Hoppa yfir valmynd
27. júní 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 18/2006

Þriðjudaginn, 27. júní 2006

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 28. mars 2006 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 25. mars 2006.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 27. desember 2005 um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Foreldrar fluttu til B-lands í september 2004 vegna þess að móðir hugðist fara í nám í D-borg í janúar 2005. Faðirinn fékk vinnu í október 2004 og var að vinna fram í mars 2005 en þá lauk verkinu sem hann hafði vinnu við. Ákvað hann þá að fara á námskeið sem stóð í þann tíma sem eftir var af fyrirhugaðri dvöl í B-landi, eða þar til skólanum hjá móðurinni lauk. Bæði luku þau námi í júní 2005 og hófu bæði störf á íslenskum vinnumarkaði í júlí 2005. Faðirinn var á vinnumarkaði fram að fæðingardegi barns og móðir eins lengi og heilsa leyfði samkvæmt læknisráði. Fæðingardagur barns var áætlaður þann 12. janúar 2006 en barnið fæddist þann 18. desember 2005, 3 vikum og 4 dögum fyrir tímann.

Foreldrar hafa ýmis rök fyrir því að synjun á greiðslum til þeirra úr Fæðingarorlofssjóði verði hnekkt.

1. Aðeins vantaði 13 daga uppá það að báðir foreldrar hefðu fullan rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

2. Áætlaður fæðingardagur barns var 12. janúar 2006 og að öllu eðlilegu hefði barnið átt að fæðast þá, 12 dögum eftir að foreldrar öðluðust fullan rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

3. Faðir var í fullu starfi fram að fæðingardegi barns en ekki aðeins 25% sem er lágmarkshlutfall til að eiga fullan rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði og móðir eins lengi og heilsa leyfði samkvæmt læknisráði.

Það hlýtur að teljast með ólíkindum að ef hægt er að hreinlega refsa fólki með þessum hætti og þessari réttarskerðingu fyrir það að eignast fyrirbura. Eins hlýtur það að teljast tímaskekkja að íslenskir ríkisborgarar sem búið og starfað á íslenskum vinnumarkaði allt sitt líf fái sömu réttarstöðu og innflytjandi frá fjarlægu landi við það eitt að víkka sjóndeildarhringinn með námi erlendis í innan við ár.

Þegar þessum rökum er hnoðað saman er komin ein stór ástæða fyrir því að foreldrar eigi fullan rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.“

 

Með bréfi, dagsettu 30. mars 2006, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 9. maí 2006. Í greinargerðinni segir:

„Barn kæranda fæddist 18. desember 2005. Með bréfi lífeyristryggingasviðs, dags. 27. desember 2005, var kæranda tilkynnt að umsókn hans um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði væri synjað þar sem hann uppfyllti ekki skilyrði laganna fyrir greiðslum. Var kæranda í bréfinu leiðbeint um að hann ætti rétt á greiðslu fæðingarstyrks til foreldra utan vinnumarkaðar, að því tilskyldu að launuð störf yrðu lögð niður á þeim tíma er styrkur yrði greiddur. Engin frekari gögn bárust lífeyristryggingasviði.

Í kæru bendir kærandi á að aðeins 13 daga hafi vantað upp á til að hann hefði átt rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Þá bendir kærandi á að hefði barn hans fæðst á réttum tíma, m.v. áætlaðan fæðingardag, þá hefði hann átt rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Kærandi telur því óréttmætt að hann tapi réttindum við það að barn hans færist 3 vikum og 4 dögum fyrir tímann.

Í 1. mgr. 8. gr. laga nr. 95/2000 kemur fram að foreldrar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna, eigi sjálfstæðan og óframseljanlegan rétt til fæðingarorlofs í allt að þrjá mánuði hvor um sig vegna fæðingar barns. Þá kemur fram í 2. mgr. 8. gr. að réttur til fæðingarorlofs stofnist við fæðingu barns. Ljóst er því að réttur til fæðingarorlofs vegna barns kæranda stofnaðist 18. desember 2005.

Í 13. gr. laganna er hins vegar kveðið á um rétt foreldra til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Í 1. mgr. 13. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, kemur fram að skilyrði til greiðslna úr sjóðnum sé að foreldri hafi verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Er þetta skilyrði laganna ófrávíkjanlegt og áréttað í 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Í 4. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 er kveðið á um það hvað í samfelldu starfi felst, en það er að hafa verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði yfir tiltekið tímabil. Þá teljast ennfremur til samfellds starfs þau tilvik sem talin eru upp í a-d-liðum 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar. Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar telst því enn fremur til samfellds starfs:

a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt lögum nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar. Hið sama gildir eigi foreldri rétt á greiðslum úr Tryggingasjóði sjálfstætt starfandi einstaklinga,

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa.

Framangreind upptalning 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar er einnig sett fram til skýringar á því hvað teljist til þátttöku á vinnumarkaði, en samkvæmt 1. mgr. 3. gr. felur það í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.

Af þeim gögnum sem lífeyristryggingasvið lagði til grundvallar ákvörðun sinni um synjun á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði til kæranda, má sjá að á síðustu sex mánuðum fyrir fæðingu barns síns var kærandi ekki starfandi samfellt á vinnumarkaði samkvæmt skilningi laganna og reglugerðarinnar. Tímabilið sem um ræðir er frá 18. júní til 17. desember 2005, en barn kæranda fæddist eins og að framan greinir 18. desember 2005. Á þessu tímabili starfaði kærandi, samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra, og yfirlýsingu kæranda í kæru, frá júlímánuði 2005. Er því ljóst að kærandi getur ekki talist hafa verið í starfi á innlendum vinnumarkaði frá 18. júní til 1. júlí 2005.

Þá ber kærandi því við að með ólíkindum verði að teljast að hann verði fyrir réttindaskerðingu við það að barn hennar fæðist svo löngu fyrir áætlaðan fæðingardag. Lífeyristryggingasvið tekur enga afstöðu til slíkrar fullyrðingar, enda er í þessum efnum bundið af skýrum ákvæðum laga og reglugerða.

Nokkur undanþáguákvæði vegna greiðslna úr fæðingarorlofssjóði er að finna í V. kafla laga nr. 95/2000, sbr. 7. gr. laga nr. 90/2004. Er þó engar undanþágur að finna í lögum frá því skilyrði laganna að foreldri skuli hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Telur lífeyristryggingasvið því að bréf til kæranda, dags. 27. desember 2005, beri með sér rétta ákvörðun hvað varðar rétt kæranda til greiðslna úr fæðingarorlofssjóði.“

Hins vegar var kæranda bent á það í framangreindu bréfi að hann teldist hafa rétt til greiðslu fæðingarstyrks, skv. 18. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 8. gr. laga nr. 90/2004. En í ákvæðinu greinir að foreldrar utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi eigi sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks í allt að þrjá mánuði hvort um sig vegna fæðingar, frumættleiðingar barns eða töku barns í varanlegt fóstur. Auk þessa eigi foreldrar rétt á fæðingarstyrk í þrjá mánuði til viðbótar sem annað foreldri getur fengið í heild eða foreldrar skipt honum með sér. Þá er skilyrði fyrir greiðslu styrksins að foreldri eigi lögheimili hér á landi við fæðingu barns og skal foreldri hafa átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir þann tíma. Þá er heimilt að taka til greina búsetu í öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins á tímabilinu, sbr. 14. gr. reglugerðar nr. 1056/2004.

Þá greinir í 5. mgr. 18. gr. laga nr. 95/2000 að rétturinn til fæðingarstyrks sé bundin því að foreldrið fari sjálft með forsjá barnsins eða hafi sameiginlega forsjá ásamt hinu foreldri þess þegar greiðsla fæðingarstyrks hefst.

Um frekari skilyrði til greiðslu fæðingarstyrks til foreldra utan vinnumarkaðar er ekki að ræða. Ljóst er að kærandi átti lögheimili hér á landi 18. desember 2005, þegar barnið fæddist. Hins vegar átti kærandi aðeins lögheimili hér á landi frá 25. júní 2005, samkvæmt breytingaskrá þjóðskrár Hagstofu Íslands. Þar sem í breytingaskránni kom fram að kærandi hafi flutt lögheimili sitt til B-lands á þeim tíma sem upp á vantar, sbr. 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 1056/2004, og E-104 vottorð kæranda var í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar, þá leit lífeyristryggingasvið svo á að kærandi uppfyllti skilyrði fyrir greiðslu fæðingarstyrks til foreldra utan vinnumarkaðar.

Í framangreindu bréfi til kæranda, dags. 27. desember 2005, var honum gefinn 30 daga frestur til að tilkynna lífeyristryggingasviði hvort hann vildi nýta sér rétt sinn til greiðslu fæðingarstyrks. Engin frekari svör bárust frá kæranda vegna bréfsins og lítur lífeyristryggingasvið því svo á að kærandi hyggist ekki nýta rétt sinn til greiðslu fæðingarstyrks.

Með vísan til framangreinds telur Tryggingastofnun ríkisins að rétt hafi verið að synja umsókn kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 16. maí 2006, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

  

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns, sbr. og 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar er skilgreint hvað felist í því að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi fæðingar- og foreldraorlofslaganna, þ.e. að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda sé gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi. Til atvinnuþátttöku skv. 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar telst jafnframt:

a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt lögum nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar. Hið sama gildir eigi foreldri rétt á greiðslum úr Tryggingasjóði sjálfstætt starfandi einstaklinga samkvæmt lögum nr. 46/1997, um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga,

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa.

Barn kæranda er fætt 18. desember 2005. Sex mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu er því frá 18. júní 2005 fram að fæðingardegi barns. Samkvæmt gögnum málsins hóf kærandi störf á innlendum vinnumarkaði í júlí 2005. Kærandi uppfyllir þannig ekki skilyrði 1. mgr. 13. gr. ffl. um að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Samkvæmt því ber að staðfesta þá ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði. Engar heimildir eru í lögum nr. 95/2000 né reglugerð nr. 1056/2004 sem heimila að veittar séu undanþágur frá viðmiðunartímabilinu vegna þess að barn fæðist fyrir áætlaðan tíma.

Með hliðsjón af framanrituðu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum