Hoppa yfir valmynd
8. mars 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 45/2004

Mál nr. 45/2004

Þriðjudaginn, 8. mars 2005

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 1. nóvember 2004 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála ódagsett kæra A.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 13. september 2004 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars.:

„Umsókn undirritaðrar, A, um fæðingarstyrk námsmanna var þann 13. september synjað sökum óuppfyllts skilyrðis um 6 mánaða samfellt nám. Ófullnægjandi námsárangur var ástæða þess að áðurnefnt skilyrði var óuppfyllt. Umsókninni var synjað með vísun í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 og 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000.

Í reglugerð nr. 915/2002 um breytingu á reglugerð nr. 909/2000 segir í 4. gr.:

Heimilt er að greiða móður fæðingarstyrk sem námsmanni þó að hún fullnægi ekki skilyrðum 2. mgr. 14. gr. um viðunandi námsárangur og/eða ástundum enda hafi hún ekki getað stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna, sbr. 2. mgr. 7. gr. Skal hún sannanlega hafa verið skráð í nám skv. 1. mgr. 14. gr. og fengið greidda sjúkradagpeninga sem námsmaður eða verið á biðtíma eftir dagpeningum á þeim tíma.

Umsókn skal fylgja staðfesting frá viðkomandi skóla um að móðir hafi verið skráð í nám á því tímabili sem um ræðir og vottorð frá lækni. Tryggingayfirlæknir skal meta læknisfræðilega hvort skilyrði 1. mgr. sé uppfyllt.

Meðfylgjandi er læknisvottorð sem sýnir að undirrituð gat ekki stundað nám af fullum krafti vorönn 2004 af heilsufarsástæðum sem rekja má til meðgöngu. Undirrituð sótti ekki um sjúkradagpeninga sem námsmaður á þessu tímabili, enda uppfyllti hún ekki skilyrði 3. mgr. 38. gr. laga nr. 117/1993 um óvinnufærni í 21 dag. Þó svo að undirrituð hefði uppfyllt áðurnefnd skilyrði laga nr. 117/1993 og átt rétt á sjúkradagpeningum en ekki nýtt sér þann rétt, er erfitt að sjá að ónýtt réttindi til sjúkradagpeninga geti staðið í vegi fyrir rétti hennar til fæðingarstyrks sem námsmanns.“

 

Með bréfi, dagsettu 3. janúar 2005, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 17. janúar 2005. Í greinargerðinni segir:

„Með umsókn, ódags., sem móttekin var 30. júlí 2004, sótti kærandi um fæðingarstyrk námsmanna í 6 mánuði frá 1. september 2004. Umsókn hennar var vegna barns, sem fætt er 26. september 2004, en áætlaður fæðingardagur þess var 25. september 2004.

Við afgreiðslu umsóknar kæranda lágu fyrir auk umsóknar hennar vottorð um áætlaðan fæðingardag, dags. 21. júlí 2004, staðfesting á skólavist, dags. 18. febrúar 2004 og enn fremur rafpóstur frá áfangastjóra B-framhaldsskólans.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs til kæranda, dags. 13. september 2004, var umsókn hennar um fæðingarstyrk námsmanna synjað á þeim grundvelli að hún uppfyllti ekki skilyrðið um 6 mánaða samfellt nám. Þá sagði í bréfinu að kæranda yrði greiddur lægri fæðingarstyrkur í 6 mánuði frá 1. september 2004 og fylgdi bréfinu greiðsluáætlun þess efnis.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. ffl. eiga foreldrar í fullu námi rétt á fæðingarstyrk. Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Þar kemur fram að fullt nám í skilningi ffl. teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almanna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Enn fremur að heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 12. gr. eða undanþáguákvæði 13. gr. Í lokamálslið 1. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar er síðan tekið fram að einstök námskeið teljist ekki til fulls náms. Í 2. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 915/2002, er kveðið á um að leggja skuli fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur.

Barn kæranda er, eins og að framan greinir, fætt 26. september 2004. Samkvæmt framangreindri meginreglu var því litið til þess hvort kærandi hefði verið í 75-100% samfelldu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barnsins eða frá 26. september 2003 og fram að fæðingu þess. Kærandi stundaði nám á þessum tímabili á framhaldsskólastigi þar sem 100% nám telst vera 18 einingar á önn. Á haustönn 2003 var kærandi skráð í 16 einingar í B-framhaldsskólanum og lauk 11 einingum, sbr. rafbréf áfangastjóra skólans frá 10. september 2004. Þá var kærandi, samkvæmt sama rafbréfi, skráð í 16 einingar á vorönn 2004 og lauk 3 einingum um vorið. Hvorki nám kæranda á haustönn 2003 né á vorönn nær því ekki að vera fullt nám í skilningi ffl. og þar með uppfyllir kærandi ekki skilyrðið um að hafa verið í fullu námi í a.m.k. 6 mánuði á síðustu 12 mánuðunum fyrir fæðingu barns hennar.

Heimilt er að veita undanþágu frá skilyrðum um fullt nám þegar foreldri á eftir minna en sem nemur 75% af námi á síðustu önn í námi og ljóst er að viðkomandi er að ljúka ákveðinni prófgráðu, sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000, sbr. a-lið 2. gr. reglugerðar nr. 915/2002. Þá er heimilt að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn sem barn fæðist, sbr. 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 915/2002. Samkvæmt 4. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 er heimilt að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þrátt fyrir að skilyrðinu um samfellt nám í a.m.k. sex mánuði fyrir fæðingu barns sé ekki fullnægt hafi foreldri verið í samfelldu starfi í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að námið hófst. Samkvæmt 5. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 969/2001, er heimilt að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þegar foreldri hefur lokið a.m.k. einnar annar námi skv. 1. mgr. 14. gr. og hefur síðan verið samfellt á vinnumarkaði. Í 14. gr. a reglugerðar nr. 909/2000, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 915/2002, segir að heimilt sé að greiða móður fæðingarstyrk sem námsmanni þó að hún fullnægi ekki skilyrðum 2. mgr. 14. gr. um viðunandi námsárangur og/eða ástundun enda hafi hún ekki getið stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna. Skal hún sannanlega hafa verið skráð í nám og fengið greidda sjúkradagpeninga sem námsmaður eða verið á biðtíma eftir dagpeningum á þeim tíma.

Lífeyristryggingasvið telur að samkvæmt framlögðum gögnum eigi engin þessara undanþáguheimilda, frá skilyrðinu um að foreldri skuli hafa verið í 75-100% námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, við um aðstæður kæranda. Vegna þess sem fram kemur í kæru kæranda og varðar ákvæði 14. gr. a reglugerðar nr. 909/2000, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 915/2002 skal tekið fram að eins og kærandi gerði sjálf grein fyrir í kæru sinni sótti hún ekki um sjúkradagpeninga og fékk þá því hvorki greidda né var á biðtíma eftir þeim, eins og áskilið er í ákvæðinu.

Ekkert læknisvottorð var lagt fram með umsókn kæranda um fæðingarstyrk en samkvæmt læknisvottorði sem fylgdi kæru kæranda var hún óvinnufær tímabilið 12. febrúar til 25. maí 2004. Eins og að framan greinir uppfyllti kærandi hvorki skilyrði um fullt nám á haustönn 2003 né á vorönn 2004. Þar sem framlagt læknisvottorð tekur ekki hvort tveggja til haustannar 2003 og vorannar 2004 þykir þegar af þeirri ástæðu ekki tilefni til að leita eftir mati læknadeildar Tryggingastofnunar ríkisins á vottorðinu.

Með vísan til framangreinds telur lífeyristryggingasvið að rétt hafi verið að synja umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks námsmanna samkvæmt 19. gr. ffl. og greiða henni þess í stað fæðingarstyrk sem foreldri utan vinnumarkaðar samkvæmt 18. gr. ffl.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 18. janúar 2005, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) eiga foreldrar í fullu námi rétt til greiðslu fæðingarstyrks. Í 7. mgr. sömu greinar segir að ráðherra sé heimilt að kveða í reglugerð nánar á um framkvæmd þessa ákvæðis.

Í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er kveðið á um að fullt nám teljist vera 75–100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi.

Samkvæmt upplýsingum frá B-framhaldsskólanum er almennt miðað við að fullt nám á önn sé 17,5 einingar.

Kærandi elur barn 26. september 2004. Með hliðsjón af því er tólf mánaða viðmiðunartímabilið frá 26. september 2003 fram að fæðingardegi barnsins.

Samkvæmt gögnum málsins var kærandi skráð í 16 eininga nám við B-framhaldsskólanum á haustönn 2003 og lauk hún 11 einingum. Á vorönn 2004 var kærandi skráð í 16 einingar en lauk 3 einingum.

Í gögnum málsins er vottorð frá lækni dagsett 20. september 2004, þar sem það vottast að kærandi hafi ekki getað sótt skóla reglulega vegna veikinda á meðgöngu frá 12. febrúar 2004 til 25. maí 2004. Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. a sbr. 1. mgr. 4. gr. reglugerðarbreytingar nr 909/2000 er heimilt að greiða móður fæðingarstyrk sem námsmanni þótt hún fullnægi ekki skilyrðum 2. mgr. 14. gr. um viðunandi námsárangur og/eða ástundun enda hafi hún ekki getað stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna, sbr. 2. mgr. 7. gr. Skal hún sannanlega hafa verið skráð í nám skv. 1. mgr. 14. gr. og fengið greidda sjúkradagpeninga sem námsmaður eða verið á biðtíma eftir dagpeningum á þeim tíma.

Samkvæmt framangreindu og gögnum málsins hefur kærandi ekki áunnið sér rétt til greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri í námi þar sem hún uppfyllir hvorki skilyrði 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um fullt nám á haustönn 2003 eða vorönn 2004 né skilyrði undanþáguákvæðis 1. mgr. 14. gr. a. sömu reglugerðar. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum