Hoppa yfir valmynd
16. desember 2004 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 32/2004

Fimmtudaginn, 16. desember 2004

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 25. júní 2004 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 21. júní 2004.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 6. maí 2004 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„A flutti til B-lands mánaðarmótin júlí/ágúst árið 2002 ásamt maka og 3 dætrum til þess að hefja nám við D-skólann í B-landi. Til að læra „E“ (sem vel að merkja var að minnsta kosti ekki í boði á Íslandi þá). Hún upplifði það hins vegar að tungumálakunnátta hennar er langt í frá nógu góð og ekki í samræmi við tungumál sem sem notað er (það er reyndar þannig að hér eru allnokkrar landshluta mállýskur sem valda jafnvel þeim innfæddu erfiðleikum) þannig að henni var ráðlagt að byrja á að fara í málaskóla sem hún og gerði eftir að búið er að hjálpa börnunum af stað í skóla og leikskóla. Maður A, F er menntaður sem G og fékk strax vinnu og átti því ekki möguleika á að sinna því að hjálpa til með börnin á skólatíma og lendir það því á A.

Þegar börnin voru orðin sátt í skólanum fór A svo í tungumálanámið og byrjaði svo í því námi sem hún upprunalega ætlaði í, í janúar 2003. A er 50% öryrki og þiggur greiðslur frá Tryggingastofnun en hefur ekki aðrar tekjur og hefur því skilað skattskýrslu á Íslandi frá því hún flutti. (Þar fyrir utan var A í vinnu fram í miðjan júní 2002 og hætti til að flytja.)

Nú A verður ólétt eins og gerist og gengur þó það væri hreint ekki planað, og óléttan fór ekki vel í hana. Hún er með ónýtar axlir og þessi aukavigt reyndi þar af leiðandi of mikið á til að hún gæti sinnt náminu eins og hún þurfti og var hún neydd til að fresta skólanum um stundarsakir. Það er ekki óalgengt með að öðru leyti fullfrískar konur að þurfa að fara fyrr í fæðingarorlof vegna veikinda tengdum meðgöngu og hvað þá ef svona krónískur sjúkdómur er fyrir hendi. Hún fæddi svo fjórðu dótturina þann 01.05.04 og sækir um fæðingarstyrk til Tryggingastofnunar en er synjað. Við vorum ekki sátt við það og er farið yfir málið aftur og er enn synjað. Tilvitnun í e-póst frá Tryggingastofnun: „Lögfræðingur okkar hefur yfirfarið gögn ykkar aftur og niðurstaðan er sú sama. Flutningur móður erlendis er ekki vegna náms og þar að auki er ekki næg framvinda”. „Þessi fullyrðing á einfaldlega ekki við rök að styðjast.“

Við erum ekki sátt við það að flytja til annars lands tímabundið og tapa þar með öllum réttindum á Íslandi, þar sem við erum íslenskir ríkisborgarar og búin að vera það í 34 ár áður en við flytjum og stendur ekki til að breyta því á nokkurn hátt. Einnig stendur til að flytja aftur til Íslands þegar við erum bæði búin að klára okkar nám. (F byrjar í Mastersnámi í H í haust).

Einnig finnst okkur óréttlátt að öryrki sem gjarnan vill vinna og hefur fyrir því að sækja sér menntun til að gera það kleift og að því loknu að geta hugsanlega staðið á eigin fótum, en tefst við það vegna barneigna þurfi að sæta slíkri meðhöndlun og nánast sögð ljúga. Tilvitnun aftur: „Flutningur móður erlendis er ekki vegna náms og þar að auki er ekki næg framvinda“. „Við eigum erfitt með að skilja þessa setningu öðruvísi“. Okkur hefur ekki verið bent á nein rök, lög eða reglugerðir sem styðja þess synjun. Gögn í málinu liggja hjá Tryggingastofnun og heimil ykkur til skoðunar eftir þörfum og tengiliður okkar þar hefur verið I. Ef þið hafið ekki aðgang að þeim eða óskið frekari gagna vinsamlegast hafið samband og fylgja hér upplýsingar til þess.“

 

Með bréfi, dags. 13. ágúst 2004, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 2. september 2004. Í greinargerðinni segir:

„Kærandi, sem samkvæmt þjóðskrá Hagstofu Ísland hefur verið með lögheimili í B-landi frá 25. júlí 2002, sótti með umsókn, dags. 2. mars 2004, um fæðingarstyrk námsmanna. Umsóknin varðar barn sem fætt er 1. maí 2004, en áætlaður fæðingardagur þess var 24. apríl 2004.

Kæranda var með bréfi, dags. 6. maí 2004, synjað um greiðslu fæðingarstyrks námsmanna á þeim grundvelli að hún uppfyllti ekki skilyrði fyrir slíkum greiðslum vegna búsetu sinnar í B-landi.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. ffl. eiga foreldrar í fullu námi rétt á fæðingarstyrk. Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. er það að jafnaði skilyrði fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi að foreldri eigi lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafi átt lögheimili hér síðustu 12 mánuði fyrir fæðingardag. Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 14. gr. áðurnefndrar reglugerðar nr. 909/2000, en þar kemur fram að fullt nám í skilningi ffl. teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almanna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Enn fremur að heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 12. gr. eða undanþáguákvæði 13. gr. reglugerðarinnar. Í lokamálslið 1. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar er síðan tekið fram að einstök námskeið teljist ekki til fulls náms. Í 2. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 915/2002, er kveðið á um að leggja skuli fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur.

Í hinu svonefnda undanþáguákvæði 13. gr. reglugerðarinnar segir í 1. mgr. að Tryggingastofnun ríkisins sé, þrátt fyrir lögheimilisskilyrði 12. gr., heimilt á grundvelli umsóknar að greiða fæðingarstyrk til foreldris sem hafi flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis, enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning.

Heimilt er að veita undanþágu frá skilyrðum um fullt nám þegar foreldri á eftir minna en sem nemur 75% af námi á síðustu önn í námi og ljóst er að viðkomandi er að ljúka ákveðinni prófgráðu, sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000, sbr. a-lið 2. gr. reglugerðar nr. 915/2002. Þá er heimilt að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn sem barn fæðist, sbr. 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 915/2002. Samkvæmt 4. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 er heimilt að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þrátt fyrir að skilyrðinu um samfellt nám í a.m.k. sex mánuði fyrir fæðingu barns sé ekki fullnægt hafi foreldri verið í samfelldu starfi í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að námið hófst. Samkvæmt 5. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 969/2001, er heimilt að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þegar foreldri hefur lokið a.m.k. einnar annar námi skv. 1. mgr. 14. gr. og hefur síðan verið samfellt á vinnumarkaði. Í 14. gr. a reglugerðar nr. 909/2000, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 915/2002, segir að heimilt sé að greiða móður fæðingarstyrk sem námsmanni þó að hún fullnægi ekki skilyrðum 2. mgr. 14. gr. um viðunandi námsárangur og/eða ástundun enda hafi hún ekki getað stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna. Skal hún sannanlega hafa verið skráð í nám og fengið greidda sjúkradagpeninga sem námsmaður eða verið á biðtíma eftir dagpeningum á þeim tíma.

Kærandi flutti, eins og áður er getið, lögheimili sitt til B-lands í júlí 2002. Kærandi sótti námskeið í tungumálinu í október til desember 2002 en hóf ekki fullt nám samkvæmt framangreindri skilgreiningu 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 fyrr en í janúar 2003. Í gögnum málsins er hvorki að finna umsóknir né önnur gögn því til staðfestingar að tilgangur lögheimilisflutnings kæranda í júlí 2002 hafi verið tímabundinn flutningur vegna þess náms sem kærandi hóf u.þ.b. ½ ári síðar eða í janúar 2003. Samkvæmt upplýsingum frá kæranda hóf maki kæranda störf í B-landi strax eftir flutning þeirra þangað. Af þessum sökum telur lífeyristryggingasvið ekki unnt að fallast á að uppfyllt séu skilyrði 13. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um undanþágu frá lögheimilisskilyrðinu og því hafi verið rétt að synja umsókn kæranda.

Í framlögðum gögnum frá D-skólanum segir annars vegar í staðfestingu frá 25. febrúar 2004 að kærandi hafi verið í 100% námi við skólann tímabilið 6. janúar til 5. desember 2003 og hins vegar í staðfestingu, dags. 19. apríl 2004, að nám það sem kæranda sé í sé 2½ árs nám eða 5 annir og hafi kærandi stundað sem samsvari ½ árs námi eða 1 önn. Af gögnum þessum verður því ekki ráðið hver námsframvinda kæranda var heldur einungis að hún hafi stundað nám sem samsvari einni önn á tímabilinu janúar til desember 2003. Þá liggur ekkert fyrir í gögnum málsins um hvort kærandi hafi verið skráð í nám og stundað nám á vorönn 2004. Lífeyristryggingasvið telur því að jafnframt hafi verið rétt að synja umsókn kæranda um fæðingarstyrk námsmanna á þeim grundvelli að framlögð gögn sýna ekki fram á að kærandi hafi verið í fullu námi skv. 1. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 1. og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000. Þá verður ekki séð að nokkur framangreindra heimilda til undanþága frá almenna skilyrðinu um fullt nám eigi við um kæranda.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 8. september 2004, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð meðal annars vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) eiga foreldrar í fullu námi rétt til fæðingarstyrks. Samkvæmt 7. mgr. 19. gr. ffl. er ráðherra heimilt að kveða í reglugerð nánar á um framkvæmd ákvæðisins. Í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er kveðið á um að fullt nám teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 12. gr. eða undanþáguákvæði 13. gr. reglugerðarinnar. Í lokamálslið 1. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar er tekið fram að einstök námskeið teljist ekki til fulls náms.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. ffl. eiga foreldrar utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi rétt til fæðingarstyrks. Í 2. málslið 2. mgr. 18. gr. segir að foreldri skuli að jafnaði eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir fæðingardag.

Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 909/2000 er réttur námsmanns til fæðingarstyrks bundinn því skilyrði að foreldri hafi átt lögheimili hér við fæðingu barns og síðustu 12 mánuðina þar á undan. Samkvæmt ákvæðinu gildir skilyrði um lögheimili hér við fæðingu barns einnig um rétt foreldris sem er utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi til fæðingarorlofs. Í 1. mgr. 13. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins sé, þrátt fyrir 12. gr., heimilt á grundvelli umsóknar að greiða fæðingarstyrk til foreldris sem hefur flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis, enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning.

Samkvæmt gögnum málsins flutti kærandi lögheimili sitt til B-lands 25. júlí 2002. Hún var á tungumálanámskeiði í október til desember 2002 en hóf ekki fullt nám í skilningi 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 fyrr en í janúar 2003. Í gögnum málsins liggur ekki fyrir staðfesting á því hvenær kærandi sótt um námsvist við D-skólann í B-landi. Er því ekki staðfest að tilgangur með flutningi lögheimilis kæranda til B-lands hafi verið nám hennar við framangreindan skóla. Hún uppfyllir því ekki skilyrði 13. gr. reglugerðarinnar um undanþágu frá lögheimilisskilyrði 12. gr. Þegar af þeirri ástæðu hefur kærandi hvorki öðlast rétt til fæðingarstyrks sem námsmaður skv. 19. gr. ffl. né sem foreldri utan vinnumarkaðar skv. 18. gr. ffl.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um synjun á greiðslu fæðingarstyrks staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum