Hoppa yfir valmynd
15. nóvember 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 29/2005

Þriðjudaginn, 15. nóvember 2005

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 5. ágúst 2005 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 28. júlí 2005.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 15. júlí 2005 um útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í kæru kemur fram að kærandi hafi eignast sitt annað barn þann 7. júlí 2005. Síðan segir í kærunni:

„Í ljósi þess að fæðingarorlofsreglum hefur nú verið breytt er við útreikning á greiðslum mínum úr fæðingarorlofssjóði tekið mið af árslaunum fyrir árin 2003 og 2004. Meirihluta árs árið 2003 eyddi ég í fæðingarorlof (6 mánuði auk tveggja mánaða fyrir fæðingu í veikindaorlofi) þar sem við hjónin eignuðumst okkar fyrsta barn 18. febrúar 2003. Ef miða á útreikning greiðslna til mín nú eftir þessum nýju reglum grundvallast orlofsgreiðslur þær er ég á rétt á vegna barns míns í raun á 80% af þeim tekjum. Það þykir mér heldur langsótt þar sem aðstæður mínar hafa breyst og tekjur mínar aukist töluvert. Jafnframt má benda á að ef skoðuð eru tvö ár aftur í tímann frá fæðingardegi þá skarast fyrra fæðingarorlof mitt við það síðara um aðeins 1 ½ mánuð.

Af þessu má ætla að yfirvöld telji það óráðlegt að fólk eignist börn með styttra en þriggja ára millibili. Ég leyfi mér að efast um að það hafi verið tilgangur þessarar lagasetningar að mismuna fólki eftir því á hve löngu tímabili það eignast börn sín. Það er alltaf tekjumissir að fara í fæðingarorlof en það skiptir mig verulega miklu máli að greiðslur mínar úr Fæðingarorlofssjóði byggist ekki á tekjum árið 2003. Verulegir fjárhagslegir hagsmunir eru þannig í húfi fyrir mig auk þess sem ég tel það eðlilegustu lausnina og sanngirni samkvæmt að byggja greiðslur til mín á þeim heildartekjum sem ég hafði þegar ég var á vinnumarkaði, enda hefur starfshlutfall mitt verið 100% frá því ég kláraði nám mitt við B-háskóla árið 2001. Auk ofangreinds stangast þessi framkvæmd á þá fjölskyldustefnu ríkisstjórnarinnar sem hún hefur kynnt almenningi.

Ég tel að brotið sé á mér þar sem ætlað fæðingarorlof skarast við fæðingarorlof er ég fór í vegna fæðingar fyrra barns míns. Ósk mín er sú að tekið verði tillit til þessara sérstöku aðstæðna minna þannig að útreikningur á greiðslum miðist ekki við þann tíma sem fyrra fæðingarorlof tók til.“

 

Með bréfi, dagsettu 10. október 2005, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 24. október 2005. Í greinargerðinni segir:

„Með bréfi lífeyristryggingasviðs til kæranda, dags. 1. júní 2005, var henni tilkynnt að umsókn hennar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og lengingu greiðslna hefði verið samþykkt frá 3. maí 2005 og að mánaðarleg greiðsla næmi 80% af meðaltekjum hennar samkvæmt skrá skattyfirvalda. Fram kom í bréfinu að útreikningur greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði til kæranda væri miðaður við tekjur hennar á árunum 2003 og 2004.

Lífeyristryggingasvið sendi kæranda aftur bréf, dags. 15. júlí 2005, þar sem fram kom að fæðingarorlofsgreiðslur til hennar hefðu verið lengdar um tvo mánuði.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns eða þess árs er barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Í lokamálslið 2. mgr. 2. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 1056/2004, sem er til fyllingar lagaákvæðinu, segir að jafnframt teljist til launa þær greiðslur sem koma til samkvæmt a-d liðum 3. gr. reglugerðarinnar.

Í 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof segir enn fremur að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hefur starfað á innlendum vinnumarkaði. Þessu til fyllingar segir í 5. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 að meðaltal heildarlauna miðist við þann fjölda mánaða á umræddu viðmiðunartímabili sem foreldri hefur starfað á innlendum vinnumarkaði, sbr. 3. gr.

Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 segir að það að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV., V. og VI. kafla laga um fæðingar- og foreldraorlof feli í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda sé gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi. Í 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar er síðan talið upp í fjórum stafliðum hvað teljist enn fremur til þátttöku á vinnumarkaði. Þannig telst m.a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti, til þátttöku á vinnumarkaði, sbr. a-lið 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar.

Með vísan til framangreinds telur lífeyristryggingasvið að kærandi hafi verið á innlendum vinnumarkaði allt viðmiðunartímabil útreiknings fyrir greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði til hennar, þ.e. tekjuárin 2003 og 2004, þ. á m. þann tíma sem hún var í fæðingarorlofi á árinu 2003, þ.e. frá ársbyrjun til og með 10. ágúst.

Í 3. mgr. 15. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, sbr. 5. gr. laga nr. 90/2004, er kveðið á um að útreikningar á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skuli byggjast á upplýsingum sem Tryggingastofnun ríkisins aflar um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Þar segir jafnframt að Tryggingastofnun ríkisins skuli leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda vegna tekjuára skv. 2. og 5. mgr. 13. gr. laganna.

Útreikningur á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði til kæranda var, í samræmi við framangreind laga- og reglugerðarákvæði, byggður á tekjum kæranda samkvæmt staðgreiðsluskrá RSK á árunum 2003 og 2004, enda taldist kærandi hafa verið á innlendum vinnumarkaði allan þann tíma, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hefur kærandi talið tekjur sínar fram í samræmi við það sem fram kemur í staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra um tekjur hennar á árinu 2003, hins vegar hefur kærandi talið tekjur sínar á árinu 2004 50.000 krónum hærri en fram kom í staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra. Hefur lífeyristryggingasvið tekið tillit til þess og gert af þeim sökum nýja greiðsluáætlun fyrir kæranda.

Með vísan til alls framangreinds telur lífeyristryggingasvið að áðurnefnt bréf lífeyristryggingasviðs til kæranda, dags. 26. júlí 2005, beri með sér réttan útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði, sbr. þær upplýsingar sem þá lágu fyrir og að ný greiðsluáætlun, dags. í dag, beri með sér réttan útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði til kæranda, sbr. álagningu skattyfirvalda.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 26. október 2005, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2004 skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingaorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns eða árs er barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald sbr. 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar skulu að auki teljast til launa greiðslur sem koma til skv. a-d liðum 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar. Greiðslur í orlofi eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi, sbr. a-lið 2. mgr. 3. gr., teljast samkvæmt því með launum við útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Í 3. málsl. 2. mgr. 13. gr. ffl. segir að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hefur starfað á innlendum vinnumarkaði. Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 er kveðið á um að það að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV., V. og VII. kafla laga um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, feli í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði. Til þátttöku á vinnumarkaði teljist enn fremur, orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningasamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti sbr. a-lið 2. mgr. 3. gr.

Samkvæmt gögnum málsins hóf kærandi fæðingaorlof þann 3. maí 2005, en fæðingardagur barns var 7. júlí 2005. Með hliðsjón af því verður viðmiðunartímabilið við útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði árin 2003 og 2004 sbr. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2004. Kærandi var á innlendum vinnumarkaði allt viðmiðunartímabilið, sbr. 2. mgr. 13. gr. ffl. og 1. og 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004.

Lög um fæðingar- og foreldraorlof heimila ekki að vikið sé frá framangreindri reglu um viðmiðunartímabil við útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Verður því ekki fallist á kröfu kæranda um breytingu á útreikningi. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning greiðslu til A, úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum