Hoppa yfir valmynd
15. apríl 2004 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 86/2003

Fimmtudaginn, 15. apríl 2004

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 16. desember 2003 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 14. desember 2003. 

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi 5. desember 2003 um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

  

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Í janúar sótti ég um atvinnuleysisbætur og fór á tilheyrandi námskeið og lét stimpla mig í nokkur skipti enn svo framhaldi af því ákvað ég að fara í atvinnuleit og var með vinnu í sigtinu og ákvað að láta ekki stimpla mig neitt frekar og fór að athuga með leikskólapláss fyrir yngri strákinn og það var ekkert laust pláss fyrir hann á leikskóla þar sem hann var rétt rúmlega 1 árs og hafði ekki ráð á að borga B kr. í dagmömmu og D kr. í leikskóla fyrir eldri strákinn. Það hefði ekki borgað sig fyrir mig svo í mars verð ég ólétt aftur og ég fór ekki á atvinnuleysisbætur því ég vissi ekki að ég hefði rétt á þeim þar sem ég væri ólétt og slæm af grindarlosi þar sem ég var ekki búin að jafna mig frá meðgöngunni þar áður þannig að ég hafði rétt á fullum atvinnuleysisbótum enn nýti ekki réttinn og ef ég hefði nýtt mér rétt minn til atvinnuleysisbóta fengi ég fullt fæðingarorlof.“

  

Með bréfi, dags. 6. janúar 2004, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 23. janúar 2004. Í greinargerðinni segir:

„Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000 (ffl.) öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

Með samfelldu starfi er, skv. b-lið 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 m.a. átt við þann tíma sem foreldri fær greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, er á biðtíma eftir slíkum greiðslum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri skráð sig án atvinnu samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, með síðari breytingum. Samkvæmt ákvæðinu skal hlutaðeigandi úthlutunarnefnd meta hvort foreldri hefði átt rétt á greiðslum úr Atvinnuleysistryggingasjóði ef það hefði skráð sig á viðkomandi tímabili og fer um þann rétt samkvæmt skilyrðum laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt c-lið 4. gr. reglugerðarinnar telst sá tími einnig til samfellds starfs sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga eða er á biðtíma eftir dagpeningum, enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum.

Í 4. mgr. 17. gr. ffl. er fjallað um rétt til lengingar greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði vegna heilsufars á meðgöngu. Skilyrði lengingar er m.a. að móður hafi verið nauðsynlegt af heilsufarsástæðum að leggja niður launuð störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag. Eðli málsins samkvæmt er það jafnframt skilyrði lengingar að skilyrði til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði séu á annað borð uppfyllt.

Barn kæranda er fætt 30. nóvember 2003. Til að uppfylla skilyrði 1. mgr. 13. gr. ffl. hefði hún því þurft að vera í starfi eða ígildi starfs á tímabilinu frá 30. maí 2003 fram að fæðingardegi eða frá 8. maí, hefði hún kosið að hefja fæðingarorlof mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barnsins (8. desember 2003). Hefðu skilyrði til lengingar greiðslna verið fyrir hendi hefðu þær lengst getað orðið frá 8. október 2003 og viðmiðunartímabil samfellds starfs færst til því til samræmis.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá RSK var kærandi ekki með launatekjur á umræddu tímabili. Hún hefur framvísað úrskurði úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta þar sem fram kemur að samkvæmt vinnuvottorði hefði hún átt rétt til 100% atvinnuleysisbóta frá 23. desember 2002 ef hún hefði sótt um það og uppfyllt á sama tíma öll önnur skilyrði bótaréttar. Ekki virðist lagt sjálfstætt mat á það í úrskurðinum hvort svo sé. 

Í 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 12/1997 segir: „Launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar, sem verða atvinnulausir, eiga rétt á bótum úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt því sem fyrir er mælt í lögum þessum, enda séu þeir í atvinnuleit og fullfærir til vinnu.“ Samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 5. gr. laganna eiga þeir ekki rétt á atvinnuleysisbótum sem njóta greiðslu sjúkra- eða slysadagpeninga frá Tryggingastofnun ríkisins.

Í skrám Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærandi fékk greidda hálfa sjúkradagpeninga frá stofnuninni frá 12. september til 12. nóvember 2003. Þær greiðslur eru m.a. greiddar þeim sem þurfa að leggja alfarið niður vinnu við eigið heimili af heilsufarsástæðum en leggja ekki niður launað starf og uppfylla því ekki skilyrði til greiðslna fullra sjúkradagpeninga. Sjúkradagpeningar greiðast frá og með 15. veikindadegi verði viðkomandi óvinnufær í a.m.k. 21 dag. Í greinargerð kæranda með kæru hennar segist hún ekki hafa sótt um atvinnuleysisbætur þar sem hún hafi verið ófrísk og slæm af grindarlosi og ekki talið sig eiga rétt á þeim. Á læknisvottorði með umsókn um sjúkradagpeninga kemur fram að kærandi hafi verið óvinnufær með öllu frá maímánuði 2003. Ekki er ljóst hvort úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta var kunnugt um heilsufarsaðstæður kæranda þegar úrskurður nefndarinnar um bótarétt hennar var kveðinn upp.

Samkvæmt ofangreindu uppfyllti kærandi skilyrði til og fékk greidda sjúkradagpeninga utan vinnumarkaðar áður en fyrsti mögulegi upphafsdagur fæðingarorlofs/lengingar greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði rann upp. Verður að líta svo á að mögulegur réttur hennar til greiðslna atvinnuleysisbóta hafi fallið niður í maí þegar óvinnufærni hennar var staðfest eða í síðasta lagi 29. ágúst, þegar biðtími eftir sjúkradagpeningum hófst. Þar sem greiðslur sjúkradagpeninga sem ætlaðar eru fólki utan vinnumarkaðar geta ekki talist til samfellds starfs í skilningi 4. gr. rgl. 909/2000 telur lífeyristryggingasvið að hvorki séu uppfyllt skilyrði til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði né til lengingar greiðslna úr sjóðnum, hvort sem miðað er við maí eða ágúst sem síðasta mögulega greiðslumánuð atvinnuleysisbóta.“

  

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 16. febrúar 2004, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. 

  

Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi mótt. 20. febrúar 2004, þar segir m.a.:

„Þann dag sem ég fór inn á Tryggingastofnun og sótti um fæðingarstyrk, var mér tjáð af starfsstúlkunni að ég gæti sótt um fullt fæðingarorlof, ef ég gæti framvísað staðfestingu frá stéttarfélaginu um að ég hafi haft rétt á fullum atvinnuleysisbótum, en ekki nýtt mér þann rétt vegna þess að ég var með rétt rúmlega ársgamalt barn heima og var ekki búin að fá úthlutun á leikskólaplássi fyrir barnið.

Stuttu seinna verð ég þunguð og verð þar af leiðandi mjög slæm af grindarlosi þar sem að ég hafði ekki verið búin að jafna mig frá fyrri meðgöngu og byrja í sjúkraþjálfun.

Ég hef alltaf talið að þeir sem eru á atvinnuleysisbótum yrðu að vera fullfrískir og í stakk búnir á að fara út á atvinnumarkaðinn ef atvinna myndi bjóðast. Þar sem að ég var bæði veik á meðgöngu og gat ekki farið út á vinnumarkað vegna veikinda og unnið til þess að fá rétt til fæðingarorlofs og með lítið barn heima þar að auki gekk ég með veikt barn þá taldi ég mig ekki geta nýtt mér bótarétt minn og ekki unnið á minni meðgöngu.“

   

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Í 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 sbr. breyting nr. 186/2003 er kveðið á um að til samfellds starfs teljist enn fremur:

„a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningasamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, er á biðtíma eftir slíkum greiðslum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, með síðari breytingum. Hið sama gildir eigi foreldri rétt á greiðslum úr Tryggingasjóði sjálfstætt starfandi einstaklinga samkvæmt lögum um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga nr. 46/1997, með síðari breytingum. Hlutaðeigandi úthlutunarnefnd metur hvort foreldri hefði átt rétt á greiðslum úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, með síðari breytingum, hefði foreldri skráð sig án atvinnu á þeim tíma sem um er að ræða, sbr. b-lið 2. mgr. Um rétt til greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði fer samkvæmt skilyrðum laga um atvinnuleysis­tryggingar. Hið sama gildir eigi foreldri rétt á greiðslum úr Tryggingasjóði sjálfstætt starfandi einstaklinga samkvæmt lögum um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga nr. 46/1997, með síðari breytingum,

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga eða er á biðtíma eftir dagpeningum, enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa.“

Kærandi ól barn 30. nóvember 2003 en áætlaður fæðingardagur hafði verið 8. nóvember 2003. Sex mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu er því frá 30. maí 2003 fram að fæðingardegi barns eða frá 8. apríl 2003 hefði kærandi valið að taka fæðingarorlof mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag. 

Kærandi var ekki á vinnumarkaði á viðmiðunartímabilinu og fékk ekki greiddar atvinnuleysisbætur. Með umsókn dags. 12. nóvember 2003 sótti kærandi um sjúkradagpeninga hjá Tryggingastofnun ríkisins. Samkvæmt læknisvottorði dagsettu sama dag var kærandi talin óvinnufær frá maí 2003. Fékk kærandi greidda hálfa sjúkradagpeninga frá 12. september 2003 til 12. nóvember 2003.

Í gögnum málsins er úrskurður úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta dags. 12. nóvember 2003. Þar segir að samkvæmt vinnuvottorði E og F ehf. dags. 3. nóvember 2003 hefði kærandi átt rétt á 100% atvinnuleysisbótum frá 23. desember 2002 hefði hún sótt um það og uppfyllt á sama tíma öll önnur almenn skilyrði bótaréttar. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 12/1997 um atvinnuleysistryggingar eiga launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar, sem verða atvinnulausir, rétt á bótum úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt því sem fyrir er mælt í lögunum, enda séu þeir í atvinnuleit og fullfærir til vinnu. Með hliðsjón af því sem kemur fram hjá kæranda og í umsókn um sjúkradagpeninga og læknisvottorði með umsókn er ljóst að kærandi uppfyllir ekki þau skilyrði réttar til atvinnuleysisbóta um að hafa verið í atvinnuleit og fullfær til vinnu. Samkvæmt því hefði hún eigi átt rétt til atvinnuleysisbóta. Aðrir stafliðir 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 koma ekki heldur til álita.

Með hliðsjón af framangreindu er ekki uppfyllt skilyrði réttar til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Kærandi uppfyllir ekki skilyrði um sex mánaða samfellt starf fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. 1. mgr. 13. gr. ffl. og 1. og 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000. Þar af leiðir að engin heimild er til þess að framlengja fæðingarorlof móður vegna veikinda hennar á meðgöngu, þar sem það kemur eingöngu til álita þegar viðkomandi á rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Samkvæmt framangreindu hefur kærandi hvorki áunnið sér rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði né rétt til framlengingar fæðingarorlofs og er því ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins staðfest. 

   

ÚRSKURÐARORÐ:

 

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um framlengingu fæðingarorlofs og um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

  

  

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum