úr Þjóðskrá, upplýsingar úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra og upplýsingar úr tryggingaskrá Tryggingastofnunar ríkisins.Lífeyristryggingasviði barst tölvuskeyti frá kæranda, dags. 23. janúar 2006, þar sem kærandi spurðist fyrir um stöðu sína gagnvart rétti til greiðslna úr Fæðingar-orlofssjóði. Tók kærandi fram í skeyti sínu að hún hafi búið erlendis í um 10 ár en hugðist flytja til Íslands fyrir fæðingu barnsins. Þá spurði kærandi um það hvort tillit væri tekið til þátttöku hennar á erlendum vinnumarkaði o.fl. Lífeyristryggingasvið svaraði skeyti kæranda með tölvuskeyti, dags. 26. janúar 2006. Í svari lífeyris-tryggingasviðs var tekið fram að kærandi þyrfti að vera þátttakandi á vinnumarkaði í a.m.k. 6 mánuði fyrir fæðingardag barns. Þá var kæranda gerð grein fyrir því að laun hennar á erlendum vinnumarkaði yrðu ekki reiknuð með til að finna út meðaltal heildarlauna hennar síðustu tvö almanaksár fyrir fæðingarár barnsins.

Þá barst lífeyristryggingasviði tölvuskeyti frá kæranda, dags. 26. janúar 2006, þar sem kærandi spurði hvort litið væri til starfstíma erlendis á því sex mánaða tímabili sem um ræðir fyrir fæðingardag barnsins. Þá spurðist kærandi einnig fyrir um hvort hún þyrfti að skila inn E-104 vottorði. Lífeyristryggingasvið svaraði skeyti kæranda samdægurs. í svari lífeyristryggingasviðs kom fram að litið væri til starfstíma á Evrópska efnahagssvæðinu þegar metið væri hvort foreldri hafi verið þátttakandi á vinnumarkaði síðustu 6 mánuði fyrir fæðingardag barns. Þá var kæranda gerð grein fyrir því að hún mundi þurfa að skila inn E-104 vottorði til að sýna fram á að hún hafi lokið tryggingatímabili erlendis.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs, dags. 24. ágúst 2006, var kæranda gefinn frestur til að skila inn gögnum til að sýna fram á að hún hafi starfað í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir áætlaðan fæðingardag barns síns, en samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra vantaði skýringar á launaleysi kæranda í marsmánuði 2006.

Lífeyristryggingasviði barst 29. ágúst 2006, afrit af ráðningarsamningi kæranda við D, dags. 9. maí 2005. í samningnum kom fram að kærandi hafi hafið störf hjá félaginu 3. apríl 2006. Þá barst lífeyristryggingasviði einnig afrit af launaseðli kæranda frá E í B-landi. Samkvæmt launaseðlinum fékk kærandi greidd laun í B-landi frá 1. til 17. mars 2006.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs, dags. 30. ágúst 2006, var kæranda á ný gefinn frestur til að skila inn gögnum til að sýna fram á að hún hafi starfað í a.m.k. sex mánuði á vinnumarkaði fyrir áætlaðan fæðingardag barns síns. Upplýsingar vantaði fyrir tímabilið 17. mars til 3. apríl 2006.

Engin frekari gögn bárust frá kæranda og var henni sent bréf lífeyristryggingasviðs, dags. 4. september 2006, þar sem henni var synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofs-sjóði. Í bréfinu var kæranda jafnframt tilkynnt að hún ætti rétt á fæðingarstyrk til foreldra utan vinnumarkaðar.

Barn kæranda fæddist 6. september 2006, en samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof, þá stofnast réttur til fæðingarorlofs við fæðingu barns.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs, dags. 15. september 2006, var kæranda send greiðsluáætlun sem sýndi tilhögun greiðslna fæðingarstyrks til foreldra utan vinnu-markaðar til hennar.

Í 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, er kveðið á um rétt foreldra til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Þar segir í 1. mgr. að foreldri á innlendum vinnumarkaði öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns.

Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er skilgreint hvað felist í því að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi fæðingar- og foreldraorlofslaganna, þ.e. að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda sé gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.

Í 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar er síðan talið upp í eftirfarandi fjórum stafliðum hvað teljist jafnframt til þátttöku á vinnumarkaði,

a.  orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt

ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b.  sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri skráð sig án atvinnu samkvæmt lögum nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar. Hið sama gildir eigi foreldri rétt á greiðslum úr Tryggingasjóði sjálfstætt starfandi einstaklinga samkvæmt lögum nr. 46/1997, um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga,

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftirdagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d.  sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna

tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa.

Í 34. gr. laga nr. 90/2004 segir að taka skuli tillit til milliríkjasamninga á sviði almannatrygginga og félagsmála sem Ísland er aðili að við framkvæmd laganna. Með hliðsjón af ákvæðinu sem og lögum nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið hefur lífeyristryggingasvið litið svo á að skýra bæri skilyrði 13. gr. laga nr. 90/2004, sem kveður á um 6 mánaða þátttöku á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns, á þann veg að ekki væri hægt að líta fram hjá starfstíma þeim er foreldri hefur starfað á vinnumarkaði á EES-svæðinu. Hefur þó þótt mega áskilja íslenska ríkinu að gera kröfu um a.m.k. eins mánaðar vinnuframlag á vinnumarkaði hér á landi á tímabilinu, Þykir þessi skýring einkum fá stoð í 29. gr. EES-samningsins, VI. viðauka með samningnum og reglugerð ráðsins (EBE) nr. 1408/71 um beitingu almannatrygginga-reglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og aðstandendum þeirra sem flytjast á milli aðildarríkja, með síðari breytingum.

Barn kæranda er fætt 6. september 2006. Sex mánaða viðmiðunartímabil er því, samkvæmt framangreindu ákvæði 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, 6. mars 2006 fram að fæðingardegi barnsins. Til að öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði þurfti kærandi því að hafa verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði tímabilið 6. mars til 5. september 2006.

Í gögnum málsins kemur fram að kærandi var búsett erlendis fram til 29. mars 2006. Fluttist kærandi hingað til lands eftir nokkurra ára búsetu í B-landi. E-104 vottorð sem kærandi lagði inn hjá Tryggingastofnun ríkisins ber með sér að kærandi var tryggð í almannatryggingakerfi þar í landi frá 1. janúar 2003 til 31. mars 2006. Með hliðsjón af lögheimilisflutningi kæranda og upplýsingum í E-104 vottorði kæranda frá B-landi hefur Tryggingastofnun ríkisins því úrskurðað að kærandi sé á ný tryggður hér á landi frá 29. mars 2006.

Þá liggur fyrir, samkvæmt framlögðum ráðningarsamningi og upplýsingum úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra, að kærandi var launþegi í fullu starfi hér á landi frá 3. apríl 2006 og fram að fæðingardegi barnsins. Þá liggur einnig fyrir, samkvæmt erlendum launaseðli, að kærandi var á launþegi í fullu starfi á vinnumarkaði í B-landi til 17. mars 2006.

Engar upplýsingar hafa borist lífeyristryggingasviði um stöðu kæranda á vinnumarkaði hér á landi eða innan EES-svæðisins á tímabilinu 18. mars til og með 2. apríl 2006.

Í framkvæmd hefur lífeyristryggingasvið talið að frávik frá skýrri reglu 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, væru óheimil. í því felst að foreldri þarf að sýna fram á þátttöku sína á innlendum vinnumarkaði óslitið á þessu sex mánaða tímabili. Í máli þessu eru 15 dagar óútskýrðir á tímabilinu og liggur ekki annað fyrir en að kærandi hafi verið utan vinnumarkaðar á því tímabili. Ekki telur lífeyris-tryggingasvið skipta máli að tímabilið kunni að skýrast af búferlaflutningi kæranda frá B-landi hingað til lands, enda eru engar heimildir til undantekninga að þessu leyti að finna í lögum eða reglugerð.

Með vísan til framangreinds telur Tryggingastofnun ríkisins að umsókn kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hafi réttilega verið synjað með bréfi, dags. 4. september 2006. Ennfremur telur stofnunin að greiðslur fæðingarstyrks til kæranda hafi réttilega verið ákvarðaðar í greiðsluáætlun, dags. 15. september 2006.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 4. desember 2006, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

 

Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dagsettu 4. desember 2006 þar sem kærandi ítrekaði fyrri kröfur og rökstuðning.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns, sbr. og 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar er skilgreint hvað felist í því að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi fæðingar- og foreldraorlofslaganna, þ.e. að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda sé gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi. Til atvinnuþátttöku skv. 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar telst jafnframt:

a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt lögum nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar. Hið sama gildir eigi foreldri rétt á greiðslum úr Tryggingasjóði sjálfstætt starfandi einstaklinga samkvæmt lögum nr. 46/1997, um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga,

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa.

Kærandi ól barn 6. september 2006. Sex mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu er því frá 6. mars 2006 fram að fæðingardegi barns. Samkvæmt því sem fram kemur í ráðningarsamningi dags. 9. maí 2005, hóf kærandi störf hjá D. þann 3. apríl 2006. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að hún hafi verið á innlendum vinnumarkaði fyrir þann tíma. Kærandi uppfyllir þannig ekki skilyrði 1. mgr. 13. gr. ffl. um að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns, sbr. 1. og 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Samkvæmt því átti kærandi ekki rétt til greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. ffl. er hlutverk úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála að kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna. Kærandi byggir á því að hún hafi fengið rangar upplýsingar um rétt sinn til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Með 4. gr. laga nr. 90/2004 varð breyting á 1. mgr. 13. gr. ffl. á þann veg að niður var fellt ákvæði um að taka skuli til greina starfstíma foreldris í öðrum EES-ríkjum hafi foreldri unnið hér á landi í a.m.k. einn mánuð á síðustu sex mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Í athugasemdum við 4. gr. segir í greinargerð að eðlilegra þyki í ljósi þess að Fæðingarorlofssjóður sé fjármagnaður með tryggingagjaldi að foreldri hafi unnið þann tíma á innlendum vinnumarkaði þannig að greitt hafi verið af tekjum þess tryggingagjald í tiltekinn lágmarkstíma. Þyki sex mánuðir hæfilegur tími í því sambandi. Með hliðsjón af þeirri breytingu sem varð á 1. mgr. 13. gr. ffl. með 4. gr. laga nr. 90/2004 telur úrskurðarnefndin að upplýsingar sem kærandi fékk hjá Tryggingastofnun ríkisins um, að litið væri til starfstíma á Evrópska efnahagssvæðinu þegar metið væri hvort foreldri hafi verið þátttakandi á vinnumarkaði síðustu sex mánuði fyrir fæðingardag barns, hafi ekki verið réttar. 

Réttur til greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði verður ekki byggður á því að kærandi hafi fengið rangar upplýsingar um rétt sinn hjá Tryggingastofnun ríkisins. Það fellur utan verksviðs nefndarinnar að úrskurða um ágreiningsefni sem varða hugsanlegan bótarétt þess sem fengið hefur rangar upplýsingar.

Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004. Kærandi á því ekki rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

A uppfyllir ekki skilyrði um rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Ágreiningur um hugsanlegan bótarétt kæranda er utan valdsviðs nefndarinnar.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum