Hoppa yfir valmynd
17. október 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 30/2006

Þriðjudaginn, 17. október 2006

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 31. ágúst 2006 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála ódagsett kæra A.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 6. júní 2006 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Ég sótti um fæðingarstyrk í júní 2006, en var mér synjað. Sendi ég bréf á móti til að fá svar og mótmæla ákvörðuninni. Ég var í enskunámi út í B-landi, D-borg en var mér sagt að það nám væri ófullnægjandi að ég hafi ekki stundað nám við viðurkennda menntastofnun. Ég var einnig í fjarnámi við E-framhaldsskóla.

Mér finnst ég hafa stundað nógu mikið nám til að fá fullan styrk. Ég var í skóla allan daginn, skólinn er vel þekktur úti í D-borg. gáfu mér vistarleyfi til að vera í skólanum. Ef B-land viðurkennir skólann, af hverju ekki Ísland.“

 

Með bréfi, dagsettu 4. september 2006, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 20. september 2006. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er synjun á greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi.

Með umsókn, dags. 22. maí 2006, sótti kærandi um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri í fullu námi í 6 mánuði vegna væntanlegrar barnsfæðingar 15. júní 2006.

Með umsókn kæranda fylgdi minnisblað frá F-skóla í D-borg, B-landi, dags. 3. febrúar 2006, námsferilsáætlun kæranda frá E-framhaldsskóla, dags. 19. maí 2006 og vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 19. maí 2006.

Þá lágu enn fremur fyrir við umsókn kæranda upplýsingar úr þjóðskrá Hagstofu Íslands og upplýsingar úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs, dags. 6. júní 2006, var umsókn kæranda um fæðingarstyrk til foreldra í fullu námi synjað. Var í bréfinu tiltekið að kærandi teldist ekki hafa stundað nám í viðurkenndri menntastofnun frá októbermánuði 2005 til marsmánaðar 2006. Var kæranda einnig tilkynnt að henni yrði afgreiddur fæðingarstyrkur til foreldris utan vinnumarkaðar í samræmi við umsókn hennar.

Barn kæranda fæddist 18. júní 2006, en samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof, sbr. 2. gr. laga nr. 90/2004, þá stofnast réttur til fæðingarorlofs við fæðingu barns.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs, dags. 21. júní 2006, var kæranda send greiðsluáætlun þar sem lýst var tilhögun greiðslna fæðingarstyrks.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 9. gr. laga nr. 90/2004, eiga foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns rétt á fæðingarstyrk. Í 2. mgr. 19. gr. er kveðið á um að foreldri skuli að jafnaði eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir þann tíma. Heimilt sé þó að veita undanþágu frá lögheimilisskilyrði hafi foreldri flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k fimm ár fyrir flutning.

Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, en þar kemur fram að fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almanna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Enn fremur að heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 16. gr. eða undanþáguákvæði 17. gr. reglugerðarinnar. Í lokamálslið 1. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar er tekið fram að einstök námskeið teljist ekki til fulls náms.

Barn kæranda fæddist 18. júní 2006 og er því 12 mánaða tímabilið skv. 1. mgr. 19. gr. frá 18. júní 2005 til 17. júní 2006.

Á tímabilinu stundaði kærandi tungumálanám við F-skóla í B-landi. Var kærandi með lögheimili hér á landi á meðan á námi þessu stóð. Fram kemur í minnisblaði frá stofnuninni að nám kæranda hafi varað frá 24. október 2005 til 29. mars 2006, eða í 5 mánuði og 6 daga. Þá stundaði kærandi einnig fjarnám við E-framhaldsskólann á vorönn 2006 og lauk þaðan 14 einingum, sem svarar til 78% náms í 5 mánuði.

Til að skilyrði 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 8. gr. laga nr. 90/2004, sem kveður á um að foreldri skuli hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fæðingu barns, sé uppfyllt, þá þarf að líta bæði til náms kæranda við FÁ og til náms kæranda við F-skóli.

Þegar nám við erlendar menntastofnanir er metið, þá ber að meta hvort námið sé sambærilegt námi í viðurkenndum menntastofnunum hér á landi, sbr. 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Þá kveður lokamálsliður greinarinnar á um að einstök námskeið teljist ekki til fulls náms.

Þegar litið er til námsframboðs og skipulags við F-skóli var það mat lífeyristryggingasviðs að ekki væri unnt að líta á að nám við stofnunina væri sambærilegt fullu námi við viðurkenndar menntastofnanir hér á landi. Er um að ræða einhliða tungumálanám, bæði munnlegt og skriflegt, sem virðist lokið án sérstakrar prófgráðu eða réttinda. Var niðurstaðan því sú að litið var á námið sem tungumálanámskeið og því ekki nám sem telst til fulls náms í skilningi laga nr. 95/2000 og reglugerðar nr. 1056/2004.

Með vísan til framangreinds telur lífeyristryggingasvið að rétt hafi verið að synja umsókn kæranda um fæðingarstyrk til foreldra í fullu námi. Þá telur lífeyristryggingasvið að greiðsluáætlun, dags. 21. júní 2006, beri með sér réttan útreikning á rétti kæranda til greiðslna.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 21. september 2006, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 90/2004, eiga foreldrar í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða varanlegt fóstur rétt til fæðingarstyrks. Fullt nám í skilningi laganna er skilgreint í 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, sbr. 11. mgr. 19. gr. ffl.

Í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 segir að fullt nám í skilningi ffl. og reglugerðarinnar teljist 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 16. gr. eða undanþáguákvæði 17. gr reglugerðar þessarar. Einstök námskeið teljist ekki til fulls náms. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Þá er heimilt að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.

Kærandi ól barn 18. júní 2006. Tólf mánaða viðmiðunartímabil skv. 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 er því frá 18. júní 2005 fram að fæðingu barns.

Óumdeilt er að kærandi hafi verið í fullu námi við E-framhaldsskóla á vorönn 2006. Kærandi stundaði nám í ensku við F-skóla í B-landi frá 24. október 2005 til 29. mars 2006. Var hún með lögheimili á Íslandi á meðan á náminu stóð. Þegar litið er til fyrirliggjandi gagna verður ekki talið að nám kæranda við F-skóla, geti talist sambærilegt við nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi, sbr. 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Það er því mat úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála að nám kæranda við skólann geti ekki talist fullt nám í skilningi 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004.

 

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum