Hoppa yfir valmynd
19. mars 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 39/2001

Þriðjudaginn, 19. mars 2002

  

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir, hdl., Jóhanna Jónasdóttir, læknir, og Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri.

Þann 12. október 2001 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 12. október 2001.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins varðandi útreikning greiðslna í fæðingarorlofi.

Með bréfi frá Tryggingastofnun ríkisins, dags. 13. júlí 2001, var kæranda tilkynnt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Útskrifaðist úr B-fræði frá D-háskóla í júní á síðasta ári. Þá hef ég störf við E og fékk því ekki full laun fyrir júnímánuð (sjá fylgiskjal 1). Frá miðjum júlí og fram í miðjan ágúst þurfti ég að taka mér launalaust leyfi vegna sumarleyfis í leikskóla sonar míns því ég hafði ekki áunnið mér réttindi til sumarorlofs. Því er launagreiðslan frá 1. sept. 2000 mun lægri en annars hefði verið. (sjá fylgiskjal 2). Í apríl 2001 misreiknaði launafulltrúi á launadeild E laun mín. Fékk ég mismuninn greiddan um miðjan maímánuð (sjá fylgiskjal 3). Ég tel að ofangreindar greiðslur lækki talsvert meðaltal launa minna og um leið greiðslur í fæðingarorlofinu. Sá ég strax að ef ég hefði ekki byrjað að vinna fyrr en um miðjan ágúst 2000, eftir sumarlokun í leikskóla sonar míns, væru meðaltekjur mína hærri. Ég þekki til reglna Tryggingastofnunar í sambandi við útreikninga greiðslna í fæðingarorlofum og spyr því hvort ekki sé hægt að taka inn í útreikninga launagreiðslur síðustu þriggja mánaða áður en ég fór í fæðingarorlof ef nauðsynlegt er að taka mið af launum tíu mánaða (sjá fylgiskjöl 4, 5 g 6).“

 

Með bréfi, dags. 15. október 2001, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 22. janúar 2002. Í greinargerðinni segir:

„A fer fram á endurskoðun á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði til sín á þeim grundvelli að greiðslur lækki verulega vegna þess að hún:

  1. hóf störf í júní árið 2000 og fékk því ekki full laun fyrir þann mánuð,
  2. þurfti að taka sér launalaust leyfi frá miðjum júlí og fram í miðjan ágúst vegna sumarleyfis í leikskóla sonar síns því hún hafði ekki áunnið sér réttindi til sumarorlofs og
  3. í apríl 2001 hafi launafulltrúi misreiknað laun hennar og hún hafi fengið mismuninn greiddan um miðjan maímánuð.

Til stuðnings kröfu sinni um endurskoðun á greiðslum framvísar A launaseðlum fyrir viðkomandi tímabil og einnig síðustu mánuðina fyrir fæðingu barns. Hún spyr hvort ekki sé hægt að taka inn í útreikninga launagreiðslur síðustu þriggja mánaða áður en hún fór í fæðingarorlof ef nauðsynlegt sé að taka mið af launum tíu mánaða.

Mánaðarlegar greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði nema 80% af meðaltali heildarlauna samkvæmt staðgreiðsluskrá skattyfirvalda á 12 mánaða samfelldu tímabili sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. 13. gr. og 3. mgr. 15. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000. Í greinargerð með frumvarpi til laganna kemur fram í athugasemdum með 13. gr. að með mánuðum er þarna átt við almanaksmánuði og að ef foreldri hefur verið skemur en 14 mánuði á vinnumarkaði en lengur en sex mánuði skuli miða við meðalheildarlaun þess yfir það tímabil sem foreldri hefur unnið að undanskildum tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

Launaseðlar þeir sem A framvísar bera með sér að hún hafi hafið störf á vinnustað sínum í júní 2000 og að um samfellt ráðningarsamband hafi verið að ræða frá þeim tíma og fram til þess að hún hóf töku fæðingarorlofsins í júlí 2001. Þar sem hún hafði þannig unnið í styttri tíma en 14 mánuði fyrir töku fæðingarorlofsins ber við útreikning á greiðslum til hennar að líta til þeirra almanaksmánaða sem liðu frá því hún hóf störf og til og með apríl 2001 en maí og júní 2001 reiknast ekki með.

Aftur á móti ef borin eru saman laun hennar samkvæmt launaseðlum og staðgreiðsluskrá skattyfirvalda kemur í ljós að launin eru í hverjum mánuði gefin upp til skatts fyrir mánuðinn á eftir. Þetta hefur í för með sér að laun hennar í júní 2000 koma fram í staðgreiðsluskrá sem laun fyrir júlímánuð, júlílaunin sem laun fyrir ágústmánuð, og svo koll af kolli sem meðal annars hefur í för með sér að laun bæði fyrir nóvember og desember eru gefin upp sem laun í desember og að engin laun eru gefin upp í janúar. Ástæðan fyrir þessu er líklega sú að hún fær laun sín greidd eftir á en launakerfi vinnuveitanda hennar miðast við að almenna reglan sé sú að starfsmenn fái laun sín greidd fyrirfram.

Þetta hefur haft þau áhrif á greiðslur til hennar að laun fyrir aprílmánuð 2001 (sem er síðasti mánuðurinn sem reikna á með vegna þess að hún hóf töku fæðingarorlofsins í júlí) hafa ekki reiknast með í útreikninginn þar sem þau koma í staðgreiðsluskrá skattyfirvalda fram sem laun í maímánuði 2000, þ.e. utan útreiknitímabilsins.

Í samræmi við síðasta málslið 3. mgr. 15. gr. þar sem foreldri sem telur upplýsingar úr viðkomandi skrá skattyfirvalda ekki réttar er heimilað að leggja fram gögn því til staðfestingar telur lífeyristryggingasvið að taka beri tillit til þessa og endurreikna greiðslur til hennar. Laun sem koma fram í staðgreiðsluskrá skattyfirvalda í maímánuði 2001 en eru samkvæmt launaseðlum greidd fyrir aprílmánuð bætast þá við útreikning greiðslna til hennar, þ.á.m. sá hluti launa hennar sem launafulltrúi hafði misreiknað og leiðréttur var 11. maí. Leiðrétting þessi hefur nú átt sér stað.

Lífeyristryggingasvið telur að ekki sé heimilt að taka tillit til þess að A fékk ekki full laun fyrir fyrstu þrjá mánuði sína í starfi en að taka beri tillit til þess misræmis á launum hennar sem stafar af því að launin koma í staðgreiðsluskrá skattyfirvalda fram sem laun fyrir mánuðinn á eftir.“

   

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 24. janúar 2002, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

Engar athugasemdir bárust.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins varðandi útreikning stofnunarinnar á greiðslum til kæranda í fæðingarorlofi.

Fram kemur í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins að sú launaleiðrétting sem átti sér stað hjá atvinnuveitanda kæranda eftir að viðmiðunartímabilinu lauk, hafi jafnframt verið leiðrétt hjá stofnuninni og tekin með við útreikning greiðslna. Með hliðsjón af því þykir úrskurðarnefndinni ekki tilefni til þess að taka á þeim hluta málsins.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) skal mánaðarleg greiðsla úr Fæðingarorlofssjóði til starfsmanns í fæðingaorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við 12 mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Kærandi ól barn í júlí 2001, með hliðsjón af því verður viðmiðunartímabil við útreikning greiðslna í fæðingarorlofi frá maí 2000 til og með apríl 2001. Kærandi var í námi og lauk því í júní 2000 og hóf síðan störf í sama mánuði. Hún starfar nær samfellt fram að töku fæðingarorlofs, en þó ekki alveg þar sem hún tók launalaust leyfi frá miðjum júlí 2000 fram í miðjan ágúst 2000.

Í framangreindum lögum er skýrt tekið fram að við útreikning á greiðslum til þeirra foreldra sem uppfylla skilyrði þess að fá greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í fæðingarorlofi skuli miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

Í athugasemdum með 13. gr. frumvarps til laga um fæðingar- og foreldraorlof er tekið fram að miða skuli við almanaksmánuði við útreikning greiðslna í fæðingarorlofi. Þar er einnig kveðið á um að viðmiðunartímabilið geti verið styttra en tólf mánuðir en þó aldrei færri en sex mánuðir fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

Kærandi hóf störf í júní 2000, hluta mánaðarins var hún í námi, um var að ræða 86% starf hjá E. Kærandi var í starfi á innlendum vinnumarkaði frá 16. júní og fram að upphafsdegi fæðingarorlofs. Hún tók launalaust leyfi frá miðjum júlí og fram í miðjan ágúst.

Með vísan til þess sem að framan greinir var kærandi í starfi frá 16. júní 2000 til og með apríl 2001 á hinu tólf mánaða viðmiðunartímabili, en maí og júní 2001 teljast ekki til þess tímabils. Skal því útreikningur á meðaltali heildarlauna vera í réttu hlutfalli við raunverulegan starfstíma kæranda á innlendum vinnumarkaði, það er tímabilið 16. júní til og með 30. apríl 2001. Launalaust leyfi á því tímabili verður að teljast með við útreikning greiðslna þar sem ráðningarsamband er til staðar, en eingöngu um að ræða tímabundna breytingu á starfssamningi.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um hvaða viðmiðunartímabil skuli leggja til grundvallar við útreikning greiðslna í fæðingarorlofi A úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest. Endurreikna ber meðaltal heildarlauna á grundvelli starfstíma kæranda tímabilið 16. júní til 30. apríl 2001.

  

 

Guðný Björnsdóttir, hdl.

Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri

Jóhanna Jónasdóttir, læknir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum