Hoppa yfir valmynd
30. maí 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 5/2006

Þriðjudaginn, 30. maí 2006

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 19. janúar 2006 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 16. janúar 2006.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 19. september 2005 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Ég kæri hér með þá ákvörðun fæðingarorlofssjóðs að úrskurða mig í 25-49% starfshlutfall á síðustu 6 mánuðum fyrir upphaf fæðingarorlofs... Það kom mér því mjög á óvart að fá bréf þess efnis að ég væri úrskurðuð í minna en 50% starf síðustu 6 mánuði fyrir fæðingarorlof og ætti því ekki rétt á fullum styrk. Í stað þess að skrifa kæru strax í stað hringdi ég í og spurði hvort að ekki væri hægt að endurskoða þetta og var vel í það tekið. Ég bjóst við bréfi frá fæðingarorlofssjóði en þegar það kom aldrei hringdi ég aftur. Þá var mér bent á að biðja skattstofuna um að senda staðfestingu á að ég hafi verið skráð í fullt starf. Skattstofan tók vel við beiðni minni og aftur þegar ekkert svar barst frá fæðingarorlofssjóði hringdi ég aftur. Þá fékk ég þau svör að engin gögn hefðu borist frá skattstofunni. Ég hafði samband við skattstofuna sem sendi mér email yfir samskipti sín við fæðingarorlofssjóð varðandi mál mitt. Þar kemur fram að fæðingarorlofssjóður taki ekki tillit til undanþágu sem skattstjóri veiti...

Sem sjálfstætt starfandi einstaklingur skráði ég mig með reiknað endurgjald hjá skattstjóra. Ég lendi í flokki B þar sem viðmiðunarupphæð er X krónur á mánuði. Ég sótti um að fá að skrá mig með X krónur fyrir fullt starf og var það samþykkt af skattstjóra. (sjá meðfylgjandi afrit). Til samanburðar skal bent á að listamenn sem þiggja listamannalaun frá ríkinu fá X krónur á mánuði. Skv. heimasíðu FÍH eru byrjunarlaun tónlistarkennara 30 ára og eldri X krónur og manneskja með mína menntun lendir í flokki H og fær greitt X krónur/mán.

Með hliðsjón af framangreindu og því að ég sé að koma inn á vinnumarkaðinn eftir 2 ára nám, þar sem talsverð vinna felst í því að koma sér á framfæri, er mjög ósanngjarnt að flokka mig í 25-49% starfshlutfall af þeirri ástæðu að ég sé ekki með X krónur í mánaðarlaun. Fæðingarorlofssjóður er hér að gera upp á milli fólks eftir starfsgrein. Mér er hegnt fyrir að vera listamaður á meðan fólk á lágmarkslaunum sem greiðir minni gjöld til ríkisins hefur meiri réttindi í þjóðfélaginu en ég.

Í apríl hóf ég jafnframt starf hjá J og lækkaði því reiknað endurgjald niður í X krónur á móti launuðu starfi. Ég get ekki betur séð en að litið hafi verið fram hjá þessu launaða starfi við útreikninga fæðingarorlofssjóðs á starfshlutfalli mínu en heildargreiðslu námu X krónur (sjá meðf. launaseðla.“

 

Með bréfi, dagsettu 7. mars 2006, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 4. apríl 2006. Í greinargerðinni segir m.a:

„Með bréfi lífeyristryggingasviðs til kæranda, dags. 19. september 2005, var henni tilkynnt að umsókn hennar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hefði verið samþykkt frá 25. ágúst 2005. Taldist kærandi hafa verið í 25 - 49% starfshlutfalli á síðustu sex mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs hennar og samkvæmt útreikningi á greiðslum til hennar úr Fæðingarorlofssjóði, byggðum á tekjum hennar tekjuárin 2003 og 2004 átti hún rétt á lágmarksgreiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Samkvæmt móttökustimpli úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála á kæru kæranda var kæra hennar móttekin 19. janúar 2005 eða 4 mánuðum eftir að hin kærða ákvörðun var tekin og kynnt kæranda.

Í 6. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 er kveðið á um málsmeðferð fyrir úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála. Þar segir í 1. mgr. að kæra skuli berast nefndinni skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun.

Með hliðsjón af framangreindu telur lífeyristryggingasvið að kæra kæranda hafi komið of seint fram og því skuli úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála þegar af þeirri ástæðu vísa henni frá.

Telur lífeyristryggingasvið það engu breyta í þessu sambandi að eftir afgreiðslu umsóknar kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði leitaði hún eftir upplýsingum frá lífeyristryggingasviði sem henni voru veittar varðandi afgreiðslu umsóknar hennar. Þann 5. október 2005 sendi kærandi tölvupóst þar sem fram kom að skattstofan ætlaði að senda upplýsingar varðandi starfshlutfall kæranda. Þann 6. október 2005 barst lífeyristryggingasviði tölvupóstur frá starfsmanni skattstjórans í Reykjanesumdæmi þar sem gerð var grein fyrir skráningu kæranda vegna reiknaðs endurgjalds hennar. Í tölvupóstinum óskaði starfsmaður skattstjórans jafnframt eftir upplýsingum frá lífeyristryggingasviði. Með tölvupósti lífeyristryggingasviðs til skattstjóra þann 14. október 2005 var leitast við að koma umbeðnum upplýsingum á framfæri með því að gera grein fyrir þeim reglum sem lífeyristryggingasvið telur sig þurfa að starfa eftir. Engar breytingar voru hins vegar gerðar á afgreiðslu umsóknar kæranda enda voru upplýsingar þær sem sendar voru frá skattstjóranum í Reykjanesumdæmi þær sömu og lífeyristryggingasvið hafði haft aðgang að úr skrám ríkisskattstjóra.

Fallist úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála ekki á að vísa kæru kæranda frá óskar lífeyristryggingasvið eftir að koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri.

Í 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, er kveðið á um rétt foreldra til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Þar segir í 1. mgr. að foreldri á innlendum vinnumarkaði öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Enn fremur segir að til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi foreldris skuli miða við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi fyrir sama tíma.

Samfellt starf er skilgreint í 4. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 1056/2004, þar sem segir að með samfelldu starfi sé átt við að foreldri hafi verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði yfir tiltekið tímabil.

Í 2. mgr. 13. gr. fæðingar- og foreldraorlofslaganna, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, er kveðið á um að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og að miða skuli við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns. Til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Í lokamálslið 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004, sem er til fyllingar lagaákvæðinu, segir að jafnframt teljist til launa þær greiðslur sem koma til samkvæmt a. - d. liðum 3. gr. reglugerðarinnar.

Í 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof segir enn fremur að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hafi starfað á innlendum vinnumarkaði, aldrei skuli þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna. Þessu til fyllingar segir í 5. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 að meðaltal heildarlauna miðist við þann fjölda mánaða á umræddu viðmiðunartímabili sem foreldri hefur starfað á innlendum vinnumarkaði, sbr. 3. gr. reglugerðarinnar.

Í 5. mgr. 13. gr. fæðingar- og foreldraorlofslaganna segir síðan að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til sjálfstætt starfandi foreldris skuli nema 80% af meðaltali reiknaðs endurgjalds sem greitt hafi verið tryggingagjald af fyrir sama tímabil og kveðið er á um í 2. mgr. Samhljóða ákvæði er að finna í 3. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004.

Þá er í 4. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar tekið fram að mánaðarleg greiðsla til foreldris sem hefur bæði verið starfsmaður og sjálfstætt starfandi skuli nema 80% af meðaltali heildartekna skv. 2. og 3. mgr. greinarinnar.

Í 4. mgr. 13. gr. fæðingar- og foreldraorlofslaganna er kveðið á um að uppfylli starfsmaður skilyrði 1. mgr. en hafi ekki starfað á innlendum vinnumarkaði á viðmiðunartímabili samkvæmt 2. mgr. skuli hann öðlast rétt til lágmarksgreiðslna samkvæmt 6. mgr. í samræmi við starfshlutfall hans. Í 6. mgr. 13. gr. eru lágmarksgreiðslur til foreldra í fæðingarorlofi tilgreindar eftir starfshlutfalli.

Í 5. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 er kveðið á um starfshlutfall. Þar segir í 1. mgr. að þegar meta eigi starfshlutfall starfsmanns samkvæmt 6. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof skuli fara eftir fjölda vinnustunda foreldris á mánuði á sex mánaða samfelldu tímabili fyrir fæðingardag barns. Síðan segir í 5. mgr. að þegar meta eigi starfshlutfall sjálfstætt starfandi foreldris skuli fara eftir viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald í staðgreiðslu á því ári sem um ræðir. Þá segir enn fremur í 2. mgr. að sé foreldri ekki í sama starfshlutfalli á sex mánaða samfelldu tímabili fyrir fæðingardag barns skuli miða við meðaltal starfshlutfalls yfir tímabilið. Þá megi foreldri aldrei vera í minna en 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði.

Barn kæranda er fætt þann 28. ágúst 2005. Sex mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu ákvæði 1. mgr. 13. gr. fæðingar- og foreldraorlofslaganna er því frá 28. febrúar fram að fæðingardegi barnsins.

Við mat á því hvort kærandi uppfyllti framangreind skilyrði fyrir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði, þ.e. hvort hún hefði starfað samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði, leit lífeyristryggingasvið til upplýsinga úr skrám ríkisskattstjóra, sem það hefur aðgang að samkvæmt 4. mgr. 15. gr. fæðingar- og foreldraorlofslaga, sbr. 5. gr. laga nr. 90/2004.

Samkvæmt þeim upplýsingum og gögnum sem lágu fyrir við afgreiðslu umsóknar kæranda hafði hún starfað sem sjálfstætt starfandi, áætlað á sig reiknað endurgjald og greitt af því tryggingagjald frá febrúar 2005 og auk þess verið starfsmaður frá apríl og fram í júlí 2005.

Í 3. málslið 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 segir að foreldri sem unnið hafi 86-172 vinnustundir á mánuði teljist vera í 50-100% starfi en foreldri sem unnið hafi 43-85 stundir á mánuði teljist vera í 25-49% starfi.

Af launaseðlum þeim sem fylgdu umsókn kæranda og upplýsingum úr skrám ríkisskattstjóra mátti ráða að kærandi hefði verið starfsmaður frá apríl 2005 og fram í júlí 2005 og með vísan til 3. málsliðar 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 að starfshlutfall hennar hefði verið u.þ.b. 23% að meðaltali í mánuði.

Þá var kærandi skráð með reiknað endurgjald á sex mánaða tímabilinu fyrir fæðingu barns hennar. Var hún skráð í starfaflokk B og áætlaði reiknað endurgjald sitt X krónur í febrúar, X krónur í mars og X krónur á mánuði frá apríl og fram að upphafi fæðingarorlofs.

Þá er í 5. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 kveðið á um að þegar meta eigi starfshlutfall sjálfstætt starfandi foreldris skuli fara eftir viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald í staðgreiðslu á því ári sem um ræði. Á grundvelli þess og að í reglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald á tekjuárinu 2005 segir um starfaflokka og viðmiðunarfjárhæðir, að fjárhæðirnar sem þar séu gefnar upp séu lágmarksviðmiðun fyrir reiknað endurgjald manna sem vinna m.a. við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, taldi lífeyristryggingasvið rétt að fara eftir viðmiðunarfjárhæð mánaðarlauna, X krónur, í starfaflokki B, sem kærandi var skráð í, á þann hátt að viðmiðunarfjárhæðin gæfi upplýsingar um lágmarksviðmiðun fyrir fullt starf (100% starf) vegna þeirra starfa sem kærandi stundaði sem sjálfstætt starfandi.

Á grundvelli þessarar túlkunar lífeyristryggingasviðs á ákvæði 5. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar taldi lífeyristryggingasvið fyrir liggjandi gögn og upplýsingar úr skrám ríkisskattstjóra sýna fram á að kærandi hefði verið í 50% starfi sem sjálfstætt starfandi í mars 2005 og í 30% starfi sem sjálfstætt starfandi frá apríl og fram að fæðingu barns hennar.

Reiknaðist kærandi því hafa verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á tímabilinu frá 28. febrúar og fram að fæðingu barns hennar og þar með uppfylla skilyrði fyrir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Við útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði til kæranda skyldi samkvæmt framangreindu byggja á tekjum hennar á árunum 2003 og 2004. Samkvæmt upplýsingum úr skrám ríkisskattstjóra hafði kærandi engar tekjur á Íslandi árið 2003 og einu tekjur hennar á Íslandi árið 2004 voru X krónur sem hún taldi fram á skattframtali sínu 2005 sem reiknað endurgjald. Reiknað endurgjald kæranda á árinu 2004 voru því einu tekjur hennar sem hægt var að leggja til grundvallar útreikningi greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði til hennar. Á grundvelli framangreindra reiknireglna 13. gr. fæðingar- og foreldraorlofslaganna og 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 reiknaðist 80% af meðaltali heildarlauna hennar á tekjuárunum 2003 og 2004 vera lægra en lágmarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt 6. mgr. 13. gr. fæðingar- og foreldraorlofslaganna, sbr. 7. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 1148/2005. Var því niðurstaða lífeyristryggingasviðs sú að kærandi skyldi fá greiddar lágmarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

Í 6. mgr. 13. gr. fæðingar- og foreldraorlofslaga og 7. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 er gerður greinarmunur á lágmarksgreiðslum til foreldra í fæðingarorlofi eftir því hvert starfshlutfall foreldrisins hefur verið. Er þannig gerður greinarmunur á greiðslu til foreldra í fæðingarorlofi eftir því hvort foreldri hafi verið í 25 - 49% starfi í hverjum mánuði eða í 50 - 100% starfi í hverjum mánuði.

Af þessum sökum varð að leggja mat á hvert starfshlutfall kæranda hefði verið í hverjum mánuði til að unnt væri að taka ákvörðun um hverjar greiðslur hún fengi úr Fæðingarorlofssjóði.

Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum og gögnum er ljóst að starfshlutfall kæranda var ekki það sama í hverjum mánuði á tímabilinu frá 28. febrúar 2005 og fram að fæðingu barns hennar. Lífeyristryggingasvið reiknaði að starfshlutfall kæranda á tímabilinu frá 28. febrúar 2005 og fram að júlí 2005 hefði verið 50% eða meira en frá því kærandi hætti sem starfsmaður í júlí 2005 og fram að fæðingu barns hennar 28. ágúst 2005 næði starfshlutfall hennar ekki að vera 50% starfshlutfall mánuði. Því var það niðurstaða lífeyristryggingasviðs að greiða skyldi kæranda lágmarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði eins og þær eru ákvarðar í 6. mgr. 13. gr. fæðingar- og foreldraorlofslaga, sbr. 7. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 1148/2005, fyrir foreldra í 25-49% starfi.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið telur lífeyristryggingasvið að greiðslur til kæranda úr Fæðingarorlofssjóði hafi réttilega verið ákvarðaðar í bréfi, dags. 19. september 2004.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 10. apríl 2006, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með ódagsettu bréfi sem móttekið var hjá nefndinni þann 27. apríl 2006. Meðfylgjandi var yfirlit frá J um unna tíma hjá stofnuninni á tímabilinu apríl til júlí 2005. Samkvæmt yfirlitum var vegna apríl greitt fyrir 87 tíma, vegna maí var greitt fyrir 166 tíma, vegna júní var greitt fyrir 184 tíma og vegna júlí var greitt fyrir 104 tíma.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Ágreiningur í máli þessu varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um fjárhæð greiðslna til kæranda úr Fæðingarorlofssjóði. Ákvörðunin, sem tilkynnt var kæranda með bréfi dagsettu 19. september 2006, var kærð til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála með bréfi kæranda dagsettu 16. október 2006. Að teknu tilliti til samskipta kæranda og Tryggingastofnunar ríkisins í kjölfar hinnar kærðu ákvörðunar féllst úrskurðarnefndin á að taka kæruna til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að kærufrestur væri liðinn.

Ágreiningslaust er að kærandi uppfyllti skilyrði 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, um sex mánaða samfellt starf á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingu barns.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2004, skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingaorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Einungis skal miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hefur starfað á innlendum vinnumarkaði.

Samkvæmt 5. mgr. 13. gr. ffl. skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til sjálfstætt starfandi foreldris nema 80% af meðaltali reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið tryggingagjald af fyrir sama tímabil og kveðið er á um í 2. mgr. Að öðru leyti gildi 2.-4. mgr. eins og við geti átt. Samkvæmt 4. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks skal mánaðarleg greiðsla til foreldris sem hefur bæði verið starfsmaður og sjálfstætt starfandi nema 80% af meðaltali heildartekna.

Í 4. mgr. 13. gr. ffl. segir að þegar starfsmaður uppfylli skilyrði 1. mgr. en hafi ekki starfað á innlendum vinnumarkaði á viðmiðunartímabili skv. 2. mgr. skuli hann öðlast rétt til lágmarksgreiðslna skv. 6. mgr. í samræmi við starfshlutfall hans. Í 6. mgr. 13. gr. er kveðið á um lágmarksgreiðslur í fæðingarorlofi annars vegar lágmarksgreiðslu til foreldris í 25-49%% starfi og hins vegar til foreldris í 50-100% starfi.

Kærandi ól barn 28. ágúst 2005. Viðmiðunartímabil útreiknings meðaltals heildarlauna eru því árin 2003 og 2004. Fyrir liggur að árið 2003 hafði kærandi engar tekjur og árið 2004 voru tekjur hennar einungis reiknað endurgjald 140.000 kr. Samkvæmt því á kærandi samkvæmt 4. mgr. 13. gr. ffl. rétt á lágmarksgreiðslu samkvæmt 6. mgr. 13. gr. samræmi við starfshlutfall hennar á tímabilinu frá 28. febrúar til fæðingardags barns.

Í 5. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er kveðið á um hvernig meta skuli starfshlutfall foreldris. Þar segir í 1. mgr. að þegar meta eigi starfshlutfall starfsmanns samkvæmt 6. mgr. 13. gr. ffl. skuli fara eftir fjölda vinnustunda foreldris á mánuði á sex mánaða samfelldu tímabili fyrir fæðingardag barns. Foreldri sem unnið hafi 86-172 vinnustundir á mánuði teljist vera í 50-100% starfi en foreldri sem unnið hafi 43-85 stundir á mánuði teljist vera í 25-49% starfi. Síðan segir í 5. mgr. 5. gr. að þegar meta eigi starfshlutfall sjálfstætt starfandi foreldris skuli fara eftir viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald í staðgreiðslu á því ári sem um ræðir. Þá segir í 2. mgr. 5. gr. að sé foreldri ekki í sama starfshlutfalli á sex mánaða samfelldu tímabili fyrir fæðingardag barns skuli miða við meðaltal starfshlutfalls yfir tímabilið. Þó megi foreldri aldrei vera í minna en 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði.

Á tímabilinu 28. febrúar til 28. ágúst 2005 var kærandi bæði starfsmaður og sjálfstætt starfandi. Samkvæmt bréfi J , dagsettu 27. apríl 2006, voru skráðir yfirvinnutímar hennar og umreiknuð flatarmæld ræsting í apríl 2005 jafngildi 87 tíma, í maí 166 tíma, í júní 184 tíma og í júlí 104 tíma. Með hliðsjón af því og reglu 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 má telja starfshlutfall kæranda hjá J 50-100% þessa mánuði.

Staðfest er að kærandi var skráð hjá Ríkisskattstjóra sem sjálfstætt starfandi í starfaflokki B og reiknað endurgjald hennar í mars mánuði 2005 var X krónur. en X krónur. hvern mánaðanna apríl til ágúst 2005.

Viðmiðunarfjárhæð reiknaðs endurgjalds í B-flokki, var árið 2005, X krónur í . mánaðarlaun. Í reglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald er kveðið á um heimild skattstjóra til að fallast á að reiknað endurgjald sé lægra en viðmiðunarfjárhæðir kveða á um ef rökstuðningur og gögn framteljanda réttlæta slíka ákvörðun. Með bréfi dagsettu 29. mars 2005 tilkynnti Skattstjórinn í O-umdæmi kæranda að fallist hefði verið á beiðni hennar um að vera skráð með lægra reiknað endurgjald en reglur ríkisskattstjóra kveða á um eða X krónur í stað X krónur. sem viðmiðunarfjárhæð fyrir flokk B. Í tölvupósti 6. október 2005 er yfirlýsing skattstjórans um skráningu kæranda í flokk B með X krónur mánaðarlaun miðað við fullt starf.

Með hliðsjón af öllu því sem að framan er rakið er að mati úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála ljóst að meðalstarfshlutfall kæranda á sex mánaða viðmiðunartímabilinu fyrir fæðingu barns var umtalsvert hærra en 50%. Hinni kærðu ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um lágmarksgreiðslu í fæðingarorlofi miðað við 25-49% starfshlutfall er því hafnað. Greiða ber kæranda lágmarksgreiðslu í fæðingaorlofi miðað við 50-100% starf í mánuði, sbr. 6. mgr. 13. gr. ffl.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um fjárhæð greiðslna í fæðingarorlofi til A er hafnað. Greiða ber kæranda lágmarksgreiðslu í fæðingarorlofi miðað við 50-100% starf í hverjum mánuði, sbr. 6. mgr. 13. gr. ffl.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum