Hoppa yfir valmynd
15. nóvember 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 31/2005

Þriðjudaginn, 15. nóvember 2005

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 23. ágúst 2005 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 22. ágúst 2005.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 5. ágúst 2005 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar.

 

Í rökstuðningi með kæru segir:

„Við komum til landsins á miðnætti 30. apríl–4. maí. Erum í Kaupmannahöfn 30. apríl og þá telst hún vera á EES svæðinu. Sjúkratrygging er frá 3. maí -3. nóvember 2004 og þar sem lokað var um þá helgi gátum við ekki gengið frá þessum málum fyrr en 3. maí og sést á staðfestingu frá VÍS að gögnin voru send til Útlendingastofnunar en þeim tókst að klúðra því og við hringdum nokkrum sinnum í þá og vildu þeir ekki viðurkenna sín mistök þess vegna dróst að fá lögheimilið staðfest.“

 

Með bréfi, dagsettu 10. október 2005, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 24. október 2005. Í greinargerðinni segir:

„Með umsókn, dags. 6. júlí 2005, sem móttekin var sama dag, sótti kærandi um fæðingarstyrk sem foreldri utan vinnumarkaðar í þrjá mánuði frá 1. júlí 2005 vegna barns hennar sem fætt er 30. apríl 2005.

Við afgreiðslu umsóknar kæranda lágu fyrir upplýsingar úr þjóðskrá Hagstofu Íslands þess efnis að kærandi hefði skráð sig með lögheimili á Íslandi frá 24. maí 2004 vegna flutnings til landsins frá B-landi.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs, dags. 5. ágúst 2005, var umsókn kæranda um fæðingarstyrk synjað á þeim grundvelli að hún uppfyllti ekki skilyrði um lögheimili á Íslandi síðustu 12 mánuði fyrir fæðingardag barns hennar.

Í 18. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof, sbr. 8. gr. laga nr. 90/2004, er kveðið á um fæðingarstyrk til foreldris utan vinnumarkaðar. Þar er í 2. málslið 2. mgr. sett það skilyrði fyrir fæðingarstyrk til foreldris utan vinnumarkaðar að foreldri skuli eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir þann tíma.

Í 14. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 1056/2004 er framangreint lögheimilisskilyrði áréttað í 1. mgr. Í 2. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar segir síðan að til þess að heimilt sé að taka til greina búsetu í öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins á þeim tíma sem tilgreindur er í 1. mgr. skuli foreldri afhenda Tryggingastofnun ríkisins staðfesta yfirlýsingu (E-104) sem sýni tryggingatímabil er foreldri hefur lokið samkvæmt þeirri löggjöf sem það heyrði undir. Þá segir í 3. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar að hafi verið gerður samningur við annað ríki sem nái til greiðslna vegna fæðingar barns skuli meta búsetu foreldris í því ríki samkvæmt ákvæðum samningsins.

Barn kæranda fæddist, eins og að framan greinir, þann 30. apríl 2005. Samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá Hagstofu Íslands skráði kærandi sig með lögheimili hér á landi frá 24. maí 2004 vegna flutnings til Íslands frá B-landi. Kærandi uppfyllir af þeim sökum ekki framangreint skilyrði um að hafa átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir fæðingardag barns hennar. Heimildir 2. og 3. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 eiga ekki við í tilviki kæranda þar sem hún fluttist til Íslands frá B-landi.

Með vísan til framangreinds telur Tryggingastofnun ríkisins að rétt hafi verið að synja umsókn kæranda um fæðingarstyrk sem foreldris utan vinnumarkaðar samkvæmt 18. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, sbr. 8. gr. laga nr. 90/2004.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 26. október 2005, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) öðlast foreldrar utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks í allt að þrjá mánuði hvort um sig vegna fæðingar. Auk þess eiga foreldrar sameiginlegan rétt til fæðingarstyrks í þrjá mánuði til viðbótar. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 8. gr. laga nr. 90/2004 skal foreldri eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir fæðingardag, sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 1056/2004.

Í 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 er kveðið á um undanþágu frá lögheimilisskilyrðinu, þar sem heimilt er að taka til greina búsetu í öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins. Þá segir í 3. mgr. 14. gr. að hafi verið gerður samningur við annað ríki sem nær til greiðslna vegna fæðingar barns, ættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur skuli meta búsetu foreldris í því ríki samkvæmt ákvæðum samningsins.

Kærandi ól barn 30. apríl 2005. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands er kærandi skráð með lögheimili hér á landi frá 24. maí 2004 vegna flutnings frá B-landi. Með hliðsjón af því uppfyllir kærandi ekki það skilyrði 2. mgr. 18. gr. laga nr. 95/2000 sbr. 8. gr. laga nr. 90/2004 og 1. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar að hafa átt lögheimili á Íslandi síðustu 12 mánuði fyrir fæðingu barns. Framangreindar undanþágur frá skilyrðinu um lögheimili eiga ekki við í máli þessu.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar er staðfest.

 

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum