Hoppa yfir valmynd
16. desember 2004 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 39/2004

Fimmtudaginn, 16. desember 2004

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 20. september 2004 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 27. ágúst 2004.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 25. júní 2004 um framlengingu fæðingarorlofs vegna veikinda móður á meðgöngu.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Það að framlenging skerðist um eina viku vegna þess að fæðingin átti sér stað viku fyrir áætlaðan fæðingardag getur ekki átt við m.t.t.þ. að fyrir liggur að kærandi var frá vinnu þrátt fyrir það í meira en tvo mánuði fyrir fæðingu vegna veikinda. Það hlýtur að teljast í hæsta máta óeðlilegt að miða við einhvern fræðilegan áætlaðan fæðingardag því í upphafi lá fyrir að keisaraskurður ætti sér stað eftir 39 vikna meðgöngu og má því með sanni segja að fæðingin hafi átt sér stað nákvæmlega á áætluðum fæðingardegi. Það að réttur móður skerðist við að fæðing fari fram fyrir tímann hlýtur að vera óeðlilegt þar sem hún uppfyllir þau skilyrði fyrir hámarksframlengingu að hafa verið frá vinnu vegna veikinda í tvo mánuði.“

 

Með bréfi, dags. 8. október 2004, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 20. október 2004. Í greinargerðinni segir:

Með umsóknum, dags. 10. maí 2004, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og lengingu greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði vegna veikinda á meðgöngu vegna áætlaðrar fæðingar barns 28. júní 2004.

Af gögnum þeim sem bárust lífeyristryggingasviði vegna umsóknar kæranda um lengingu greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði varð kærandi óvinnufær vegna veikinda þann 14. apríl 2004 og féll af launum þann 16. apríl 2004. Samkvæmt framlögðu vottorði vegna væntanlegrar barnsfæðingar vænti kærandi fæðingar þann 28. júní 2004.

Í 4. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) segir að sé þungaðri konu nauðsynlegt af heilsufarsástæðum að leggja niður launuð störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns skuli hún eiga rétt á greiðslum í fæðingarorlofi þann tíma en þó aldrei lengur en tvo mánuði. Beri fæðingu að fyrir áætlaðan fæðingardag barns fellur heimild til lengingar samkvæmt þessu ákvæði niður frá þeim tíma. Í 7. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er kveðið nánar á um þann rétt sem 4. mgr. 17. gr. ffl. veitir.

Á grundvelli ákvæða 4. mgr. 17. gr. ffl. og 7. gr. reglugerðar nr. 909/2000 var samþykkt af hálfu lífeyristryggingasviðs, að kærandi ætti, vegna veikinda sinna á meðgöngu, rétt á lengingu greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði frá 28. apríl 2004, þ.e. tveimur mánuðum fyrir áætlaðan fæðingardag barns hennar og fram að því að barn hennar fæddist 21. júní 2004, sem var viku fyrir áætlaðan fæðingardag.

Með vísan til framangreinds telur lífeyristryggingasvið að ekki hafi verið heimilt að lengja greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði til kæranda um lengri tíma en gert var við afgreiðslu umsóknar kæranda um lengingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði vegna veikinda hennar á meðgöngu, þ.e.a.s. að hið lengda greiðslutímabil hafi fyrst getað hafist tveimur mánuðum fyrir áætlaðan fæðingardag barns hennar og að það hafi ekki getað staðið lengur en fram að fæðingardegi barnsins.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 26. október 2004, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um framlengingu fæðingarorlofs.

Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) stofnast réttur til fæðingarorlofs við fæðingu barns. Jafnframt segir þar að þó skuli konu heimilt að hefja töku fæðingarorlofs allt að einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag sem staðfestur skal með læknisvottorði.

Í 4. mgr. 17. gr. ffl. segir að sé þungaðri konu nauðsynlegt af heilsufarsástæðum að leggja niður launuð störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag, skuli hún eiga rétt á greiðslum í fæðingarorlofi þann tíma, en þó aldrei lengur en tvo mánuði, sbr. og 7. gr. reglugerðar nr. 909/2000. Í athugasemdum með 17. gr. frumvarps til laga nr. 95/2000 kemur fram að með heilsufarsástæðum í 4. mgr. sé átt við sjúkdóma sem upp koma vegna meðgöngu og valdi óvinnufærni og sjúkdóma, tímabundna og langvarandi, sem versni á meðgöngu og valdi óvinnufærni.

Kærandi ól barn 21. júní 2004. Samkvæmt gögnum málsins féll kærandi af launaskrá 16. apríl 2004, en var óvinnufær frá 14. apríl. Áætlaður fæðingardagur barns var 28. júní 2004.

Með hliðsjón af því að kærandi ól barn fyrir áætlaðan fæðingardag verður að líta til 2. málsl. 4. mgr. 17. gr. ffl. þar sem kveðið er á um fæðingu fyrir áætlaðan fæðingardag barns, en þá fellur heimild til lengingar samkvæmt ákvæðinu niður frá þeim tíma, sbr. 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 909/2000.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um framlengingu fæðingarorlofs er staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um framlengingu fæðingaorlofs A er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum