Hoppa yfir valmynd
28. mars 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 52/2005

Þriðjudaginn, 28. mars 2006

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 2. desember 2006 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 28. nóvember 2005.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 12. október 2005 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Ástæðan fyrir því að ég kæri er að ég á ekki rétt á fæðingarstyrk í B-landi þar sem ég bý því ég hef ekki unnið mér inn næg réttindi þar í landi, ég stunda fjarnám frá Íslandi haustönn 2004 og vorönn 2005 og finnst mér ég falla undir þá reglu að námsmenn eigi rétt á fæðingarstyrk ef þeir hafa verið í 75% námi eða meiru og hef ég staðist þau skilyrði en mér er neitað því ég var í íslensku námi en með lögheimili erlendis.

Ástæðan fyrir því að ég bý erlendis er sú að maðurinn minn er í námi í B-landi og ákvað ég að klára mitt nám og geta verið heima til að aðlaga börnin okkar nýju umhverfi og finnst mér, mér vera refsað fyrir það að stunda fjarnám frá Íslandi og klára mína menntun. Ég hef lagt fram gögn Tryggingastofnunar þess efnis að ég eigi ekki rétt á fæðingarstyrk í B-landi og finnst mér voðalega skrítið að ég sem íslenskur ríkisborgari eigi ekki rétt á fæðingarstyrk í mínu heimalandi þegar ég á ekki rétt í því landi sem ég bý í og þar af leiðandi að vera búin að vera í námi og sýnt fram á fullan námsárangur, Þetta er ekkert nema óréttlæti. Hvernig er það hægt að vera réttindalaus allstaðar, það er nú varla hægt, ef svo er þá er gallað kerfið á Íslandi og þarf þá að laga það sem fyrst.

Þegar ég varð ófrísk sendi ég fyrirspurn til Tryggingastofnunar og athugaði með rétt minn og var sagt að þetta gengi upp að ég fengi fæðingarstyrk en þyrfti að sækja um undanþágu frá lögheimilisskilyrðum en nú í dag er mér sagt að ég eigi ekki rétt á því að sækja um slíkt og eigi bara alls ekki neinn rétt á neinu þó ég hafi unnið áður en ég fór í skólann og borgað mína skatta og svo menntað mig í gegnum íslenskan skóla en þá er mér bara neitað. Sem íslenskur ríkisborgari þá tel ég að það sé glufa í kerfinu sem þarf að leiðrétta snarasta því staða mín er ekki björt í dag, enginn fæðingastyrkur vegna þess að ég ákvað að flytja með manni mínum og börnum og ég um leið að klára nám mitt og öðlast menntun í gegn um fjarnám, til hvers er verið að bjóða upp á fjarnám ef maður missir öll sín réttindi, ég hélt að fjarnám væri hægt að stunda allstaðar að úr heiminum.“

 

Með bréfi, dagsettu 5. janúar 2006, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 1. febrúar 2006. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er synjun á fæðingarstyrk námsmanna skv. 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, sbr. 9. gr. laga nr. 90/2004.

Kærandi, sem samkvæmt þjóðskrá Hagstofu Íslands hefur verið með lögheimili í B-landi frá 7. júlí 2004, sótti með umsókn, dags. 9. september 2005, um fæðingarstyrk námsmanna vegna barnsfæðingar, sem áætluð var 29. september 2005.

Með umsókn kæranda fylgdu hluti af mæðraeftirlitsskýrslu, prófskírteini kæranda, ásamt yfirliti yfir námsframvindu, dags. 11. júní 2005 og staðfesting á réttleysi kæranda til fæðingarorlofsgreiðslna í B-landi, dags. 9. ágúst 2005.

Kæranda var með bréfi lífeyristryggingasviðs, dags. 12. október 2005, synjað um greiðslu fæðingarstyrks námsmanna á þeim grundvelli að hún uppfyllti ekki skilyrði fyrir slíkum greiðslum vegna búsetu sinnar í B-landi.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, sbr. 9. gr. laga nr. 90/2004, eiga foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns rétt á fæðingarstyrk. Í 2. mgr. 19. gr. laganna er kveðið á um að foreldri skuli að jafnaði eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir þann tíma. Heimilt er þó að veita undanþágu frá lögheimilisskilyrði hafi foreldri flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k fimm ár fyrir flutning. Njóti foreldri greiðslu vegna sömu fæðingar í búsetulandinu kemur hún til frádráttar fæðingarstyrknum, sbr. 3. mgr. 33. gr. laganna.

Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 1056/2004, en þar kemur fram að fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins Almenna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Enn fremur að heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 16. gr. eða undanþáguákvæði 17. gr. reglugerðarinnar, sem árétta lögheimilisskilyrði 2. ml. 2. mgr. 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof og undanþáguheimildina frá því, sbr. 3. ml. 2. mgr. 19. gr. laganna.

Kærandi flutti, eins og áður er getið, lögheimili sitt til B-lands þann 7. júlí 2004. Kærandi hafði verið í námi við E-háskóla fyrir flutninginn til B-lands og hélt því námi áfram eftir flutninginn með fjarnámi. Lífeyristryggingasvið taldi kæranda því ekki uppfylla það almenna skilyrðið fyrir greiðslu fæðingarstyrks námsmanna að eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafi átt það síðustu 12 mánuði þar á undan, sbr. 2. ml. 2. mgr. 19. gr. fæðingar- og foreldraorlofslaga og 16. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Þá taldi lífeyristryggingasvið að undanþáguheimild 3. ml. 2. mgr. 19. gr. fæðingar- og foreldraorlofslaganna og 17. gr. reglugerðar nr. 1056/2004, ætti ekki við um aðstæður kæranda, enda varð ekki séð að lögheimilisflutningur hennar hafi verið vegna náms hennar erlendis, þar sem hún stundaði áfram nám við íslenskan skóla eftir flutninginn til B-lands.

Með vísan til alls framangreinds telur lífeyristryggingasvið að rétt hafi verið að synja umsókn kæranda um fæðingarstyrk.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 10. febrúar 2006, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) sbr. 9. gr. laga nr. 90/2004 eiga foreldrar í fullu námi rétt til fæðingarstyrks. Í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er kveðið á um að fullt nám teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 16. gr. eða undanþáguákvæði 17. gr. reglugerðarinnar.

Samkvæmt 2. málsl. 2. mgr. 19. gr. ffl. skal foreldri að jafnaði eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns. Heimilt er þó að veita undanþágu frá lögheimilisskilyrðinu hafi foreldri flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning, sbr. 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004.

Kærandi ól barn 4. október 2005. Samkvæmt gögnum málsins flutti kærandi lögheimili sitt til B-lands 7. júlí 2004 vegna náms maka.

Kærandi stundaði nám frá E-háskóla fyrir flutninginn og hélt því áfram eftir flutninginn með fjarnámi. Staðfest er að kærandi stundaði fullt nám á haustönn 2004 og á vorönn 2005 skv. 1. mgr. 19. gr. ffl., sbr. og 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004.

Með hliðsjón af 2. málsl. 2. mgr. 19. ffl. telur úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála að heimilt sé að veita undanþágu frá lögheimilisskilyrði ef foreldri í fullu námi, sbr. 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004, hefur flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms maka erlendis. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi með fjarnámi sínu við E-háskóla öðlast rétt til greiðslu fæðingarstyrks sem námsmaður.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er hafnað. Greiða ber kæranda fæðingarstyrk sem námsmanni.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um fæðingarstyrks sem námsmanni er hafnað. Greiða ber kæranda fæðingarstyrk sem námsmanni.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum